Biðjum með orðum Helga Hálfdánarsonar: Heilagi Guð á himni og jörð Hljómi þér lof og þakkar gjörð! Blessað sé vald og viska þín! Vegsemd þér kveði tunga mín.
Skaparans dýrð og dulin ráð Dvelja minn hug í lengd og bráð Máttarverk Drottins dásamleg Daglega skoða og undrast ég.
Með glöðum söng og hörpuhljóm hylli ég líf og skapadóm Fagnandi hjörtu og hvelin víð Heiðri þig Drottinn ár og síð! Amen. Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Gleðilega páska!
Þar sem jökullinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þess vegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu. (Heimsljós, fegurð heimsins, 1. kafli)
Fáum hefur tekist eins vel að fanga í orð undur íslenskrar náttúru eins og nóbelskáldinu okkar, Halldóri Laxness. Litlir kaflar og setningar hér og þar í verkum hans eru lofgjörð til landsins og lýsa á stórkostlegan hátt fegurð og mikilfengleik sæva og sanda. En Halldóri tekst ekki einungis að tjá lotningu yfir náttúrunni og landinu. Hann skapar með orðum sínum dásamlega fallega tilfinningu fyrir einhverju mikilfenglegu og æðra, hann hefur hið jarðneska upp í æðra veldi, hann kann að lýsa því þegar hið himneska mætir hinu jarðneska.
Ég vildi að ég gæti gert hið sama. Því að í dag er einmitt þannig dagur. Í dag mætast himinn og jörð.
Þú þekkir líka þannig daga, kæri vinur eða vinkona. Það er nefnilega einmitt snilldin við verk Halldórs Laxness, hann er að lýsa því sem við þekkjum öll þó að okkur takist ekki að orða það eins dásamlega. Við höfum nefnilega öll orðið vitni að því þegar himinn og jörð mætast.
Við sjáum það þegar barn fæðist. Þegar ljósið kviknar í augum þess og það horfir á heiminn í fyrsta skipti. Og himinn og jörð mætast þegar við lítum í augu barnsins og sjáum dýptina og viskuna sem aðeins er að finna hjá einhverjum sem hefur verið í návist við hið himneska.
Og í augnaráði elskenda. Þar mætast himinn og jörð. Í augum sem tjá ást og traust, snertingu sem segir: Ég er þinn, þú ert mín.
Og þegar við virðum fyrir okkur árstíðaskiptin, horfum á gróðurinn ryðja sér leið upp úr moldinni, úr djúpi myrkurs og dauða, upp í ljósið og birtuna.
Þrjár konur voru á leiðinni að gröf. Þær voru ekki í himneskum hugleiðingum. Hugur þeirra var myrkur, fullur af sorg. Þær höfðu verið á stað þar sem heimur og hel mætast. Á Golgata hafði hið illa sigrað. Hatur, ofbeldi, illska, öfund, græðgi, allt það sem vinnur gegn hinu góða í heiminum hafði náð yfirhöndinni, og hildarleiknum lauk með því að þungum steini var velt fyrir gröf. Og Jesús var dáinn. Jesús sem hafði verið þeim svo kær, svo dýrmætur. Jesús sem hafði kennt þeim svo margt um Guð. Og svo margt um manneskjuna. Jesús sem hafði svo oft látið himinn og jörð mætast. Ekki bara í kraftaverkum og ræðum sínum. heldur líka í því hvernig hann umgekkst fólk, í viðmóti sínu, í kærleika sínum.
Og nú voru þær á leiðinni að gröf hans. Erindi þeirra var jarðneskt, hagnýtt. Að smyrja líkið og ganga frá því í gröfinni. Þetta var kærleiksverk, eins og það er enn í dag - að búa látna til greftrunar. Þessar konur gerðu sér engar vonir. Þær bjuggust ekki við neinu sérstöku. Þetta var örugglega ekki í fyrsta skipti sem þær þurftu að vinna þetta kærleiksverk. Og þær voru uppteknar af jarðnesku úrlausnarefni: hver myndi velta stóra steininum frá grafarmunnanum?
En ekkert er eins og þær búast við. Steinninn er ekki fyrir gröfinni og inni í henni mæta þær ungum manni. Engli. Sem segir þeim að Jesús sé upprisinn.
Það segir í Biblíunni að konurnar skelfdust. Reyndar er það mjög algengt þegar fólk hittir engla í Biblíunni. Og ég hugsa að ég myndi líka verða hrædd ef ég mætti engli. Og þessar konur urðu svo hræddar að þær flúðu. Það getur verið yfirþyrmandi þegar himinn og jörð mætast.
Því að í upprisu Jesú mætast einmitt himinn og jörð á einstakan hátt. Í Jesú sjálfum mætast himinn og jörð - Guð og maður. Og upprisan, þetta ótrúlega kraftaverk, þessi atburður sem er okkur svo óskiljanlegur, hún er einmitt forsenda þess að við skynjum undrin allt í kringum okkur. Því að einmitt vegna upprisunnar eru himinn og jörð sífellt að mætast.
Í dag eru atburðir föstudagsins langa að baki og við fögnum. Við vitum það að lífið sigrar og dauðinn er brotinn á bak aftur. Samt upplifum við föstudaginn langa svo oft í lífinu. Hann er allt í kringum okkur í fréttaflutningi af hörmungum, stríði, fátækt, neyð, illsku og dauða. Því miður varð upprisa Jesú Krists ekki til að útrýma hinu illa úr heiminum. Enn þann dag í dag mætast heimur og hel um allan heim, steinninn virðist enn vera fyrir grafarmunnanum og halda aftur af öllu góðu og uppbyggilegu. Illskan er raunveruleg og mannskepnan er hrokafull og stundum ill. Og við þurfum að horfast í augu við það og tala um það. Og við eigum að berjast gegn illskunni, í hvaða mynd sem hún birtist. Hvort sem það er í stríðsrekstri þjóða, eða illgirni og óumburðarlyndi nágranna, eða í okkar eigin smásálarlega hjarta, við eigum að berjast gegn hinu illa. Og einmitt vegna upprisunnar berjumst við. því að sigurinn er unninn, Jesús sigraði dauðann. Himinninn sigraði Helju, og áhrif hins illa sem við sjáum í heiminum eru í rauninni bara eins og gárur á yfirborði vatns þegar steini hefur verið kastað og sekkur til botns. Öldurnar geta vissulega valdið usla, en steininum hefur verið kastað, hann er sokkinn.
Og kirkjan fagnar í dag. Allt helgihald kirkjunnar er stefnumót hins jarðneska og hins himneska. Skírnin, þar sem náðin kemur frá Guði í hinu hreinsandi vatni. Hin sameiginlega máltíð, altarisgangan, þar sem við eigum saman samfélag um brauð og vín og þiggjum gjöf lífsins. Hin sameiginlega bæn okkar, þar sem við biðjum fyrir friði og fyrir hvert öðru. Samfélagið sem við eigum hvert með öðru í kærleika. Hér mætast himinn og jörð. Í dag öðrum fremur á upprisudegi Drottins. En fyrst og fremst mætast himinn og jörð í hjarta þínu, kæri vinur eða vinkona. Því Kristur dó fyrir þig og reis upp frá dauðum, til að þú mættir mæta hinu himneska. Til þess að þú mættir upplifa það að steininum þunga sem hvílir á þínu hjarta, er velt frá og þú getur gengið upprétt eða uppréttur í átt að dýrðarbirtu upprisunnar.
Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda, Amen.