Frelsi, trú og kærleikur

Frelsi, trú og kærleikur

Við gerð þessarar ræðu var ég með í huga Köllun heilags Matteusar eftir Caravaggiou, máluð 1599-1600, olía á striga, 322 x 340 cm. Contarelli kapellunni, San Luigi dei Francesi, Róm (<a href="http://www.wga.hu/html/c/caravagg/04/23conta.html">Heimild: WebGAllery</a>) Sjá myndskreytta útgáfu á vef mínum <a href="http://gummigumms.wordpress.com/2013/09/21/frelsi-tru-og-kaerleikur/">hér</a>.

Frelsi er stórt og mikið hugtak. Trú og traust er grundvöllur lífsins. Kærleikur lætur þetta tvennt blómstra og vaxa.

Börnin gengu út undir barnasálminum: “Fús ég Jesú fylgi þér”. Ég mátti til að hafa helgigöngu þar sem við fylgjum ljósinu eilífa. Helgigöngur í kirkju eru ekki skrúðgöngur þar sem maður segir: Sjáið mig, er ég ekki flottur? Áherslan er á eftirfylgdina. Við fylgjum Kristi sem gengur á undan okkur. Okkur er veittur sá heiður að slást í för með honum, sjáið hvað ég er flottur með Jesú, heitir það þá. Til að undirstrika þetta er krossinn borinn fremstur og gjarnan ljós einnig sem tákn um Jesú til að undirstrika það að við göngum í ljósi hans.

Versið sem ég vil dvelja við úr guðspjall dagsins hefur að geyma heila ævisögu:

“Og er hann gekk þar sá hann Leví Alfeusson sitja hjá tollbúðinni og Jesús segir við hann: „Fylg þú mér!“ Og hann stóð upp og fylgdi honum.” (Mark. 2.14).

Þar eru þessar stuttu setningar sem segja frá samkvæmt gamalli hefð köllun höfundar Matteusarguðspjalls. Ég ætla að lesa þær aftur eins og Matteus segir frá því að þar segir hann frá eigin köllun:

“Þá er hann (Jesús) gekk þaðan sá hann mann sitja hjá tollbúðinni, Matteus að nafni, og hann segir við hann: ‘Fylg þú mér!’ Og hann stóð upp og fylgdi honum.” (Matt. 9.9)

Að standa upp á fylgja honum. Börnin stóðu upp og fylgdu ljósinu eilífa. Við stóðum upp og játuðum trúna. Þannig er guðspjallið, það kallar okkur til viðbragða. Það er ekki dauður stafkrókur á bók heldur líf, líf safnaðarins og daglegt líf okkar ef vel á að vera.

(Við gerð þessarar ræðu var ég með í huga Köllun heilags Matteusar eftir Caravaggio, máluð 1599-1600, olía á striga, 322 x 340 cm. Contarelli kapellunni, San Luigi dei Francesi, Róm (Heimild: WebGAllery) Sjá myndskreytta útgáfu á vef mínum hér.)

Matteus var hann nefndur en hét Leví Alfeusson, einn af lærisveinum Jesú, höfundur guðspjallsins að talið var á fyrstu öldum, tollheimtumaðurinn, sem sat þennan dag við tollbúðina, þegar Jesús gekk þar hjá. Það að hann brást við kalli Jesú gjörbreytti lífi hans, setti honum nýja stefnu, hann var leiddur áfram, lifði atburði með Meistara sínum, sem við skulum hugleiða.

1. Frelsi

Eitt af því sem hann reyndi var frelsi. Það kemur í framhaldi af köllun hans. Jesús tók upp á þeim óskunda að dvelja í húsi hans og segir hann svo frá að er Jesús “sat að borði í húsi hans að margir tollheimtumenn og bersyndugir komu og settust þar með honum og lærisveinum hans”.

Já, ég sagði óskunda, þetta var ekki samkvæmt því sem kennt var í þá daga að borða með hverjum sem var. Farísearnir kenndu ákveðnar samskiptareglur m.a. varðandi borðhald. Okkur var líklega ekki boðið í veisluna í New York eins og forsetanum fyrir nokkrum árum og ég geri ekki ráð fyrir að við eigum kost á því að borga margar milljónir til að fá sæti í slíkum veislum. Svo að það er svo sem ennþá til siðs ýmislegt varðandi borðhald. Ég er með lítinn tveggja manna sófa á skrifstofunni minni og það er afar sjaldgæft að tveir sitji í honum nema að það sé mjög ástfangið par. En samskiptareglur Faríseanna gengu út á það að óhreinka sig ekki með samskiptum við fólk sem var sekt um óæskilegt lífeyrni eins og of náin tengsl við rómverska yfirvaldið eða lauslæti. Þess vegna spurðu þeir lærisveina Jesú: “Hvers vegna etur meistari ykkar með tollheimtumönnum og bersyndugum?”

Var hann að leggja blessun sína yfir samskipti sem var þyrnir í augum Faríseanna? Myndum við standa með Jesú í svona veislu ef við værum gagnrýnd fyrir það af helstu fræðingum samtímans? En afstaða Jesú verður ljós af svari hans og atferli. Með því að þiggja boðið sýndi hann Matteusi virðingu, það var frelsandi fyrir hann, að Jesús gerði ekki greinarmun á hinu ytra, stöðu manna og stétt, né heldur hafnaði hann þeim sem orðið hafði á, heldur settist í hóp þeirra miðjan. En hann viðurkennir ekki með því það sem var rangt heldur með þessu tókst hann á við rangindin, rétti úr hinum niðurbeygða, gaf lífinu nýjar forsendur, svo að lækning varð möguleg.

Hann sagði við þetta tækifæri: “Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru”. Svo leiðbeinir hann Faríseunum sem töldu sig vera til fyrirmyndar: “Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara”. Þetta er frekar pínleg staða ef maður er Farísei, kennari í Guðs orði, eins og til dæmis fyrir mig, sem er prédikari og prestur. Af orðum Jesú að dæmi er sérstaða mín engin. Ef ég geri einhverjum rangt til og niðurlægi einhvern þá er ég sekur gagnvart samskiptareglum Guðs vegna þess að Guð vill miskunnsemi í samskiptum okkar.

Eins og þið heyrið þá er mikið í þessum textum guðspjallsins.

2. Trú

Það eru þessi orð Jesú og frásagnir af honum sem vekja trú á Guð, traust til hans. Og það er einstæð, algjörlega óvanaleg hugsun um Guð, sem vaknar við lestur á þessum orðum og íhugun. Hún er svo öðru vísi að ég verð að álykta sem svo að hún hlýtur að eiga uppruna sinn í Guði.

Það eru til ótal margar skilgreiningar á frelsinu en í ljósi af lífi Jesú fær þetta orð nýjar víddir. Ég held að Matteus hafi uppgötvað það þennan dag sem Jesús dvaldi í húsi hans og hann hafi síðan í guðspjalli sínu verið að útskýra það fyrir Gyðingum, Faríseum og fræðimönnum, en líka fyrir þeim sem slóust í för með Jesú.

Grundvallaratriðið er þetta að frelsið á maður í Guði, ekki einhverjum guði eða hugmyndum, heldur í Guði Abrahams, Ísaks og Jakob, Guði Jesú eins og hann birtir okkur hann.

Við getum sagt að frelsið er eins og kvikasilfur. Maður ætlar að grípa það og þá er það horfið úr greipum manns. Frelsið er eins og Guð, óhöndlanlegt, aldrei í hendi. Það er því broslegt þegar heilu þjóðirnar og menningarheimarnir ætla sig eiga frelsið.

Frelsið getum maður ekki tekið sér heldur er það manni gefið. Frelsið getur þú átt innra með þér jafnvel þegar þú ert í fjötrum. Og á hinn veginn getur það verið. Þú getur verið í fjötrum innra með þér þó að það geti litið út fyrir að þú njótir frelsis í aðstæðum þínum.

Hvað er frelsi? Það eru til ótal skýringar eins og ég sagði áðan. Augljósasta skýringin er sú að frjáls er sá sem geta gert það sem hann vill! Nú, þá er það Guð einn sem er frjáls, hann einn getur gert það sem hann vill eða það er eiginleiki sem við ætlum Guði. En ef við sleppum Guði úr hugsun okkar þá er hugmyndin hin sama en verður draumkent ævintýraástand, veruleiki, sem við höfum hugmyndir um handan við þann sem við lifum. Og ef við gerumst bara skynsöm þá er frelsið mest þar sem menn lifa sem frjálsast, geti veitt sér það helsta, og svalað flestum löngunum sínum.

Frelsið sem Nýja testamentið talar um er ítrasta frelsið og bundið við hugsunina um Guð. Ég er ekki að tala um frelsi að velja milli kosta, ekki um frelsi hugsjóna og hugsæis, ekki frelsi handan þessa veruleika, heldur frelsið sem við eigum í Kristi, eins og Páll postuli segir í pistli dagsins: “Til frelsis frelsaði Kristur ykkur, látið ekki aftur leggja á ykkur ánauðarok.” (Gal 5.1). Hér er sagt við þig: Þú ert frjáls í Kristi.

Það er ljóst af þessum orðum að frelsið er okkur gefið enda höfum við talað um að það verður ekki tekið eða hrifsað til sín ekki frekar en það að hægt sé að heimta kærleika. Hvernig gerist þetta að Kristur frelsar? Hann tekur á sig ófrelsi okkar og gefur frelsi sitt. Við sjáum það í frásögunni af því þegar hann var í húsi Matteusar. Eftir hugsun Faríseanna óhreinkaðist Jesú með því að sitja til borðs með þessu liði. En eftir sinni hugsun var honum frjálst að gera það og með því gaf hann tollheimtumönnunum og bersyndugum hlut í frelsi sínu. Þau voru ekki frjáls í sjálfum sér, leið vafalaust illa yfir orðróminum sem gekk um þau, gagnrýninni, hatrinu og vanvirðingunni. En þennan daga fundu þau til sjálfsvirðingar vegna þess að Guðs sonur settist til borðs með þeim og varði þau gagnvart gagnrýnisröddunum.

Eins og þessi hópur og allir aðrir eigum við frelsið í trúnni á Krist. Þegar við sýnum honum þá virðingu að láta það sem hann sagði og gerði hefur þýðingu fyrir okkur. Þegar við segjum að það sem hann gerði var fyrir mig. Við sýnum honum þá viðurkenningu sem gefur okkur sjálfsvirðinguna aftur að hann er fullkomlega frjáls að gera það sem hann gerði, rétt til að segja það sem hann sagði, að hann er frelsarinn okkar. Það eru ekki merkingarlaus orð heldur orðið sem gefur okkur trú og traust.

3. Kærleikur

Marteinn Lúther, siðbótarmaðurinn mikli, bjó sér til tákn til að túlka trú sína. Í því miðju var rautt hjarta með svörtum krossi. Það er í hjarta mínu sem ég á frelsið sem Kristur gefur mér. Þetta er margslúngið og flókið tákn. Sannleikur þess er einfaldur að í Kristi á ég allt með honum. Þannig verð ég rétt stilltur, í sambandi við Guð minn. Samskipti mín við Guð breyta stöðu minni og samskiptum mínum við samferðafólk mitt.

(Hér mé skoða Lúther-rósinn, fangamark Lúthers, sem vísar í grundvallaratriði trúarinnar. Heimild: Um frelsi kristins manns, í þýðingu Magnúsar Runólfssonar.)

Þá komum við að næsta þætti í merki Lúthers þar er hvít rós sem sprettur umhverfis hjartað. Það er ávöxtur trúarinnar, kærleikurinn. Samskiptin sem Guð kennir okkur er þetta eina orð kærleikur eða eins og Jesús segir í guðspjallinu: Miskunnsemi vil ég! Höfum það í huga þegar við förum héðan, göngum út úr kirkjunni með Kristi.

Dýrð sér Guði, föður og syni og heilögum anda.