Lúkasarguðspjall er ríkt af dæmisögum. Í guðspjallinu eru þrjár sögur, sem eiga talsvert sameiginlegt. Það eru sögurnar um konuna sem týnir drökmunni þ.e. silfurpeningi, þá sagan af týnda syninum og svo sagan um týnda sauðinn, sem er guðspjall dagsins. Þessar þrjár sögur hafa allar sama inntakið þ.e.a.s. týna, finna og gleðjast yfir fundinum.
Konan týnir drökmunni, leitar vandlega og þegar hún finnur hana að þá kallar hún saman grannkonur sínar og biður þær um að samgleðjast sér, týndi sonurinn yfirgaf heimili sitt, týndi sér í heimsins gæðum, snéri aftur og var fagnað með mikilli veislu og þá er það hirðirinn, sem týnir einum sauð af 100, leitar hans, finnur hann og biður, eins og konan með drökmurnar, vini sína um að samgleðjast sér.
Þetta eru allt vel kunnar sögur og það sem meira er þær eru nokkuð auðskiljanlegar og við getum nokkuð auðveldlega samsamað okkur þeim. Íslenski bóndinn þekkir að það er sárt að týna kindum og leggur sig fram um að finna þær, leggur á fjallið oftar en einu sinni, oftar en tvisvar, öll vitum við að það er yfir höfuð sárt að týna verðmætum, þarf ekki að vera meira en einn silfurpeningur, en enn verra er að týna sjálfum sér eða ástvinum sínum í svall og svínarí, að ég tali nú ekki um að týna sjálfum Guði, það er verst.
Þetta eru sögur, sem eiga alltaf erindi til okkar, en stærsta erindi þeirra er þetta: "Þannig verður meiri fögnuður á himni" þ.e.a.s. Guð fagnar því að þú sért hjá honum, Guð þarf á því að halda að frelsa þig og við það fyllist hann gleði. Japanskur prestur nokkur sem skipti yfir í kristni frá Búddisma hélt því fram að boðskapurinn um gleði Guðs í dæmisögum Nt. hafi í raun gert hann að kristnum manni, vegna þess að hann las þennan áhuga Guðs á sér út úr þeim. Guð fyllist einlægri gleði þegar hann finnur þig.
Annað sem þessar þrjár góðu sögur eiga sameiginlegt er sú staðreynd að Jesús er að tala til hinna löghlýðnu Farisea, þar sem hann gerir þeim þannig grein fyrir því að hann elskar tollheimtumenn og bersynduga jafnt og annað fólk.
Jesús notar þessar sögur til þess að ljúka upp augum Farisea, sem ömuðust gjarnan við því hversu fúsir hinir svokölluðu bersyndugu hlýddu á boðskap Jesú og tóku á móti fagnaðarerindinu um Guðs ríkið. Farisear óttuðst þau viðbrögð, þeir óttuðust líka hversu vel Jesús náði til fólksins, en það gerði hann einmitt með því að segja sögur, líkingasögur, við leggjum yfirleitt við hlustir þegar við heyrum spennandi sögur ekki satt?
Þá er ég búinn að fara yfir það hvað þessar þrjár sögur um týnda sauðinn, týndu drökmuna og týnda soninn eiga sameiginlegt, það er ýmislegt, en eitt eiga þær ekki sameiginlegt og það snýr að heimildarfræðum á bak við guðspjöllin. Týndi sauðurinn tilheyrir nefnilega svokallaðri Q heimild eða Quelle uppsprettunni ólíkt hinum sögunum, en Q heimildin innifelur sameiginlegt efni samstofna guðspjallanna Matteusar, Markúsar og Lúkasar, við höfum nefnilega einnig frásögn af týnda sauðnum í 18. kafla Matteusarguðspjalls.
Miklar rannsóknir liggja að baki þessu og ófáar ræður og rit liggja um þau fræði öllsömul, þar hafa menn mátt eiga þolinmæði og ró í hjarta og hvert einasta smáatriði hefur skipt máli. Greina hefur þurft kjarnan frá hisminu og jafnvel mörgu verið fórnað fyrir lítið til þess að uppskera lausnir og eflaust fögnuð í framhaldi af því.
Í því tilliti er fróðlegt að líta til sögunnar um það þegar hin svokölluðu dauðahafshandrit fundust í helli nokkrum við nefnt haf. Dauðahafshandritin fundust um miðja síðustu öld, það var mikill fundur, því þar var um að ræða stóran hluta af spámannnariti Jesaja, sem er stærsti spámaðurinn í Gt.
Á þessum slóðum var á ferð ungur arabadrengur, sem var að gæta hjarðar. Hann fann fyrir tilviljun þessar handritarúllur, sem eru kenndar við staðinn Qumran. Drengurinn á að hafa yfirgefið hjörð sína til þess að leita að einni týndri kind og fann þá hellinn með handritunum fornu.
Hún er mjög holl þessi fórnarmynd, sem kemur fram í umræddum líkingasögum Jesú og ekki hvað síst í sögunni um týnda sauðinn, auðvitað veltum við því líka fyrir okkur hvað hafi orðið um hina 99.
Auðvitað þarf að halda vel utan um þá líka, það er ekki allt sjálfgefið á sama hátt og faðirinn verður að halda vel utan um soninn, sem var heima og sinnti sínum verkum af samviskusemi og alúð á meðan hinn fór burt og sólundaði peningum.
Trúfesti og samviskusemi er nokkuð sem ætíð ber að þakka fyrir, en það er stórkostlegt og svo ómetanlegt þegar Guð finnur fólk og það finnur Guð og þá er hver einstaklingur sigur, við getum öll orðið þátttakendur í því stóra verki að kalla og finna fólk til verka í víngarði Drottins.
Það gerist hins vegar ekki áreynslulaust rétt eins og það gerist ekki áreynslulaust að tjasla saman heimildum á bak við guðspjöllin og Guð kennir okkur að leggja okkur fram um að leita, leggja sitthvað á okkur til þess að uppskera, takast á við hindranir og fórna okkur fyrir nokkuð sem einhverjum kynni að finnast algjört smáatriði.
Það ætti t.d. að vekja huga okkar, sem búum þennan heim í dag, þar sem við sjáum oftar en ekki fólk hagnast um milljónir ef ekki milljarða á degi hverjum. Stjarnfræðilegar peningatölur virðast vera þarna og ákveðnir aðilar virðast ekki þurfa að hafa neitt fyrir því að komast yfir þær og brosin breikka framan á séð og heyrt.
Þetta á ekki að vera sagt í neinum öfundartón, það sem hér er verið að benda á, er það að á meðan við hlustum á þessar tölur, sem oftast fara inn um annað og út um hitt, að þá megum við vita það að sérhver króna, sérhvert smáatriði, sem við leggjum á okkur að rækta, vinna fyrir og bera þolinmæði, gagnvart kemur til með að borga sig ólíkt þeirri hugsun og löngun margra að öðlast ríkidæmi í dag, helst í gær.
Þetta er sannleikur, sannleikur sem birtist m.a. í sögu Jesú í dag, arabadrengurinn leitaði uppi týnda kind úr stórri hjörð og ekki nóg með að finna hana, heldur bar hann einnig í fanginu stærstu fornmenjar síðustu aldar. Orð Jesú ljúkast stöðugt upp þar sem hann segir: Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig.
* * *
Kirkjan okkar þarf stöðugt að taka þessa sögu til sín um týnda sauðinn. Kirkjan okkar gerir margt gott og þarft, en hún er langt frá því að vera yfir gagnrýni hafin. Kirkjan er jú við, sem henni tilheyrum, hún er þorri íslensku þjóðarinnar, hér er starfandi þjóðkirkja. Til kirkjunnar eru allir velkomnir eins og við vitum, stórir sem smáir og boðskapur Jesú bendir okkur sérstaklega á það að gefa þeim gaum, sem minna mega sín og styðja við þá sem berjast fyrir tilverurétti sínum, því megum við aldrei gleyma, það er æðra en allar trúarkenningar.
Rödd Jesú krefst þess og við þurfum að taka undir hana, þess vegna er það svo mikilvægt að við hjálpumst að að finna fólk og leiða það til kirkjunnar til þess að heyra þessa rödd Jesú, ekki bara til þess að syngja og heyra einhverja sálma, sem vissulega eru góðir og gildir, heldur fyrst og fremst til að heyra rödd Jesú, sem er rödd réttlætis, sannleika og kærleika.
Við þurfum að varast það að velta okkur ekki um of upp úr kenningum manna, enda eru þær ekki fullkomnar eins og allt annað sem frá mannshuganum kemur. Það er rúm fyrir margar skoðanir innan kirkjunnar og er það vel, en það eru skoðanir, sem á margan hátt geta verið hindranir í því að leita hins týnda og leiða hann inn í birtu sannleika, vonar og trúar.
Það er því sár veruleiki þegar fólk er að leggja sig fram um að halda á lofti hindrunum trúarinnar m.a. með því að upphefja raddir, sem líta sem svo á að trú sé helbert ofstæki og verði ekki annað, þar sem forsenda hennar sé ekki til staðar. Meira að segja trú sem heyrir ekki undir ofstæki, heldur hófsemdina er einvörðungu þarna til þess að ýta undir ofstækið að mati trúleysisins.
Höfum við þörf til þess að hlusta á þetta, höfum við í raun þörf til þess að hlusta á geðþekkan hámenntaðan prófessor í vísindum segja okkur að þetta sé allt lygi og blekking, sem trú okkar byggir á, flokkast einmitt slíkt ekki undir trúleysisofstæki? Með þessari tilvísun í vísindaprófessorinn er ég alls ekki að etja saman vísindum og trú, þar eru málin alls ekki í járnum, heldur þvert á móti, vísindi og trú geta alveg talað saman og eru vel til þess fallin að styðja hvort annað.
* * *
Reyndin er bara þessi, að það þarf ekkert að stækka tómið, það þarf ekkert að fylla mannfólkið frekara vonleysi og trúleysi í ljósi alls þess, sem á gengur í veröldinni, Kristur er sá stuðningur sem við þurfum á að halda til þess að mæta ógnum og villidýrum veraldarinnar, hann ber okkur á bakinu og það er nauðsyn að þiggja þann burð.
Þá er það ljóst að þar sem við þekkjum ekki upp á hár dýpstu sannindi trúarinnar og munum aldrei komast að þeim, ekki einu sinni og allra síst með því að fara í bíó og horfa á Da Vinci lykilinn, að þá spyr ég: Er ekki betra en hitt að hafa rödd sannleikans, rödd vonar, rödd Jesú Krists, sem hefur talað og mun tala, hún þagnar ekki, hún mun hljóma um alla eilífð eins og síðastliðin 2000 ár jafnvel þótt geðþekkir prófessorar reyni að koma vitinu fyrir landann. Þessi geðþekki prófessor, sem ég er að vísa hér til heitir Richard Dawkins, en hann kom fram á ráðstefnu trúleysingja hér á landi og í íslenskum fjölmiðlum nú á dögunum.
Richard Dawkins hefur unnið að trúarrannsóknum og þær hafa verið unnar eingöngu með trúarofstækisöfnuði í Bandaríkjunum og miðausturlöndum í huga, það minnir óneitanlega á trúarrannsóknir Sigmunds nokkurs Freuds, sem hann gerði á konum, er höfðu verið misnotaðar kynferðislega í bernsku, niðurstaða hans var t.d. sú að trúin væri ekkert annað en löngun mannsins eftir góðu foreldri. Slík rannsóknarvinna er veik og engum til heilla, ekki einu sinni viðföngunum, það liggur í hlutarins eðli.
En Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta eins og þar stendur, Drottinn leitar og vill frelsa þig, hann vill leiða þig inn í það samfélag, sem styður við sönn mannréttindi og sem fær þig látlaust til þess að horfast í augu við hvaða manneskju þú hefur að geyma, það er iðrunarsamfélag, það er samfélag sem daðrar ekki við tómið heldur stendur saman gegn því og fyllir upp í það, það er samfélag, sem gefst ekki upp á lífinu heldur sigrar ógnvald þess fyrir dauða og upprisu Guðs sonar, og í því samfélagi týnist enginn, þar fær sérhver einstaklingur sanngjarna athygli, við erum að tala um samfélagið réttláta og sanna kirkju í Jesú nafni, slík kirkja er Guði einum til dýrðar. Amen