Sólskinsmorgunn á föstu

Sólskinsmorgunn á föstu

Nú er það hins vegar orðið svo í þjóðfélaginu að skilin milli gleði og sorgar hafa færst til í umfjöllun manna á meðal. Þannig þykir ekkert tiltökumál að gera grín að alvarlegum hlutum og virðist fátt heilagt lengur í þeim efnum. Svik Júdasar og síðasta kvöldmáltíðin voru sett fram á gaman saman hátt í auglýsingu fyrr í vetur og sjálfsagt þykir að gera grín að fermingu ungmenna eða giftingu brúðhjóna.
Flokkar

Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki? Sá sem er af Guði heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki vegna þess að þér eruð ekki af Guði.“

Þeir svöruðu honum: „Er það ekki rétt sem við segjum að þú sért Samverji og hafir illan anda?“

Jesús ansaði: „Ekki hef ég illan anda. Ég heiðra föður minn en þér smánið mig. Ég leita ekki míns heiðurs. Sá er til sem leitar hans og dæmir. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð skal aldrei að eilífu deyja.“

Þá sögðu þeir við hann: „Nú vitum við að þú hefur illan anda. Abraham dó og spámennirnir og þú segir að sá sem varðveitir orð þitt skuli aldrei að eilífu deyja. Ert þú meiri en faðir okkar, Abraham? Hann dó og spámennirnir dóu. Hver þykist þú vera?“

Jesús svaraði: „Ef ég vegsama sjálfan mig er vegsemd mín engin. Faðir minn er sá sem vegsamar mig, hann sem þér segið vera Guð yðar. Og þér þekkið hann ekki en ég þekki hann. Ef ég segðist ekki þekkja hann væri ég lygari eins og þér. En ég þekki hann og varðveiti orð hans. Abraham faðir yðar vænti þess með fögnuði að sjá dag minn og hann sá hann og gladdist.“

Þá sögðu þeir við hann: „Þú ert ekki enn orðinn fimmtugur og hefur séð Abraham!“ Jesús svaraði: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Áður en Abraham fæddist er ég.“ Þá tóku menn upp steina til að grýta Jesú. En hann duldist og hvarf úr helgidóminum. Jóh. 8.46-59

Biðjum: Vertu Guð faðir, faðir minn í frelsarans Jesú nafni, hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni. Amen.

Þegar gengið er inn í kirkju sjást merki þess og tákn að húsið sé heilagt og helgað til ákveðinnar þjónustu. Við göngum inn kirkjugólfið til móts við altarið þangað sem við beinum sjónum okkar að við athafnir kirkjunnar. Eitt af einkennum Breiðholtskirkju er krossinn, sem eins og lýtur yfir altarið. Það að krossinn skuli halla lítið eitt gerir það að verkum að það er líkt því eins og okkar sé að taka á móti honum, nánast rétta út hendur okkar og grípa hann eða þá hitt, að við getum undir skugga hans fundið tilfinningum okkar skjól. Krossinn, þetta sterka tákn kristinnar trúar, sigurtákn hinnar fullkomnu vonar, er í hvort tveggja í senn í for- og bakgrunni þeirrar íhugunar sem föstunni tilheyrir. Þegar við minnumst píslarsögu frelsarans fylgjum við henni allt til loka er hann lét líf sitt á krossi á Golgata. Sú mikla þjáning, kvöl og neyð er lýst í Passíusálmum sr. Hallgríms Péturssonar eins og við þekkjum, enn ekki aðeins það eitt heldur geyma Passíusálmarnir einnig fagnaðartíðindin góðu, að allt leið hann fyrir okkur svo að við mættum taka á móti sigri lífsins. Því það höfum við fram yfir lærisveina Krists sem horfðu á hann krossfestan, að við minnumst pínu hans nú á föstunni með fullvissu upprisunnar einnig í huga. Krossinn sem mætir okkur hér í kirkjunni er tómur því Drottinn okkar Jesús Kristur er upprisinn, hann er okkar lifandi frelsari. Og sú trúarvissa gefur föstunni svo mikið vægi og svo mikla von að jafnvel depurð þjáningarinnar fær vængi sem lyftir henni upp sem erni. Því Drottinn veitir kraft hinum þreytta og þróttlausum eykur hann mátt og þeir sem vona á hinn krossfesta Drottinn fá nýjan kraft, þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki. Von þeirra og þar með okkar, er von krossins sem jafnvel í botnausri sorg eða neyð á sér farveg til blessunar. Þetta endurspegla Passíusálmarnir vel enda þekkti höfundur þeirra af eigin raun hvernig lífið var markað sorg og þrautum og hann fann að tilgangurinn var í lífinu sjálfu þótt af skorið yrði fljótt. Passíusálmarnir gefa okkar þrautastríði leið blessunarinnar sem ekki síst bænaversin endurspegla svo sterkt.

Ég bað hér í upphafi bænavers úr 44. passíusálmi en heima hjá mér gengur þetta bænavers undir heitinu Afabæn. Litli afastrákurinn hefur á ýmsum stundum bæði gleðilegum og harmþrungnum heyrt afa sinn fara með þessi orð. Drengurinn kom eitt sinn ákaflega stoltur með nýju takkaskóna inn í stofu til afa síns sem sjálfur hljóp um túnin á sauðskinnsskóm. Barnæska þeirra, uppvöxtur og líf allt er að öllum ytri þáttum svo ólíkt að fáu er saman að jafna. En það sem tengir kynslóðirnar er bænin sem báðir fara með að kvöldi, sama vers, sömu orð, sami bænarhugur. Þetta er sá fjársjóður sem kirkjan á, ekki aðeins í bænum sínum heldur einnig helgihaldi, boðun og tilbeiðslu. Því þó þjóðfélagið breytist og torfbær afans hafi vikið fyrir steinsteiptu húsi þangað sem leiða mátti inn rafmagn, þá er veruleiki lífsins sá sami og alltaf hefur verið og sá veruleiki mun einnig mæta drengnum unga sem skilur ekki að afa þykir pizza ekki vera matur. Veruleikinn er það sem er, ekki það sem er tilbúið. Veruleikinn er hinn skapaði heimur með litrófi mannlegs lífs þar sem sorgin og gleðin eru systur. Báðar geta reynst okkur erfiðar og vissulega er samleið með þeim báðum vandmeðfarin. Jafnmikið og sorgin krefur okkur til að takast á við hana og komast áfram með henni og þrátt fyrir hana, þá er hamingja og gleði manna einnig krefjandi verkefni þó á annan hátt sé. Oft bindum við gleði okkar ytri aðstæðum og þegar þær bregðast hættir okkur til að leyfa gleðinni að hopa. En við opnum fyrir gleðina innra með okkur hverju og einu, þar eru hennar dyr og þar bjóðum við hana fyrst velkomna. Afstaða okkar og viðhorf ræður þar miklu og einnig það hvernig við viljum treysta því sem við höfum vissulega í eigin hendi.

Í guðspjallinu sem ég las hér áðan segir Jesús við okkur að sá sem varðveiti hans orð muni aldrei að eilífu deyja. Að varðveita orð hans er að varðveita hann sjálfan, eiga hann sjálfan sem lausnara alls þess sem var, er og verður. Orð hans geyma bæði fögnuð og fullkomna gleði rétt eins og hina harmþrungnu angistarbæn – Guð minn, Guð minn því hefur þú yfirgefið mig. Nú er það hins vegar orðið svo í þjóðfélaginu að skilin milli gleði og sorgar hafa færst til í umfjöllun manna á meðal. Þannig þykir ekkert tiltökumál að gera grín að alvarlegum hlutum og virðist fátt heilagt lengur í þeim efnum. Svik Júdasar og síðasta kvöldmáltíðin voru sett fram á gaman saman hátt í auglýsingu fyrr í vetur og sjálfsagt þykir að gera grín að fermingu ungmenna eða giftingu brúðhjóna. Enda á flesta að vera svo ósköp fyndið og sniðugt og enginn maður með mönnum sem ekki getur gert góðlátlegt grín og er það vel að vissu marki. Við eigum hins vegar að leyfa okkur og öðrum að eiga einnig það sem er ekki brosandi að og fá þannig að halda því í sínum ranni því stundum þarf slíkt einnig sitt rými til þess að við getum síðar gengið út úr því og inn í gleðina. Fastan sýnir okkur vel hvernig þetta er gert svo vel sé. Nú horfum við til kross hans á Golgata og sjáum hann þar hæddan hanga. En rétt eins og Ísraelsþjóðin fékk eirorm í eyðimörkinni til þess að horfa á sér til lífs og bjargræðis, horfum við til krossins og þess lífs sem hann gefur okkur. Það líf var fengið á páskadagsmorgun í krafti upprisu frelsarans eftir hina miklu angist föstudagsins langa. Hin harmþrungna merking hans er hins vegar á hröðu undanhaldi í þjóðfélaginu. En ef við svíkjum okkur um þá íhugun, svíkjum við þá staðreynd sem er einnig hluti af gleðboðskapnum. Það að sorg lærisveinanna skyldi breytast í gleði og að harmur og hörmungar krossins verða að blessun, er svo nátengt að annað verður ekki undanskilið. Þó við kjósum það sjálfasagt öll að dvelja ekki lengi í skugga sorgarinnar þá verður hann samt ekki umflúinn. En það er einmitt undir kross Krists sem sorgin verður á svo undarlegan hátt viðráðanleg, því við horfum á hann sem þannig leið fyrir okkur og skynjum að mitt í okkar þjáningu er hann með okkur. Styrkinn fáum við frá kross hans og möguleikann til þess að líta glaðan og blessunarríkan dag sömuleiðis. Hann á eilífðina og hann er tilbúinn að rétta okkur hana af krossi sínum. Það er undursamlegt að taka á móti þeirri gjöf og finna að þar er rými sorgarinnar, angistarinnar, kvíðans og erfiðleikanna en einnig uppspretta hinnar sönnu gleði lífsins. Þetta túlkum við svo vel í bænaversunum sem fylgt hafa kirkjunni um langan aldur. Sömu orð rúma hryggð afans og barnslega gleði drengsins þannig að hvort tveggja er Guði falið.

Sunnudagurinn næsti er pálmasunnudagur, páskarnir eru óvenju snemma í ár og veðurfarið enn með miklum vetrarbrag. Enn þrátt fyrir það barst frétt af því fyrir síðustu helgi að Tjaldurinn væri kominn til landsins. Einn af vorboðunum hefur því látið sjá sig og einnig er hin aukna birta farin að boða okkur að senn styttist í vorið. Enda er það svo að óháð tímasetningu páskanna þá bera þeir vorblæinn með sér þannig að við finnum nú þegar líður á föstuna hvernig vonin fer að vakna á ný. Ég sá hér við austurvegg kirkjunnar að vorlaukunum hafði tekist að smjúga úr frostbitinni jörð og minntu mig með táknrænum hætti á hvernig sú er einnig raunin í boðskap kirkjunnar á þessum degi. Við sem horfum til krossins og leitum skjóls hjá honum vitum af upprisusólinni að baki hans sem rís úr austri með lífsvon hins skapandi Drottins sem gerir alla hluti nýja og megnar að láta jafnvel líf og von kvikna í skugga krossins. Veruleiki hans sem Kristur sýnir okkur og sannar enn í dag í orði sínu er ekki er bundinn neinum þeim skilmálum sem við setjum lífinu heldur birtir hinn varanlega veruleika sem staðfestir það sem ekki er auðið að sjá. Nóbelskáldið Halldór Laxnes lýsir þessu vel í Heimsljósi þar sem skáldið á tal við gamla konu: “Gamla konan tók á móti gestinum björt yfirlitum, virðuleg og alúðarfull. Hún hafði átt sextán börn og mist þau. Hún vann fyrir þeim á daginn og vakti yfir þeim á nóttunni. Og þegar þau brostu framaní móður sína var sérhvert ský burt af himninum og sólin, tunglið og stjörnurnar voru eign þessarar konu. Þegar börnin hennar gáfu upp öndina eftir erfitt dauðastríð færði hún þau í hvítan hjúp og slétti úr hverri fellingu með samskonar umhyggju og hún væri að búa þau til veislu. Hún grét þegar hún stóð yfir moldum þeirra, síðan fór hún aftur heim til þeirra sem lifðu ..... til að elska þá sem lifðu. Í þessu húsi ríkti elskan. Þannig var mannlífið að eilífu stærst, brosa með barni sínu þegar það hlær, hugga það þegar grætur, bera það dáið til moldar, en þerra sjálfur tár sín og brosa á nýaleik og taka öllu eftir röð án þess að spyrja fram eða aftur, lifa, vera öllum góður. Þegar ég lít yfir mína umliðnu ævi, sagði gamla konan, þá finnst mér það hafi alt verið einn langur sólskinsmorgun”.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.