Eilíf gæði!

Eilíf gæði!

Með hin eilífu gæði í huga þá vitum við öll að það eru engin eilíf gæði fólgin í veraldlegum hlutum. Hin raunverulegu gæði manneskjunnar felast ekki í því sem maður á, heldur því sem maður getur gefið frá sér, gefið af sér, gefið öðrum.

Orðskv. 2:1-6 1. Tím 1. 12-17 Lk. 16:1-9 Biðjum: Vertu Guð faðir... Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Náðin

Náð sé með ykkur, söfnuðinum hér í Dómkirkjunni. Náð sé með ykkur sem eruð á ferð um landið um verslunarmannahelgi. Við biðjum Drottin að allir skili sér heilir heim. Náð sé með ykkur sem heima sitjið, sem eruð á ferð í umferðinni, sem eruð í vinnunni, sem eruð í sumarbústað, dveljið á sjúkrahúsi, dvalarheimili og hvar þar annarsstaðar sem þið hlýðið á helga messu. Náð Drottins sé með ykkur öllum. Það var einmitt náðin sem var kjarninn í orðum Páls til Tímóteusar í pistli dagsins. Í orðum sínum til Tímóteusar þakkar Páll Drottni fyrir náðina sem Drottinn auðsýndi honum. Jafnvel þótt Páll hafi ofsótt og smánað Drottinn og þá sem honum fylgdu þá kallaði Drottin Pál til þjónustu. Hann sýndi honum traust og fól honum þjónustu í Jesú nafni. Um það snýst náðin að það er Guð sem elskar fyrst. Guð býður ekki eftir því hvort maðurinn er verður þess að vera elskaður, kunni nóg, trúi nóg, hafi náð einhverjum veraldlegum markmiðum. Guð elskar manninn, Guð elskar þig. Það er þýðing hugtaksins, náð Drottins. Elska Drottins er óháð því hvað maður getur eða kann. Og hin postullega kveðja ,,náð sé með yður og friður...“ hún segir í raun, megir þú finna og vita að þú ert elskað Guðs barn. Megir þú finna fyrir kærleika Guðs og nærveru hans í þínu lífi í dag og alla daga.

Enn sagði Jesús „Enn sagði Jesús“, segir í guðspjalli dagsins. Jesús var stöðugt að kenna, leiðbeina. Stundum heilum hópi, ókunnugu fólki, stundum lærisveinum sínum einum, stundum einhverjum einstaklingi. Í guðspjallatexta dagsins er Jesús enn að tala við lærisveina sína. Hann hefur sagt þeim margar dæmisögur. Þarna á undan í textanum eru til dæmis dæmisögur hans um týnda sauðinn og góða hirðinn, týnda drökmu og dæmisagan um synina tvo. Í þeim er lífinu fagnað, því er fagnað þegar maðurinn breytir rétt og viturlega. Í þeim er Jesús Kristur að leiðbeina lærisveinum sínum, hann er að leiðbeina kirkjunni, hann er að leiðbeina okkur, manninum á öllum tímum. Biblían orðskviðir leiðbeiningar Það er einmitt vilji Drottins að maðurinn lifi glaðar stundir og hamingjusaman ævi og leiðbeiningar í helgu orði eru einmitt til þess fallnar að maðurinn komist nær því markmiði að lifa glaður og farsæll í heiminum. „Sonur minn, ef þú hlýðir orðum mínum og geymir boðorð mín hjá þér, veitir spekinni athygli þína og hneigir hjarta þitt að hyggindum, já, ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin, ef þú leitar að þeim eins og silfri og grefur eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum, þá mun þér lærast að óttast Drottin og veitast þekking á Guði. Drottinn veitir speki, af munni hans kemur þekking og hyggindi.“ (Orðskv. 2:1-6) Þessi texti úr Gamla testamentinu hljómar líkt og leiðbeining góðrar móður til sonar síns eða barns sem er á leið á útihátíð um verslunarmannahelgi. Gerðu nú eins og ég segi og þá gengur þetta allt vel! Sú mynd kemst býsna nærri Guðsmynd kristinnar kirkju, þeas um Guð sem elskandi móður. En það er einmitt guðsmynd kristinnar kirkju að Guð vill leiða, veita handleiðslu, Guð er með okkur á veginum, Guð er með okkur í þjáningunni, erfiðleikunum, og hvar þar annarsstaðar sem hans er óskað, hann er beðinn. Dæmisaga dagsins Dæmisaga dagsins er nokkuð flókin. Þar dregur Jesús upp mynd af ríkum manni og ráðsmanni hans. Ráðsmaðurinn er sagður hafa sóað eigum hins ríka sem vill að sjálfsögðu gæta hagsmuna sinna og láta ráðsmanninn gera reikningsskil og leysa hann síðan frá störfum. Dæmisagan er sem tekin úr íslenskri blaðagrein síðustu mánaða um íslensk efnahagsmál. Það er merkilegt hve textar og leiðbeiningar, fræðsla og dæmisögur Jesú tala oft beint inn í okkar aðstæður. Það er einmitt það sem textarnir gera, þeir eru ekki bara orð í bók, gamall texti, úreltur. Textarnir fá nýtt samhengi þegar þeir eru lesnir og heimfærðir upp á samtímann. Lesnir í trú og bæn um að andinn heilagi ljúki upp lásum leyndardóma sinna. Hvað er það sem Jesús vill segja okkur með þessari dæmisögu?

Dæmisagan

Maðurinn leitar ávallt allra leiða til að bjarga eigin skinni. Það er eitthvað í viðbrögðum ráðsmannsins sem við án efa þekkjum öll. Hann leitar leiða til að létta eigið líf, til að bjarga sjálfum sér. Ráðsmaðurinn fer til allra sem skulda ríka manninum og gerir þeim kleift að lækka skuldina og greiðsluna. Þannig opnar hann dyr fyrir sjálfan sig þegar hann verður kominn á kaldan klakann og búinn að missa vinnuna, þessir viðskiptavinir eiga eftir að verða góðir við hann í framtíðinni, hann verður ekki einn. Það er eitthvað samfélagslegt við þennan texta. Fjármagnið virkar eins og sement eða lím í samskiptum, heldur fólki saman. Það er hægt að fara í margar áttir með þennan texta varðandi hvaða lærdóm má draga af honum.

Lærdómur

Oftast er það nú þannig að fólk er upptekið af veraldlegri stöðu sinni, afkomu og því að finna leiðir til að láta hlutina ganga upp. Kannski væri allt fallegra og betra ef fólk myndi verja meira af tíma sínum til að sinna hinum andlegu og eilífu gæðum í stað aðeins hinna efnislegu. Veraldleg auðæfi eru svo oft notuð sem hálfgert sement í mannlegum samskiptum, þeas það sem tengir fólk saman, sem verður stundum til þess að hið efnislega verður það sem skiptir fólk mestu máli. Sem dæmi laðast gjarnan þeir að hverjum öðrum sem eiga sambærilegar eignir. Þeir sem eiga húsbíla, hjólhýsi, fellihýsi þeir umgangast þá sem eiga svipaða hluti.

Það getur verið hættulegt þegar efnahagur skiptir fólki í flokka, skiptir samfélagi í stéttir.

Ríkidæmi og sterkur efnahagur er ekki vondur í sjálfu sér en sterkum efnahag fylgir mikil ábyrgð.

Allt það fer að sjálfsögðu eftir því hvernig auðæfin eru notuð. Eru þau notuð í eigingjörnum tilgangi eða til að létta líf fleiri en eigandans og jafnvel samfélagsins alls? Til að bæta hag og líðan fleiri og margra.

Auðæfin geta verið mikil blessun þar sem þau snerta eilíf gildi og mannhelgi. Margir hafa komist langt á því að þiggja menntastyrki og styrki tengda menningu. Slíkt skilar sér til baka til einstaklinga og samfélagsins alls.

Eins þar sem auðæfi tryggja mannréttindi. Við höfum verið sammála um það á Íslandi að fólk eigi ekki að svelta. Að allir eigi að fá aðgang að mat og klæði, húsaskjól og annað sem tryggir grundvallarmannréttindi fólks. Það virðist vera erfitt að tryggja slíkt og samfélagið þarf að bæta sig í þeirri þjónustu og viðleitni á okkar tímum.

Kannski er það í lagi að auðæfin séu sement í samfélaginu í þeim tilvikum sem snerta eilíf gæði. Gamalt rabbínskt máltæki segir: ,,Hinir ríkari hjálpa hinum efnaminni í þessum heimi. Með því hjálpa hinir efnaminni hinum ríku í hinum komandi heimi.“

Það er nefnilega það, hinn komandi heimur!

Það er grundvallar skilningur í kristinni trú að það er sköpun og skapari. Kristin trú byggir á þeirri sannfæringu að yfir heiminum, sköpuninni, manninum og öllu vaki kærleikans hugur sem er sífellt að gera alla hluti nýja. Sá hugur sem birtist í helgum leiðbeiningum biblíunnar og dæmisögum Jesú, birtir þann kærleika sem Guð hefur til allra manna og þar með þín.

Textinn vísar sem sagt til veruleika handan þessa heims, hann skýrskotar til uppgjörs og reikningsskila hvers okkar og allra manna gagnvart Guði. Í því samhengi skiptir miklu að huga að því í hvaða gæðum felast eilíf gæði hér í heimi.

Eilíf gæði

Með hin eilífu gæði í huga þá vitum við öll að það eru engin eilíf gæði fólgin í veraldlegum hlutum.

Hin raunverulegu gæði manneskjunnar felast ekki í því sem maður á, heldur því sem maður getur gefið frá sér, gefið af sér, gefið öðrum. Í því liggja kannski hin raunverulegu gæði einstaklingsins og samfélagsins alls.

Góðu fréttirnar

Góðu fréttirnar, fagnaðarerindið sem kirkjan byggir á, er síðan sigur lífsins yfir dauðanum, eins og Páll postuli orðaði svo vel í pistli dagsins. Fagnaðarerindið fjallar um upprisu Jesú Krists frá dauðum.

Upprisan boðar okkur það að ávallt er möguleiki á því að nýtt verði til, ávallt er möguleiki á því að úr leysist, að hið góða sigri að lokum. Nýjar leiðir opnist, að úr rætist. Upprisan fjallar um von inn í vonlausan heim.

Án þess kjarna kristindómsins er einungis um fagran og góðan siðaboðskap að ræða. En kristindómurinn er meira en það.

Kristindómurinn nær út fyrir það mannlega, siðlega, veraldlega. Kristindómurinn byggir á kraftaverki, byggir á því að utanaðkomandi vald, afl, hreyfiafl, hefur áhrif á heiminn, eitthvert afl sem er hvort tveggja í senn ekki hluti af heiminum en um leið í heiminum miðjum. Þetta afl sem kennt er við kærleikann og við þekkjum undir hugtakinu Guð.

Ráðsmaðurinn leitaði leiða til að bjarga eigin skinni. Með náð Drottins í huga megum við treysta því að Drottinn bjargar, að Drottinn huggar, styrkir og blessar.

Fyrir það sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.