Dýrmætara en allt heimsins gull

Dýrmætara en allt heimsins gull

Örvæntingin rak föðurinn á fund frelsarans, ekki vegna þess að hann trúði boðskap hans, heldur vegna þess að hann var tilbúinn að gera allt svo sonur hans gæti læknast. Vonin rak hann áfram og hún þekkir engin landamæri ...

Nú kom Jesús aftur til Kana í Galíleu þar sem hann hafði gert vatn að víni. Í Kapernaúm var konungsmaður nokkur sem átti sjúkan son. Þegar hann frétti að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona. Þá sagði Jesús við hann: „Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.“ Konungsmaður bað hann: „Drottinn, kom þú áður en barnið mitt andast.“ Jesús svaraði: „Far þú, sonur þinn lifir.“ Maðurinn trúði því sem Jesús sagði við hann og fór af stað. En meðan hann var á leiðinni ofan eftir mættu honum þjónar hans og sögðu að sonur hans væri á lífi. Hann spurði þá hvenær honum hefði farið að létta og þeir svöruðu: „Í gær upp úr hádegi fór hitinn úr honum.“ Þá sá faðirinn að það var á þeirri stundu þegar Jesús hafði sagt við hann: „Sonur þinn lifir.“ Og hann tók trú og allt hans heimafólk. Jóh 4.46-53

Í dag er kristin kirkja leidd til fundar við frelsara sinn Jesú Krist ásamt konungsmanni frá Kapernaum.

Við sjáum óttasleginn og örvæntingarfullan föður nálgast unga smiðssoninn frá Nasaret. Ungan gyðing sem hann hafði heyrt um, en aldrei látið sér detta í hug að hann ætti eftir að biðja um hjálp. Til hans kemur hann nú með síðustu von sína um hjálp.

Svona getur lífið verið skrítið. Það er svo margt óvænt sem getur gerst að við getum ekki einu sinni látið okkur detta nema lítið brot af því í hug.

Þeir atburðir hafa nú orðið í íslensku efnahagslífi sem fáa grunaði, hvað sem hver segir. Ótrúlegur fjöldi fólks ber nú kvíða í brjósti gagnvart framtíð sinni og barna sinna. Gjörningaveður peningamálanna bitna mjög þungt á mörgum. Hitta svo ótrúlega marga fyrir með einum eða öðrum hætti. Vonandi berum við gæfu til þess, íslensk þjóð, að styðja með ráðum og dáð við bakið hvert á öðru í þessum aðstæðum. Það er ekkert annað sem dugar nú.

Það hjálpar ekki að leita að sökudólgum, eða benda á óvini. Við þurfum fyrst að taka okkur saman í andlitinu og ráða ráðum okkar. Þegar við erum búin að finna leiðir til að bjarga fólkinu sem bágast stendur, hefur máski misst allt sitt, er kannski með stóru skuldirnar sínar í erlendum gjaldmiðlum, þegar við höfum hjálpað þeim sem höllustum fæti standa, þá fyrst getum við farið að greina málið. Vafalaust munum við í framtíðinni draga af þessum atburðum hollan og bráðnauðsynlegan lærdóm.

En það gerist ekki strax.

Reiðin og biturðin eru samt skiljanlegar tilfinningar og við skyldum ekki gera lítið úr þeim, eða láta eins og við séum hneyksluð á því sem fólk segir. Við þurfum samt að reyna að lifa með reiðinni okkar nokkra stund, draga djúpt andann og hræra í bollanum áður en við látum ljótustu orðin fjúka eða grípum til einhverra örþrifaráða. Við eigum öll svo marga möguleika og framtíðin er skínandi björt. Við getum þurft að þreyja Þorrann og jafnvel Góuna við lítinn kost, en það er svo langt frá því að öll tilveran sé hrunin.

Konungsmaðurinn í guðspjalli dagsins færir okkur nýja sýn á þessar aðstæður, en þó svo gamlar. Það er svo ótal margt dýrmætara en gull og silfur heimsins.

Stundum er sagt að textar Biblíunnar séu gamlir og það er rétt. En stundum heyrir maður líka að þeir séu bæði úreltir og gagnslausir. Þeir eru þó ekki úreltari en svo að tilfinningin sem rekur konungsmanninn á fund Jesú Krists er í senn ævagömul og algjörlega ný. Þannig er það nefnilega að tilfinningin þín þegar barnið þitt, ættingi eða vinur er veikur er alveg nákvæmlega eins og tilfinningin sem konungsmaðurinn fann. Hún hefur ekkert nútímavæðst eða breyst. Hún er alveg eins og tilfinning allra annarra foreldra í sömu aðstæðum á öllum tímum. Hún er sársauki vegna vanmáttar okkar gagnvart afli sem er utan valdsviðs okkar. Örvæntingin rak föðurinn á fund frelsarans, ekki vegna þess að hann trúði boðskap hans, heldur vegna þess að hann var tilbúinn að gera allt svo sonur hans gæti læknast. Vonin rak hann áfram og hún þekkir engin landamæri.

Þetta vissi Jesús. Hann skildi þessa tilfinningu og sá að hann gat notað hana sem farveg fyrir kærleika sinn og náð.

Ég veit að margir hafa lent í því einhvern tíma, að vera gripnir miklum ótta. Hafa jafnvel fundið til lamandi tilfinningar sem eins og sviptir mann fullu viti um hríð. Á slíkum stundum getur eitt lítið andartak verið svo langt. E.t.v. höfum við upplifað veikindi eða slys hjá okkur sjálfum, ættingjum okkar eða vinum á þennan hátt og eina andrá er eins og allt standi kyrrt. Svo fer hjartað að hamast og köldum svita slær út á okkur hátt og lágt. Nagandi angistin læðist um líkamann.

Við leitum stöðugt skýringa á tilveru okkar og umhverfi en rekur samt svo ótrúlega oft í vörðurnar. Þegar alvarlegir atburðir gerast og þá ekki hvað síst í nálægð dauðans, verður maðurinn óhjákvæmilega rökþrota og skilningsvana. Þrátt fyrir yfirburða þekkingu sína á svo mörgum sviðum. Og þessu fylgir tilfinning sem er fullkomlega eðlileg og mannleg. Það er kannski einmitt hún sem gerir okkur að manneskjum. En hún getur verið allt að því óbærileg og lamað okkur um stund. Það er það erfiða við hana.

Þegar við fylgjumst með konungsmanninum, skynjum við kvíðann og óöryggið sem fylgir því þegar við höfum ekki stjórn á atburðarásinni. Við sjáum grátklökkan mann sem hafði verið rólegur og öruggur með sig þar til sonurinn veiktist. Allt í einu er fótunum kippt undan honum og verkefnið sem við blasir er hræðilega yfirþyrmandi stórt og vonlaust.

Þetta er kannski ekki fyllilega sambærilegt og þó. Ég veit að margir sem hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni og líka þeir sem hafa fundið óbeint fyrir fjármálakreppunni, glíma við erfiðar tilfinningar um þessar mundir og ég veit að margir hafa farið með heitar bænir síðustu daga. Um stund kann þessu fólki að líða þannig að öll hamingja sé horfin um eilífð. Það er oft svo þegar alvarlegir hlutir gerast og sorg dynur yfir, að fólki finnst sem Guð sé horfinn. Og efinn um tilvist hans í þessum aðstæðum er skiljanlegur. Eðlileg viðbrögð manneskju sem finnst hún skilja, en kemst svo að raun um að hún skilur svo lítið.

Inn í þessar aðstæður kemur rödd Jesú Krists sem biður okkur að gefa gaum að liljum vallarins og því hvernig náttúran og allt lífið skrýðist fegurð án okkar tilverknaðar. Hver árstíð, hver dagur og hver stund er vitni um ótrúlega reglu sköpunarinnar. Reglu sem mennirnir eiga engan þátt í að koma á heldur verða að laga sig að og lifa með. Reglufestu sem er svo gott að hvíla áhyggjulaus í.

Inn í aðstæður mannsins í dag, kemur líka rödd frelsarans sem segir: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra“ og einnig þessi ódauðlegu orð hans og eilífu sannindi: ‘Elska skaltu Drottinn Guð þinn af öllu þínu afli og náungann eins og sjálfan þig’.

Í ljósi hins kristna fagnaðarerindis um eilífan og algjöran sigur hins góða, jákvæða og bjarta á öllu því neikvæða, sigurs Guðs yfir öflum myrkursins, hverju nafni sem þau nefnast, í ljósi upprisu Jesú Krists frá dauðum, má segja með svo einlægri von og bjartsýni að við munum alltaf sigrast á erfiðleikunum hverjir sem þeir eru.

Á næstu dögum, vikum og mánuðum er svo nauðsynlegt að hugsa um þetta. Fylgjast með náunganum og láta sér annt um hann. Við verðum að gæta okkar á dómsýkinni og fordómunum því þeir lestir gera okkur bara erfitt fyrir og hindra okkur í að láta kærleikann njóta sín.

Á næstu dögum og vikum munu málin skýrast. Ég vil að þið vitið að presturinn ykkar er nú eins og alltaf áður til þjónustu reiðubúinn. Þið megið leita til mín, með kvíðann og áhyggjurnar. Ég lofa ekki að leysa málin, en ég lofa því að ég skal hlusta. Ef mér finnst ég geta skotið inn góðum ráðum, þá geri ég það. Ég veit líka að heilbrigðisstarfsfólkið okkar hér í Mýrdalnum er boðið og búið til að hjálpa. Eins veit ég að þið sjálf eruð tilbúin að hjálpa hvert öðru. Það er mikilvægast. Nú þurfum við öll að standa saman.

Konungsmaðurinn í guðspjalli dagsins áttaði sig á því hver Jesús Kristur var og til hvers hann kom í heiminn. Hann tók trú þessi maður og allt hans fólk. Mundu, kæra sóknarbarn og vinur, að það er ekki veikleiki að trúa heldur miklu fremur ótrúlegur styrkur. Styrkur sem kemur okkur í gegnum þessa erfiðleika eins og alla aðra.

Við getum örugg fylgt fordæmi konungsmannsins. Við getum trúað og treyst orðum frelsarans og sagt með skáldinu og prestinum séra Valdemar Briem:

Ó, hve ég gleðst, minn Guð og faðir blíði, að gafstu mér þá trú í lífsins stríði, að dauðanum vann son þinn sigur yfir: Þinn sonur lifir. Sb 199