Þingvellir, vatn og Jesús

Þingvellir, vatn og Jesús

Hvað tengir saman, Þingvelli, Auði djúpúðgu, Íslendinga framtíðar og Jórdan? Skírn Jesú! Allt vatn er blessað, í lækjum, sjó, kaleikum og fontum. Jesús var skírður - ekki aðeins til að gefa mönnum líf heldur allri veröld, vatninu líka. Kristnum mönnum ber að stunda vatnsvernd.

Þá kemur Jesús frá Galíleu að Jórdan til Jóhannesar að taka skírn hjá honum. Jóhannes vildi varna honum þess og sagði: Mér er þörf að skírast af þér, og þú kemur til mín!

Jesús svaraði honum: Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti. Og hann lét það eftir honum.

En þegar Jesús hafði verið skírður, sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir, og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig. Og rödd kom af himnum: Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Guðspjall: Matt. 3.13-17

Vatnið Hvað var í kringum þig, var þitt nærsamhengi, þegar þú varst fóstur í móðurkviði? Það var vatn. Þú svamlaðir og fórst kollhnísa í legvökva. Hátíðnihljóðin, sem bárust eyrum þínum alla daga, voru frá hinu hraða rennsli blóðsins, vökvans, í æðum móður þinnar og í takti við slátt hjartans sem dældi. Svo þegar legvatnið fór var ekki lengur hægt að lifa inní mömmu - þá fæddist þú. Þegar þú varst kominn í heiminn varstu þrifin(n) í vatni. Síðan varstu baðaður eða lauguð í vatni. Móðurmjólkin var að mestu vatn. Þú varst og ert vatnssósa. Svo héldu elskuarmar á þér við skírnarlaug. Glitrandi vatnið í fontinum var borið að kollinum þínum og orðin um föður, son og heilagan anda voru nefnd með nafninu þínu.

Síðan hefur vatnssagan haldið áfram. Þú hefur verið í vatni og notið vatns. Í þér er mikið vatn, sem hefur lengi verið til, jafnvel tugi milljóna ára. Það hefur farið um líkama fiska, sóleyja, hvala, trjáa, tígrisdýra, apa, snigla, kaktusa og jafnvel risaeðla. Það hefur borist um allan heim, verið í Jórdan og mörgum jökulám, verið í Kyrrahafinu, Dauðahafinu, Rauðahafinu og Þingvallavatni. Og svo er mikið af vatni í Neskirkju í dag - í þér, í kirtlum þínum, munni, augum og líffærum. Meðan þú lifir finnur þú fyrir vatnsbúskap líkama þíns. Við megum gjarnan greina samhengið. Vatnið er lífinu nauðsynlegt. Líf okkar slokknar ef vatnið hverfur eða fúlnar. Vatnið er samhengi og forsenda og okkar er að helga það og vernda.

Margir elska vatn og vötn, veiðimenn, fagurkerar og trúmenn allra hefða. Auður djúpúðga var svo elsk að sjónum að hún vildi láta jarða sig í flæðarmáli. Merkilegt, flestum hryllir við ef grafir fyllast af vatni. En af hverju skyldi hin vitra, kristna, Auður hafa sótt til sjávar? Getur verið að vatn hafi eitthvað með Jesú að gera? Getur verið að við þurfum að sjá hið djúptæka í hinu yfirborðslega, greina trúarleg gildi í hinu hvunndagslega?

Skírn Jesú Á þessum degi, sunnudegi í föstuinngangi, er frásögn um skírn Jesú til skoðunar. Jesús gekk niður að ánni Jórdan, út í hana og væntanlega hefur hann farið á kaf í árvatnið. Þessi árganga var eins og margt í lífi Jesú þrungin merkingu, sem skilgreinir líf kirkjunnar og er merkingarskapandi fyrir okkur líka sem einstaklinga.

Þegar Jesús vildi skírast var hann sér fullkomlega meðvitaður um, að skírn hans væri ekki með sama móti og iðrunarskírn þeirra sem flykktust til Jóhannesar við Jórdan. Skírnaróskin markar upphaf starfsferils hans. En Jesúskírnin er ekki heldur hin sama og okkar. Jesús skírðist ekki heldur til lífsins eins og við, ekki að endurnýjast eins og við, ekki að losna úr viðjum sorans eins og við. Skírn Jesú var upphaf frelsisverks hans sem gerir skírn okkar mögulega. Við getum sett upp tvennur: Í skírn Jesú var hann lægður, en í skírn til hans eru við hafin upp úr öllum lífsskemmdum. Skírn Jesú er upphaf píslargöngu hans, en okkar skírn er upphaf frelsisgöngu. Skírn Jesú er til dauða, en við skírumst til lífs, já eilífðar.

Vatn og eyðimörk Stundum þegar ég er að undirbúa stólræðu sunnudagsins kíki ég gömul prédikanasöfn. Í prédikun þessa sunnudags segir Kanadapresturinn Jón Bjarnason: “Skírnin frelsarans er eins og yfirnátturleg uppsprettulind, sem alt í einu vellur upp í eyðimörk, og út frá þeirri uppsprettu flýtur svo árstraumur hins dýrðlegasta kærleika, en jafnframt hins mesta og átakanlegasta sársauka, sem allt af vex og dýpkar og færir sig meira út og verður þyngri og straumharðari eftir því sem hann rennur lengra áfram í eyðimörkinni, enda breytir henni æ meir og meir eftir því , sem hann færist lengra áfram, í guðlegan gróðurreit, himneskan trúarakur” (Jón Bjarnason, Prédikanir , 208-209).

Þarna kemur berlega fram sú trú prédikarans, að skírn Jesú hafi ekki verið einhver einkaathöfn skírnarþegans, eitthvert prívatuppgjör á lífi Jesú gagnvart föðurnum á himnum. Skírn Jesú var og er lind, uppspretta í eyðimörk, árstraumur, sem mótar umhverfi og er forsenda gróðurs, sem kenndur er við himininn. Skírn Jesú hefur áhrif á allan heiminn, ekki bara eyðimörk, heldur líka blautsvæðin. Meira um það á eftir.

Vatn – auðævi og kreppa Einu sinni var hópur frá Oman við Persaflóa í Íslandsheimsókn og fór meðal annars til Þingvalla. Ég var með í för í þinghelginni. Fyrir hópnum var dómsmálaráherra þess ríkis. Hann hafði áhuga á sögu staðarins, hlustaði grannt eftir frásögn um þing og þjóð, vildi gjarnan skilja hvernig flekaskil og hræringar jarðskorpu mótuðu landið. Svo stoppaði hann við Neðrifoss Öxarár, horfði í strauminn og sagði svo með glampa í augum. “Vatnið er stórkostlegt. Ég kem frá auðugu landi, en þar er vatnið dýrmætara en annað í náttúrunni. Mikið vildi ég geta tekið allt þetta kristaltæra vatn með mér. Þið Íslendingar eruð ríkir.” Orðin festust í huga og þessi sheik frá Oman kenndi mér að þó bensín sé mikilvægt fyrir efnahasglífið og lífþægindin, er vatnið er enn mikilvægara, það er forsenda lífsins. Það er of lítið vatn víða í veröldinni og þess vegna styðjum við Hjálparstarf kirkjunnar við að gera brunna á vatnsvana svæðum. En það sem er alvarlegast er, að það er of lítið til af hreinu vatni. Mengun er víða gífurleg, sjór og vötn eru svo illa spillt, að fólk getur ekki farið út í vatnið til að baða sig, hvað þá lotið niður og drukkið. Meira en einn milljarður manna hefur ekki aðgang að nægu og hreinu vatni. Ýmsum tegundum platna, skordýra og dýra er ógnað vegna vatnsmengunar, uppistöðulóna og námavinnslu (sjá t.d. http:// www .kirkjan.is/ annall /erlend/2006-02-21/16.57.12).

Vatnsvernd fjær og nær Hver er ábyrgð okkar og hvað er til ráða? Samtök mótmælenda- og rétttrúnaðarkirkna, Heimsráð kirkna, héldu heimsþing liðna daga í Porto Alegre í Brasilíu, þ.e. 14.-23. febrúar 2006. Margt var rætt, en vatnið er viðfangsefni einnar af fyrstu samþykktum þingsins, sem lagði til ýmsar vernduraðgerðir . Þjóðkirkjan er, eins og flestar stóru kirkjudeildir heimsins (að hinni kaþólsku undanskilinni), aðili að Heimsráði kirkna og ber því ábyrgð þessari samþykkt.

Á Íslandi fer skilningur á mikilvægi vatns vaxandi. Þegar við förum til sólarlanda uppgötvum við best hvað vatnið er mikilvægt og að gæði þess sé ekki sjálfsagt mál. Þennan lærdóm höfum við tekið með heim. Í hótelum þjóðarinnar eru gestir beðnir að fara vel með vatn. Æ fleiri stilla þvottaefnisnotkun í hóf. Vatnsból eru vel varin og eftirlit er víðast gott. Strendur eru hreinni en var fyrir nokkrum áratugum. En vatnsuppeldi er sístætt verkefni. Við þurfum að innræta okkur þá frumreglu, að aðgangur að hreinu vatni séu mannréttindi. Vantsvernd er lífsvernd og varðar gildi, sem eru svo grundvallandi að rétt er að þau veði orðuð og færð í stjórnarskrá ( sbr . samþykkt á vatnsþingi BSRB, Kennarasambands Íslands, Landverndar, MFÍK , Náttúruverndarsamtaka Íslands, SÍB , Þjóðkirkjan, 29. október 2005). Helgistaður vatnsins Þingvellir eru prestssetursjörð. Slíkar jarðir eru eign kirkjunnar vegna þess, að þeim hefur verið ætlað vera fjárhagslegur höfustóll kirkjustarfs. Kirkja og ríki hafa ekki verið á eitt sátt um framtíðareignarhald og hafa raunar togast á um fyrirkomulag.

Þingvellir eru auðvitað mikilvægir þjóðinni sem táknstaður alls þess sem íslenskt er. Sem slíka má þá verja og vernda. En að mínu áliti eru Þingvellir langmikilvægastir sem dýrmætasta vatnsþró landsins. Í frera Langjökuls er ekki bara vatn frá því í fyrravetur, heldur jafnvel vatn sem féll á miðöldum, hreint, ómengað dýrmæti fyrir framtíðina. Í djúpum hrauna á Þingvöllum rennur mjólk fjallanna, eins og Kjarval kallaði hana, hreint djásn á leið suðvestur og alla leið í Heiðmörk þar sem Gvendarbrunnarnir gefa okkur Reykvíkingum vatn. Vatnið í ofnum okkar eru úr þessu vatnskerfi, líka vatnið í krönunum og þar með vatnið í blóði þínu líka. Þetta dýrmæti Þingvalla eigum við að verja. Verðmæti slíks vatnaundurs verður ekki metið í milljörðum heldur miklu stærri tölum. En þó er aðalgildi þess handan peningamats, það er heilagt og varðar sóma þjóðar, menningar og ráðsmennsku okkar gagnvart náttúrunni. Ef við eyðileggjum vatnskistu Þingvalla höfum við klúðrað ráðsmennsku okkar og splundrað rétti framtíðar-Íslendinga. Kirkjan gegnir ábyrgðarhlutverki í náttúruvernd. Hún getur og má gefa þjóðinni eftir notkun og jafnvel eignarhald ef tryggt verður, að Þingvellir verði varðveittir hreinir og ómengaðir. Því á að takmarka bílaumferð, vegalagningar og byggingu mannvirkja sem gætu leitt til mengunar. Þingvellir eru heilagir ekki síst vegna þess að þeir eru vatnssósa, um þá rennur heilagt vatn!

Hin heilögu vötn Skírn Jesú og Jórdanbaðið – hvernig varðar það Þingvelli, vatnsvernd, blóðið í okkur og hvernig við hegðum okkur? Stefán Karlsson, handritafræðingur, hefur bent á að skírn Jesú hafi á miðöldum verið talin hafa víðtæk áhrif á allan vatnsbúskap heimsins, að náðarkraftur Krists væri að verki í öllum vötnum eftir að hann lét skírast í Jórdan. Stefán nefnir dæmi úr Íslensku hómilíubókinni frá um 1200, Jóns sögu baptista og Guðmundar sögu . Og þar er komin skýring þess að landnámskonan Auður djúpúðga hafi viljað vera grafin í flæðarmáli (sjá hina áhugaverðu grein eftir Stefán Karlsson, “Greftrun Auðar djúpúðgu” sem birtist í afmælisriti til Kristjáns Eldjárns Minjar og menntir , 1976, 481-88). Þetta er merkileg skýring og alveg getur maður skilið, að hún hafi viljað vera lögð til hinstu hvílu í helgum reit, í heilögu vatni. Kannski ættum við að fara að beita okkur fyrir að gerður verði fjörugrafreitur við Ægisíðuna! Það vantar orðið legstað hér í Vesturbænum og uppfylling í Skerjafirði væri góður kostur. En þetta var útúrdúr um hin heilögu vötn!

Trúin og vatnið Líf og atferli Jesú helgar líf trúmannsins og verður okkur hvati. Á miðöldum gátu menn séð í Jórdanskírn Jesú helgun allra heimisins vatna. Jesús helgar allt sem er, gerir það heilagt. Vatnið notum við svo í hinu kirkjulega samhengi skírnarinnar til að helga lífið. Í bikarnum er vatnið helgað þér til blessunar. Í því er helgað vatn og þú mátt því leyfa þér og lífi þínu að blómstra. Af því veröldin er Guðs sköpun, blessuð af Jesú eiga kristnir menn að verja vatn veraldar, vernda og hreinsa. Lífið þarfnast þess. Jesús var skírður -ekki aðeins til að gefa mönnum líf heldur gefa allri veröld líf, vatninu líka.

Amen

Prédikun í Neskirkju 26. febrúar 2006.

Testar sunnudags í föstuinngangi Lexía: Jes . 52.13-15 Sjá, þjónn minn mun giftusamur verða, hann mun verða mikill og veglegur og mjög hátt upp hafinn.

Eins og margir urðu agndofa af skelfingu yfir honum svo afskræmd var ásýnd hans framar en nokkurs manns og mynd hans framar en nokkurs af mannanna sonum eins mun hann vekja undrun margra þjóða, og konungar munu afturlykja munni sínum fyrir honum. Því að þeir munu sjá það, sem þeim hefir aldrei verið frá sagt, og verða þess áskynja, er þeir hafa aldrei heyrt.

Pistill: 1. Pét . 3.18-22 Kristur dó í eitt skipti fyrir öll fyrir syndir, réttlátur fyrir rangláta, til þess að hann gæti leitt yður til Guðs. Hann var deyddur að líkamanum til, en lifandi gjörður í anda. Í andanum fór hann einnig og prédikaði fyrir öndunum í varðhaldi. Þeir höfðu óhlýðnast fyrrum, þegar Guð sýndi langlyndi og beið á dögum Nóa meðan örkin var í smíðum. Í henni frelsuðust fáeinar það er átta sálir í vatni. Með því var skírnin fyrirmynduð, sem nú einnig frelsar yður, hún sem ekki er hreinsun óhreininda á líkamanum, heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists, sem uppstiginn til himna, situr Guði á hægri hönd, en englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.