Hvar eru leiðtogarnir?

Hvar eru leiðtogarnir?

Hvar eru leiðtogarnir, kæru vinir, nú þegar við þurfum mest á þeim að halda? Eru þeir nær en okkur grunar?

Hvar eru leiðtogarnir? Svona spyrja margir í dag. Sá sem hér stendur er meðal þeirra.

Leiðtogar, einhver?

Ég sat frábært námskeið síðustu helgi sem fjallaði um leiðtoga. Sá sem miðlaði þar af áratuga langri þekkingu sinni á þessu sviði gat talið upp leiðtoga í löngum röðum. Sumir þeirra voru vel þekktir, annarra hafði ég aldrei heyrt getið og sjálfsagt enginn hinna heldur sem þarna sat. Eftir að hafa setið og hlýtt á innblásin erindi og frábæra fyrirlestra er ekki laust við að hugurinn spyrji sig að þessu. Hvar eru leiðtogarnir í dag?

Eru þeir í pólitíkinni? Í atvinnulífinu? Í háskólanum? Í félagasamtökum? Eru leiðtogar í kirkjunni? Einhverjir hrista sjálfsagt höfuðið þegar svona er spurt og svara því vondaufir að líklega sé liðin sú tíð þegar öflugir einstaklingar hrifu fjöldann með sér og beindu að settu marki. Við þekkjum mörg dæmi um mikilfenglega leiðtoga. Marteinn Lúther King barðist fyrir baráttu blökkumanna í Bandaríkjunum. Churchill var leiðtogi sem blés kjarki í þjóð sína í kjölfar mikilla ósigra. Gandhi leiddi Indverja til frelsis og Desmont Tutu barðist gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður Afríku. Við Íslendingar eigum skáldin og frelsishetjurnar á 19. öld sem undirbjuggu jarðveginn fyrir frelsi og velsæld.

Skilyrði fyrir leiðtoga

Leiðtogar þrífast best við skilyrðin eru erfið. Þá rísa þeir upp úr mannhafinu. Á hættustundu kemur í ljós hverjir eru þessum gáfum gæddir, í sjávarháska, á vígvellinum, þegar hungrið sverfur að. Þeir birtast líka á íþróttavellinum þegar taugarnar eru þandar og liðið þarf að vinna sem einn maður.

En hvar eru leiðtogarnir sem við þurfum svo mjög á að halda þegar nú á móti blæs, ekki bara hér á landi heldur út um allan heim? Hvers vegna koma þeir ekki upp á yfirborðið núna?

Hungrið sækir að

Við höfðum ekki setið lengi hér í kirkjunni þegar talið barst að leiðtoga, einum þeim frægasta í sögunni reyndar. Þetta var Móses sem leiddi Ísraelsmenn út úr þrældómnum og sýndi allt í senn framsýni, þolgæði og staðfestu á þeirri löngu leið. Aftur var það sama sagan. Aðstæðurnar voru erfiðar, engin von í augsýn og enginn virtist líklegur til þess vinna það verk sem vinna þurfti. Þetta er rétti jarðvegurinn. Já, „þrengingin veitir þolgæði en þolgæði gerir mann fullreyndan.“

Guðspjall dagsins fjallar líka um leiðtoga. Það er eitt af þessum velþekktu. Oftast höfum við lesið það með hugann við Krist sem er þar í meginhlutverki og víst er guðspjallamanninum mikið í mun um að láta í ljós það mikilvæga verk sem Kristur þarna vinnur. Þarna er lýst hungri og illum aðstæðum úti í auðninni – ekki ósvipað því þegar Móses var staddur í eyðimörkinni með ráðvilltan hópinn.

Þetta sér Kristur, en hann mætir þó ekki neyð fólksins í fyrstu. Nei, viðbrögð hans eru þau að spyrja lærisveinana hvað sé til ráða. Þetta er auðvitað mjög áhugavert. Stundum er því haldið fram að það sé kristilegt og sjálfsagt að leggja hendur í skaut þegar á móti blási og láta Guð um að bjarga öllu saman. Frásögn dagsins styður ekki þá túlkun, þvert á móti. Hér horfir Kristur til fylgismanna sinna og spyr: Hvað ætlið þið nú að gera? Boltinn er hjá ykkur. Er einhver í ykkar hópi sem getur mætt þörf þessa fólks?

Kristur leitar leiðtoga

Þessi aðdragandi er merkilegur. Hérna eru mennirnir ekki strengjabrúður almáttugs afls, heldur er ábyrgðin á þeirra höndum. Kristur vill vita hvernig þeir hyggist leiða fólkið úr ógöngum inn í betra ástand. Hver ykkar er slíkur leiðtogi að hann geti breytt aðstæðunum til hins betra?

Frásögnin af því þegar Jesús mettar fjöldann er frásögn af leiðtoga. Því hann birtist sannarlega í sögunni. En leiðtogi þessi er frábrugðinn þessum stóru áhrifaríku mönnum sem við lesum um í sögubókunum – þessi er nafnlaus og andlitslaus. Við vitum ekki annað um hann en að hann er ungur. „Hér er piltur sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska, en hvað er það handa svo mörgum?“ Já, þetta er söguhetjan. Það er þessi ungi piltur sem stígur fram úr fjöldanum og leggur til það litla sem hann hefur fram að færa. Örlítið af fiski og smábrauði – sem ætti þó engan veginn að duga til þess að mæta þessari miklu neyð. Í framhaldinu verður kraftaverkið – fjöldinn fær fyllingu sína og afgangurinn er ríkulegur.

Hvað finnst ykkur um myndina, af hinum óþekkta unga manni sem leiðtoga?

Þjónandi forysta

Sá var einmitt boðskapurinn á því námskeiði sem ég sat síðustu helgi og fjallaði um það sem við köllum, þjónandi forystu. Þar var því haldið fram að hvert og eitt okkar hafi það hlutverk að bæta heiminn. Við gerum það ekki með því að sanka að okkur völdum, auð eða athygli – sem margir tengja jú við leiðtoga, heldur með þjónustu. Með því að þjóna náunganum uppfyllum við hina sönnu köllun okkar í lífinu. Og af því eru orðin þjónandi forysta dregin. Þjónn og leiðtogi – eru það ekki andstæður? Er þetta ekki mótsögn í sjálfu sér?

Nei, það er öðru nær. Leiðtoginn er sá sem kemur miklum breytingum í gegn. Það gerir hann með framlagi sínu, gjöfum og þjónustu. Sagan á mörg dæmi um slíka einstaklinga, nokkrir voru nefndir hér áðan. Kristur er raunar sá fyrsti. Sjálfur lýsti hann leiðtoganum með þessum orðum:

Þið vitið að þeir sem teljast ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar.

Æ, er þetta ekki eitthvað innantómt tal um það að við eigum að afsala okkur öllu því sem er eftirsóknarvert? Getur nokkur farið eftir svona orðum?

Fordæmi?

Hugsum málið aðeins dýpra. Sá sem býður fram þjónustu sína skapar traust og bætir líf þeirra sem hennar njóta. Til þess að geta gefið slíka gjöf þarf hann að hlusta og læra – vita hver þörfin er. Hann skapar ekki sundrungu og valdabaráttu heldur samstöðu. Hann gefur öðrum fordæmi og skapar því fleiri leiðtoga í kringum sig sem skynja það hversu máttug þjónustan er til þess að breyta og bæta.

Já, menn hafa lengi brotið heilann um kraftaverkið mikla þarna í auðninni þegar skyndilega var nóg fæða handa öllum. Var það fordæmi piltsins sem breytti skortinum og gnægð? Komu fleiri í kjölfarið og gáfu með sér – svo að jafnvel afangur varð?

Hver er þá leiðtoginn í sögunni? Er það ekki sá sem steig fyrsta skrefið og lagði fram sitt framlag? Einu gildir þótt við þekkjum ekki nafn hans eða þótt hann hafi ekki öðlast völd og frama. Hann breytti aðstæðunum – lagði sitt fram til Krists og framhaldið þekkjum við.

Hvar eru leiðtogarnir, kæru vinir, nú þegar við þurfum mest á þeim að halda? Eru þeir nær en okkur grunar? Leggjum eyrun við boðskap Krists. Leggjum okkar af mörkum, leggjum það í hendur Krists – hins fyrsta þjónandi leiðtoga, og hver veit nema að okkar litla framlag geti unnið kraftaverk eins og frásögn Guðspjallsins greinir frá.

Guðspjall: Jóh 6.1-15 Eftir þetta fór Jesús yfir um Galíleuvatn eða Tíberíasvatn. Mikill fjöldi manna fylgdi honum því þeir sáu þau tákn er hann gerði á sjúku fólki. Þá fór Jesús upp á fjallið og settist þar niður með lærisveinum sínum. Þetta var laust fyrir páskahátíð Gyðinga. Jesús leit upp og sá að mikill mannfjöldi kom til hans. Hann segir þá við Filippus: „Hvar eigum við að kaupa brauð svo að þessir menn fái mat?“ En þetta sagði hann til að reyna hann því hann vissi sjálfur hvað hann ætlaði að gera. Filippus svaraði honum: „Brauð fyrir tvö hundruð denara nægðu þeim ekki svo að hver fengi lítið eitt.“ Annar lærisveinn hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, segir þá við hann: „Hér er piltur sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska en hvað er það handa svo mörgum?“ Jesús sagði: „Látið fólkið setjast niður.“ Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu. Nú tók Jesús brauðin, gerði þakkir og skipti þeim út til þeirra sem þar sátu og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu. Þegar fólkið var orðið mett segir Jesús við lærisveina sína: „Safnið saman leifunum svo ekkert spillist.“ Þeir söfnuðu þeim saman og fylltu tólf körfur með leifum byggbrauðanna fimm sem af gengu hjá þeim er neytt höfðu. Þegar menn sáu táknið, sem hann gerði, sögðu þeir: „Þessi maður er sannarlega spámaðurinn sem koma skal í heiminn.“ Jesús vissi nú að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gera hann að konungi og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs.