Ilmgrænt haf

Ilmgrænt haf

Gott er að leggjast í lyngið, sjá lauf glóa, finna kvik fjaðurmjúk atlot þess, fagna í fegurð jarðar meðan rauð og lág sólin lækkar og lyngbreiðan er ilmgrænt haf sem ber þig að hljóðri húmströnd og hylur þig gleymsku. Í þessu ljóði Snorra Hjartarsonar lætur skáldið sig berast eftir ilmgrænu hafi lyngbreiðunnar í átt að algleymi og kyrrð.

Gott er að leggjast í lyngið,
sjá lauf glóa, finna kvik
fjaðurmjúk atlot þess, fagna
í fegurð jarðar meðan rauð
og lág sólin lækkar
og lyngbreiðan er ilmgrænt haf
sem ber þig að hljóðri húmströnd
og hylur þig gleymsku.

Í þessu ljóði Snorra Hjartarsonar lætur skáldið sig berast eftir ilmgrænu hafi lyngbreiðunnar í átt að algleymi og kyrrð. Ég hef æft og sungið þetta ljóð ásamt félögum mínum í Kór Neskirkju við lag Steingríms organista Þórhallssonar og tilefni gefist til að hugleiða textann.

Smávinir

Mér dettur í hug hvort ljóðið sé eins konar samtal við Smávini fögru, Jónasar Hallgrímssonar, þar sem foldarskartið, brekkusóley og fífill í haga eru vegsömuð. Í því tilviki hefur skáldið augu sín til himins og þakkar föður og vini alls sem er fyrir gjafir jarðar. Snorri leggst í lyngið og hann talar inn í róstursama tíð sinnar aldar, þar sem gnýrinn verður sífellt meiri og vonir hafa beðið skipbrot. Sjónarhornið hans færist ekki upp til hins máttuga skapara heldur inn í hugskot hans sjálfs, sem leitar griða í ólgusjó og ölduróti þeirrar aldar og þráir sálarfrið.

Já, ætli hvor þeirra tali ekki fyrir sína tíma þar sem þeir krjúpa niður, láta hendur leika um svörðinn og skynja þau undur sem mæta okkur í harðgerum heimskautagróðri. Svo þegar sjónarhornið víkkar út, birtist okkur mögulega sú hugsun rómantíska fjölfræðingsins að máttugur andi leiði söguna áfram að farsælum lyktum. Eða við deilum sýn hins örþreytta manns atómaldar og kaldastríðs, sem óskar þess að fá að hverfa á vit húms og gleymsku.

Uppskera og uppvöxtur eru stef þessarar messu og við erum eins og skáldin með hugann við jarðargróðurinn. Svo er það spurning hvert við í framhaldi beinum sjónum okkar. Horfum við upp í himinhvolfin eða inn í hjarta mannsins? Í sannleika sagt þá er kristin trú svo víðfem og yfirgripsmikil að hún rúmar hvort tveggja. Þegar við lesum trúarjátninguna, þá sem kennd er við postulana, hefst hún á þeirri afstöðu að Guð faðir hafi skapað himin og jörð. Það er raunar ekki lítil yfirlýsing.

Himinn og jörð

Á þeim tíma sem texti þessi leit dagsins ljós – um miðja fyrstu öld væntanlega – þá stóðu deilur einmitt um það síðara. Hver er afstaða mannsins til jarðarinnar? Margir trúarhópar hölluðust að því að tilgangurinn væri að hefja sig upp yfir það sem er forgengilegt og af þessum heimi, moldin og jarðvegurinn voru tákn um hið ófullkomna og takmarkaða. Markmiðin lægju í því að vera óháður öllu slíku og hópar sem kenndir voru við gnóstisma túlkuðu guðspjöllin á þá leið að með lífi sínu hefði Jesús frelsað manninn frá hinu jarðneska.

Skapari efnisheimsins hlyti af hafa verið illur og við ættum að hafna verkum hans. Postularnir, fylgjendur Krists, andmæltu þeirri hugsun. Þeir tóku af öll tvímæli um afstöðu sína er þeir tilgreindu að góður Guð væri líka skapari jarðar. Þetta er í raun rammpólitísk yfirlýsing þar sem gengið er út frá því að þrátt fyrir allar þrautir og grimmd sem mæta okkur í þessum heimi – þá sé hann í kjarna sínum, já, góð sköpun Guðs. Af þessari hugsun sprettur svo margt af því sem við mætir okkur hér í helgidómnum, þar er einhver jarðbundin afstaða til heims og lífs.

Kristin trú er líka nátengd uppskeru og uppvexti. Rætur hennar liggja í þeim heimshluta þar sem fólk fór fyrst að stunda landbúnað og við sjáum merki þess víða í Biblíunni. Það var víst ekki eplatré sem þau Adam og Eva neyttu af – heldur fíkjutré og þau huldu nekt sína með laufum þess eftir að augu þeirra opnuðust. Fíkjutré voru með því fyrsta sem fólk tók að rækta á þessu svæði og það var reyndar gjarnan tekið sem tákn fyrir Ísraelsþjóð. Afurðir landbúnaðar birtast okkur víða í orðalagi kirkjunnar og helgihaldi. Orðið„Kristur“ eða„messías“ merkir„hinn smurði“ – en ólífuolíu dreypt á höfuð konunga. Við altarisgöngur bjóðum við upp á brauð og vín, annað úr hveiti og hitt úr ávexti vínviðarins. Hvort tveggja er unnið eftir kúnstarinnar reglum – gerjunin er á erlendum málum kölluð kultur – sama orð yfir menningu, sem merkir í raun vöxtur – agrikultur er þar skammt undan. Kirkjan er samkvæmt því hálfgert gróðurhús og fermingarbörnin er fljót að giska á það fyrir hvað græni liturinn stendur hér á hökli og altarisklæðum. Hann er eins og grasið, nú eða ilmgrænt lyngið. Hann stendur fyrir kúltur – vöxt í sinni víðustu merkingu.

Þar erum við hvött til að taka ávexti jarðar okkur til fyrirmyndar. Eins og skáldin sem samlagast náttúrunni getum við rennt fingri eftir gróðursverðinum og hugleitt að allt það sem lifir, stefnir að sama marki – að vaxa, þroskast og hjálpa til að aðrir geti náð því marki einnig. Já, vöxtur í skilningi Krists er ekki stjórnlaus órækt illgresis, sem kæfir allt í kringum sig heldur hinn sanni gróandi sem miðar að því að allt annað gott, fái einnig dafnað og blómstrað. Já, slíkur gróandi er ólíkur þeirri valdafíkn sem birtist okkur nánast hvert sem litið er þessi dægrin. Sú fíkn rænir fólk samhygð og umhyggju og leiðir það út í hömlulaus ásókn í frekari völd og auð.

Grænt

Á þetta erum við minnt velflesta sunnudaga ársins sem skarta þessum græna lit. Og svo þegar ósköpin dynja yfir, þegar allt umsteypist um sjálft sig, hrynur niður í dýpið eins og átti sér stað hér á Íslandi fyrir áratug, þá er alltaf sú von að í því leynist upphaf að nýrri sköpun. Margur lítur til baka einmitt með þá hugsun að hörmungarnar hafi verið óhjákvæmilegar og í umrótinu sem þeim fylgdi hafi risið upp samfélag sem byggði á öðrum grunni og öðrum forsendum. Og þrátt fyrir að uppvöxturinn hafi um margt verið ólíkur því sem vonir stóðu til – lifir enn vonin um réttlátara og betra samfélag. Sú von varir meðan fólk elur í brjósti sér sýn á það hvernig við látum kærleikann ráða för í lífi okkar og lítur ekki á tilveruna sem vígvöll þar sem einn hlýtur að falla ef annar á að dafna. Nei, hún á að vera líkari aldingarði þar sem fjölbreytnin ríkir og allt vinnur að því að viðhalda lífi og litum.

Það er heldur ekki lítið undur þegar jarðræktendur þrýsta spíruðu útsæði í moldina og sækja svo í hana margfaldan gróða að hausti ef allt er með felldu. Sitthvað þarf að hverfa niður í djúpið til að við getum uppskorið. Þegar Páll postuli talar um upprisuna tekur hann einmitt þessa samlíkingu. „Fræ í frosti sefur“, sungum við hér í upphafi sem vísar í sömu hugsun. En upprisa og uppvöxtur í þeim skilningi er þó ekki síður uppreisn einstaklinga og samfélaga frá lægingu og óförum.

Afturhvarf

Textar þessa sunnudags lýsa einmitt slíku afturhvarfi: „Snúið við, hverfið frá öllum afbrotum ykkar svo að þau verði ykkur ekki að falli. Varpið frá ykkur öllum þeim afbrotum sem þið hafið framið.“ Svo talar spámaðurinn Esekíel fyrir hönd Drottins. Það er eins og þar birtist okkur takmarkalaus trú á manninn, rétt eins og postularnir minntu á að heimurinn væri þrátt fyrir allt góð sköpun Guðs, þá býr í hverju okkar guðlegur neisti umhyggju og kærleika. „Afklæðast hinum gamla manni“ segir Páll, „endurnýist“ segir hann í hvatningu sinni sem er af sama meiði sprottin. Guðspjallstextinn um hinn lamaða mann sem fékk mátt og stóð upp, hefur löngum verið túlkaður út frá sömu forsendum. Þar er ekki einstakt atvik heldur lýsing á því hvernig manneskjan getur vaxið og haldið áfram á braut sinni í leit að Guði.

Uppvöxtur og gróði er eitt af einkennum haustsins. Það er jú eitthvert réttlæti sem býr þar að baki. Þar uppsker hver sem hann eða hún sáir. Og sannarlega getum við sett okkur í spor skáldanna sem fylltust lotningu yfir lágvöxnum gróðrinum og létu hann leiða sig yfir á æðra stig tilvistar. Það gat verið tilbeiðsla hins algóða föður og vinar alls sem er. Nú eða vitundarstig þar sem áreiti heimsins þagnaði og rósemd færðist yfir sálina. Hvort tveggja finnum við í heilagri ritningu þar sem skapari himins og jarðar talar til okkar á leið okkar í gegnum lífið.

Hér að messu lokinni gæðum við okkur á veislukrásum: salati úr moldu Tómasar og Bjarkar, súpu úr aldingarði organistans, sem matreidd hefur verið af mikilli list. Og nú hlýðum við á sönginn um ilmgrænt lyngið, glóandi laufin og húmströnd gleymskunnar.