U-beygja lífsins og hagvöxtur elskunnar

U-beygja lífsins og hagvöxtur elskunnar

U-beygja illskunnar, vöxtur elskunnar og endaleysa fyrirgefningarinnar. Þetta eru stef þeirra ritningartexta sem liggja til grundvallar íhugun okkar hér í dag. Styrkur kristinnar trúar liggur meðal annars í því að grunngildi hennar eru varðveitt í hrífandi sögum en ekki í kenningum eða heimspekilegum og siðfræðilegum formúlum. . .
fullname - andlitsmynd Örn Bárður Jónsson
12. nóvember 2006
Flokkar

U-beygja illskunnar, vöxtur elskunnar og endaleysa fyrirgefningarinnar. Þetta eru stef þeirra ritningartexta sem liggja til grundvallar íhugun okkar hér í dag.

Styrkur kristinnar trúar liggur meðal annars í því að grunngildi hennar eru varðveitt í hrífandi sögum en ekki í kenningum eða heimspekilegum og siðfræðilegum formúlum. Sögur Gamla testamentisins um persónur eins og Jósef og bræður hans lifa í menningunni meðan þeim er haldið við og þær fluttar frá einni kynslóð til annarrar. Í þrjú til fjögurþúsund ár hafa þessar sögur lifað með stórum hluta mannkyns, sögur með djúpa siðferðilega skírskotun, sögur sem lifa í undirmeðvitund fólks og mynda þar grunn sem hefur áhrif á hegðun og afstöðuna til náungans og alls sem er. Sagan um Jósef og bræður hans er hrífandi saga um öfund og svik, um það hvernig Guð snýr illu til góðs, fær menn til að taka u-beygju og snúa frá villu síns vegar og inn á veg elsku. Lesa má þessa mögnuðu sögu í I. Mósebók 37. kafla og næstu köflum á eftir og reyndar á undan líka. Rifjum upp þessa sögu með því að lesa alla I. Mósebók. Umrædd u-beygja heitir á máli Biblíunnar, iðrun. Iðrun merkir að snúa við, snúa frá villu og til þess sem rétt er. Sagan um Týnda soninn er eitt sterkasta dæmi úr sagnaarfi veraldar um viðsnúning frá villu til visku, frá böli til blessunar.

Kristur þekkti þennan sagnaarf. Gamla testamentið var Biblía hans. Þangað sótti hann allt sem hann ræddi við sína samtíð. Hann studdi eitt og hafnaði öðru er hann túlkaði allan sagnaarf Gyðinga með elskuna að verkfæri. Og þegar elskunni er beitt þá verður svo margt í þessari merku bók að engu, skiptir ekki lengur máli, nema þá sem upplýsingar um gamlan og úreltan skilning fólks á eðli Guðs og athöfnum hans. Biblían er rituð af fjölda höfunda og á mörgum öldum. Í henni má greina þróun hugmynda manna um Guð og eðli hans. Hún datt ekki fullsköpuð af himnum og hana ber ekki að lesa eða skilja bókstaflega. Hún er að mörgu leyti barn síns tíma. En í henni er um leið efni sem aldrei verður úrelt, er barn hvers tíma, síungt og ferskt, kemur stöðugt á óvart, fær mann til að gapa af undrun, glenna upp augun og leiðir gleðistraum um líkama og sál.

Biblían er undursamleg bók, bók sem mannkyn verður að varðveita og leitast við að skilja til hlítar. Hún er í reynd mjög einföld bók og í henni er í raun einn megin þráður, sem er merkilegt að uppgötva, því hún var eins og fyrr var sagt, rituð af mörgum höfundum. Hvernig gátu þessir ólíku höfundar á ólíkum tíma sem ekki vissu af hver öðrum, ritað eina bók sem er sundurleit en myndar þó eina samfellda sögu? Þessi saga hefur þessi þrjú meginstef að viðfangsefni: Sköpun, fall og endurlausn. Hún tjáir að allt eigi sér uppruna í Guði, að heimurinn hafi verið heill, hafi vikið af leið, en eigi þrátt fyrir allt möguleika á að snúa við, frá falli til frelsunar, frá illu til góðs. Saga veraldar er saga sáttargjörðar, saga Týnda sonarins, saga Jósefs og bræðra hans, saga mín og þín. Við erum bræður Jósefs, við erum Týndi sonurinn. Og saga Adams og Evu er líka saga okkar. Biblían er um okkur, um fallið fólk og Frelsara, um synduga menn og Guð.

En hvernig stendur þá á því að heimurinn er enn svo skammt á veg kominn í list sáttfýsi og sáttargjörðar? Hvernig stendur til að mynda á því að enn er barist fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem er vagga þeirrar menningar sem sem rís hvað hæst í veröldinni? Og hvernig þróast heimurinn ef þessi sagnaarfur, sem hér er til umræðu, týnist í síbylju og endalausum fíflalátum samtímans? Geta komandi kynslóðir byggt líf sitt og siðvit á sögum um Tomma og Jenna, Mikka mús, Homer Simpson og Lukku-Láka?

Hvað verður um verðbréfasjóð viskunnar sem býr í kristnum trúararfi? Hvar verður Evrópa á vegi stödd eftir hundrað ár? Hvað verður þá orðið um íslenska þjóð með sinn trúar- og menningararf?

Í dag er hinn árlegi kristniboðsdagur. Íslendingar hafa um áratuga skeið stundað kristniboð í fjarlægum löndum, einkum í Afríku og orðið vel ágengt. Starf þeirra hefur breytt hugmyndafræði og menningu heilla þjóðflokka, kennt þúsundum manna að meta boðskap Krists, kennt þeim að taka upp aðferð sáttargjörðar í stað hefndar svo dæmi sé tekið. Um leið hafa kristniboðar unnið stórvirki innan margra menningarsvæða á sviði ritmálssköpunar og varðveislu menningar. Sama gerðist hér í kjölfar kristnitökunnar. Bókmenning var til og sagnaritun sömuleiðis. Og merkilegt er að það sem við vitum nú um hinn forna átrúnað sumra fornmanna hér á landi, ásatrúna, var varðveitt af kristnum sagnariturum. Þeir voru það víðsýnir og vitrir að þeir varðveittu arfinn, skráðu niður hina deyjandi hugmyndafræði, sem ekki megnaði að standa gegn vinsældum elskunnar í boðskap hins Hvíta Krists.

Kristniboð er ekki eitthvert verkefni sem stundað er á afmörkuðum stöðum í Afríku. Kristniboð fer fram hér í dag, í helgum textum sem lesnir voru, í tónlist og sálmasöng, í orðum prédikunarinnar, í bænum og tilbeiðslu, í brauði og víni. Í öllu þessu er Guð að styrkja okkur til góðra verka, til að lifa eftir boðskap hans og miðla honum til samtíðar og komandi kynslóða. Þegar við biðjum með börnum okkar og barnabörnum, þegar við lesum fyrir þau úr barnabiblíunni um Jósef og bræður hans, um Nóa og flóðið, um Davíð og Golíat, svo dæmi séu tekin úr Gamla testamentinu og úr því Nýja, sögur af samskiptum Jesú og lærisveina hans og síðast en ekki síst dæmisögur Jesú og kærleiksboðskap, þá erum við að boða kristna trú og viðhalda starfi heilagrar kirkju. Í öllu þessu erum við kristniboðar, prestar, erindrekar sáttargjörðarinnar, sendiboðar elskunnar og fréttamenn hinna mestu tíðinda allra tíma um að Guð hafi í Kristi sætt heiminn við sig.

Kristniboð í fjarlægum löndum er mikilvægt en það er ekki síður mikilvægt hér á landi og í Evrópu sem verið hefur vígi kristinnar kirkju um aldir en er nú í óða önn að kasta trúnni eða kólna í afstöðu sinni vegna þess að afstæðishyggjan tröllríður öllu. Kristniboði lýkur aldrei meðan mannkynið byggir þessa jörð. Við þurfum vitundarvakningu á meðal kristinna manna hér og í Evrópu og sú vakning mun leiða af sér aukið kristniboð vegna þess að kristniboð verður aðeins stundað af lifandi kirkju sem er brennandi í andanum.

Saga og samtíð minna á mikilvægi þess að boðskapur sáttargjörðar og elsku heyrist sem víðast. Hernaður og hermdarverk í heiminum í dag minna rækilega á mikilvægi þess að hin gömlu gildi um hefnd víki fyrir fyrirgefandi elsku. Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn vísa til úreltra viðhorfa, löngu horfins lögmáls haturs og hefnda. Og nú þegar prófkjör standa yfir og alþingiskosningar eru á næsta leyti er mikil þörf á að við minnum allt það góða fólk, sem bíður fram krafta sína til þjónustu í þjóðfélaginu, á að efla elskuna og hækka gengi hennar eins og hægt er. Ég hef undrast afstöðu margra frambjóðenda sem spurðir hafa verið um afstöðuna til innrásarinnar í Írak og segja hana hafa verið rétta ákvörðun á sínum tíma. Ég spyr í því sambandi: Hver mundi afstaða þeirra vera ef þeim væri gert að skoða málið í ljósi grunngilda kristinnar trúar? Ég furða mig á afstöðu margra í þessum efnum. Páll postuli segir í pistli dagsins:

„Og þetta bið ég um, að elska yðar aukist enn þá meir og meir að þekkingu og allri dómgreind, svo að þér getið metið þá hluti rétt sem máli skipta . . . “

Við þurfum að heyra Guðs orð, við þurfum að sækja kirkju til að viðhalda siðferði okkar og samfélagi við Guð. Kristin trú lifir ekki í tómarúmi. Hún er ekki einkamál. Hún er samfélagsleg trú sem byggir á samfélagi Guðs og manns í helgihaldi og samfélagi við aðra sem leita sér uppbyggingar í trúnni. Við þurfum að efla kirkjusókn og fá fleiri með okkur til kirkju. Minnið frambjóðendur á mikilvægi þess að rækta trúna og þar með að styrkja siðagrundvöllinn. Hvar eru alþingismennirnir sem tilheyra kirkjunni? Ég skora á ykkur að minna frambjóðendur á þessa frumskyldu allra kristinna manna sem er að sækja kirkju reglulega og tilbiðja Guð og þakka þar gjafir hans og gæsku alla.

Starfið í Neskirkju er ávöxtur kristniboðs og starfið hér nýtur blessunar Guðs. Hér er margt gott að gerast. Starfið er fjölbreytt og öflugt en það verður ekki svo nema við leggjum stund á bæn og tilbeiðslu, helgihald, kærleiksþjónustu og fræðslu. Neskirkja nýtur þeirrar blessunar að geta rekið um 90 söfnuði, 90 kirkjur í Afríku og hefur gert það í 2 ár. Ákveðið var að styrkja þetta starf í 5 ár með milljón króna framlagi árlega. Kirkja sem ekki stundar kristniboð stendur vart undir nafni og kristinn maður sem ekki styður boðun og útbreiðslu kristninnar í heiminum gerir það vart heldur. Undir sálminum eftir prédikun verða tekin samskot til styrktar Sambandi íslenskra kristniboðsfélaga. Ef þið eruð ekki með peninga á ykkur getið þið sem hafið greiðslukort farið í kaffiafgreiðsluna að messu lokinni og lagt fram styrktarfé ykkar þar.

Framlag okkar, hvort sem það er í fjármunum eða vinnuframlagi, í bæn og umhyggju fyrir öðrum, stuðlar að því að sagnaarfur kristinnar kirkju lifi áfram með þessari þjóð og fjarlægar þjóðir fái einnig að njóta þeirrar blessunar sem fólgin er í heilbrigðri trú sem starfar í elsku og fyrirgefningu, ekki takmarkaðri fyrirgefningu, heldur þeirri sem Jesús kenndi og setti í talnasamhengi er hann sagði að við ættum ekki aðeins að fyrirgefa sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö sem vísar til óendanlegrar fyrirgefningar. Þannig hugsar Guð. Allt sem hann gerir gott er yfirfljótandi og ótakmarkað. En gleymum því ekki að bænin Faðir vor minnir okkur rækilega á að fyrirgefning Guðs er háð vilja okkar sjálfra til að lifa fyrirgefandi lífi. „Fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.“

Temjum okkur hugarfar himinsins og elsku eilífðar og við munum njóta yfirfljótandi blessunar.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.