Ferns konar merking Biblíunnar

Ferns konar merking Biblíunnar

Varðandi hinn siðferðislega boðskap gætum við bent á fyrirmynd Jesú, að hann leitar ekki síns eigin heiðurs: hann upphefur ekki sjálfan sig, heldur Föðurinn sem sendi hann með sannleikann inn í heim sem er fullur af rangfærslum og undanskotum, heim sem er uppfullur af sjálfum sér og eigin upphafningu.

Jesús svaraði (Gyðingunum): Ef Guð væri faðir yðar munduð þér elska mig því að frá Guði er ég út genginn og kominn. Ekki hef ég sent mig sjálfur. Það er hann sem sendi mig. Hví skiljið þér ekki mál mitt? Af því að þér getið ekki hlustað á orð mitt. Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gera það sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og hefur aldrei þekkt sannleikann því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu því hann er lygari og lyginnar faðir. En af því að ég segi sannleikann trúið þér mér ekki. Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki? Sá sem er af Guði, heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki vegna þess að þér eruð ekki af Guði. Þeir svöruðu honum: Er það ekki rétt sem við segjum að þú sért Samverji og hafir illan anda? Jesús ansaði: Ekki hef ég illan anda. Ég heiðra föður minn en þér smánið mig. Ég leita ekki míns heiðurs. Sá er til sem leitar hans og dæmir. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð, skal aldrei að eilífu deyja. Jóh 8.42-51

Í textum dagsins er bæði áminning og hvatning. Boðorðin (2Mós 20.1-17) minna okkur á að skoða breytni okkar, pistillinn (Op Jóh 2.8-11) gefur sýn inn veruleikann handan erfiðleikum lífsins og í guðspjallinu talar Jesús skýrt um hver hann er og hver við erum í Guði.

Til lærdóms, áminningar og huggunar Í útgöngubæninni, sem áður var flutt við lok hverrar guðsþjónustu er talað um ávöxt orðsins sem lesið er og prédikað:

Drottinn, ég þakka þér fyrir það að þú hefur leyft mér að taka þátt í sameiginlegri guðsþjónustu safnaðarins og þannig minnt mig á hverju ég á að trúa, hvernig ég á að breyta og hvers ég má vona.

Það er þetta sem guðsþjónustan á að miðla okkur með orð Guðs, heilaga ritningu að uppsprettu: · hverju ég á að trúa, · hvernig ég á að breyta og · hvers ég má vona.

Í Biblíunni heyrum við Guð tala okkur til „lærdóms, áminningar, huggunar“ (Hallgrímur Pétursson). Biblían hefur löngum verið lesin með ferns konar merkingu í huga. Í fyrsta lagi hina bókstaflegu (littera) sem greina má með aðferðum málvísinda og samtímasögu textans. Í öðru lagi er hin andlega, trúarlega merking (allegoria). Í þriðja lagi ber biblíutexinn okkur siðferðilega brýningu (moralis) og í fjórða lagi er hann boðberi vonar og huggunar (anagogia).

Allt þetta má sem fyrr segir greina í ritningarlestrum dagsins, breytnin, áminningin, í lexíunni, vonin og huggunin í pistlinum og lærdómurinn, kennsla trúarinnar í guðspjallinu. Hvern og einn þessara texta má einnig lesa á margvíslegan máta. Þannig geta boðorðin verið merk heimild um menningarsögulegt skeið. Þau eru líka vonarríkur boðskapur, sbr. fjórða boðorðið, sem Páll postuli nefnir hið fyrsta boðorð með fyrirheiti (Ef 6.2). Loks er þar einnig að finna mikilsverðan trúarlærdóm, t.d. um frumkvæði Guðs, sem leiðir fólk sitt út fjötrum: „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig”.

Bréfið til safnaðarins í Smyrnu Pistilinn má einnig greina út frá hinni fjórföldu merkingu. Þó Opinberunarbók Jóhannesar verði best greind með hinni allegórísku túlkunarhefð byggir hún eins og aðrar bækur Biblíunnar á ákveðnum staðbundnum veruleika á ákveðnum tíma. Sá kafli sem valinn hefur verið til lesturs á þriðja sunnudegi í föstu er bréf til safnaðarins í Smyrnu, en það er annað bréfið í röð sjö sem birt eru í upphafsköflum Opinberunarbókarinnar.

Smyrna, nú Izmir í Tyrklandi, var mikil borg sem þjónaði einni aðalverslunarleið Asíu á sínum tíma. Borgin var rómuð fyrir fegurð sína og glæsilegar byggingar. Ein þeirra var musteri til dýrðar Tiberíusi keisara, en keisaradýrkun var lögboðin í rómverska ríkinu á þessum tíma. Hér í Opinberunarbókinni er eini staðurinn í Nýja testamentinu sem Smyrna er nefnd (sjá Op Jóh 2.8.-11).

Í safnaðarbréfunum sjö er það Jesús Kristur sjálfur sem talar: Þetta segir sá fyrsti og síðasti, sá sem dó og varð aftur lifandi. Hann uppörvar söfnuðinn í Smyrnu, sem sé auðugur í hinu andlega, þrátt fyrir ytri þrengingu og fátækt og smánaryrði þeirra sem þykjast vera eitthvað annað en þeir eru. Þá er sagt fyrir um ofsóknir, en þær voru staðreynd í lífi hinna fyrstu kristnu safnaða, sem neituðu að beygja sig undir kvöð keisaradýrkunarinnar.

Gagnvart öllu þessu, þrengingum, fátækt, hrakyrðum og ofsóknum standa orð frelsarans, áminnandi og uppörvandi í senn, orðin sem mörg okkar fengum við ferminguna okkar:

Vertu trúr allt til dauða og ég mun gefa þér kórónu lífsins.

Ef Guð væri faðir yðar... Í guðspjallinu er Jesús óvenju harðorður. Við verðum að átta okkur á því við hverja hann er að tala, skoða bókstafinn, áður en við getum greint hina andlegu merkingu. Það er merkilegt að viðmælendur Jesú hér í 8. kafla Jóhannesarguðspjalls eru meðal annars Gyðingar sem tekið höfðu trú á hann (v. 31), en framar í kaflanum eru það farísear sem Jesús beinir orðum sínum til.

Þessum Gyðingum – sem tekið höfðu trú á hann – vildi Jesús kenna að vera sannir lærisveinar, að fara eftir því sem hann segir (v. 32), enda tali hann það sem hann hafi séð hjá föður sínum (v. 38). Af umræðunni eins og hún er orðin aftar í kaflanum, hvaðan guðspjall dagsins er tekið, sést að þessir Gyðingar áttu erfitt með skilja að Jesús væri kominn frá Guði. Trú þeirra risti sem sagt ekki dýpra en þetta og því talaði Jesús skýrt og skorinort við þá til að kalla fram viðbrögð.

Trúarlærdómur guðspjallsins er fyrst og fremst þessi, að Jesús Kristur er frá Guði út genginn og kominn. Í einni af játningum kirkjunnar okkar, Aþanasíusarjátningunni, er þetta orðað svona:

Sonurinn er ekki gerður og ekki skapaður, heldur fæddur af Föðurnum einum.

Ekki hef ég sent mig sjálfur, segir Jesús. Það er hann sem sendi mig. Jesús Kristur kom ekki í heiminn fyrir sjálfan sig. Lífsköllun hans grundar ekki í hans eigin ágæti, visku eða dyggðum, heldur þeirri staðreynd trúarinnar að hann er fulltrúi Guðs, sonur Guðs inn í aðstæður manna. Í rökræðum sínum við Gyðingana var hann ekki að verja sjálfan sig heldur sýna þeim Föðurinn. Þetta var þeim fyrirmunað að skilja.

Út frá þessu samtali Jesú og Gyðinganna um uppruna hans, sannleikann og skilning þeirra á orðum Jesú/Guðs er mjög athyglisvert að skoða hvaða forsendur eru fyrir því að skilja Guðs orð. Þær eru fyrst og síðast að vera barn Guðs og elska Jesú, þann sem hann sendi (v. 42), trúa því að hann segi sannleikann (v. 45-46) og vera af Guði (v. 47). Þá heyrum við Guðs orð. Hver sem eyra hefur hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum (Op Jóh 2.11).

Aldrei að eilífu deyja Þetta var svolítið um hinn bókstaflega og andlega veruleika guðspjallsins. Hver er þá siðferðilega merkingin – og hin huggunarríka? Varðandi hinn siðferðislega boðskap gætum við bent á fyrirmynd Jesú, að hann leitar ekki síns eigin heiðurs: hann upphefur ekki sjálfan sig, heldur Föðurinn sem sendi hann með sannleikann inn í heim sem er fullur af rangfærslum og undanskotum, heim sem er uppfullur af sjálfum sér og eigin upphafningu. Áminningin er að við eigum ekki að vera eins og þessi hópur Gyðinga sem hafði tekið trú á Jesú – og þó ekki, þar sem þeir afneituðu honum og voru tilbúnir að grýta hann (Jóh 8.59) um leið og hann leiddi þá í sannleikann um hina sönnu auðmýkt, sem ávallt gefur Guði dýrðina.

Huggunarboðskapur guðspjallsins er kannski ekki augljós við fyrstu sýn þar sem lýsing Jesú á andhverfu kærleika Guðs og sannleika kann að stuða okkar viðkvæma eyra. Við viljum helst ekki heyra orð eins og djöfull, manndrápari, lygari og lyginnar faðir.

En vonin og huggunin er þó aldrei langt undan. Með Jesú eigum við barnaréttinn, réttinn til að kalla Guð föður okkar (sbr. Róm 8.14-17), í elskunni til Jesú erum við af Guði og njótum þeirrar náðar að heyra það sem Guð vill við okkur tala í orði sínu, Biblíunni. Og vegna þess að Sonurinn eini (sbr. Jóh 1.14 og 17) gekk út af Föðurnum inn í okkar kjör eigum við heimvonina með honum:

Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð skal aldrei að eilífu deyja (Jóh 8.51).

Hinn blákaldi veruleiki og Hjálparstarf kirkjunnar Lífið eins og það kemur af kúnni á sér líka ýmsar merkingar. Hinn blákaldi veruleiki sí stækkandi hóps Íslendinga er að þurfa að leita á náðir líknarstofnana til að hafa í sig og á. Þannig hefur verið aukning hjá umsóknum til Hjálparstarfs kirkjunnar um mörg hundruð prósent síðasta mánuðinn. Við sem erum aflögufær getum yfirfært fjármuni inn í þennan veruleika, þó ekki væri nema hundraðkall á mann, eins og Hjálparstarfið og Rauði kross Íslands munu hvetja okkur til á næstu dögum.

Við það að hjálpa öðrum ljáum við lífi okkar andlega dýpt – að maður tali nú ekki um þá siðferðilegu ábyrgð sem við berum á lífi samferðafólksins. Hvert okkar sem er gæti verið í þungum sporum þiggjandans, hvenær sem er, og þó svo væri ekki knýr okkur sá kærleiksríki Guð sem hafði frumkvæðið að því að kalla okkur út úr þrælahúsi sjálfshyggjunnar. Og vonin heim? Víst kaupum við okkur ekki himnavist með góðverkum, en orðin í bréfi Jakobs eru stórkostlega vanmetin: Trúin er dauð án verkanna (sbr. Jak 2.14-26).

Lifum því Guði og lifum hvert öðru – og látum okkar af hendi rakna.

Ó, lækna, Jesú, líf mitt allt, ó, lát það vermast, sem er kalt, það vökva fá, sem visna fer, það verða hreint, sem flekkað er, það auðgast, sem er aumt og snautt, það endurlifna, sem er dautt.