Haustlitir

Haustlitir

Þeir hafa verið fallegir haustlitirnir heima í Laufási síðustu vikurnar, og viss er ég um að sérhver sem gefur sér tíma til að virða fyrir sér ævikvöld laufblaða og stráa, hann lyftir hug til hæða og lofar Skapar himins og jarðar. En ekki ná allir að vera jafn snortnir af náttúrunni og fegurð hennar, því þungur niður hryðjuverka og hrollvekjandi myndir af tortímingu leggjast sem reykský yfir sálartetrið.

Þá kom til hans fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann, að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: Hvert er æðst allra boðorða? Jesús svaraði: Æðst er þetta: Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira. Fræðimaðurinn sagði þá við hann: Rétt er það, meistari, satt sagðir þú, að einn er hann og enginn er annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira. Jesús sá, að hann svaraði viturlega, og sagði við hann: Þú ert ekki fjarri Guðs ríki. Og enginn þorði framar að spyrja hann. Mark. 12: 28 - 34

Við skulum biðja: Vertu Guð faðir í verki með oss, vak í oss, heilagi andi. Láttu, Guðs sonur, þinn signaða kross sigra í myrkranna landi. Verm þínum kærleika kalinn svörð, kom þú og tak þér allt vald á jörð. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Þeir hafa verið fallegir haustlitirnir heima í Laufási síðustu vikurnar, og viss er ég um að sérhver sem gefur sér tíma til að virða fyrir sér ævikvöld laufblaða og stráa, hann lyftir hug til hæða og lofar Skapar himins og jarðar. En ekki ná allir að vera jafn snortnir af náttúrunni og fegurð hennar, því þungur niður hryðjuverka og hrollvekjandi myndir af tortímingu leggjast sem reykský yfir sálartetrið.

En hvers vegna hörfar gefandi sýn haustlita á Íslandi undan dauðansdjúpri alvöru í fjarlægum löndum? Getum við ekki setið sæl og sátt á okkar fjarstadda landi,- notið haustlitanna og látíð okkur nægja að elska náungann í næsta garði, og góðan Guð sem gefur okkur ólýsanlega fegurð í sköpun sinni? Hvers vegna að láta hugsunina og tilfinninguna æða heimsálfa í milli og finna til með einhverju bláókunnugu fólki? Er ekki tilfinningasemin og viðkvæmnin farin að gerast nokkuð víðförul, þegar miðaldra prófastur norður í landi á Íslandi fellir tár þótt hryðjuverkamenn hafi deytt 6 til 7 þúsund manns í Bandaríkjunum?

Maðurinn er ótrúleg sköpun, - mikil Guðsgjöf, og í hvert skipti sem maður lítur augum nýfætt barn, dáist maður að mikilleik sköpunar Guðs. Og að skynja það af reynslu áranna að þessi ný einstaklingur á sennilega eftir að þroskast að visku og vexti hjá Guði og mönnum, og hann á eftir að hlæja af gleði og gráta af sorg,- elska af innilegri væntumþykju og syrgja af einlægum kærleika.

Og bæn stígur frá brjósti foreldra og ástvina um fögur fyrirheit, að líf þessa litla barns gangi fram í friði og frelsi.

Foreldrar allra barna bera miklar væntingar í brjósti, að sérhvert barn vaxi og dafni, sér og öðrum til gleði og blessunar og Guði til dýrðar.

En við vitum það öll, að vegir þessa mannlífs liggja ekki bara beinir og sléttir,- og í upphafi 21. aldar, sem alltaf áður, má vel ætla að lífsvegur margra liggi því miður um vegleysur og vonda færð, og væntingar foreldra um gæfu og gleði renna út í sandinn.

Það skyldi ekki vera, að foreldrar glæpamannanna sem unnu hryðjuverkið 11. september s.l. hafi átt þá von og bæn í brjósti sér, þegar þessir ógæfumenn voru börn, að athafnir þeirra yrðu góðverk, en ekki glæpur í fyllingu tímans.

Og vafalaust hefur einhver móðurást og föðurkærleikur ríkt yfir vöggum þeirra flestra. En uppskera þeirrar sáningar varð illgresi eitt. Hvernig getur illgresi vaxið af fræi ástar og umhyggju? Eða nutu þessir hryðjuverkamenn aldrei neins sem kallast kærleikur? Voru þeir aldrei umvafðir móðurörmum?

Vegur óguðlegra endar í vegleysu segir í 1. Davíðssálmi, og Jerimía spámaður vill vísa til vegar og segir: "Nemið staðar við veginn og gefið gaum að gömlu götunum, hver sé hamingjuleiðin".

Þeir eru margir hugsuðirnir og mannvinirnir í gegnum aldirnar í öllum menningarsafélögum, sem hafa borið fram þær sjálfsögðu hugsjónir , að friður og kærleikur mætti ríkja milli manna og þjóða. En svo virðist sem mannskepnan læri seint þá lexíu, að vopn og stríð verða aldrei annað en aflvaki hins illa, þegar ást og virðing hins vegar laða fram hið jákvæða og góða. Og í gegnum alla mannkynssöguna, hefur mannkynið brennt sig á sama soðinu aftur og aftur,- að beita vopni hefndarinnar þegar gert hefur verið á hlut einhvers. Og það er mjög athyglisvert og lærdómsrík lexía að lesa í Njálssögu um keðjuverkun hefndarinnar, þar sem sífellt fleiri falla í valinn. Endalaus víg. Þetta sá Njáll, sá vitri maður og hann sá og vissi að lausnin var fólgin í sáttinni.

Og víst er að hugur hefdarinnar hefur kvalið margan manninn síðustu vikur, en aðrir hafa fyllst kvíða og ótta yfir afleiðingum slíkra hefnda. Og óljós framvinda þessara mála hristir og skekur alla heimsbyggðina. Hvar endar þessi hildarleikur? Verður hefnd á hefnd ofan? Mér finnst forsetinn okkar hafi mælt fram skynsöm orð varðandi þessa atburðarás er hann sagði: "Það er lítið skjól í hefndinni." Betur væri að ráðamenn þjóða hefðu þessi sannindi í huga, þegar taka skal á þeirri drepsótt í mannlífinu, sem hryðjuverk svo sannarlega eru.

Og eitt sinn var sagt: Besta hefndin er að gjalda óvini gott fyrir illt. Og höfundur okkar trúar, Kristur sjálfur, lagði áherslu á þá erfiðu leið, að elska óvininn.

Vafalaust finnst flestum það hálfgerður aumingja-skapur, ef reynt yrði að leita sátta við glæpaher bin Laden, í stað þess að sprengja hann í loft upp ásamt hundruðum saklausra borgara. En það er víst á tungumáli sprengjunnar, sem óvinir talast nú við hér í heimi, og svo sannarlega er það ekki í fyrsta skiptið. Eða eins og Tomas Henry Huxley sagði um miðja 19. öld: "Það versta við stríð er að með því líkjumst við þeim, sem við erum að berjast á móti."

Og afleiðingar þeirra hefndaraðgerða, sem fara nú fram gegn hryðjuverkamönnunum í Afganinstann, eru augljósar nú þegar. Miljónir manna á flótta, og vofur hungurs og sjúkdóma eru þegar farnar að sveima þar yfir. Þar eru jafnt börn sem fullorðnir. Óttinn og angistinn skín úr hverju andliti og vonleysið virðist algjört, því þetta fólk veit það af reynslu áranna, að óbilgjörn og hernaðarsinnuð stjórnvöld svífast einskis og framkvæma verknaði sína af grimmd í nafni trúarinnar, og þeim er dauðinn meira virði en lífið.

Þessir menn vita vart hvað orðin réttlæti og mannúð merkja í samfélagi manna og þjóða, og lífláta almenna borgara án þess að hika. Og við hér uppi á Íslandi, sem ergjum okkur yfir breiskleika og flumbrugangi stjórnvalda og teljum að réttlætinu sé víða misboðið, við störum agndofa á þessar aðfarir, í hrykalegum fréttamyndum sjónvarpsins. Hvernig getur slík afskræming orðið á sköpuninni? Á hvað grundvallar lögmálum byggja þessir menn lífshugsjónir sínar? Ekki á tvíþætta kærleiksboðinu, svo mikið er víst. Og svo sannarlega væri þessum mönnum hollt, að hafa orð Háskólarektors, Páls Skúlasonar, í huga, þegar þegar þeir fremja hryðjuverk í nafni trúar sinnar. Páll sagði: "Verkefni trúarbragðanna er að sigrast á markleysu hins illa, endurreisa vonina, þegar lífið er í þann mund að glatast."

Eru þessi orð ekki verðug til umhugsunar, ekki bara fyrir þræla hryðjuverka, heldur alla, sem elska Guð og náungann? Er ekki hefndarþorsti heimsins farinn að ógna sönnum hugsjónum um lífið,- lífi í sátt við Guð og menn? Er lífið í þann mund að glatast? Fer ekki að teljast ábyrgðarhluti að bera börn inn í þennan heim, þar sem ringulreiðin og ranglætið, hefndin og hatrið eitra andrúmsloftið og ógna mannlífinu?

"Líf mitt, það er svo undursamleg smíð. Ég get elskað, hlegið, hlakkað til Og ætíð Guði þakkað. Líf mitt það er svo undursamleg smíð." (K.S.)

Þannig syngja börnin í kirkjuskólanum hér á landi, og finna að Guð er góður og elskar okkur. Hann gefur okkur líf og felur okkur þá ábyrgð að far vel með þá gjöf. Og hann gefur okkur mat og nægtir, og hann gefur okkur ástvini sem elska okkur. Og ástvinir sem elska börnin kenna þeim að elska Guð og náungann, eða er það kannski misskilningur, og ekkert sjálfsagt í þeim efnum?

Og börnin vaxa og verða fullorðin og eignast sín börn. Og vegna þess að þessir foreldrar nutu ástar og umhyggju, og fengu að vita það að Guð væri kærleiksríkur, þá kenna þeir börnum sínum slíkt hið sama, og þannig koll af kolli. Og kærleikurinn teygir sig byggð úr byggð manna í milli, því kærleikann hindra engin landamæri.

Eða eins og Jesús segir: "Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góðverk yðar, og vegsami föður yðar, sem er á himnum."

Íhugunarefni okkar þennan sunnudag er guðspjall bræðralagsins,- kærleikans til Guðs og manna. Sá texti sem tekinn er úr 12. kafla Markúsar og lesinn var hér áðan frá altarinu, á sínar tengingar til þess sem er skráð fyrr í kaflanum.

Jesús hafði staðið í orðaskiptum við Saddúkea um líf eftir dauðann, og afdráttarlaust benti Jesú þeim á að þeir færu villu vegar, að halda því fram að ekki væri nein upprisa. Rök sín sótti meistarinn í lögmálið, undirstöðu orð trúarkenninga Saddúkea.

Og í guðspjallstexta þessa sunnudags kemur fram að álengdar hafi fræðimaður fylgst með þessum orðaskiptum Jesú við Saddúkeana og gat ekki dulið ánægju sína og adáun hvernig Jesús gerði þessa andstæðinga faríseanna orðlausa. Og hvort sem það var af heilum hug eða í hughrifum ánægjunnar þá spyr fræðimaðurinn: "Hvert er æðst allara boðorða?"

Í hinum samstofnaguðspjöllunum, hjá Matteusi og Lúkasi kemur fram að þessi fræðimaður hafi ætlað sér að freista Jesú með þessari spurningu, og reyna að veiða hann í net orðræðu og útúrsnúninga.

En Markús lætur það ógert að ætla manninum einhvern vanheilan þankagang bak við spurninguna, og lætur svör Jesú kveikja líf í stirnuðum lögmálskennigum fræðimennskunnar. Og víst er að fræðimaðurinn hreifst af svörum Jesú, og það sem meira er, ef við leyfum okkur að lesa ögn inn í textann, að skyndilega verður dauður bókstafurinn lifandi. Fræðimaðurinn kunni textann jafn vel og nafnið sitt, en orðin voru líflítil í hugsun hans,- miklu fremur sem lög.

Þarna heyrði hann rödd kærleikans tala um kærleikann,- innihald boðanna öðlaðist líf í hans lífi. Í stað þess að vera einungis setning í helgisiðum, birtist kenningin um kærleikann til Guðs, sem grundvallarþráður alls lífsins, - þráðurinn sem hélt öllu netinu uppi,- þráðurinn að ofan.

En Jesús lét hér ekki staðar numið, heldur tengir saman þetta grundvallarboðorð Gyðinganna við annað boð, sem var í miklu minni metum,- það að elska náungann eins og sjálfan sig. Og með þessari samtengingu skyldi fræðimaðurinn að á milli þessara tveggja boða var órjúfanlegt samband,- að elska Guð og elska náungann.

Gyðingarnir töldu síðaraboðorðið fremur léttvægt, og merking þess næði ekki lengra en til nánasta frændgarðs.

En við lestur guðspjallanna kemur skýrt í ljós áherslan sem Jesú leggur á órjúfanlegt samband þessara tveggja boða. Hvorugt má vera án hins,- án bróðurkærleika er ekki hægt að elska Guð, og hin djúpa merking bróðurkærleikans verður yfirborðskennd án kærleikans til Guðs.

Allt okkar líf, trú og siðferði, eru sprottin af sömu rót, vakinn af vilja Guðs og kærleikurinn er þeirra líf. Og í prédikun Lúthers fyrir þennan sunnudag um samband trúar og verka stendur: "Það er rangt og með öllu óþolandi að prédika á þessa leið: Ef þú vilt ekki halda lögmálið, ekki elska Guð og náungann, já, þótt þú sért meira að segja hórkarl, þá gerir það ekkert til. Ef þú aðeins trúir, þá verðurðu hólpinn. - Nei góði maður, það verður ekki af því, þú kemst ekki inn í himininn, þú verður að elska Guð og náungann."

Svo mörg voru þau orð, skýr og skilmerkileg. "Trúin er fólgin í því að þiggja að ofan,- þiggja af Kristi,- þiggja allt, eins og hann er fús að gefa allt, og gefa síðan jafn örlátlega af ávöxtum hans, "eins og Sigurbjörn Einarsson komst eitt sinn að orði.

Og öll þekkjum við undirstrikun Jesú á mikilvægi tvíþætta kærleiksboðorðsins, að allt lögmálið og spámennirnir byggist á því.

En hvernig er hægt að fara eftir þessu? Trúuðum manni er vafalaust mikilvægt að geta falið sig í faðm Guðs, þegar heimurinn engist sundur og saman af ilsku og hefnd.

Og í einlægu trausti á Guð tökum við undir orð 90. sálms Davíðs: "Drottinn þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú ó, Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: "Hverfið aftur þér mannanna börn!" Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka. Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta."

Það er gott að láta þessi traustvekljandi umhyggjusömu orð umvefja sig, þegar ótti átaka og illsku tekur sér bólfestu í brjósi manns.

En þetta með náungann getur samt vafist dálítið fyrir manni, og sú staðreynd að kærleikurinn til Guðs er ekki réttur ef kærleikurinn til náungans fylgir ekki með.

En má ég þá ekki velja hver sé náungi minn?

Þarf ég að elska alla jafnt, Bush, bin Laden og konuna mína?

Það er erfitt og mjög óþægilegt,- nánast ógjörningur.

Ég veit að ég er veikgeðja, syndugur maður. Ég verð reiður og ég vil hefna mín á þeim sem gera á hlut minn. Þetta veit Guð, og fyrst hann er miskunnsamur og "minnist þess að vér erum mold," þá hlýt ég að mega sleppa einhverjum óþægilegum persónum úr.

Og ég veit að við erum ekki kristin, ekki guðs börn, út á okkar eigin kærleika. Það er kærleikur Guðs til okkar, náð hans og miskunn sem gerir okkur mögulegt að vera hluti af fjölskyldu Guðs, eins og stendur í Fyrra Jóhannesarbréfi: "Vér elskum, því hann elskaði oss að fyrra bragði. Ef einhver segir: "Ég elska Guð," og hatar bróður sinn, sá er lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð. Og þetta boðorð höfum vér frá honum, að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn."

Guð gefi að þessi mikilvægi boðskapur verði lýðum ljós, og kalli fram meiri skilning þjóða í milli, virðingu fyrir trú annarra og elsku til náungans.

Hefjum upp hin kristnu gildi: Trú, von og kærleika. Án trúar verður kærleikurinn eigingjarn og yfirborðskenndur, og án kærleika á þessi heimur enga von.

Megi Guð gefa okkur djörfung að berjast hinni góðu baráttu jafnt þjóða í milli sem og á kirkjuþingi.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Meðtakið postulega kveðju. Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.

Prédikun flutt í Dómkirkjunni, sunnudaginn 14. okt. 2001, við upphaf kirkjuþings. 18. sunnudagur e. trintatis.