Núllstillt í kreppu og nýr tími

Núllstillt í kreppu og nýr tími

Kairos, upphaf, ný öld. Liðin vika er tími fæðingarhríða. Nýr tími er að koma í heiminn. Við þurfum að staldra við og hugsa um hamingjuna, siðvit okkar og um gleðina, um ástina.

Einni verstu viku lýðveldistímans er lokið og áföllin eru skelfileg. Í samfélagi okkar er djúpur sársauki og einkennileg óraunveruleikatilfinning sækir að mörgum. Eitthvað mikið er að gerast, en hvað vitum við ekki. Þegar allt fer á flot spyrjum við um festu, þegar allt hrynur leitum við að raunverulegu skjóli, öllu öðru en patentlausnum og gylliboðum. Hvað skiptir máli? Til hvers er lífið og hvað gerir það þess virði að lifa því? Aristóteles minnti forðum á, að enginn maður vildi lifa lífinu, ef hann ekki nyti ástvina. Jostein Gaarder skrifaði um sama stefið í þeirri undursamlegu bók Appelsínustelpunni. Sama væri í hvaða raunir maður ratar - reynslan af ástinni, fólkinu og börnunum okkar réttlætir líf, jafnvel þó það sé stutt og afsleppt. Ást og fólk – eru það ekki meginverðmæti? Komdu áður en það verður um seinan Þá er það útleggingartexti dagsins. Maðurinn í guðspjallssögunni lenti algerri krísu. Hann fékk góða menntun, naut velgegni, auðæfa, mannvirðinga og komst á toppinn. Hann var aðalgæinn – eða það sem heitir á máli biblíunnar – konungsmaður. Í lífinu gat hann ekki náð mikið lengra hvað vegtyllur varðar. En veröld hans hrundi. Sonur hans, uppáhaldið, glæsilegur efnispiltur varð allt í einu veikur. Allra meðala var beitt, allir nærtækir læknar voru kallaðir til. En syninum hrakaði, heimilislífið var í upplausn, angistin hélt innreið, foreldrarnir náðu ekki að hvílast, langþreytan lamaði og stórfjölskyldan leið. Eftir að sonurinn veiktist héldu menn stillingu sinni, síðan kom óttinn, svo kom reiðin, sem er skuggi allra áfalla, svo örvæntingin þegar krumlur veikinnar hertu tökin á sjúklingnum og aðstandendum hans. Þegar allt er í rúst er maðurinn nakinn. Hlutverk konungsmannsins kunna vék fyrir tárum og örvinglan lostins föður. Hvað er til ráða þegar allt er í rúst? “Jesús,” hugsaði hann, “Jesús frá Nasaret. Hann var í Kana. Hann er síðasta vonin.” Svo hljóp hann af stað, hljóp sitt vonarhlaup frá Kapernaum til Kana og hrópaði: “Komdu áður en barnið mitt deyr. Komdu áður en það verður um seinan. Komdu, Jesús – komduuu.” Komast til sjálf sín Hver eru grunngildin? Hvað er þess virði að lifa fyrir? Og Jesús hljóp ekki til að leysa mál mannsins. Áður en hjálpin kemur verða menn að koma til sjálf sín, gera sér grein fyrir stöðu sinni, lífsins gangi og leið veraldar. Spurning Jesú varðar þetta: Þú, sem berð heitar tilfinningar í brjósti þér, á hvaða grunni er elska þín, lífsafstaða? Hverju treystir þú þegar voðinn er alger og dauðinn er að slíta lífsgleðina úr fangi þér? Maðurinn skildi og svaraði. “Jú, ég treysti þér?” Þá gat Jesús mælt orð lífsins, svarað að drengurinn myndi lifa. Maðurinn snéri við, vonbetri. Á miðri leið fékk hann gleðifrétt lífsins. Sonurinn var að frískast. Heimleið mannsins var leið til heilbrigði og ferðin og frískleikinn leiddi til að ekki aðeins strákurinn, heldur pabbinn, mamman, systkinin, ömmur og afar, frændur og frænkur breyttu um líf og gildi. Á einföldu máli heitir það að trúa.

Saga okkar allra Þessi saga er um einstaklinga á öllum öldum, saga um hópa og þjóðir, en líka dæmisaga um okkur, um áfall okkar Íslendinga þessa daga. Velsæld okkar hefur verið ótrúleg, við höfum verið konungsmenn. Ríkidæmið hefur tengt angana um alla veröld, útrásin hefur spannað heimsbyggðina, við höfum borist á, við höfum keypt og notið og svo allt í einu ríður áfallið yfir. Þú hefur þína mynd af stöðunni og ég kann ekki betur en þú að skilgreina eða lýsa. En gagnvart áfalli vil ég halda að þér merkingu. Hvað gerði konungsmaðurinn? Jú, hann gekk í gegnum sömu tilfinningar og þú, þitt fólk, vinir okkar, ættingjar, félagar og kunningjar - furðu, vantrú, dofa, varnarhætti og svo reiði. Hvað er hægt að gera?

Meiri fjármunir hafa farið í peningasvelginn en við getum ímyndað okkur eða skilið. Einstaklingar sem búa hér rétt hjá kirkjunni hafa glatað milljónatugum. Ævisparnaður þeirra og foreldranna líka hafa jafnvel farið í einu lagi. Og ekki er séð fyrir endann á hvernig sjúkdómssferlið verður, hvernig drengnum muni líða. Allt sem er gert til hjálpar er þakkarvert. Allir menn sem leggja lið eru gæfumenn. Við erum að byrja ferðina í leit að hjálp, leitina að því sem leysir úr vandanum, sem heitir á máli Biblíunnar, Jesús. Maðurinn hljóp af stað, við erum á fleygiferð, sem samfélag og einstaklingar að leita að því sem getur leyst og liðsinnt.

Að upplifa í kreppunni Já, hver er þá merking þessara atburða sem við upplifum? Þegar fólk reynir eitthvað stórt er tækifæri fyrir lífið, því aldrei erum við næmari fyrir andlegri skynjun og andlegri hlustun en þegar allt er í klúðri. Aðalatriðið er að heyra það, sem er raunverulega til góðs, en sleppa hinu. Pabbinn leitaði lækningar víða, aðeins einn gaf syni hans líf. Á máli gðfræðinnnar heita aldaskil kairos, þetta þegar nýr tími verður til, nýtt upphaf, nýtt tímaskeið. Þessi liðna vika er tími fæðingarhríða. Nýr tími er að fæðast, nýr heimur er að myndast. Við þurfum nú sem einstaklingar og þjóð að staldra við og hugsa um gildi okkar, um hamingjuna, um siðvit okkar og forgangsmál, um gleðina, um hláturinn, um ástina. Þegar við skimum yfir liðnar aldir sjáum við næsta vel hve Mammonshyggjan hefur æ meir gegnsýrt stjórnmál, menningarmál og mannfélag veraldar. En í þessari kreppu sem við lifum koma veilurnar í ljós. Menningin, mannfélagið er veiklað og það heitir á máli sögu dagsins að sonurinn sé sjúkur.

Núllstilling og fæðing nýs tíma Hvað verður til hjálpar? Hver læknar soninn? Við þurfum sem einstaklingar, samfélag og líka heimsbyggð að staldra við og spyrja mikilvægra spurninga. Nú þurfum við að núllstilla og raða uppá nýtt, taka mark á klúðrinu og gera betur. Við vitum auðvitað, að hús hafa verið og munu verða keypt en aldrei er hægt að kaupa fjölskyldu eða hamingju. Hluti er hægt að kaupa en aldrei gleði. Þræla er hægt að kaupa en aldrei ástvini.

Áföllum fylgja jafnan tækifæri til endurskoðunar. Til okkar allra eru nú gerðar kröfur til að við ræðum með fullri alvöru forgang samfélags, ekki bara að við setjum menntun og gott heilbrigðiskerfi í forgang, heldur líka að við vinnum að okkar málum á heimaslóð - að við tökum til við að endurskoða neyslu okkar, lífsmynstur, tímanotkun okkar, vinnutíma, vinarækt og fjölskyldutengsl. Þegar hver heimsendafréttin rak aðra komu þriggja ára drengir mínir hlaupandi og kröfðust allrar athygli. Þeir urðu eins og englar í barátt við eyðingaröflin, stöðug áminning um, að sama væri hvernig peningarnir soguðust niður væri lífið, fólk, já þessir efnispiltar það sem mestu máli skipti. Þegar konungsmaðurinn horfði á deyjandi son sinn tapaði glæsileiki veraldar gyllingu sinni.

Viðsnúningur Nú þegar fjármunum okkar hefur verið sturtað niður í svelginn eigum við að huga að hinum eiginlegu verðmætum okkar. Það er ljóst að það er farið úr tísku að henda út stofumublunum af því þær passa ekki við sjónvarpið. Og það er jafnljóst að það er farið úrelt að henda út eldhúsinnréttingunni af því hún er lummó. Nú er hins vegar komið í tísku að elda fyrir fólkið sitt, setjast við borð með vinum og fjölskyldu og tala, hlægja og gleðjast. Og það ætti að vera algerlega úrelt að hlaupa út í búð eftir nýjustu línunni, en hins vegar við hæfi að fara inn í fataskáp og laga gömlu fötin. Nú er lag að efla innlent. Já, tími íslensks landbúnaðar er jafnvel kominn! Nú er ekki lengur við hæfi að henda börnunum hingað og þangað til að þræla fyrir kröfuhörð fyrirtæki, heldur er tími barnanna upp runninn. Nú er fyrst og fremst þörf fyrir atlot, blíðuorð og faðmlög eins og hið skekna samfélag Glitnisbankans knúsaði okkur öll svo fallega með á föstudaginn var. Endurmetum lífið, iðkum lífið, gerum það sem gleður okkur og fólkið okkar. Þegar við eru keyrð niður af sjúkdómum, kreppum, og áföllum skapast krossgötur og næði fyrir nýjar hugmyndir, sem geta orðið til góðs og jafnvel breytt góðum aðstæðum, góðu lífi fyrir áfallið að betra lífi eftir. Þegar svo er unnið er brugðist við til góðs.

Hin þögla sorg Þegar áföllin eru mikil ættum við að stækka faðminn gagnvart fólki. Ég vek athygli á, að mikilvægt er að við umgöngumst fólk af fegurð og nærgætni því mun fleiri eru skeknir en við vitum af og getum gert okkur grein fyrir. Fólk segir frá þegar það missir ástvini, en fólk segir mun síður frá þegar það tapaði ævisparnaðinum. Svo bætist við hið ægilega í mörgum tilvikum, að bæði sonur, tengdadóttir og þrjú barnabörn misstu atvinnuna. Verum góð hvert við annað því sársaukinn er djúpur, margvíslegur, margþættur og oft ósegjanlegur. Nýr gildagrunnur samfélags - hlutverk kirkjunnar Ég hvet íslenskt samfélag til samræðu um áfall, til orðræðu um gildi og stefnu. Ég hvet íslenska kirkju, okkur, að leggja lið, og jafnvel veita forystu í því uppgjöri um líf, gildi og menningarvef, sem samfélag framtíðar getur notið, til að áfallið verði ekki bara til ills og sorgar, heldur líka til mikils góðs, börnum okkar og menningunni til gæfu.

Skelfingu lostinn konungsmaður kallaði: “Komdu og bjargaðu.” Jesús horfði á hann og sagði: “Sonur þinn mun lifa.” Þar með var sagt orð lífsins og það eru þau orð sem við þörfnumst núna. Afleiðingin var að efnispiltur lifði, faðir fann á vegferð sinni hvað skipti máli og allt hans fólk fór að lifa öðru vísi. Lífið fékk nýja dýpt og vídd. Þannig megum við bregðast við. Við höfum loforð um elsku Guðs, návist Guðs, faðm Guðs þegar við erum fullkomlega í rúst, en líka loforð um elskuanda þegar dollara- og evrumerkin detta af augum okkar, krónuspangirnar líka og við förum að sjá undur lífsins, fegurð haustlitanna og börnin okkar, jafnvel þó við höfum tapað öllum peningum okkar. Þegar við förum að heyra raddir lífsins í maka okkar og vinum þrátt fyrir að hafa tapað hundrað milljónum erum við að koma til sjálfra okkar. Hlustum eftir hinum trúarlegu svörum og lifum siðlega. En vinnum að því að fæðingarhríðir þessar viku verði til að fæðing gangi að óskum og sonurinn, þ.e. nýr tími og við þar með, nái heilsu og lifi vel.

Amen.

Lexía: Jes 51.11-16 Hinir endurkeyptu Drottins snúa aftur og koma fagnandi til Síonar. Eilíf gleði fer fyrir þeim, fögnuður og gleði fylgir þeim, en sorg og sút leggja á flótta. Ég hugga yður, ég sjálfur. Hver ert þú þá sem óttast dauðlega menn og mannanna börn sem falla sem grasið en gleymir Drottni, skapara þínum, sem þandi út himininn og lagði grunn að jörðinni? Þú óttast heift kúgarans sérhvern dag, að hann ákveði að eyða þér. En hvar er þá heift kúgarans? Brátt verður bandinginn leystur, hann mun ekki deyja í dýflissu og ekki skorta brauð. Ég er Drottinn, Guð þinn, sá sem æsir hafið svo að brimið gnýr. Drottinn allsherjar er nafn hans. Ég lagði þér orð mín í munn, skýldi þér í skugga handar minnar, þegar ég þandi út himininn, grundvallaði jörðina og sagði við Síon: Þú ert lýður minn.

Pistill: Ef 6.10-17 Að lokum: Styrkist í Drottni og krafti máttar hans. Klæðist alvæpni Guðs til þess að þið getið staðist vélabrögð djöfulsins. Því að baráttan sem við eigum í er ekki við menn af holdi og blóði heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum. Takið því alvæpni Guðs til þess að þið getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli þegar þið hafið sigrað allt. Standið því gyrt sannleika um lendar ykkar og klædd réttlætinu sem brynju og skóuð á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðin um frið. Takið umfram allt skjöld trúarinnar sem þið getið slökkt með öll logandi skeyti hins vonda. Setjið upp hjálm hjálpræðisins og grípið sverð andans, Guðs orð. Guðspjall: Jóh 4.46-53 Nú kom Jesús aftur til Kana í Galíleu þar sem hann hafði gert vatn að víni. Í Kapernaúm var konungsmaður nokkur sem átti sjúkan son. Þegar hann frétti að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona. Þá sagði Jesús við hann: „Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.“ Konungsmaður bað hann: „Drottinn, kom þú áður en barnið mitt andast.“ Jesús svaraði: „Far þú, sonur þinn lifir.“ Maðurinn trúði því sem Jesús sagði við hann og fór af stað. En meðan hann var á leiðinni ofan eftir mættu honum þjónar hans og sögðu að sonur hans væri á lífi. Hann spurði þá hvenær honum hefði farið að létta og þeir svöruðu: „Í gær upp úr hádegi fór hitinn úr honum.“ Þá sá faðirinn að það var á þeirri stundu þegar Jesús hafði sagt við hann: „Sonur þinn lifir.“ Og hann tók trú og allt hans heimafólk.