Jesús er fyrirmynd

Jesús er fyrirmynd

Það má hafa í huga nútímastefnu í fyrirtækjarekstri, breiða stjórnun, dreift vald, hefjum okkur ekki yfir aðra, allir þurfa að fá að njóta sín, það finnst Kristi, hver manneskja á að fá að njóta lífs í fullri gnægð og þess vegna gaf Kristur sig alveg sérstaklega að þeim sem minna máttu sín í samfélögunum.

Þá kemur Jesús frá Galíleu að Jórdan til Jóhannesar að taka skírn hjá honum. Jóhannes vildi varna honum þess og sagði: Mér er þörf að skírast af þér, og þú kemur til mín!

Jesús svaraði honum: Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti. Og hann lét það eftir honum.

En þegar Jesús hafði verið skírður, sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir, og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig. Og rödd kom af himnum: Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Matt. 3.13-17

Kór eldri borgara úr Árskógum er hér á meðal okkar í dag og það kemur m.a. til vegna þess að undanfarna daga hefur verið haldin menningarhátíð eldri borgara í Breiðholti, en þar er verið að skapa vettvang fyrir eldri borgara í Breiðholti og víðar til að koma saman, sýna verk sín, list, handverk, íþróttir, ritverk, ræða málefni eldri borgara og skemmta sér saman.

Er það vel og gott og gaman að hlýða á söng eldri borgara hér í kirkjunni dag, söngur sem einkennist af einlægri trú og hið sama má segja um söng kirkjukórsins okkar, þar höfum við trúfasta einstaklinga, sem koma saman hvern helgan dag til þess að leiða okkur áfram í söngnum, sem við berum fram Guði til dýrðar.

Kórastarf er til mikillar fyrirmyndar, það er hollt að taka þátt í slíku samfélagi og það virkilega gleður mann að sjá hvað söngurinn getur gefið fólki mikið. Söngur bætir, hressir, kætir að ég tali nú ekki um söng sem fjallar um þann sem er stærstur og mestur og ríkir á himnum hátt. Þá vitum við af margvíslegum samfélögum, fyrir utan kóra, sem eru uppbyggjandi og móta okkur á þann hátt að við verðum fyrirmyndarborgarar, landi og þjóð til sóma.

En eitt er það samfélag, sem að öðrum ólöstuðum, er öllum samfélögum æðra og það er bænasamfélagið í kringum konunginn Krist. Kórar og fleiri samfélög eru dýrmæt tæki til þess að laða fólk til þess samfélags. Þetta kemur til vegna þess að samfélagið um konunginn Krist er stofnað af heilögum anda hans, en konungurinn Kristur hin eina sanna fyrirmynd.

Og talandi um fyrirmyndir. Það er alltaf verið að leita að fyrirmyndum, fólk vill oft og tíðum sjá sjálft sig í öðru fólki, eins undarlega og það nú hljómar. Unga fólkið horfir t.d. á frægu stjörnurnar, sem eru nú svo sem ekki alltaf gallalausar og því alls ekki alltaf ákjósanlegar fyrirmyndir.

Þá má það nú vera skárri valkostur að horfa upp til íþróttastjarnanna heldur en lifaðra rokk eða kvikmyndastjarna, hvort tveggja er hins vegar slæmur kostur í samanburði við konunginn Krist, sem er hinn raunverulegi lífsins leiðtogi. Þegar við horfum upp til hans að þá líður okkur betur með okkur sjálf, við erum sáttari við okkur sjálf.

Kristur er fyrirmynd, sem við verðum að halda á lofti öllum stundum, sérhvert augnablik og það þarf að laða unga fólkið virkilega að þeirri lífsins stjörnu, sem hann er, unga fólkið er framtíð kirkjunnar.

Mér verður hugsað til Jesú sem fyrirmyndar þegar skírnin í Jórdan kemur til tals. Og þá er mér spurn af hverju í ósköpunum tók syndlaus Kristur iðrunarskírn hjá Jóhannesi frænda sínum, sem var í raun ekki þess verður að skíra sjálfan frelsarann og vissi það mæta vel?

Túlkunin á því liggur nokkuð ljós fyrir. Jesús, með því að skírast af frænda sínum Jóhannesi, var að leggja áherslu á lægingu sína, að hann tók á sig hold til þess að mæta okkur og kalla okkur til fylgdar við sig. Jesús gaf tóninn með því að láta skírast, og með þeirri ákvörðun hvetur hann okkur til þess að gera slíkt hið sama, hann vill ganga á undan með góðu fordæmi.

Með þessari helgu athöfn í ánni Jórdan lagði Jesús síðan af stað í þá eyðmerkurgöngu, sem framundan var og við ígrundum nú á páskaföstu. Sú ganga er okkur einnig til fyrirmyndar, sú ganga er ekki hvað síst hin mikla boðun Krists, sem skiptir okkur eitt og sérhvert mjög miklu máli og okkur öllum nauðsyn að koma auga á. Í þeirri boðun felst auðmýkt og æðruleysi, sem til þarf, til þess að horfast í augu við öldudali lífsins, þjáninguna og sorgina.

Og Jesús lagði sig fram um að vekja fólk til meðvitundar um þessa kosti sem þarf til þess að takast á við lífið og hafa sigur. Hann benti á ófá atriði sbr. það að við lærum að þekkja takmörk okkar, að við erum yfir engan hafin og hlutverk okkar er að þjóna eins og hann þjónaði okkur, þannig var frelsarinn okkur á sama hátt til fyrirmyndar þegar hann þvoði fætur lærisveina sína á skírdagskvöld, rétt áður en hann var síðan tekinn höndum í garðinum Getsemane.

Með þeirri athöfn var hann að segja: Ég er kominn hingað til þess að þjóna ykkur og vænti þess að þið komið til með að gera slíkt hið sama. Ég tek skírn af Jóhannesi, þið takið skírn af Jóhannesi og þá verður öllu réttlæti fullnægt.

Jesús gekk fram og sýndi það að hann var ekkert yfir það hafinn að ganga í gegnum það sama og við, þá aðferð notaði hann og sú aðferð er hvað áhrifaríkust. Það þýðir ekki að sitja á háum stóli og benda á eitt og annað, gerðu þetta, gerðu hitt og gera það svo ekki sjálfur, það virkar ekki, það er ævaforn sannleikur eins og við vitum.

Þegar maður horfir t.d. í nútíma fyrirtækjarekstur að þá virðist sem fólk sé að átta sig á þessu. Þar leggja yfirmenn sig fram um að virkja starfsfólk sitt og blanda geði við það með því að sýna því fram á að þeir geti tekið á sig ýmis störf, sem er jafnan ekki á þeirra könnu, þeir eru ekkert yfir það hafnir að ganga í störf annarra þegar þannig liggur við.

Fyrir utan að slíkt bætir samskipti þeirra sem gegna ólíkum stöðum innan sama fyrirtækis að þá ýtir þetta undir farsæld og velgengni fyrirtækja yfir höfuð, því þar er ánægt starfsfólk. Breið stjórnun, hið dreifða vald eru orðin vel þekkt hugtök í viðskiptaheiminum í dag og þykir góð og farsæl lausn og skapar þar að auki ánægða starfsmenn, sem finna sig mikilvæga og áhrifaríka hlekki í því markmiði sem fyrirtækið hefur sett sér. Sú tilfinning starfsmanna leiðir ósjálfrátt til aukinnar ábyrgðarkenndar í fari þeirra, sem síðan ýtir undir dugnað og virkni á vinnustað. Kirkjan má að mörgu leyti taka sér þetta til fyrirmyndar.

Yfirmenn ganga á undan með fordæmi, það er málið og það gerði Kristur þegar hann lét skírast í ánni Jórdan, hann gekk á undan með fordæmi, skírn Jesú er upphafið að kristnu lífi, hann gaf okkur fordæmi að kristnu lífi, frá skírn til upprisunnar, það er líf, sem er dýru verði keypt, við þurfum að hafa fyrir því, en það er líka líf þar sem allir eru velkomnir og engum mismunað, þar sem meðlimir fylgja þeim vegvísum, sem Kristur skildi eftir handa þeim, sem á hann trúa hér á jörðu og hafa kosið að fylgja með því að taka kristna skírn.

Þetta er líf sem er dýru verði keypt vegna þess að við göngumst undir þá ábyrgð að undirstrika manngildið, þegar við horfum í augu á náunga okkar, þá horfum við í augun á Guði, vegna þess að við erum öll sköpuð í mynd hans, þess vegna krefst kristið líferni fórna þar sem við verðum að leggja frá okkur fordóma í garð náungans. Það er freistandi að grípa til fordómanna, en það er freisting, sem við megum ekki falla í, því þá erum við farin að óhlýðnast einu mikilvægasta boði Guðs, æðsta boði frelsarans.

Kirkjan er ekki gallalaus, kirkjan er ekki fordómalaus, hún hefur á stundum stutt kúgandi öfl, tekið þátt í spillingu, litið niður á ákveðna þjóðfélagshópa, við þekkjum t.a.m. ýmsar þýðingamiklar raddir, sem hafa komið fram þegar kirkjan hefur gleymt köllun sinni, ég get nefnt kunna menn eins og Dietrich Bonhoffer og Kaj Munk, sem báðir kölluðu hátt til þess að vekja kirkjuna til meðvitundar um uppruna sinn og guldu reyndar fyrir það með lífi sínu.

Þrátt fyrir að rödd þeirra sé þögnuð að þá lifir hún enn, því hún var sannleikur, hún bar Kristi vitni, og svo er það nú þannig, sem betur fer, að jafnvel þótt þaggað sé niður í sannleikanum, að þá hrópa steinarnir.

Eitt er þó sem ber að varast í þessu ljósi og það er að setja sama sem merki á milli kirkjunnar og Jesú Krists í því samhengi þegar kirkjan gerir mistök, að þá er það ekki Jesús, sem er að gera mistök. Það virðist stundum vera sem að fólk fari að spyrja sig um tilvist Krists, hvort að hann sé ekki bara eitthvað ævintýri þegar kirkjusamfélagið er eitthvað órólegt, það er mikill misskilningur að halda það.

Kirkjusamfélagið samanstendur af fólki úr holdi og blóði, sem gerir vissulega mistök, Jesús gerir ekki mistök, hann er syndlaus, hann er Guð, þess vegna var nú Jóhannes frændi einmitt svona furðu lostinn þegar Jesús bað um skírn í Jórdan. Kirkjusamfélagið verður þess vegna að vera ávallt meðvitað um köllun sína, má ekki gleyma henni eina sekúndu, því þegar það gerist að þá er það ekki lengi að lenda í þversögn við boð frelsarans.

Kirkjan má ekki, skal ekki og getur ekki varpað skugga á trú okkar á konunginn Krist sama hversu illa hún lætur, sama hversu mikið hún deilir, en þegar við tölum um deilur að þá þarf útkoma deilna ekki alltaf að vera svo slæm, fólk verður oft og tíðum að leggja áherslu á skoðanir sínar til þess að koma góðum hlutum að, en það er kúnst.

Kristur kallar stöðugt á kirkjuna til fylgdar við sig, jafnvel þótt hún víki stundum af braut, við sjáum nú lærisveinanna, sem Jesús kallaði með sér, þeir véku ýmsir af braut, sveinar eins og Júdas, Tómas, Pétur, Júdas sveik, Tómas trúði ekki og Pétur afneitaði, en Jesús gaf þeim samt öflugt fordæmi, öflugan leiðarvísi þó þeir hafi tekið mismunandi á þeim leiðarvísi meistara síns.

Þarna sannast líka orð postulans þegar hann sagði að allt hið góða sem hann vildi gjörði hann ekki og allt hið vonda, sem hann vildi ekki gjörði hann. Málið er bara að við sem myndum hið kristna samfélag erum rétt eins og lærisveinar Krists, holdleg og undir syndina seld, en við lifum þó í voninni fyrir dauða og upprisu Jesú Krists og bíðum þess með þolinmæði að verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna. Á meðan við bíðum þá má kannski reikna með að á ýmsu gangi.

Þá er það líka svo merkilegt og hreint stórkostlegt og ég var að tala um það við fermingarbörnin um daginn að þrátt fyrir að þetta samfélag sem kirkjan er, hafi oftsinnis verið ofsótt í gegnum aldir til dagsins í dag og margt hafi gengið á innan þess, að þá lifir það enn í dag og vitið þið af hverju? Það vita í það minnsta fermingbörnin eftir fermingarfræðsluna nú í vetur? Jú, það er einmitt vegna þess að kirkjan er stofnuð af Guðs heilaga anda, andinn sá deyr aldrei og mun aldrei deyja.

Hvernig á svo kirkjan að lifa og dafna, hvernig á hún að stilla saman raddir eins og góður kirkjukór, hvernig getur hún fylgt góðu fordæmi meistarans. Hún þarf að hafa Jesús að fyrirmynd, hafa andann að leiðarljósi, hún þarf að æfa sig, hún þarf að koma reglulega saman og tilbiðja konunginn Krist á einlægan og gefandi hátt, bænin er ótrúlega mikilvæg, við prestar leggjum m.a. áherslu á hana þegar við einmitt minnum nýbakaða foreldra á hlutverk þeirra sem uppalenda við helga skírnarlaug.

Hver einstaklingur í kirkjunni þarf að finna til ábyrgðarkenndar, þarf að finna fyrir mikilvægi sínu, ef það gerist ekki og ef fólk er ekki virkjað í víngarði Drottins að þá fer það að syngja falskt og fölsku raddirnar geta því miður orðið talsvert áberandi.

Það má hafa í huga nútímastefnu í fyrirtækjarekstri, breiða stjórnun, dreift vald, hefjum okkur ekki yfir aðra, allir þurfa að fá að njóta sín, það finnst Kristi, hver manneskja á að fá að njóta lífs í fullri gnægð og þess vegna gaf Kristur sig alveg sérstaklega að þeim sem minna máttu sín í samfélögunum.

Þá er það enginn manneskja, sem blómstrar undir stöðugum bendingum og endalausum skipunum annarra, einkum og sér í lagi ef skipanir koma frá þeim sem geta ekki og vilja ekki setja sig í spor þeirra sem taka við þeim. Aðeins einn getur gefið skipanir með fullkominni samvisku og það er vegna þess að hann á fullkomna innistæðu fyrir því, hann einn getur sett sig 100% í spor okkar og skipanirnar sem hann setur fram eru hugsaðar okkur til heilla og blessunar en ekki öfugt, það er sjálfur Guð sem bendir okkur á hina einu sönnu fyrirmynd er hann segir:

Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.