Að setja sig í spor

Að setja sig í spor

Jú, því hér er að verkum, held ég, ein af dýpstu kenndum mannsins: samlíðanin og samkenndin. Hún birtist sannarlega í ótrúlega fábreyttri mynd þarna – rækilega mjólkuð af þeim sem lagt hafa fjármagn í þennan leik.

Þeir komu til Jeríkó. Og þegar hann fór út úr borginni ásamt lærisveinum sínum og miklum mannfjölda, sat þar við veginn Bartímeus, sonur Tímeusar, blindur beiningamaður. Þegar hann heyrði, að þar færi Jesús frá Nasaret, tók hann að hrópa: Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér! Margir höstuðu á hann, að hann þegði, en hann hrópaði því meir: Sonur Davíðs, miskunna þú mér! Jesús nam staðar og sagði: Kallið á hann. Þeir kalla á blinda manninn og segja við hann: Vertu hughraustur, statt upp, hann kallar á þig. Hann kastaði frá sér yfirhöfn sinni, spratt á fætur og kom til Jesú. Jesús spurði hann: Hvað vilt þú, að ég gjöri fyrir þig? Blindi maðurinn svaraði honum: Rabbúní, að ég fái aftur sjón. Jesús sagði við hann: Far þú, trú þín hefur bjargað þér. Jafnskjótt fékk hann sjónina og fylgdi honum á ferðinni.

Mk. 10.46-52

Í gær lenti ég í svolitlum hremmingum. Ekkert til að tala um, en samt nokkuð sem setti mig aðeins úr jafnvægi. Langþráður leikur var í sjónvarpinu. Mínir menn voru á heimavelli gegn erkiféndum í Manchester United. Vikan hafði verið erilsöm og raunar hafði ég staðið í ströngu allan morguninn við undirbúninginn fyrir dagskrá Opins húss í kirkjunni ásamt starfsfólki og leikmönnum í kirkjustarfinu. Og ég var alveg tilbúinn að hvíla heilann og skrokkinn um stund og leyfa frumstæðum hvötunum að fá útrás þar sem ég sæti í sófanum og horfði á átökin.

Smáhremmingar

Vandræðin hófust rétt eftir að flautað var til leiks, rétt að ítreka það, þau hafa í sjálfu ekkert með úrslitin að gera. Fáeinum sekúndum eftir að leikurinn hófst datt myndin út af skjánum. Einu skilaboðin sem ég fékk var að hringja í símanúmer sem ég og gerði en kom algerlega að tómum kofanum. Þeir sögðu mér að slökkva og kveikja á myndlykli og módaldi sem skilaði mér ekki öðru en brosandi stúlkuandliti á skerminum. Nokkuð sem benti ekki til þess að ég nyti mikils skilnings frá sjónvarpsmiðlinum. Fyrri hálfleikurinn fór því fram suður á Englandi án þess að ég yrði vitni þar að.

Loks mundi ég eftir góðum félaga í kirkjukórnum sem býr í grenndinni og bauð ég sjálfum mér til hans til að horfa á seinni hálfleikinn– sem reyndist þó lítil gleði þegar upp var staðið eins og þeir ættu að skilja sem vita hvernig leikurinn fór.

Svona smá raunir, fánýtar að og að mestu lausar við að hafa nokkur raunveruleg áhrif á líðan okkar og framtíð, vekja mig stundum til umhugsunar um lífið og tilveruna. Knattspyrnuleikur á fjarlægum slóðum vekur hjá manni einhver hughrif – kemur óróa á tilfinningarnar. Þegar stefnir í það að missa af honum er eins og eitthvað sé bogið við tilveruna. Menn sem ég hef aldrei hitt keppa fyrir borg á Englandi – sem ég hef aldrei komið til. Og þetta eru átök sem hafa engin bein áhrif á líðan mína eða velferð – en samt er einhver taug í mér sem segir að ég verði að berja viðureignina augum!

Samlíðan í fábreyttri mynd Af hverju deili ég þessum hugleiðingum með ykkur hér í kvöld? Jú, því hér er að verkum, held ég, ein af dýpstu kenndum mannsins: samlíðanin og samkenndin. Hún birtist sannarlega í ótrúlega fábreyttri mynd þarna – rækilega mjólkuð af þeim sem lagt hafa fjármagn í þennan leik. En svo ný er minningin í huga mér að ég má til með að skoða hana í því samhengi sem textar dagsins fjalla um.

Þar sem ég sit og fylgist með liðinu sem ég hef haldið með frá því ég man eftir mér finn ég til með leikmönnunum, ég gleðst og hrópa, stend upp úr sófanum og sýni margvíslega hegðun við látbragði einstaklinga sem ég þekki hvorki haus né sporð á. Og allt sprettur þetta upp af þessari göfugu tilfinningu. Hún grípur mig og heldur í heljargreipum af þessu fátæklega tilefni.

Samlíðan í annarri mynd

Textarnir í dag fjalla um þessar sömu kenndir þó í allt öðru samhengi sé. Já, og algerlega hinum megin á skalanum vitaskuld því þarna eru tilfinningarnar sterku nýttar til góðs og birtast í þeirri mynd sem ætla má að skaparinn hafi viljað að þær ynnu. Frásagnirnar greina frá tilfinningatengslum. Guð sem birtist í upphafsriti Gamla testamentisins sýnir þegar sterkar tilfinningar í garð þess lýðs sem hann hafði útvalið. Sagan af samkiptum hans við þetta litla úrtak mannkyns er saga kærleika sem birtist jafnvel í öfgafullri mynd þar sem reiðin er ósvikin – rétt eins og við reiðumst þeim mest sem við elskum og ölum önn fyrir ef þeir bregðast trausti okkar eða stefna sér í voða.

Guð kristinnar trúar er svo ólíkur þeim guði sem svo oft er dreginn upp í textum heimspekinga – stóuspekinga eða hugsuða sem byggja á þeim grunni. Sá Guð var óbifanlegur og óbreytanlegur en Guð Biblíunnar er það ekki. Hann finnur til með manninum og öll samskipti hans tengjast þessu trúnaðartrausti. Ekki upplýstri speki eða því að við nálgumst Guð með vitsmununum. Nei, Guð stendur handan þeirra. Samfélag sem byggir á kærleika og lýsingin á því hvernig Guð setur sig í spor mannsins í hvívetna.

Tilfinningaríkidæmi

Hugsunin um samlíðan birtist ekki síður í pistlinum úr Hebreabréfinu sem leggur út af því inntaki sem fastan byggir á. Þar er talað um fórnina sem Jesús færði og allt orðalagið og öll framsetningin er með þeim hætti að það dregur fram þær sterku tilfinningar sem henni tengjast. Til þess að geta orðið annarri manneskju að liði þurfi hjálparinn að geta sett sig í spor hennar. Allt annað er fals og yfirdrepsskapur. Sá sem ekki hefur tök á því að setja sig í spor hins þjáða getur bara leikið hjálparann.

Aftur er það ekki hinn óbreytanlegi hugur sem er þar að verki heldur birtist Guð manninum sem ólgandi tilfinningavera. Og í textanum kemur m.a.s. fram sú afstaða að þar hafi hann náð fullkomnun er hann hafði með þjáningum sínum sýnt auðmýkt við hlutskipti sitt.

Fastan

Á þessum tíma árs, föstunni, hafa kristnir menn íhugað þessa þætti. Passíusálmar Hallgríms Péturssonar sem meðal annars eru lesnir hér í Keflavíkurkirkju eru grein af þeim meiði. Í þeim rekur séra Hallgrímur píslarsögu Krists, rétt eins og svo margir höfðu gert áður og hafa gert síðar – en fegurðin og dýptin í kveðskap hans byggist á því hvernig hann tengir þjáningar Krists og aðstæðum píslarsöguna við eigin reynslu. Þegar hann hugleiðir svefn lærisveinanna í grasagarðinum færir hann atburðinn á eigin líf:

Ef ég skal ekki sofna í synd, svo er náttúran veik og blind, um steinsnar máttu eitt mér frá aldrei, minn Jesú, víkja þá.

Það er eins og Saurbæjarskáldið sjálft sé í garðinum. Með sama hætti og það þegar lærisveinarnir sofnuðu eftir að Jesús yfirgaf þá – sofnar réttlætiskennd hans og varnir gegn syndinni þegar Jesús víkur frá honum.

Að setja sig í spor náungans

Á þessum tengslum byggir kristin trú. Hún er hugleiðing manna við æðri veruleika og stöðugt mæta okkur þessar aðstæður, samlíðan með náunganum. Samkennd Guðs með manninum. Frásögn er yfirfærð á aðstöðu lesandans og viðtakandans. Og allt ber þar að sama brunni: við setjum okkur í spor náungans og gerum kjör hans að okkar kjörum. Krossinn er ein sterkasta mynd þessa. Þar mætir Guð manninum í allri sinni þjáningu og einsemd og býður honum fram hjálpræði sitt í gegnum aldir og kynslóðir.

Guðspjallið er að lokum útlegging á þessari sömu hugsun. Við hlýddum á það í morgun í þremur útgáfum: fyrst úr Barnabiblíunni, svo túlkaði Erla söguna fyrir börnunum með loðmyndum og loks var sjálft guðspjallið lesið. Þar segir frá því er hann Bartímeus blessaður setið við borgarhliðin einn og afskiptur þrátt fyrir þau hátíðarhöld sem þar hafa verið um þetta leyti með fjöldanum öllum af klerkum og kennilýð sem þátttakendum. Nafnið þýðir í raun hið sama og ítrekað er í textanum: Bar á hebresku þýðir sonur og hann var einmitt sonur Tímeusar. Ekki bendir það til þess að hann hafi notið virðingar og enginn hefur séð hag sinn í því að rétta honum hjálparhönd hvað þá að leysa hann úr þeim fjötrum sem fötlun hans kallaði á.

Hjálpræðið

En ákall hans til Krists er upphafið að hjálpræðinu: Sonur Davíðs, miskunna þú mér – þetta er af sama meiði sprottið og við sungum um hér í upphafi guðsþjónustunnar: Drottinn miskunna þú oss. Ákallið kallar fram hjálpina sem sprettur upp af þeim djúpa skilningi sem Kristur sýnir.

Það er með samlíðunina eins og svo margt annað, að stundum birtist hún í dulargerfi eða í einhverri allt annarri mynd en henni er eiginlegt. Pauf mitt fyrir framan svartan sjónvarpsskjáinn er ég skynjaði mínúturnar líða af fótboltaleiknum fékk mig til að íhuga það hvaðan hvötin væri sprottin. Jú, frá því ég man eftir mér hef ég verið liverpool maður og þeir fjölmörgu kappar sem klæðst hafa þeim búningi hafa kallað fram bæði gleði og sorg í áranna rás. Stundum hef ég hrópað til þeirra hvatningarorð úr nokkurra þúsunda km. fjarlægð.

Ef við hugsum aðeins út í málið – þá er þetta sannarlega furðuleg hegðun. En ef við hugsum enn dýpra þá skynjum við eitthvað fallegt þarna að baki sem við getum virkjað til merkilegra dáða. Þetta tilfinningin sem dregur okkur hvert að öðru og kallar fram í okkur meðlíðan með náunga okkar. Í morgun við guðsþjónustuna þegar Erla sagði börnunum söguna af Bartímeusi blinda með aðstoð loðmynda horfði ég á andlit barnanna. Af svipbrigðum þeirra undir frásögninni að dæma er ég þess handviss að ekkert þeirra hefði heldur gengið framhjá honum án þess að rétta honum hjálparhönd.