Keflavíkurkirkja 1915

Keflavíkurkirkja 1915

Ég einsetti mér það að flytja þessa frásögn um glataða soninn án þess að minnast á útrásarvíkingana og sé ekki betur en að það hafi tekist, eða hvað?

Guðspjall: Lúk 15.11-32 Enn sagði Jesús: „Maður nokkur átti tvo sonu. Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna sem mér ber. Og faðirinn skipti með þeim eigum sínum. Fáum dögum síðar kom yngri sonurinn eigum sínum í verð og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann fé sínu í óhófsömum lifnaði. En er hann hafði öllu eytt varð mikið hungur í því landi og hann tók að líða skort. Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína og hefði hann feginn viljað seðja sig á drafinu er svínin átu en enginn gaf honum.

En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar en ég ferst hér úr hungri! Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.

Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. En sonurinn sagði við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Þá sagði faðir hans við þjóna sína: Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, við skulum eta og gera okkur glaðan dag. Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn. Tóku menn nú að gera sér glaðan dag.

En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið heyrði hann hljóðfæraslátt og dans. Hann kallaði á einn piltanna og spurði hvað um væri að vera. Hann svaraði: Bróðir þinn er kominn og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum af því að hann heimti hann heilan heim.

Þá reiddist eldri bróðirinn og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma. En hann svaraði föður sínum: Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum og mér hefur þú aldrei gefið kiðling að ég gæti glatt mig með vinum mínum. En þegar hann kemur, þessi sonur þinn sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann. Faðirinn sagði þá við hann: Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér og allt mitt er þitt. En nú varð að halda hátíð og fagna því að hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.“

Keflavíkurkirkja 1915, hvaða tilfinningar bærðust í brjóstum þeirra sem sátu þá á þeim kirkjubekkjum sem hér voru? Þetta var aldamótakynslóðin. Þeir elstu úr hópi kirkjugesta fæddust vísast í samskonar húsakynnum og fyrri kynslóðir Íslendinga – aldir aftur í tímann. Yngri kynslóðir höfðu hins vegar notið mun betra viðurværis þótt kjör þeirra þættu lök á okkar mælikvarða. Þetta voru umbrotatímar og ótrúlegar breytingar höfðu orðið hér á Íslandi sem víðar.

1915

Tímar suður í Evrópu voru válegir. Fyrri heimstyrjöldin var komin á annað ár en á þessum degi, 28. júní 1914 var Ferdinand prins ráðinn bani og þar með fór af stað sú atburðarrás sem hratt ófriðnum af stað. þarna kynntist heimsbyggðin í fyrsta skiptið hernaði þar sem gamlar hugmyndir um heiður og sæmd á vígvellinum mættu ótrúlegri framleiðslugetu. Þetta var banvænt stefnumót og náði mannfallið áður óþekktum hæðum.

Framfarirnar hér á Íslandi leiddu hins vegar til aukinnar farsældar. Keflavíkin var dæmi um byggð sem hafði vaxið ört í kjölfar nýrra tíma í sjávarútvegi. Fólkið sem fyllti kirkjubekkina hefur vísast átt sér rætur víða um land, tekið sig upp úr öðrum landshlutum eða nágrennabyggðum á Suðurnesjum og sótt í tækifærin hér í bænum.

Þarna var skammt stórra högga á milli. Rúmir fjórir áratugir voru liðnir frá því þjóðin fékk eigin stjórnarskrá, rúmur áratugur frá heimastjórn og enn áttu eftir að líða þrjú ár þar til fullveldið varð að veruleika. Það var skömmu eftir að stríðandi öfl sömdu vopnahlé í heimsstríðinu mikla eins og menn kölluðu það – þá örmagna eftir fyrstu alvöru kynni Evrópumanna af árekstri fjöldaframleiddra vígvéla og mannshörundsins. Hörundið reyndist varnarlítið gegn púðrinu, gasinu, blýinu og stálinu sem framleiðslutækin skiluðu af sér með margföldum afköstum miðað við það sem var í árdaga iðnbyltingarinnar svo ekki sé nú talað um önnur tímabil sögunnar.

Hér á Íslandi voru mannskaðar vissulega tíðir en kynslóðin sem fyllti bekkina var hins vegar einstök í sögu þjóðarinnar fyrir margra hluta sakir. Allar götur höfðu fjölskyldur eignast fjölda barna hér sem víðar. Meðalævin var hins vegar skömm og dánartíðnin var ámóta mikil og fæðingartíðnin – stundum var hún hærri og þá fækkaði landsmönnum. Þjóðin taldi jafnan 50 þúsund sálir og fór ekki upp fyrir það fyrir en á seinni helmingi 19. aldar.

Lítið kraftaverk, eða stórt

Aldamótakynslóðin lifði gerbreytta tíma. Aukið aðgengi að fæðu, meira hreinlæti, bættur húsakostur og hið fórnfúsa starf ljósmæðra hafði þau áhrif að dánartíðnin hrapaði þó fæðingartíðnin héldist söm. Þetta var tími hinna barnmörgu fjölskyldna – nokkuð sem vart þekktist áður og átti svo eftir að heyra sögunni til eins og svo margt annað. Ekki var óalgengt að hjón kæmu tíu börnum á legg og má það teljast lítið kraftaverk – eða stórt – hvernig tókst að vinna að menntamálum og öðrum æskulýðsmálum á þessum tíma.

Við getum velt því fyrir okkur hvernig svo veik samfélagsgerð megnaði að halda utan um þetta tröllaukna verkefni sem fylgdi fólksfjölguninni. Þar hefur starf kirkjunnar vegið þungt en kirkjan hafði öldum saman sinnt menntun og uppfræðslu meðal þjóðarinnar með þeim árangri að hér var læsi almennt. Á þessum tíma fór séra Friðrik fyrir stórum hópi ungra drengja þar sem hann miðlaði þeim af fjársjóðum fagnaðarerindisins. Í kjölfarið varð til ungmennahreyfing sem hafði það að leiðarljósi að byggja upp einstaklinga og samfélag. Engin leið er að gera sér í hugarlund hvernig þjóðfélagið hefði þróast ef ekki hefði verið fyrir þetta starf sem náði um tíma til nánast allra ungmenna á þéttbýlisstöðum.

Já, yngsta kynslóðin sem sat hér á kirkjubekkjum átti eftir að halda áfram þeirri uppbyggingu sem hafin var á þeim skamma tíma sem íslenska iðnbyltingin hafði staðið yfir. Árið 1915 var Ísland eitt af fátækustu ríkjum í Evrópu. Þegar öldin var liðin var landið í hópi þeirra ríkustu. Það er ekki lítið afrek. Árið 1915 rúmuðu gömlu kirkjubekkirnir alla íbúa Keflavíkur. Í dag reiknast mér til að þessi 230 sæti sem hér eru geti tekið á móti tæpum 3% þeirra 8000 íbúa sem búa í póstnúmerinu 230. Kirkjan hefur því ekki staðið sig sem skyldi með tilliti til þess vaxtar sem hefur verið í sókninni!

Keflavíkurkirkja 1915 – af hverju rifjum við þessa tíma upp núna? Vegna þess að við erum hluti af ákveðnu samhengi og við berum ekki bara skyldur við samtíma okkar og framtíð. Við erum að sama skapi skuldbundin fortíðinni. Við þurfum að huga að því sem okkur hefur verið afhent og þegar við horfum til framtíðar ber okkur skylda að horfa líka aftur fyrir okkur og skoða hvaðan við komum.

Norðaustur

Nú á dögunum vorum sótti ég áhugavert námskeið sem fjallaði meðal annars um stefnumótun og framtíðarsýn. Leiðbeinendurnir báðu okkur að standa í hring á gólfinu, loka augunum og benda svo í norðaustur. Þegar við opnuðum þau aftur vísuðu fingur okkar í allar mögulegar áttir. Þegar við áttum svo að taka skref í þá átt sem við bentum á endaði allt í tómum glundroða. Við höfðum ekki hugmynd um það hvert við áttum að stefna. Sá sem veit hvar norðaustur er, þekkir líka allar hinar áttirnar. Já, þó við þekkjum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér höfum við aðgang að fortíðinni og sú vitneskja getur gefið okkur dýrmæta sýn á hið ókomna.

Glataður og týndur

Sagan sem við fáum að heyra í kirkjunni í dag fjallar um mann sem afneitar uppruna sínum. Hún segir frá ungum manni sem hefur ekki áhuga á því að starfa á þeim vettvangi þar sem rætur hans lágu. Hann tekur ákvörðun um það að hirða það sem hann getur úr fortíðinni og yfirgefa hana svo þar sem hann heldur á vit nýrra ævintýra. Hann heldur inn í framtíðina með rótlausan arfinn í farteskinu. Kristur segir þessa sögu og hann lýsir því hvað gerist þegar rótarkerfið er yfirgefið og græðlingurinn slítur sig lausan. Frásögnin er ekki fögur. Fyrst gengur allt eins og í sögu en svo um leið og aðstæðurnar versna fer að halla undan fæti hjá lukkuriddaranum sem endar svo í hinni martraðarkenndu sýn gyðingsins að þurfa að sníkja fæðu frá hinum óhreinu svínum „en enginn gaf honum“.

Glataði sonurinn – týndi sonurinn, þetta orð notum við um hann. Af hverju var hann týndur? Vissi hann ekki hvar hann var staddur? Hver er týndur, af hverju og við hvaða aðstæður fellum við þann dóm? Yfir því orði hvílir einhver mara. Í kirkjugörðum eru víða minnisvarðar um horfna, um þá sem farist hafa í hafi eða óbyggðum og lík þeirra ekki fundist. Minnisvarðar þessir gefa aðstandendum færi á því að eiga einhvern stað þar sem þeir geta minnst sinna nánustu. Um leið verður óvissan á vissan hátt minni og ógnin örlítið viðráðanlegri. Sorgin fær ákveðinn stað í veruleikanum þar sem syrgjendur geta komið saman og minnst hinna horfnu. Glataði sonurinn hefði getað horfið í mannmergðinni mitt í allri sinni eymd og honum hefði enginn minnisvarði verið reistur.

Harmsaga eða fagnaðarerindi

Yfirskriftin, „Glataði sonurinn“ segir þó ekki alla söguna um hlustskipti hans. Sagan er ekki harmleikur eins og ætla má af yfirskriftinni. Nei, sagan býr yfir farsælum endi. Framtíðin reynist á endanum björt og fögur. Vendipunkturinn eins og greint er frá í guðspjallinu er þegar pilturinn „kom til sjálfs sín“. Hvað merkir það að koma til sjálfs sín? Það eru umskiptin stóru. Hann hættir að einblína út á við. Hann hættir að fylgja þeirri leið sem hann taldi hina einu sönnu. Fingur hans bentu í ranga átt eins og fingur margra okkar gerðu þegar við áttum blindandi að finna norðaustur en bentu þó í einhverja aðra átt. Einu gildir hversu hratt við göngum, hversu hátt við klífum eða hvernig okkur tekst að yfirvinna hindranir á leið okkar. Ef við förum í vitlausa átt hafa þessir eiginleikar okkar ekkert að segja. Við förum villur vega, við eigum það á hættu að týnast, glatast, hverfa.

Nei, við þurfum að byrja á því að horfa inn á við, að koma til sjálfra okkar.

Torgið

Keflavíkurkirkja 1915, hvaða tilfinningar bærðust í brjóstum þeirra sem sátu þá á þeim kirkjubekkjum sem hér voru? Hafði það áður komið inn í svo stóran helgidóm? Væri tilfinning þeirra hér inni sambærileg því að við kæmum inn í kirkju sem tæki 8000 manns í sæti? Allt er jú afstætt. Við getum sett okkur í spor þeirra og við getum sannarlega hrifist af eldmóðnum sem einkenndi þennan hóp og þá kraftmiklu uppbyggingu sem hann stóð fyrir.

Hann byggði stórhýsi og þetta stórhýsi er eins og torg þar sem mætast ólíkar áttir. Á þessu torgi mætum við fortíðinni. Við rifjum upp. Við lesum gamla texta, setjum okkur í spor liðinna kynslóða. Við beyjum okkur niður og þreifum á moldinni, rótum í henni og sjáum þar hluta af rótarkerfinu sem er þar undir trjástofnunum og við vitum að ræturnar ná djúpt niður og teygja sig í allar áttir. Án þeirra stæði þar ekkert tré.

Á þessu torgi mætum við okkur sjálfum í þeim verkefnum sem við fáumst við hverju sinni. Þetta er textinn sem talar inn í aðstæður okkar hér og nú. Textinn spyr okkur til dæmis hvað við eigum sameiginlegt með syninum sem sólundaði því sem fyrri kynslóð hafði látið honum í té. Textinn bendir okkur á skyldur okkar við Guð og náungann.

Á þessu torgi horfum við til framtíðar. Já, stórhýsið, kirkjan er líka helguð ímyndunaraflinu – þessu vannýtta stórkostlega verkfæri sem má vel vera að sé einstakt í öllu lífríkinu. Ef við hefðum ekki hugmyndir og hugarflug gerðum við aldrei neitt. Já, sjálf messan vísar til framtíðar – orðið er komið af latneska orðinu mittere sem merkir að senda. Við komum saman í kirkjunni og svo erum við send þaðan út, á vit framtíðar til þess að leggja þar okkar af mörkum vel nestuð af dýrmætum boðskap.

Enn ein víddin

Já, sagan um glataða soninn er ekki harmsaga. Hún er hluti af boðskap Krists til okkar sem við köllum með réttu fagnaðarerindi. Boðskapurinn er vissulega áminning en yfir öllu býr fyrirgefningin og þetta heimboð sem okkur öllum stendur til boða. Komið aftur! Bætið ráð ykkar! Snúið til baka og hugleiðið það hvaðan þið eruð komin. Þá tekur Drottinn ykkur opnum örmum. Einu gildir hvaða álit heimurinn hefur á ykkur eða hvaða dóma umhverfið kann að fella. Armur Guðs er alltaf opinn. Sú fullvissa bætir enn einni víddinni við í líf þeirra sem fylla hér kirkjubekki hvort sem það er 1915 eða 2009. Það er sú kjölfesta að vera ekki undirseldur umhverfinu heldur hafa sjálfur skýra sýn sem víkur ekki frá okkur.

Við þekkjum ekki framtíðina og vitum ekki hvað hún ber í skauti sér, nema það eitt að sá sem skellir skollaeyrum við fortíðinni, lærir ekki af mistökunum, hampar ekki því sem vel er gert, er sinnulaus um arfleið sína og rætur – hann á ekki bjarta framtíð. Um það ættum við að geta verið sammála.

Ég einsetti mér það að flytja þessa frásögn um glataða soninn án þess að minnast á útrásarvíkingana og sé ekki betur en að það hafi tekist, eða hvað?

Predikun þessi var flutt við guðsþjónustu þar sögu kirkjunnar var minnst. Að athöfn lokinni gengu kirkjugestir um nágrenni kirkjunnar í fylgd Kristjáns Jónssonar fv. kennara sem sagði sögu húsanna í kringum kirkjuna og hvernig fyrstu íbúar þeirra tengjast safnaðarstarfinu í kirkjunni á fyrstu árum þess. Keflavíkurkirkja var vígð 14. febrúar 1915.