Dramb er falli næst

Dramb er falli næst

Eitt af því mörgu ánægjulega sem fylgir því að vera prestur í Neskirkju er að fá að heimsækja listamenn. Við söfnuðinn starfar öflugt sjónlistaráð og eru sýningar ákveðnar með góðum fyrirvara. Ráðsfólk hefur því tækifæri til að spjalla við þá jafnvel áður en þeir vinna verk sín sem svo verða til sýningar. Sú er og raunin núna með þann viðburð sem nú er í undirbúningi.

Sigga Björg

Sigga Björg Sigurðardóttir málar myndir sínar bæði á pappír og líka beint á veggi. Við höfum því fylgst með henni að störfum. Þá um leið er áhugavert að fylgjast með því hvernig listakonan vinnur.

Þegar við hér á eftir göngum um salina og virðum verkin fyrir okkur er ekki ósennilegt að einhver velti því fyrir sér, hvert listamaðurinn sækir sinni innblástur. Já við hér í kirkjunni erum vön því að tala um, andann. Við nefnum heilagan anda í lok trúarjátningarinnar og í því felast uppljómun og æðri hughrif. Kirkjan miðar meira að segja upphaf sitt við það þegar heilagur andi kom yfir postulana og þeir gátu talað framandi tungum.

Ekki skal ég fullyrða neitt um þann anda sem drífur listakonuna áfram. Þessar myndir af fígúrum og fyrirbærum virka á mig sem paródía á mannlífið sem slíkt og líka óður til ákveðinna þátta sem búa í sálu hvers manns. Þarna ólgar allt af orku en orkan verður þessum verum ekki til framdráttar eða kemur þeim áfram. Það er frekar að hún leysist upp. Hún endar stundum spýju sem gusast út úr þeim – í báða enda. Og gott ef höfuðið og bakhlutinn leysast ekki upp í sprengingu.

Í verkunum finnst mér sem listamaðurinn leiki sér með ákveðin mörk sem finna má í lífinu og í sálarlífi hvers og eins okkar. Skilin á milli hins innra og hins ytra eru óljós og óskýr. Vessar sem vella úr sumum þessara vera, en þeir í raun áfastir þeim. Þeir eru útrás eða losun en um leið má sjá hvernig eitthvað nýtt sprettur upp af þeim. Þetta eru eins og mannlýsingar, jafnvel persónugerðir sem við könnumst við úr okkar lífi eða sögum. Myndir hennar gætu verið sóttar í verk Hieronymusar Bosch. Þarna birtast okkur kynlegir kvistir, fígúrur sem geta verið martraðarkenndar en samt á einhvern hátt kómískar og grátbroslegar.

Dramb er falli næst

Mögulega er þetta hinn asasjúki maður nútímans eða sú manngerð sem hinar klassísku bókmenntir og aðrar listgreinar fjallað um í gegnum tíðina. Sá sem kann sér engin mörk og kemur sér iðullega á einhvern stað þar sem hann á ekki heima. Já, þetta er ekki endilega ákveðin manngerð, heldur hliðar sem búa í hverju okkar, mér og þér.

Ekkert er nýtt undir sólinni og hömluleysi er ekki bundið við samtíma okkar. Guðspjall dagsins birtir okkur svipaða áminningu. Það er í raun ákveðin paródía – þar sem Jesús bregður upp mynd af vægast sagt vandræðalegri uppákomu. Hann lýsir því hvernig kappsamur og ákafur gestur í brúðkaupi treður sér með tilþrifum í sæti við sjálft háborðið. Og þar sem hann situr þar fyrir allra augum kemur veislustjórinn og biður hann um að færa sig úr þessu virðingarsæti. Hann kemur honum fyrir við útganginn þar sem sístur sómi þótti vera af því að sitja. Æ, hvað þetta er klaufalegt og þarna situr sá framhleypni rjóður í framan af skömm, á þeim stað sem hann hefði síst viljað vera á.

Dramb er falli næst/hroki veit á hrun. Þetta stendur í lexíu dagsins sem er úr einu af spekiritum Gamla testamentisins – Orðskviðunum. Og í framhaldi: Betra er að vera hógvær með lítillátum en deila feng með dramblátum.

Auðmýkt/Humilitas

Hófsemdin, auðmýktin er jú orð dagsins hér í kirkjunni. Á mörgum tungumálum er orðið yfir hógværð sótt í latínu: Humilitas, sem er af sama stofni og orðið humus – mold. Homo, maður, á sér líka þær rætur. Auðmýktin er eðli málsins samkvæmt nokkuð sem þarf að halda að fólki og hampa því það er víst síður en svo sjálfgefið að fólk leiti hennar. Skilningur margra á auðmýkt og hófsemd er líka held ég á villigötum. Því hún á ekkert skylt við undirlægjuhátt eða það að gera lítið úr eigin kostum og dygðum. Auðmýkt er einmitt það – mýkt sem leyfir okkur að vera manneskjur í umhverfi okkar, stundum berskjölduð í einlægni og auðsæranleika.

Hún er ekki veiklyndi, ekki skortur á sjálfstrausti eða sjálfsáliti. Heldur þvert á móti. Hún er getan til að líta verk okkar réttu ljósi, vera tilbúin að mæta gagnrýni og leita ráða hjá þeim sem betur þekkja til. Í henni býr í senn styrkur og sveigjanleiki.

Spekin, hampar auðmýktinni og hófsemdinni sem er henni náskyld. Það getum við lesið í hugmyndum Aristótelesar segm sagði hana æðsta allra dygða enda væri hvert ágæti í okkar fasi meðalhóf tveggja öfga. Hugrakkur einstaklingur er hvorki huglaus né fífldjarfur og iðin manneskja er hvorki húðlöt né ofvirk – þótt það hugtak hafi ef til vill haft aðra merkingu þá en nú. Nei, afburðafólk og afburðaþjóðfélög sigla miðja leið á milli þess sem er of eða van og til þess að geta fetað þá jafnvægislist þurfum við einmitt hófsemd.

Þessi hugmynd um hófsemdina sem höfuðdygð á sér því víða hliðstæðu og í Biblíunni eru kristnið fólk hvatt til að gæta hófs. Allt frá upphafi ritningarinnar, í sögunni af Adam og Evu í aldingerðinum lesum við um þá áráttu að einblína á það sem ekki má en þykja minna til þess koma sem leyfilegt er og gagnlegt.
Og ástæðu þess að við kennum okkur við Lúther karlinn má m.a. rekja til heilagrar vandlætingar hans á oflæti páfans og preláta hans. Síðan þá hefur menning sú sem kennd er við mótmælendasið, í Norður Þýskalandi, Niðurlöndum og Norðurlöndum auk víða vestanhafs einkennst af því að menn fara sparlega með það sem þeim er útdeilt.

Hroki veit á hrun

Já, hroki veit á hrun: Bráðum minnumst við tíu ára afmælis þeirra tímamóta í íslenskri hagsögu. Við tölum enn um„fyrir og eftir hrun“ eins og nágrannaþjóðir miða við seinna stríð. Á þessum tímamótum ættum við einmitt að minnast þeirrar hegðunar sem hampað var á Íslandi og lítið var gert úr þeim sem töldu hana leiða til ófarnaðar. Þá stærðu menn sig af því að vera eldsnöggir að ganga frá samningum. Á meðan Danirnir, Hollendingarnir og hinir lágu yfir reiknivélunum var víkingurinn búinn að draga upp veskið og ganga frá því sem þurfti. Hófsemdin var ekki hátt skrifuð þá og nú er takturinn aftur orðinn kunnuglegur. Ekki er laust við að landinn sé aftur farinn að minna á manninn í dæmisögu Jesú, sem olnbogaði sig með látum í gegnum þvögu gesta í veislunni og tróð sér með látum við háborðið.

Hófsemdin er andstæða þessarar hegðurnar og hún á margt sameiginlegt með góðum og frjósömum jarðvegi – eins og hið alþjóðlega orð hennar ber með sér. Upp úr henni vex svo margt sem er gott og byggir upp. Það er eins og sá sem sest við endann í fyrstu og lætur svo bjóða sér í annað og betra sæti. Í þessari líkingu leynast jú þau skilaboð að margt gott getur vaxið upp úr jörð hófsemdarinnar.

Af auðmýkt vex hreinskilni: Ég á ekki svör við öllu, ég hef gagn af því að kynna mér það sem aðrir hafa fram að færa. Ég klúðraði þessu – já höldum áfram! Þar býr viljinn til að gera betur, halda áfram að sinna þeim grunnþörfum sem líklega búa í okkur öllum, sem er að tilheyra einhverju sem er dýpra og breiðara en við sjálf. Og lifir okkur þegar dagar okkar eru að baki.

Ég er ekki að predika!

Eru myndir Siggu Bjargar hluti af þeirri hefð sem minnir okkur á það hversu varhugavert það er að setjast óboðinn í hefðarsæti, láta berast áfram höfuðlaus á fararskjótanum? Ég veit af kynnum mínum við þá listamenn sem hér hafa sýnt að þeir vilja aldrei kannast við það að vera að predika. Þá meina þér, held ég að segja fólki hvað það eigi að hugsa. Það er vissulega virðingarverð afstaða.

En predikun snýst ekki um það. Sá eða sú sem predikar einfaldlega að segja skoðun sína og fólki er velkomið að hafna henni ef því sýnist svo! Predikarinn, hann eða hún, leggur með orðum sínu sitt af mörkum til hins sístæða samtals sem við köllum menningu. Þar er hlutverk myndlistarinnar ótvírætt og hér á eftir getið þið ágætu sýningargestir metið það hvort það er einhver glóra í túlkun minni á verkum hennar Siggu Bjargar.