Blessun skalt þú vera

Blessun skalt þú vera

Leggjum inn í nýjan áratug með sama hugarfari og við þiggjum nýtt augnablik, nýtt andartak, í trausti til Guðs sem lítur til okkar eins og móðir sem leggur barn sitt að brjósti til að næra það og veita öryggi.

Nýárshelgistund í Grensáskirkju 1.1.2021


Gleðilegt ár, kæru vinir, gleðilegt árið 2021! Árið 2020 hefur kvatt, Guði sé lof fyrir það, og þar með rann annar áratugur aldarinnar sitt skeið, en samkvæmt Þorsteini Sæmundssyni stjörnufræðingi hefst nýr áratugur á ári sem endar á tölustafnum 1 enda er ekkert sem heitir ár núll samkvæmt okkar tímatali. Því getum við einnig sagt: Gleðilegan nýjan áratug, þriðja áratug tuttugustu og fyrstu aldarinnar.

Biblían er með áhugavert sjónarhorn á tímann - að hvert sjöunda ár skuli vera hvíldarár (sjá 3Mós 25) og nýtt upphaf hefjist það áttunda, svipað og sjö daga vikan sem byggir á sköpunardögunum sjö og sjöundi dagurinn hvíldardagurHeimfært á okkar tímatal er 2020 því tileinkað einhvers konar hvíld, skrifaði ég í upphafi þess árs á Fasbókina, „að ná áttum, jafna sig, núllstilla. Næst kemur 2021, nýtt upphaf, nýr áratugur, ný sjö ára hringrás út frá þeirri tímatalningu.

Svona eftir á séð er eitthvert viskukorn þarna að finna. Árið 2020 reyndist heimsbyggðinni ekkert sérlega heilladrjúgt sökum farsóttarinnar en mörg okkar fengu samt einmitt tíma til að hvíla sig og núllstilla á ýmsa vegu. Hreinsað var til í geymslum, hús og kirkjur lagfærð og ryk dustað af ýmissi innanhúss iðju. Fólk reimaði á sig hlaupaskóna og dró hjólin fram og svo var farið hringinn í stað utanlandsferða. Við lærðum að í hinu smáa felast verðmæti og að ekki þarf að leita langt yfir skammt að lífsfyllingu. Meira að segja jörðin, sköpunarverkið, naut góðs af því að allt hægði á sér og mengun mældist umtalsvert minni en áður víða um heim. 

Og nú tekur eitthvað nýtt við. Fyrirheit hafa verið gefin um veirufrían veruleika sem upp muni renna á þessu ári, alla vega í velmegunarheiminum, og framkvæmd þegar hafin. Væntingar eru miklar, að fermingar og útskriftir geti farið fram fyrir fullu húsi í vor og engum brúðkaupum verði aflýst í sumar. Við berum þá von í brjósti að við munum endurheimta líf okkar eins og við þekktum það fyrir kófið – væntanlega reynslunni ríkari. 

Engin ástæða er til að ætla annað en lífið komist á ný í fastar skorður innan tíðar. En kófið minnir okkur sannarlega á að áætlanir okkar verða aldrei annað en það, eitthvað sem við ætlum okkur að gera en höfum enga fullvissu um að verði. Fyrirætlanir okkar eru fallvalltar, segir í Speki Salómons (9.14). Það vitum við af biturri reynslu. En góðu fréttirnar eru að þær fyrirætlanir sem Guð hefur í hyggju með okkur eru til heilla en ekki til óhamingju, að veita okkur vonarríka framtíð, eins og segir hjá Jeremía spámanni (29.11-14):

Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. Þegar þér ákallið mig og komið og biðjið til mín mun ég bænheyra yður. Ef þér leitið mín munuð þér finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta læt ég yður finna mig, segir Drottinn. 

Vonarrík framtíð. Von mannkyns birtist ekki í valdi né krafti heldur fyrir anda Guðs (Sak 4.6) – í barninu litla í Betlehem. Og nú er nýársdagur, áttundi dagur jóla. Á áttunda degi var barnið helgað Guði svo sem siðvenjan kvað á um og var hann látinn heita Yeshua eins og engilinn nefndi hann áður en hann var getinn í móðurlífi (Lúk  1.31, 2.21) en hebreska nafnið merkir frelsari, endurlausnari, já leysandi nærvera fyrirgefningar og nýs upphafs. 

Áttundi dagur, fyrsti dagur nýrrar viku, nýtt upphaf, nýju barni gefið nafn. Við fögnum nýju ári, fyrsta ári nýs áratugar. Nýtt upphaf? Já – bæði af því að hvert andartak er nýtt, hefur aldrei fyrr verið til, en líka vegna þess að við veljum að taka á móti því nýja, því vonarríka, því sem horfir sem til heilla – í frelsarans Jesú nafni. 

Guðspjall dagsins segir okkur að Jesús viti sjálfur hvað í manni býr. Jesús veit hvað í þér býr. Jesús veit. Það eru góð orð að halda inn í nýja árið með. Þú og ég, við vitum ekki hvað nýja árið ber í skauti sér, hvað þá nýji áratugurinn. Dagurinn á morgun er okkur hulinn, hvað þá 31. desember 2021 eða 2030. 

En með Jesú Kristi sem er hinn sami í gær og í dag og um aldir (Heb 13.8), í Jesú nafni, eigum við vonarríka framtíð, og nýja árið mun bera okkur blessun Guðs. Leggjum inn í nýjan áratug með sama hugarfari og við þiggjum nýtt augnablik, nýtt andartak, í trausti til Guðs sem lítur til okkar eins og móðir sem leggur barn sitt að brjósti til að næra það og veita öryggi. Leyfum ásjónu Guðs að lýsa yfir okkur í náð og friði eins og segir í blessunarorðunum sem er að finna í fjórðu Mósebók (4Mós 6.24-26): 

Drottinn blessi þig og varðveiti þig,
Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur,
Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Og þessa blessun biður Guð okkur um að flytja áfram, „Blessun skalt þú vera,“ segir Guð við Abram (1Mós 12.2). „Leggið nafn mitt yfir fólk og ég mun blessa þau,“ segir Guð við Móse (4Mós 6.27). Getum við tekið þá gjöf til okkar, að vera blessun inn í nýja árið, blessun hverjum þeim sem mætir okkur, að blessun, friður og frelsi Guðs fari á undan okkur, ljómi af okkur, fylgi okkur hvar sem við erum og hverjum sem við mætum? 

Það gæti verið verðugt nýársheit, að vera blessun inn í líf fólks. Nýtum okkur þetta nýja upphaf, uppbyggingarárið með öllum sínum sköpunarkrafti, til að þiggja Guðs blessun inn í okkar eigið líf og veita henni áfram. Finnum kraft Guðs að verki við upphaf nýs áratugar og þiggjum vonarríka framtíð sem er ekki undir okkur sjálfum komin eða okkar frábæra skipulagi heldur Guði sem lífið gefur. 


Hér eru nokkrar hugmyndir fyrir nýja árið: 


·      Þegar við göngum inn á vinnustaðinn okkar, einsetjum okkur að færa blessun.

·      Gerum okkur far um að vera til blessunar þegar við erum úti í umferðinni eða komum við í verslun. 

·      Þegar við komum heim úr vinnunni, höfum hugarfar blessunar með okkur inn á heimilið okkar. 

·      Flytjum orð og anda blessunar út á alnetið þegar við setjumst við samfélagsmiðlaskrif. 

En um fram allt: Tökum okkur tíma til kyrrðar og uppbyggingar, til að fyllast blessun Guðs svo við getum verið farvegur hennar inn í allt það óskrifaða og óorðna, inn í hvert nýtt upphaf, hverja nýja byrjun, hvert augnablik, eitt andartak í einu. 

 

Guðs blessun fylgi þér og þínum – hvert sem leiðin liggur. Amen.+