Hæfileg fjarlægð og nauðsynleg nálægð

Hæfileg fjarlægð og nauðsynleg nálægð

Nú er kjörið tækifæri til að prófa bænina og láta á það reyna hvort hún breyti einhverju.

Systir mín kallar veiruna sem tröllríður öllum heiminum „kóríander-veiruna“. Hún þolir ekki kóríander, finnst hann vondur og segir að lyktin minni á sig helst á óhreina borðtusku! Þessi örsmáa kórónuveira sem sést ekki með berum augum hefur haft gríðarleg áhrif á heiminn allan svo ekki sér fyrir endann á og þar á meðal á samskiptahætti okkar. Við höfum af illri nauðsyn einangrað okkur hvert frá öðru, hætt að heilsast með venjulegum hætti og það er orðið eðlilegt að taka stóran sveig fram hjá hvert öðru þegar við mætumst á förnum vegi.
Reyndar eru ekki allir sveigjanlegir. Nýverið mættum ég og vinkona mín manni á göngustíg sem staldraði við á sinni göngu með vísifingurinn á lofti til að benda okkur á hvert við ættum að fara. Honum var greinilega í mun að halda tveggja metra regluna en virtist ekki hafa dottið í hug að hann gæti sjálfur vikið til hliðar. Og þannig eru mannleg samskipti. Það reynir á að vera manneskja og við erum öll að reyna að fóta okkur í tilverunni hvert með öðru. Oft erum við meðvitaðri um hvernig aðrir eiga að haga sér en eigum erfiðara með að sjá hvað við getum gert til að vera í góðum tengslum.
Því miður er stundum hreinlega nauðsynlegt að halda fólki í hæfilegri fjarlægð þó engin kórónuveira ógni. Fólk hefur nefnilega svo mismunandi nærveru. Með sumu fólki líður manni ætíð vel en aðrir geta með nálægð sinni valdið óþægindum og vanlíðan. Stundum er nauðsynlegt að halda fólki í hæfilegri fjarlægð vegna neikvæðra áhrifa þess og það er ekki gott.
Í dag er hinsvegar æskilegt að hafa sem flesta þannig. Til þess að varna því að veiruskömmin æði um allt þurfum við að halda fólki í hæfilegri fjarlægð og halda okkur sjálfum í burtu. Einmitt á tímum þar sem við þurfum svo mikið hvert á öðru að halda og þegar við vildum svo gjarnan vera nálæg. Við finnum sárt til þess að geta ekki umfaðmað þau sem við tengjumst fjölskyldu- og vinaböndum. Við erum reyndar svo lánsöm að geta haft samband í gegnum allskyns nútímatækni sem kemur sér vel. Þetta ástand hefur opnað fyrir fólki möguleika snjalltækjanna og fjölmargir hafa tileinkað sér nýja færni.
En hvernig sem tjáskiptin fara fram þá er mikilvægt að þora að vera nálægur. Að hlusta vel og skynja einnig það sem ekki er sagt. Pirringur og reiði er ef til vill merki um undirliggjandi ótta sem of sárt er að orða. Nöldrið og tautið er kannski tákn um væntumþykju sem erfitt er að tjá. Við gætum öll hlustað betur hvert á annað. Verið með eyrun opin og ekki bara upptekin af því sem við ætlum að segja næst. Það jafnast fátt á við góðan hlustanda sem leggur sig fram um að heyra og hefur lifandi áhuga á því sem þú hefur fram að færa. Þegar við eigum gott samtal við fólk sem kann að hlusta þá finnst okkur sem svo margt dýrmætt hafi verið sagt þó að orðin hafi ekki verið ýkja mörg. Í góðu samtali tengjumst við öðrum sterkum böndum og upplifum nánd. Já, sem betur fer felst nándin við aðra ekki aðeins í því að hittast og knúsast.
Við mætumst einnig þegar við hugsum hlýtt hvert til annars, finnum til hvert með öðru og biðjum hvert fyrir öðru. Bænin er dýrmætt verkfæri sem Guð hefur gefið okkur. Við þurfum ekki einu sinni orð til þess að iðka hana. Á þeirri stundu sem við nálgumst Guð í bæn er eins og við opnum fyrir Jesú sem kemur til okkar. Hann er okkur nálægur í anda sínum og við getum fundið frið hans innra með okkur. Kannski er langt síðan þú hefur beðið. Þú baðst ef til vill sem barn en hefur ekki vanið þig á það á fullorðinsárum. Nú er kjörið tækifæri til að prófa bænina og láta á það reyna hvort hún breyti einhverju. Gott er að gefa sér ákveðinn tíma, á morgnana eða kvöldin og jafnvel ákveðinn stað. Setjast niður í næði og nota eigin orð þó það hljómi skringilega til að byrja með. Nú eða bænavers sem við kunnum frá bernsku eða lærum alveg upp á nýtt. Á veraldarvefnum er til dæmis hægt að finna ýmsar bænir með því að fletta upp bæn sem leitarorði. Þegar við gerum þetta að reglu og gefum bæninni tíma í lífi okkar þá mun bænin hafa sín áhrif til góðs. Við finnum innri frið og ró sem eflir okkur og nærir. Við sjáum hlutina í skýrara ljósi. Við finnum að við erum hluti af stærri biðjandi heild um heim allan og skynjum nálægð Guðs sem er engu öðru lík. Bænin breytir miklu og mun örugglega breyta okkur sjálfum til hins betra.
Á tímum sem nú er ótrúlega dýrmætt að vita af því að Jesús kemur til okkar og er hjá okkur. Hann hjálpar okkur í óvissunni sem við glímum öll við og gefur okkur styrk til þess að styðja við aðra. Í bæninni erum við á sérstakan hátt nálæg Jesú og hvert öðru þó að við séum landfræðilega í órafjarlægð hvert frá öðru. Við getum öll verið í hæfilegri fjarlægð og nauðsynlegri nálægð með því að vera með hvert öðru í andanum.