Raddir framtíðarinnar

Raddir framtíðarinnar

Fulltrúar af Kirkjuþingi unga fólksins tjá sig um þau mál sem brenna á þeim í kvöldguðsþjónustu á annan Hvítasunnudag. Hugvekjur eftir Daníel Ágúst Gautason, Unni Hlíf Rúnarsdóttur og Katrínu Sigríði Steingrímsdóttur.

Fulltrúar af Kirkjuþingi unga fólksins tjá sig um þau mál sem brenna á þeim í kvöldguðsþjónustu á annan Hvítasunnudag.

dsc_3029-2.jpg

Daníel Ágúst Gautason Guðfræðinemi og fulltrúi Reykjavíkurprófastsdæmi Vestra

Kirkjuþing unga fólksins hefur verið haldið fimm sinnum. Aldrei hefur það vakið jafn mikla athygli og það gerði nú í byrjun mánaðarins. Tillaga okkar á þinginu um að afnema samviskufrelsi presta náði að komast á forsíðu Fréttablaðsins. Prestarnir Sigurvin Lárus Jónsson og Hildur Eir Bolladóttir komu fram í viðtölum í útvarpi til að fjalla um þetta málefni. Halldór gerði skopmynd af Agnesi biskupi í Fréttablaðinu og nú hefur Agnes sjálf skrifað grein í Fréttablaðið til að útskýra sína stöðu gagnvart málinu.

Tillögur kirkjuþings unga fólksins hafa sjaldan farið í gegn til kirkjuþingsins. Þegar tillagan um samviskufrelsið var sett fram á kirkjuþingi unga fólksins var efast um að málefnið yrði tekið upp á kirkjuþingi, jafnvel þótt um væri að ræða svona mikilvægt málefni. Kirkjuþing hefði auðveldlega getað hunsað þessa tillögu okkar. Núna verður það hinsvegar að taka afstöðu til tillögunnar þar sem málefnið kom í fjölmiðlunum. Það að málið kom í fréttunum var það besta, að mínu mati, sem gat gerst í málinu. Nú hefur vaknað umræða um þetta umdeilda mál sem krefst þess að samviskufrelsið verður endurmetið.

Umræðan hefur minnkað hjá almenningi en tillaga okkar er hinsvegar komin á dagskrá og ég gæti varla verið ánægðari með það. Það eru jú prestarnir sem að þurfa að mynda sér afstöðu og kjósa um þetta mál á hinu háa kirkjuþingi. Nú verðum við bara að vona að prestarnir taki rétta ákvörðun. Við vitum að það eru prestar innan Þjóðkirkjunnar sem eru á móti hjónavígslu samkynja para. Við vitum líka að það eru til prestar sem styðja samviskufrelsi presta því þeir telja það vera hluti af mannréttindum presta.

Ég hef verið spurður hvort mér hafi ekki verið spillt af Sigurvini, ofurfrjálslynda prestinum eins hann var kallaður á visi.is. Ég ætla að fullvissa ykkur um það að engin spilling átti sér stað á kirkjuþingi unga fólksins. Þetta var samkoma ungleiðtoga með ákveðna framtíðarhugsun fyrir kirkjuna. Niðurstaða kirkjuþingsins var meðal annars að fordómar gegn samkynhneigðum ætti ekki heima innan kirkjunnar, sem á að einkennast af kærleika og mannvirðingu.

Hver sem skoðun hinna mörgu presta Þjóðkirkjunnar gætu verið erum við sem voru á þinginu glöð með það að okkar hugsjónir bárust til almennings og vonum að það hafi veitt von um hvernig kirkjan verður þegar við tökum við henni. Kirkja sem dæmir ekki fólk út af kyni, kynhneigð eða kynþætti. Kirkja sem lætur í sér heyra þegar hún verður vitni að óréttlæti í samfélaginu og lætur til sín taka og grípur til aðgerða þegar óréttlæti á sér stað innan hennar. Kirkja sem lítur upp frá bókstaf Biblíunnar og horfir í raun á þær manneskjur sem hún hefur það markmið að hjálpa. Kirkja með hjarta úr holdi en ekki úr steini.

Unga fólkið í kirkjunni er framtíðin. Það slæma við þessa skilgreiningu er að hún hefur verið notuð til þess að réttlæta það að hlusta ekki á unga fólkið í samtímanum. En við erum ekki bara framtíðin. Við erum líka samtíminn. Við höfum rödd og við höfum réttlætissýn. Við viljum að það verði hlustað á kröfur okkar innan kirkjunnar.

Krafan er um kirkju sem stuðlar að mannréttindum og fordómalausu samfélagi. Það sem við erum að biðja um er mikilvægt, og ef að eldra fólkið innan kirkjunnar ætlar að láta þetta mál kjurrt liggja þá verður unga fólkið að taka það í sínar eigin hendur að vekja athygli almennings.

Eins og Eurovision sigurvegarinn sagði þá erum við hetjur samtímans.

Unnur Hlíf Rúnarsdóttir Gagnfræðaskólanemi og fulltrúi Reykjavíkurprófastsdæmi Eystra

Sjáðu fyrir þér mikilvægustu manneskjuna í lífi þínu, manneskju sem þú getur ekki lifað án. Þú vilt alltaf hugsa vel um þessa manneskju og stuðla að vellíðan hennar og góðri heilsu. Ímyndaðu þér síðan að þessi manneskja veiktist alvarlega. Þú myndir gera allt sem í þínu valdi stæði til að gera þessari manneskju lífið bærilegt allt fram að kveðjustund.

Náttúran spilar nákvæmlega þetta hlutverk í lífi þínu og lífi okkar allra sem búum á plánetunni jörð. Náttúran er í stuttu máli ómissandi og veitir okkur auk þess allt sem við þurfum til þess að halda lífi.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að til að halda náttúrunni og mannlífinu gangandi þá þarf að viðgangast svokölluð hringrás lífsins. En hringrás lífsins getur líka farið út í öfgar. Náttúran á ekki skilið vanrækslu og spillingu, frekar en veik manneskja sem er þér náin.

Þú eyðileggur, traðkar og spreðar eins og enginn sé morgundagurinn, ég hef líka staðið sjálfa mig að því. Ég segi eins og enginn sé morgundagurinn vegna þess að náttúran er veik og henni fer hrakandi. Með áframhaldandi ágangi þínum og okkar verður enginn morgundagur. Að minnsta kosti ekki morgundagur sem mig langar til að upplifa. Þó að þú sért ekki nákvæmlega manneskjan sem heggur niður trén eða dælir upp olíunni þá varðar náttúran okkur öll og þar af leiðandi líka þig.

Þú sem aðhyllist staðreyndir gætir sagt að þetta stefnir allt í eina átt, það er að segja til glötunar. Ég segi við þig, að vissu leyti er það rétt þar sem ekkert varir að eilífu nema sjálfur Guð. Ég vil þó leggja mitt af mörkum til að láta gott af mér leiða og gera morgundaginn örlítið betri fyrir mig og þá sem að á eftir mér munu koma. Ef þú samsamar þig ekki neinu af því sem ég er að segja, kæri vinur, þá sérðu að lokum með eigin augum hverjar afleiðingarnar verða af aðgerðarleysinu.

Ég vona svo innilega að þú getir í það minnsta samsamað þig einhverju og tekið þátt.

Mér þykir náttúran dásamleg og ég þakka Guði fyrir hana á hverjum degi. Það þarf ekkert stórkostlegt til að breyting verði á. Svo lengi sem þú og við öll leggjum okkar af mörkum og vinnum í sameiningu. Það er afskaplega auðvelt fyrir þig að sitja eingöngu og hlusta, kinka kolli og gera síðan ekki neitt en veistu hvað? Það er einnig afar auðvelt að byrja og taka til hendinni.

Afsakanir eins og: en ég get ekki, en ég kann ekki, en en en en mega víkja á brott. Eftir allt eru þær bara afsakanir og eiga engann veginn heima í kollinum á vel gefinni manneskju eins og þér.

Ég ætla gefa þér nokkur ráð sem þú getur tekið með þér og geymt í farteskinu:

Nýta hið frábæra framtak flokkunartunnurnar og flokka t.a.m. pappír og plast. Slökkva ljósin í þeim rýmum sem ekki er verið að nota. Að skrúfa fyrir vatnið á meðan þú setur á þig sápu við handþvott eða í sturtu. Vera nægjusamur í innkaupum og versla lífrænan mat. Ganga og hjóla meira en nota bílinn minna. (ATH. líka gott fyrir heilsuna) Láta orðið berast og vinna saman!

Þú vilt að þér líði vel og öllum í kringum þig, náttúrunni langar líka að líða vel og að okkur líði vel, og það sem mestu skiptir er að Guð vill að okkur líði vel.

,,Where there is unity there is always a victory.” ,,Þar sem er samstaða er alltaf sigur.”

Katrín Sigríður Steingrímsdóttir Framhaldsskólanemi og fulltrúi Reykjavíkurprófastsdæmi Vestra

Mikil umræða myndaðist í síðustu viku í kringum tillögu Kirkjuþings unga fólksins um það að afnema ætti samviskufrelsi presta. Eins og staðan er í dag er prestum heimilt að neita pörum af sama kyni um hjónavígslu, telji þeir að það stríði gegn þeirra eigin samvisku eða trúarsannfæringu. Eins og við mátti búast voru margir ósammála okkur á meðan aðrir tóku heilshugar undir. Þeir sem mótmæltu þessari tillögu, gerðu það mest megnis á trúarlegum grundvelli, þar sem þau styðjast við þau fáu ritningarvers í Biblíunni sem fordæma að einhverju leyti hinsegin fólk.

Þeir einstaklingar virðast hins vegar gleyma helsta boðskap Jesú, að sýna náunganum kærleik. Það að tveir fullorðnir einstaklingar vilji leita blessunar Guðs er ein fallegasta birtingarmynd kærleiks okkar til Hans. Biblían segir okkur að það getur ekkert gert okkur viðskila við kærleika Guðs en svo sýnist mér nú vera. Kirkjan skerðir rétt fólks til þess að leita blessunar og kærleiks, einungis vegna þess að þau hrífast af einstaklingi af sama kyni. Einungis vegna þess að þeim býr ást og kærleikur í brjósti.

Ef við ættum nú að taka mark á öllu sem Biblían segir okkur og túlka allt sem í henni stendur bókstaflega, þá mætti ég ekki standa hér fyrir framan ykkur að tjá mig. Ég, ásamt öllum mínum kynsystrum, ætti að þegja í kirkjum. Sömuleiðis ætti ég að vera undirgefin manninum og hylja höfuð mitt við bænir. En við vitum að sú er ekki raunin innan íslensku þjóðkirkjunnar og helsta tákn þess er frú Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands.

Biblían segir okkur líka að ekki megi gefa fólk saman sem hefur skilið við fyrri maka. Hvar er samviskufrelsi presta um hjónavígslu fráskilinna? Fatlaðra? Erlends fólks? Eða bara samviskufrelsi presta um hjónavígslu gagnkynhneigðra? Þið skiljið vonandi hvert ég er að fara.

Að hægt sé að mismuna einungis einum samfélagshópi í Guðshúsi er út úr takti við tímann og vægast sagt ómannúðlegt. Svo ekki sé minnst á að það stríðir svo sannarlega gegn kærleiksorðum Jesú.

Hvers vegna látum við ekki konur þegja í kirkjum og neitum að gefa saman fráskilið fólk, fyrst að Biblían segir okkur að svo eigi að vera? Jú, það er vegna að þess að við erum nógu snjöll til að vita að margt sem stendur í Biblíunni á ekki við í nútíma samfélagi. Hvers vegna erum við ekki nógu snjöll til að sjá að mismunun gegn hinsegin fólki, á ekki heima í kirkju samtímans?

Biblían segir að „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ Myndum við vilja koma að luktum dyrum hjá okkar kirkju? Hví viljum við þá loka þeim fyrir öðrum?

img_1018.jpg

Kirkjuþing unga fólksins 2015