Um hið heilaga

Um hið heilaga

Nú á tímum hafa þeir staðir og þeir atburðir þar sem maðurinn reynir og upplifir hið heilaga færst til. Á tímum siðbótarinnar spurði fólk: „Hvernig get ég sem maður staðist frammi fyrir heilagleika Guðs?“ En þegar á 19. öld er spurningin orðin allt önnur: „Hvernig get ég óheft þróað og þroskað mig og hæfileika mína? Ef til vill getur upplifun mín af hinu heilaga hjálpað mér í þeirri viðleitni?“

Enn sagði hann: Maður nokkur átti tvo sonu. Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna, sem mér ber. Og hann skipti með þeim eigum sínum. Fáum dögum síðar tók yngri sonurinn allt fé sitt og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann eigum sínum í óhófsömum lifnaði. En er hann hafði öllu eytt, varð mikið hungur í því landi, og hann tók að líða skort. Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína. Þá langaði hann að seðja sig á drafinu, er svínin átu, en enginn gaf honum.

En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar, en ég ferst hér úr hungri! Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.

Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. En sonurinn sagði við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Þá sagði faðir hans við þjóna sína: Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, vér skulum eta og gjöra oss glaðan dag. Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn. Tóku menn nú að gjöra sér glaðan dag.

En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið, heyrði hann hljóðfæraslátt og dans. Hann kallaði á einn piltanna og spurði, hvað um væri að vera. Hann svaraði: Bróðir þinn er kominn, og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum, af því að hann heimti hann heilan heim.

Þá reiddist hann og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma. En hann svaraði föður sínum: Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum, og mér hefur þú aldrei gefið kiðling, að ég gæti glatt mig með vinum mínum. En þegar hann kemur, þessi sonur þinn, sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann. Hann sagði þá við hann: Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér, og allt mitt er þitt. En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn. (Lúk. 15. 11-32)

Í ritningarlestrum var komið inn á hin ýmsu byrtingarform heilgaleika Guðs og í þessari predikun vil ég því fjalla um heilagleika Guðs og hið heilaga.[1]

Nú á tímum hafa þeir staðir og þeir atburðir þar sem maðurinn reynir og upplifir hið heilaga færst til. Á tímum siðbótarinnar spurði fólk: „Hvernig get ég sem maður staðist frammi fyrir heilagleika Guðs?“ En þegar á 19. öld er spurningin orðin allt önnur: „Hvernig get ég óheft þróað og þroskað mig og hæfileika mína? Ef til vill getur upplifun mín af hinu heilaga hjálpað mér í þeirri viðleitni?“ Maðurinn stendur sem sé ekki lengur í ótta frammi fyrir Guði, heldur óttast hinn iðn- og tænivæddi nútímamaður að hafa ekki fengið það út úr lífinu sem hann vill. Hann er kvalinn af óvissu um að hafa ekki náð að þroska eða nýtt allt það sem hann sem einstaklingur hefur að geyma. Óvissan um að hafa ekki tekist að njóta alls þess sem hann álítur sig eiga rétt á, eða að nýta ekki möguleika sína og staðna, nagar og nærir óttann. Í þessu samhengi segir þýski trúfræðingurinn Christof Gestrich að ofan á þetta bætist að nútímamaðurinn upplifi stöðugt að hann er ekki ómissandi en sé um leið krafinn um að vera það.[2]

Reynsla mannsins af hinu heilaga eða Guði opinberar þessa stöðu. Hið heilaga er alls ekki horfið úr okkar tæknivædda heimi, sögulegur breytileiki mannlegs samfélags hylur ekki veruleika þess, en staðir upplifunarinnar færast til. Vissulega hefur svokölluð afhelgun (sekúlarisering) afgoðað nærri allt síðastliðin 100 ár. En þegar litið er yfir sögu Vesturlanda kemur í ljós að áhugi fólks á hinu dulræna hefur samtímis vaxið, m.a. á framandi austrænum trúarbrögðum. Þennan áhuga má alls ekki túlka sem vott um hnignun kristinnar trúar, heldur mun fremur birtingarform sígildrar tilvistarspurningar nútimamannsins: „Hvernig get ég þroskað mig í þröngum og heftandi veruleika?“

Áður lítt kannaðar víddir eigin lífs er reynt að nálgast í hugleiðslu. Þess vegna er ofur eðlilegt að menn skuli líta á það sem bölvun að ná ekki að nýta og lifa lífi sínu til fullnustu. Sú viðleitni að sækjast eftir lífsfyllingu í krafti eigin verka er útbreidd og eðlileg. Andstætt því sem austræn trúarbrögð kenna, þá er sú skoðun útbreidd að ef nokkrum lífum sé bætt við, þá náist það markmið. Annað líf á að minnsta kosti að gefa manninum kost á að nýta möguleika sína til fulls.[3] Við hlið þessarar athafnasemi sjálfsendurlausnarinnar mætum við almennri meðaumkun gagnvart þeim sem tekst ekki eða eru hindraðir í að þroska og þróa sjálfa sig og getu sína.

Í þessari stöðu nútímamannsins mætir hið heilaga honum ekki sem máttur af himnum ofan eða að utan, heldur fyrst í stað í djúpum sálarlífsins, þ.e. að innan og svo að segja af jörðu. Maðurinn mætir oft hinu heilaga í tengslum við atburði sem kalla fram sterk viðbrögð og tilfinningar.[4] Nefna má fimm atburði sem stuðla að því að maðurinn upplifi veruleika hins heilaga. Einnig mætti bæta við sjötta atburðinum.

1) Fyrst ber að nefna fæðingu barns. Það er ekki ófyrirsynju að undirbúningur fyrir fæðingu barns hefur í æ ríkara mæli tekið á sig form helgisiða. Foreldrar vilja að fæðingin eigi sér stað í viðeigandi rými þar sem þeir geta meðvitað upplifað hana. Við fæðingu barns er sem vakni eitthvað í djúpi hjartans og snortið er við innstu tilfinningum foreldranna. Leitast er við að safna sem mestum heimildum um atburðinn og sem flest er fest á filmu. Að einhver missi af eða er meinað um að vera við fæðingu barns síns er álitið mikill skaði og skerðing á persónuréttindum og svipting á mikilvægri reynslu sem getur verið uppspretta hamingju. Ekki er að undra að reynt sé að opna sem flestum þá leið að eignast börn og um leið kemur krafan oftar fram en ekki um að barnið eigi að vera sem „fullkomnast“. Allt þetta hefur opnað augu manna enn frekar fyrir því að barn er gjöf og fæðing þess er kraftaverk lífsins. Gagnvart barninu finna langflestir foreldrar fyrir mikilli persónulegri ábyrgð – og hún er sú mikilvægasta sem þau þekkja.

Þó að margir séu fjarlægir kirkjunni vilja foreldrar láta skíra börn sín. Allt umhverfi og öll nálgun varðandi fæðingu barns lætur nútímamanninn reyna veruleika hins heilaga í miðju síns persónulega lífs.

Andstæða þessa er oft fóstureyðingin sem endurspeglar djúpa neyð og skilur eftir erfið sár. Þverstæðan sem fylgir upplifuninni af hinu heilaga er því til staðar.[5]

2) Í annan stað mætir hið heilaga manninum – í okkar tæknivædda heimi – oft við dánarbeð. Dauði nákomins ættingja rífur ferli okkar daglega lífs. Við þögnum, en verðum þó að fá að tjá okkur. Sú tilfinning vaknar að sá sem hefur kvatt sé einhvern veginn dáinn í okkar stað. Það er sem gluggar eilífðarinnar opnist er við horfum á eftir þeim sem kvatt hefur. Þeim sem eftir standa líður eins og þeir séu sviptir skjóli. Ókunnugt vald hefur sótt þau heim og ef til vill á hljóðan máta. Það að deyja hefur sína virðingu og tign. Óskin um að virða dauðann er mætt á sjúkrastofnunum og í samfélaginu almennt. Þörfin fyrir að kveðja er sterk og er henni veittur farvegur í helgisiðum í kringum útförina.

Andspænis andláti vakna áleitnar spurningar eins og: „Hvar er sá eða sú sem kvatt hefur, núna? Hvernig er tilveran þar?“ Að gera lítið úr slíkum spurningum og þeim sem þær snerta er óviðeigandi og jaðrar við að vera helgispjöll.

En virðingin sem dauðinn krefst og helgin sem honum tengist á sér líka sína andstæðu. Margir menn verða að þjást óafskiptir og deyja án líknar og samúðar. Þeir eru jafnvel án huggunar trúarinnar. Átök manna og þjóða krefjast mannfórna og áhorfið á þær fyrir tilstilli fjölmiðla er mikið. Þessi dauði sem maður veldur manni kæfir oft hluttekningu og hryggð. Þjóðfélög eru mótuð af þeirri þverstæðu að viðurkenna rétt mannsins til að kveðja og deyja með virðingu, en um leið er því fleytt áfram á öldum tæknilegra framfara og efnilegrar neysluhyggju sem skilur einstaklinginn eftir tilfinningalega dofinn. Og enn og aftur stöndum við framm fyrir þeim andstæðum sem hið heilaga dregur fram.[6]

3) Hið heilaga upplifir hinn tæknivæddi maður nútímans einnig andspænis stórfengleika náttúrunnar. Fyrir fyrri kynslóðir var hún frekar andstæðingur. Því er öfugt farið nú á dögum. Menn ferðast um langan veg til að geta barið augum ósnerta náttúru og dáðst að afli hennar, mikilfengleik og fegurð. [7] Jafnvel trúlausir tala um fegurð sköpunar Guðs á slíkum augnablikum. Sá grunur læðist að manni að náttúran hafi trúarlega þýðingu, hún sé sumum uppbót fyrir Guð. Andspænis mikilfengleik hennar og hinu heilaga, sem maðurinn fær að reyna í henni, þá vísar sú upplifun um leið til andstæðu sinnar, en það er ill meðferð á jörðinni og náttúruauðlindum hennar. Þannig er nútímamaðurinn sem nýtur nátturunnar um leið sá sem eyðir henni.

4) Í listum mætir manninum meira en andardráttur hins heilaga. Á fáum tímaskeiðum sögunnar hafa menn verið jafnopnir fyrir að greina og láta listaverk fyrri alda og nútímans tala til sín og leyfa þeim að varpa ljósi á veruleikann. Einmitt hin sígildu verk veita nútímamanninum innsýn í lífið sem vill hverfa í erli samtímans. Þau ljúka upp fyrir okkur hvernig allt gæti verið og jafnvel er. En í henni takast einnig á fegurð og ljótleiki, sannleikur og lygi.

5) Hið heilaga mætir mönnum einnig í vel sömdum textum. Til eru frásagnir og dæmisögur sem vekja andann, þær eru bjargvættir mennskunnar. Það eru til lög sem innihalda boðskap sem viðhalda voninni og hugga. Til eru setningar og vers sem segja okkur hvers vegna við lifum. Það eru til ræður sem á réttum tímapunkti marka endalok þess sem var og opna nýja leið. Orða sannleika sem frelsar. Einnig eru til gamlar bækur – nægir hér bara að benda á ritninguna – sem miðla því sem okkur er æðra og kenna okkur, eins og fyrri kynslóðum, hver maðurinn er, hvar hann er og hvert hann stefnir.

En við hlið slíkra orða eru önnur sem innihalda annað hvort ekkert eða lygi og valda sundrungu. Þau mæta okkur í allskyns útgáfum, oft jafnvel sem trúarlegt málfar. Auk þessa alls eru örlög samtímans hefðarrofið þar sem menning virðist hafa glatað sinni sameiginlegu miðju. Hefðbundin hugtök og táknmál hafa tapað merkingu sinni og eru þögnuð.

6) Að lokum er nauðsynlegt að huga að guðsþjónustunni sem er mikilvægur hluti af veruleika nútímamannsins þótt lítill sé. Guðsþjónustur eru haldnar hvern sunnudag fyrir mislitla söfnuði sem þar safnast saman, en það er ekki endilega aðalatriðið. Guðsþjónusta getur falið í sér allt eða miðlað öllu sem snertir hið heilaga. Vissulega getur hún líka verið í beinni andstöðu við það og hindrað menn í að reyna nærveru hins heilaga með endalausum uppákomum og stuði, eða njörvað allt svo niður í dauðum helgisiðum að öll tákn þagna og öll hugtök verða innihaldslaus. En þrátt fyrir allt birtist hið heilaga einmitt í guðsþjónustunni við og við, í bænum og sálmum, ritningarlestri og predikun. Þannig getur góð predikun stundum miðlað sannleika fagnaðarerindisins á þann hátt að hún er eins og leiftur sannleikans það árið, bæn getur á sama hátt orðað huggun sem beðið hefur verið eftir.[8]

Þessi atriði um birtingarmöguleika hins heilaga nú á tímum ættu að duga til þess að við verðum næamari á nærveru Guðs í okkar daglega lífi. Reynslan af hinu heilaga dregur fram mikilfengleik hins hversdagslega, en jafnframt hvernig við vanvirðum þessar birtingarmyndir í því skeytingarleysi sem fylgir allri neysluhyggju. En einmitt andspænis hinu heilaga reynir maðurinn þverstæður lífsins og lítur upp og yfir sitt eigið líf. Ef til vill er það eitt af mikilvægustu verkefnum manna nú á tímum að opna augum fyrir nálægð Guðs í andstæðum hins hversdaglega og fá hann til að líta upp. Í Jesú nafni Amen.

*Tilvísanir*

[1] Hér er byggt á framsetningu Christof Gestrich, Christentum und Stellvertretung, Tübingen 2001, 70–74. Sjá einnig Wolfgang Trillhaas, Religionsphilosophie, Berlín 1972, 121–159. Gerhard Ebeling, Dogmatik des chrislichen Glaubens, 2. bindi, 2. útgf. Tübingen 1982, 230–251.

[2] Christof Gestrich, Christentum und Stellvertretung, 71.

[3] Wolfgang Trillhaas, Religionsphilosophie, 128–130.

[4] Gerhard Ebeling, Dogmatik des chrislichen Glaubens, 2. bindi, 233–234.

[5] Christof Gestrich, Christentum und Stellvertretung, 72.

[6] Christof Gestrich, Christentum und Stellvertretung, 73.

[7] Christof Gestrich, Christentum und Stellvertretung, 73. Gerhard Ebeling, Dogmatik des chrislichen Glaubens, 2. bindi, 242.

[8] Christof Gestrich, Christentum und Stellvertretung, 74. Gerhard Ebeling, Dogmatik des chrislichen Glaubens, 1. bindi, 3.útgf. Tübingen 1987, 118–119; Dogmatik des chrislichen Glaubens, 3. bindi, 2.útgf., Tübingen 1982, 361–364.