Sést það?

Sést það?

Að vera kristinn, segir Rowan Williams erkibiskup af Kantaraborg, er öðru fremur spurning um traust - en ekki að taka undir tilteknar kenningar. Traustið til Guðs kemur fyrst, kenningarnar fylgja á eftir. Þessi áhersla á traustið er sýnileg þegar við upphaf lífsins, þegar barn er borið til skírnar.

Ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki, en sá, sem heldur þau og kennir, mun mikill kallast í himnaríki. Mt. 5.17-19

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Fyrir nokkrum árum - og kannski enn - mátti heyra auglýsingu á öldum ljósvakans. Þetta var auglýsing um vatn og slagorðið var þetta: „Það sést hverjir drekka Egils kristal.“ Og skilaboðin voru þau að þeir sem drykkju tiltekið vatn tilheyrðu fína og flotta fólkinu. Þarna var verið að skapa ákveðna ímynd. Auglýsingin um kristalvatnið fékk mig til að hugsa um það sem sést - og það sem ekki sést.

Hvernig er það til dæmis með þá sem kristnir eru, sést utan á þeim að þeir séu kristnir? Það sést hverjir drekka Egils kristal, en sést hverjir hafa bergt af lífsins vatni? Sést hverjir hafa verið bornir til skírnar og merktir krossinum og Kristi „til vitnisburðar um að hugur og hjarta á að helgast fyrir trúna á hinn krossfesta og upprisna“, eins og segir í skírnarritualinu?

Ekki endilega utanfrá.

En Guð sér og Guð veit.

Þetta er reyndar undirstrikað í skírninni, þegar presturinn segir: „Drotinn Guð, faðir vor, þú kallar oss með nafni og gleymir oss aldrei.“

Þú kallar oss með nafni og gleymir oss aldrei.

Guð kallar meðal annars til samfélags eins og þess sem við eigum hér í dag. Til guðsþjónustu. Og kannski er það einmitt þar sem hið ósýnilega verður sýnilegt. Kannski birtist það okkur hvað skýrast í guðsþjónustunni - eins og hér - þar sem við komum saman til lofgjörðar og tilbeiðslu og þakkargjörðar. Til að nærast í trúnni og vera send.

Það er ein birtingarmynd hins kristna samfélags, þar verður það sýnilegt.

Og þar sést hverjir drekka lífsins vatn.

* * *

Að vera kristinn, segir Rowan Williams erkibiskup af Kantaraborg, er öðru fremur spurning um traust - en ekki að taka undir tilteknar kenningar. Traustið til Guðs kemur fyrst, kenningarnar fylgja á eftir. Þessi áhersla á traustið er sýnileg þegar við upphaf lífsins, þegar barn er borið til skírnar. Við syngjum í skírnarsálmi:

„Full af gleði yfir lífsins undri, með eitt lítið barn í vorum höndum, komum vér til þín sem gafst oss lífið ...“

Og höldum áfram: „Full af kvíða fyrir huldri framtíð, leggjum vér vort barn í þínar hendur.“ (Sb 585).

Barnið er vatni ausið og Guði falið í trausti þess að hann muni vel fyrir sjá.

En trúaruppeldið er á forsjá foreldranna, það eru þau sem eiga að koma barninu til kristins manns.

Eitt af því allra mikilvægasta í almennu uppeldi er foreldrið sem fyrirmynd. Þannig segir í einni uppeldisbók að framkoma foreldris hafi gríðarlega mikil áhrif á hegðun barns. Hún mótar hegðun þess á fullorðinsárum.

„Börn læra af því sem fyrir þeim er haft í daglegu lífi. Sem dæmi má nefna að ef barnið sér að foreldrið gefur föt til hjálparstarfs, lærir það mikilvægi þess að skila sínu til samfélagsins, óháð því hvort foreldrið ræðir það nokkru sinni við barnið.“

Það sama gildir um trúna. Þar eru fyrirmyndir mikilvægar. Rowan Williams, erkibiskup, sem ég nefndi áðan skrifar að kannski séu bestu röksemdafærslurnar um tilvist Guðs ekki settar fram á blaði heldur í lífshlaupum. Að þær séu fólgnar í fólkinu sem lifir í trú. Í fyrirmyndum sem aðrir vilja líkjast af því að þau lifa lífinu eins og þeir vildum lifa því (ekki af því að þau eiga fallega hluti eða búa við svo mikil þægindi heldur af því að þau eiga hugarró og sátt og góð samskipti við annað fólk).

Við þurfum að vera börnum okkar góð fyrirmynd í daglegu lífi og í trúarlíf. Það er kannski okkar mikilvægasta hlutverk.

Um leið höfum við líka áhrif á aðra.

Og þá erum við komin með annað sjónarhorn á spurninguna um sýnileika samfélagsins.

„Það sést hverjir drekka Egils Kristal,“ segir auglýsingin. Og kannski sést líka að samfélag sé kristið eða kristilegt á samskipti sem einkennast af virðingu og umhyggju og náungakærleika. Á jafnrétti, því þar eru „allir Guðs börn fyrir trúna á Krist Jesú.“ Og þar er „enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona.“

Þar eru allir „eitt í Kristi Jesú.“

Guð gefi okkur að við megum reynast börnum okkar og samferðamönnum góðar fyrirmyndir, í lífi og í trú og að við getum þannig gert hið kristna samfélag sýnilegt og áþreifanlegt.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.