Ljóslausa þorpið

Ljóslausa þorpið

Í allri þeirri pólitísku- og samfélagslegu umræðu um að sannleikurinn skuli koma fram, sama hvað, og allir tilburðir til þöggunnar eða leyndarhyggju skuli drepnir á staðnum þá gleymist í þeirri umræðu að búið er að jaðarsetja trú og trúarþörf manneskjunnar, í besta falli er verið að reyna að pakka henni inn í guðlausar umbúðir, þar sem guðlaus slökun og kyrrð, íhugun og jóga fá að fylla hið opinbera trúarrými, án allra takmarkanna. Trúin og ljós kristninnar skal helst vera í felum í þögninni heima eða í þögninni innra með okkur, í besta falli innan veggja kirkjunnar.

Flutt 5. nóvember 2017 í Reynivallakirkju

Hefurðu einhverntíma keyrt um í myrkrinu og leitað að bæ eða þorpi? Keyrt lengi, lengi en finnur ekki bæinn sem þú ætlar til. Sérð svo manneskju við vegkantinn, stoppar og spyrð til vegar. Hvar er þessi bær? Og svarið kemur á óvart. Þú keyrðir framhjá þessum bæ fyrir löngu síðan, það er bara búið að slökkva öll ljósin svo það er erfitt að finna hann í myrkrinu!

Það er næsta ómögulegt að lenda í þessu. Í hverjum bæ, þorpi og borg er ljósadýrð sem skreytir hverja borg og hvern bæ er keyrt er að í myrkrinu. Það er eiginlega alveg útilokað að keyra framhjá byggð án þess að finna hana vegna ljósleysis.

Jesús notar þessa líkingu í guðspjalli dagsins. Við felum ekki ljósið sem vísar okkur veginn og lýsir upp myrkrið. Þessa líkingu notar hann þegar hann er að segja okkur að það er ekki aðeins hann sem er ljós heimsins, heldur eru það við öll sem erum þetta ljós og ljósið eigum við ekki að fela eða gera það ósýnilegt mönnum.

Hversdagslegt ljós
Ljósið er kannski trúin okkar og sú hlýja sem stafar frá okkur til huggunar og umhyggju fyrir samferðafólki okkar.
Í dag heyrum við sterkar raddir sem segja okkur að fela trú okkar, hún er svo persónuleg og prívat að hún má helst ekki sjást eða játast nema á mjög ákveðnum og afmörkuðum stöðum. Enn þann dag í dag er kirkjan þetta rými þar sem trú okkar fær að sjást og játast. Þar fær ljósið hið innra að skína í allri sinni tilfinningaflóru sem trúin og reynslan okkar ber með sér.

Þegar þú ferð svo í vinnuna, skólann eða á kaffihús, já eða tjáir þig á samfélagsmiðlunum er nú best að geyma trúna vel og vandlega. Pakka henni inn í umbúðir svo enginn finni okkur nú á þeim stað að trúa, finni okkur á þeim stað að ljósið sem Jesús talar um hið innra fái að opinberast.
Nú ef svo ólíklega vill til að þú missir út úr þér að þú sért farin að syngja í kirkjukór eða hafir farið í messu, tekið sæti í sóknarnefnd, já eða sótt viðtal hjá prestinum, þá færðu kannski viðbrögð undrunar, efasemda eða forvitni og jafnvel spurningu um hvort eitthvað hafi komið fyrir. Annað er alls ekki ólíklegt og það er það sem gerist oft án orða og það er, að þú hafir lofað þínu ljósi að lýsa og lýst upp veru og vitund einhvers annars og hafir haft áhrif til góðs í lífi einhvers. Þá fær að skína hið hversdagslega ljós og næsta skref er þá kannski að bjóða fólki að koma og vera með í þínu trúarlega samhengi.

Sannleikans ljós
Í allri þeirri pólitísku og samfélagslegu umræðu um að sannleikurinn skuli koma fram, sama hvað, og allir tilburðir til þöggunnar eða leyndarhyggju skuli drepnir á staðnum þá gleymist í þeirri umræðu að búið er að jaðarsetja trú og trúarþörf manneskjunnar, í besta falli er verið að reyna að pakka henni inn í guðlausar umbúðir, þar sem guðlaus slökun og kyrrð, íhugun og jóga fá að fylla hið opinbera trúarrými, án allra takmarkanna. Trúin og ljós kristninnar skal helst vera í felum í þögninni heima eða í þögninni innra með okkur, í besta falli innan veggja kirkjunnar.

Kirkjan stendur þá eftir sem eina opinbera rýmið þar sem fólki er frjálst að tjá trú sína, lifa hana og játa. Þetta opinbera rými þarf að verja, því raddir finnast í samfélagi okkar sem vilja jaðarsetja kirkju og trú og gera vantrú að eina algilda mælikvarðanum í samfélaginu.
Opinberir skráningarferlar grafa undan kirkjunni, fólk er hvatt til að skrá sig úr kirkjunni. Það er t.d auðveldara að skrá sig úr kirkjunni en í hana. Að auki er okkur talin trú um það að ljós okkar lifi aðeins vegna orða og gjörða einhverra presta og biskupa sem gera mannleg mistök og eru að sjálfsögðu manneskjur en ekki guðir. Lúther reis einmitt upp gegn páfaveldinu fyrir 500 árum til að undirstrika það að prestar, biskupar og páfar geta ekki haft það vald að ráða yfir trúarlífi fólks. Trúin ein stendur á milli Guðs og manns. Lúther lagði svo grunninn að því að ljós upplýsingar og þekkingar á ritum biblíunnar kæmist til hins almenna borgara og að biblían væri ekki hjúpuð leyndarhyggju þar sem fáir útvaldir gátu og máttu lesa og túlka.

Einmitt í ljósi þess að kirkjan okkar kennir sig við Lúther þarf hvert kirkjusamfélag að vera sérstaklega vakandi fyrir því að öll vinnubrögð og verkferlar séu skýr og þoli ljósið því ljósið þolir aldrei leynimakk eða pot og plott. Sannleikans ljós sem Jesús gaf okkur skyldi þannig vera í fyrirrúmi og lýsa og leiða í öllum ákvarðanatökum og samskiptum. Þetta ljós Jesú skal einnig ná til mistakanna svo hægt sé að gangast við þeim og bæta úr, ef hægt er. Því það er þannig að þegar ljósið, og aðeins ef ljósið fær að ná til mistakanna þá hefst ferli sem við kristnar manneskjur þekkum svo vel og heitir fyrirgefningarferli.

Ekkert venjulegt ljós
Ljós Jesú er nefnilega ekkert venjulegt ljós eins og við notum til að lýsa upp svartasta skammdegið. Ljós Jesú er ljós sem nær út fyrir gröf og dauða. Lýsir upp allt myrkur, líka það myrkur sem virðist á stundum yfirtaka líf og aðstæður fólks. Þetta er ljós sem varir að eilífu, ljós sem lýsir hinum huglausu, hinum smáðu og buguðu, hinum sorgmæddu og hinum deyjandi.

Við tendrum þetta eilífa ljós í dag til minningar um ástvini sem látist hafa og trúum því að ljósið færi frið og sé okkur til merkis um upprisuna og bendir um leið á hina kristnu von sem segir okkur að dauðinn er ekki endalokin heldur breyting sem færir okkur til annars heims, heim til Guðs. Það er óendanlega huggun að finna í upprisutrúnni.
Við erum ekki ein, aldrei, ekki þegar við fæðumst og alls ekki á dauðastundu. Við erum umvafin ljósi hvers annars og ljósi Guðs frá vöggu til grafar. Allt líf okkar hvílir í faðmi kærleiksríks Guðs sem leiðir, styður og huggar. Slíka trúarvitund fæ ég svo oft að verða vitni að þegar ástvinum er fylgt til grafar eða í úrvinnslu sorgar er ótímabær dauði kveður dyra. Þessi trúarvitund svífur einnig yfir skírnarfontinum þegar barn er borið til skírnar og aldrei sterkar og áþreifanlegra en þegar nýfæddu barni hefur vart verið hugað líf.

Jesús sagði: “Ég er ljós heimsins, sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.” (Jóh. 8.12)

Og Jesús sagði líka: “Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist” (Matt. 5.14)

Verum ekki þessi bær, þessi borg eða þetta þorp sem enginn finnur. Komum út úr þögninni og leyfum trúarljósi okkar að lýsa hvar sem við komum. Komum út úr skápnum, bjóðum fólki að koma til kirkju, til samfélags í kirkjunni, til bænahalds.
Tökum okkur stöðu og leyfum ljósinu sem býr innra með okkur að lýsa upp myrkur þessa heims og myrkur það sem náungi okkar finnur sig ef til vill í.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.