Ránglæti og réttlæti

Ránglæti og réttlæti

Rík er þessi hugsun og eins réttlát og hún virðist vera í eðli sínu blasir við hið hróplega óréttlæti sem hún endurspeglar og birtir.

Oft er ekki gott að segja hvað orsakar hvað, en leitin að samhengi orsakar og afleiðingar er meðal þess sem drífur okkur mennina áfram. Okkur hefur verið gefin dýrmæt gjöf – sem er skynsemi og rökhugsun. Með hana að vopni hefur maðurinn náð því forskoti á aðrar lífverur jarðarinnar sem raun ber vitni. Skynsemin er öflugri en vígtennur og klær rándýranna. Hún nýtist betur en feldur annarra spendýra, vængir fuglanna og sporður þeirra dýra sem um höfin ferðast. Vísindamenn hafa leitt að því líkum að fyrir 70 þúsund árum hafi forfeður okkar aðeins talið tvö til fimm þúsundir einstaklinga og þar af hafi hálft annað hundrað lagt af stað í gönguna löngu út úr Afríku sem átti eftir að leiða þessa veikburða skepnu út um öll meginlönd og raunar einnig höfin og himinhvelið ef því er að skipta.

Skynsemin er lofsverður eiginleiki

Ekki er nema von þótt við leggjum mikið traust á þennan lofsverða eiginleika sem hefur skilað okkur svo miklu. Skynsemin kennir okkur að við sjálf og umhverfi okkar séum hluti af rökréttu samhengi og þegar einhver atburður á sér stað fer hin skynsama hugsandi lífvera – homo sapiens – óðar af stað að leita orsakanna fyrir henni. Maðurinn tileinkaði sér þau vísindi sem gerðu henni kleift að smíða vopn, kveikja eld og príla á augabragði upp fæðukeðjuna þar sem hann skipaði sér svo efst – ofar þeim tröllvöxnu og öflugu rándýrum sem höfðu um milljónir ára trónað þar óáreitt.

Skynsemin og trúin

Það þarf ekki að undra að þessi síspyrjandi lífvera skyldi á sama tíma horfa upp til himins í leit að einhverju æðra og stærra henni sjálfri. Á grísku markir hugtakið „manneskja“ eða „anþrópos“ sá sem horfir upp á við og á það að þessu leyti vel við.

Já, um leið og fornleifafræðingar sjá merki um eldstæði, ýmis tól og tæki blasir við að mannveran hefur, frá því hún tók að hugsa með skipulegum hætti, eignast þann neista í hjartað sem trúin er. Og sá neisti hefur fylgt henni á þeirri löngu gönguferð sem hún hefur haldið í. Trú og skynsemi – þetta tvennt eigum við mennirnir, og listin að lifa góðu lífi felst í því að vinna með þessar tvær eigindir rökhugsunina sem kennir okkur að skynja samhengi tilverunnar og svo trúna sem myndar brú á milli lífs og dauða og fyllir okkur hugrekki og trausti gagnvart þeim sviðum lífsins sem við fáum ekki breytt.

Lógískur guð heimspekinganna

Stundum blandast þetta tvennt saman. Grísku heimspekingarnir sáu fyrir sér alheimsanda sem hélt öllu í sínum skorðum. Sá guð var óhagganlegur og óbreytanlegur. Hann bifaðist ekki við þjáningum manna en úthlutaði gæfu og auðnu í réttu hlutalli við það sem hver og einn verðskuldaði. Sú hugsun á marga talsmenn á öllum tíma.

Í Guðspjallinu sjáum við hvernig mannshugurinn vinnur með þessar tvær víddir tilverunnar og hugsunin er ekki ósvipuð því sem hér er lýst. Vettvangurinn er kunnuglegur. Kristur er á ferðinni – rétt eins og raunin er með mannkynið allt sem hann kom til þess að endurleysa. Og á þeirri leið verður á vegi hans maður sem á um sárt að binda, hefur verið blindur frá fæðingu, eins og þar er sagt frá. Spurningin sem lærisveinarnir bera upp er svo þessi: „Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans fyrst hann fæddist blindur?“

Ránglæti og réttlæti

Sjáið vandann sem fylgir því að blanda um of saman þessum tveimur hliðum tilverunnar. Hér er ekkert rými eftir fyrir það sem rökhyggjan ekki fær sundurgreint og skilið. Óréttlætið er vitaskuld mikið. Maðurinn býr við þessa miklu fötlun en hefði hún gripið hann eftir að hann komst til vits og ára hefði samfélagið dæmt það svo að hann hefði með einhverjum hætti brotið gegn hinum almáttuga vilja og því verðskuldað hið bága hlutskipti. Já, rík er þessi hugsun og eins réttlát og hún virðist vera í eðli sínu blasir við hið hróplega óréttlæti sem hún endurspeglar og birtir. Hvað sagði ekki Jón Hreggviðsson í Íslandsklukkunni? „Vont er þeirra ránglæti, verra er þeirra réttlæti“

Við getum litið okkur nær í þessum efnum. Menning okkar er gegnsýrð þeirri hugsun að við séum sjálf í leiðtogasætinu hvar sem niður er borið. Sjálfshjálparbækur boða að lífsgæðin standi og falli með jákvæðu hugarfari, hamingjan, tekjurnar, heilsan og farsældin – allt er þetta spurning um jákvæðni og bjartsýni. En hvað svo þegar árangurinn lætur á sér standa? Hvað þegar sjúkdómar og slys reiða til höggs og tilveran verður aldrei söm? Ofan á þann harm sem sorgin veldur bætist nagandi sekt yfir því að hafa hugsað rangt eða breytt ranglega.

Takmörk skynseminnar

Hvað þá þegar einstaklingur fæðist með alvarlega fötlun eins og raunin var með manninn sem varð á vegi Krists? Það er eitt af mörgum öngstrætum þessarar hugsunar. Því sannarlega á skynsemin sín takmörk eins og merkir menn hafa bent á. Já, takmörk hennar felast í því að ákveðin svið tilverunnar standa utan marka hennar. Elífðin er í þeim hópi. Almætti Guðs er það að sama skapi einnig, því hið takmarkaða fær aldrei höndlað hið ótakmarkaða. Mannsálin verður ekki heldur lögð á mælistiku skynseminnar. Allt er þetta veruleiki sem býr djúpt í vitund okkar og ótal menningarheimar hafa reynt að tileinka sér og skilgreina. En að endingu fær maðurinn aldrei skilið það til fullnustu. Sumt í lífi okkar er þess eðlis að við fáum því ekki breytt:

Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig það sem ég fæ ekki breytt,kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.

Hvert ber þá að líta?

Svar Krists talar inn í þessa hugsun. Við getum engu um það ráðið sem gerst hefur, fortíðinni breytum við ekki. En framtíðin er hins vegar að miklu leyti innan okkar áhrifasvæðis. Kristur beinir sjónunum frá þeim orsökum sem við ráðum ekki við og til þess sem við getum raunverulega breytt. Hlutverk okkar og köllun er einmitt það að vinna verk skapara okkar: einmitt það sem Kristur segir að sé erindi okkar og hlutverk í lífinu: Að elska náunga okkar eins og okkur sjálf. Þannig segir postulinn: „Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort. Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.“ Þetta er kjarni málsins fyrir kristinn mann. Aðstæðurnar eru margvíslegar en trúin sem við eigum í brjósti okkar, sá mikli fjársjóður, gerir okkur kleift að standa upprétt í þeim mótbyr sem stundum sækir að – og ekki síður hitt að við vinnum það sem er gott og lofsvert, elskulegt og leiðir til farsældar fyrir náunga okkar.

Guð sem finnur til

Guð Biblíunnar er ekki sinnulaus og áhrifalaus andi sem heldur öllu í föstum skorðum. Sá Guð sem Kristur birtir okkur er persónulegur Guð, sem kemst við, sárnar, hungar og þyrstir – já þjáist einnig og gengur í gegnum sárustu kvalir. Þannig mætir hann okkur í þrautum okkar sem sá sem sjálfur hefur liðið og kvalist. Með þeim hætti gengur hann með okkur sem jafningi og vinur og verður okkur sjálfum að fordæmi um það hvernig við sjálf eigum að lifa og starfa.

Kristur mætir manninum í þjáningu hans. Hann læknar augu hans og gefur honum sýn. Með sama hætti gefur hann okkur rétta sýn á lífið. Sumt er viðfangsefni krafta okkar og huga. Það á ekki síst við um þjáningar náunga okkar og þrautir hans. Annað er það hins vegar ekki – og þar hvílum við huga okkar og hjarta í þeirri trú að Guð búi okkur stað í ríki sínu þar sem við getum að sönnu reitt okkur á kærleika hans og umhyggju. Því er nefnilega engin takmörk sett.