"Voru augu mín blind"

"Voru augu mín blind"

"Voru augu mín blind. Eyrun full af vaxi Faðmlagið stirnað Og tungan treg?"

Aðalsteinn Ásberg yrkir:

 

Var ég þessi hrímþurs

Næstum ófær um að tjá

Tilfinningar mínar?

 

Sagði ég aldrei neitt

Sem hefði verið hægt

Að færa mér til tekna

Taka með í reikninginn?

 

Voru augu mín blind

Eyrun full af vaxi

Faðmlagið stirnað

Og tungan treg?

 

Ég er sá sem spyr

En þú getur vonandi

Fundið réttu svörin.

 

Ég á það til að detta í að horfa á Tiktok myndbönd. Okei ég viðurkenni að ég dett ekki aðeins í það stundum ef ég má orða það þannig, ég get alveg legið eins og flatfiskur í allt of langan tíma og horft, enda auðvelt að dragast inn í þennan heim stuttra myndskeiða sem miðla ýmsu, sumu misgáfulegu en það kemur fyrir að ég sjái myndband sem hreyfir við mér.

Eitt slíkt sá ég um daginn sem vakti mig til umhugsunar en textinn var einhvern veginn svona í lauslegri þýðingu:

“Er það bara ég, eða finnst fleirum eitthvað á röngunni við þetta ár. Allt er einhvern veginn leiðinlegt, veðrið er skrýtið, sumarið er ekki eins og það ætti að vera. Heimurinn er ekki skemmtilegur lengur. Það að brjóta reglur er orðin skemmtun. Fólk er dónalegt og sjálfselskt. Fólk missir vinatengsl. Sambönd liðast í sundur. Það eru engar tilfinningar lengur. Árið 2021 var undarlegt en árið 2022 er einfaldlega fullt af sorg.

Við erum öll að þroskast en við höfum gleymt því hvernig á að bregðast við.”

 

Ég veit ekki af hverju þetta hreyfði svona við mér, kannski vegna þess að mér finnst sjálfri þetta ár vera einhvern veginn tilfinningalega flatt, hugsanlega einhver persónuleg melankólía.

En svo erum við nýstigin út úr kófi eingöngu til að horfa á stríð milli landa hefjast í nálægð við okkur. Hitamet í Evrópu eru slegin daglega og fólk að deyja vegna hitans.

Fólk á flótta hefur sjaldan verið jafn margt.

Einhvern veginn voru væntingar til þessa tíma svo miklar, tíminn þegar allt átti að verða frjálst á ný, engar takmarkanir en samt er einhvern veginn enginn að njóta almennilega því heimsmyndin okkar er einhvern veginn ekki í takt við það sem við sáum fyrir okkur eftir tíma persónulegra sóttvarna og viðeigandi fjarlægðar við hvert annað.

Heimurinn okkar er einhvern veginn að harðna. Almenn mannréttindi hafa sjaldnast verið í eins mikilli hættu.

Í Bandaríkjunum þykir það rétt að taka rétt kvenna til þess að hafa vald yfir eigin líkama burt með einu pennastriki sem ógnar lífi þeirra og heilsu til muna.

Hér á landi er kallar þingmaður sérstaklega eftir skilgreiningunni á orðinu kona frá forsætisráðuneytinu. Ekki þykir sama þörf á að ítarlegri skilgreiningu á karlmönnum. Og við spyrjum okkur hvers vegna þörfin sé sú?

Aðrir þjóðfélagshópar sem hafa á síðastliðnum árum unnið þrekvirki í að fá jafnan rétt að lögum til að elska og ganga í hjónaband með þeim aðila sem þau vilja eru á ný kominn í hættu, að missa þennan sjálfsagða rétt sinn víða um heim.

Gelt er að samkynja pari.

Allt er einhvern veginn orðið leyfilegt og enginn axlar tilfinninglega ábyrgð heldur ríkir vaxandi þjóðernishyggja, bókstafleg trúarhyggja, ótti og fordómar blómstra sem aldrei fyrr.

Getur verið að eftir tveggja ára félagslega einangrun, samskipta- og tengslamissi að við höfum gleymt öllu því sem áunnist hefur.

Við höfum einhvern veginn setið heima, uppi með okkur sjálf, eigin fordóma, ótta og vanlíðan án þess að geta átt heilbrigt samtal og speglun á það sem við upplifum og finnum.

Getur verið að persónuleg vanlíðan sé í raun meiri en við gerum okkur grein fyrir og grasseri og lifi góðu lífi undir yfirborðinu.

Við sjáum það bara hér á landi að líkamsárásir og skotvopnaárásir eru farnar að vekja óhug innan kerfisins og samtal á sér stað hvernig bregðist eigi við þeim vanda.

Geðheilbrigðiskerfið er á ystu nöf og nær ekki að tækla þann vanda sem við þurfum að horfast áþreifanlega í augu við.

Úti í samfélaginu er nefnilega fólk í mikilli vanlíðan, fær ekki hjálp og í því ástandi verður allt samfélagið óöruggt.

Ef við hugsum út í það að þá er það ekki skrýtið þegar við erum öll búin að vera félagslega einangruð á svo víðtækan hátt í rúmlega tvö ár, þar sem okkur var fyrirlagt að forðast annað fólk, snerta það ekki og þannig varð hvert heimili vagga óttans gagnvart náunganum, þar sem múrar voru reistir til að vernda okkur fyrir ósýnilegum óvin.

Núna er versti óvinurinn hugsanlega við sjálf því við þurfum að læra að lifa upp á nýtt, brjóta niður múrana og iðka gagnvirkt samtal, þora að sýna tilfinningar og finna snertingu á ný.

En það er ekki auðvelt verkefni þegar hjálpin og opið samtal er ekki lengur til staðar og eins markvisst og við þurfum öll raunverulega á að halda.


"Voru augu mín blind

Eyrun full af vaxi

Faðmlagið stirnað

Og tungan treg?"

 

Höfum við blindast og hætt að hlusta. Er faðmlagið okkar ekki eins innilegt og það var og er tjáning tilfinninga runnin út á tíma.

Ræðum við þessi mál með mælieiningunni fyrir og eftir Covid. Er það ásættanleg niðurstaða að líf eftir stríð við ósýnilegan óvin í tvö ár, sé mótað af tilfinningarlegri flatneskju og ótta við það sem við þekkjum ekki og látum holdgerast í náunganum þar sem fordómar og valdsýki blómstra sem aldrei fyrr.

Jesús segir í Guðspjalli dagsins: Legg þú út á djúpið og leggið net ykkar til fiskjar.

Legg þú út á djúpið?

Er það eitthvað sem við erum raunverulega tilbúin til að gera þótt það skapi óvissu og ótta. Að leggja á djúpið merkir að við tökum þá áhættu að vera á ákveðinn hátt varnarlaus gagnvart öllu því sem við óttumst.

Það merkir að við þorum að vera við sjálf og dvelja í eigin sannleika en ekki í tilbúnum sýndarveruleika samfélagslegra staðla og brenglaðrar þjóðfélagsumræðu sem eru full af neikvæðum fréttum um lífið og náunga okkar.

Það merkir að við þorum að taka ákvarðanir fyrir okkur sjálf, vera sjálfsgagnrýnin sem samt alltaf meðvituð um okkar eigin virði og tilvistarrétt.

Það merkir að um leið og við þekkjum okkar eigin virði og tilvistarrétt, þá áttum við okkur á og samþykkjum að allar aðrar manneskjur eiga sama rétt að vera til og lifa því lífi sem skapar sem mesta hamingju fyrir hvern og einn.

Það merkir að við tökum þá ákvörðun að horfa á náungann með augum Guðs og þegar við gerum það, þá blasir ekki við tilfinningaleg flatneskja og sálræn eyðimörk heldur endalaus og skilyrðislaus kærleikur sem hreyfir við okkur öllum og skapar líf, innileg faðmlög og samtöl sem sem eiga sér stað í rými jafnræðis og frelsis.

Við hættum að taka ákvarðanir sem skerða lífsgæði annarra og ógna heilsu þeirra.

Við viðurkennum að hver ein og einasta manneskja á rétt á að taka ákvarðanir sem snerta hennar eigin líkama og líf án þess að tilvísanir í trúarkreddur og öfgar komi nokkurn tímann þar nálægt.

Legg þú út á djúpið segir Jesús.

Ert þú tilbúin til þess? Að horfast í augu við þinn eigin mannlega breyskleika og fordóma og reyna að gera betur í stað þess að varpa þínum lífskoðunum og fordómum á alla aðra sem inn í líf þitt koma eða eru þér alveg óviðkomandi af því að þú hefur ekki enn náð að brjóta niður múrana sem láta þér líða vel og veita þér öryggi og stundarfrið í sálinni.

Leggir þú á djúpið þá margfaldast nefnilega það góða í þínu lífi, uppskeran eru gæði í þínu eigin lífi og um leið annarra og heimurinn verður ögn betri í hvert sinn sem við horfumst í augu við óttann og játum að það er svo margt sem við getum ekki stýrt eða fáum ekki breytt.

Í þeirri stöðu er svo mikil hvíld, áreitið minnkar og sálin þín finnur frið.

Góður Guð gefi að við höfum öll þann innri styrk og kjark til að leggja í þetta ferðalag og fylla þannig net okkar af gæðum, kæreika, innilegum tilfinningum og virðingu fyrir öllu sem lifir.

 

Voru augu mín blind

Eyrun full af vaxi

Faðmlagið stirnað

Og tungan treg?

 

Ég er sá sem spyr

En þú getur vonandi

Fundið réttu svörin.

 

Amen.