Sendiboðarnir

Sendiboðarnir

Við höfum sannarlega margt að gleðjast yfir í okkar samtíð í þeirri sendiför, sem þjóðkirkjan er. Því sendiför er hún, send af Kristi til að vitna um hann í orði og verki. Og oft fáum við að reyna og sjá opnar dyr, kraft fagnaðarerindisins, máttinn sem sigrar í veikleika.

Í tíunda kafla Lúkasarguðspjalls segir:

Nú komu þeir sjötíu og tveir aftur með fögnuði og sögðu: Herra, jafnvel illu andarnir eru oss undirgefnir í þínu nafni. En Jesús mælti við þá: Ég sá Satan hrapa af himni sem eldingu...Gleðjist samt ekki af því, að andarnir eru yður undirgefnir, gleðjist öllu heldur af hinu, að nöfn yðar eru skráð í himnunum. Lúk. 10, 17-20

Fagnandi koma þeir til baka, sendiboðarnir 72, í sigurvímu úr sigurför. Þeir höfðu skynjað og fundið sem vald hins illa hefði hopað á hæli, og lagt á flótta fyrir þeim, framgangur, vinsældir, virðing hvarvetna. Við höfum sannarlega margt að gleðjast yfir í okkar samtíð í þeirri sendiför, sem þjóðkirkjan er. Því sendiför er hún, send af Kristi til að vitna um hann í orði og verki. Og oft fáum við að reyna og sjá opnar dyr, kraft fagnaðarerindisins, máttinn sem sigrar í veikleika.

En iðulega finnum við líka fyrir vanmætti og uppgjöf þeirrar kirkju sem virðist hafa svo fátt fram að færa sem minnir á tákn og undur og nýja landvinninga! Okkur er talin trú um að Þjóðkirkjan sé í vörn, fjari undan, stórstreymt. Það er sótt að kirkju og kristni á Íslandi í dag. Neikvæðni virðist ríkja í hennar garð af hálfu þeirra sem helst móta almenningsálitið Staða Þjóðkirkjunnar og hlutverk er gjarna sett fram í fjölmiðlum eins og um óhæfu væri að ræða, starfshættir, eins og hjálparstarf, vinaleið og sálgæsla fyrir börn, eru tortryggð og jafnvel uppmáluð sem einhver illvirki.

Og þá er auðvelt að missa móðinn. Hvers vegna höfum við ekki vald yfir öflum neikvæðninnar og vantrúarinnar, ásókn kaldhæðni og kæruleysis?

Frásögn guðspjallsins er svo sterk áminning inn í okkar aðstæður einmitt nú, þegar þið, kæru vinir eruð hér send af stað, eins og þeir sjötíu og tveir sendiboðarnir forðum, til að vitna, þjóna í nafni frelsarans, sem prestar og djáknar. Kirkjan fagnar yfir ykkur, og samverkafólk ykkar, söfnuðir og stofnanir vænta mikils af þjónustu ykkar. Við biðjum þess að þið mættuð finna gleði í þjónustunni, árangur erfiðis, umbun og fögnuð trúar og vonar í verkum ykkar og lífi. Þeir komu fagnandi aftur, sendiboðarnir sjötíu og tveir. „Andarnir eru oss undirgefnir!" sögðu þeir „Gleðjist ekki yfir því!“ áminnir Kristur þá. Það er annað sem mikilvægara er.

Það er ekki mælikvarðar heimsins sem gilda, viðhorfsmælingarnar, almannasinnið, vinsældirnar. Nei, það er annað sem gildir. Ég vona og bið að þegar þið snúið afur til hans, frelsarans, í bænum ykkar þá verði það þakklætið sem verði ykkur efst í huga, þakklætið til hans og þeirra gjafa sem hann gefur, og þeirrar framtíðar sem hann heitir og gefur.

Kristur fetar ekki veg vinsælda, valda, frægðar og almannasamsinnis. Það er leið freistarans, rógberans, Satans. Jesús segist hafa séð Satan falla af himni eins og elding. Hann vísar þar í sögnina fornu um fall engilsins, sem hrokaðist upp og féll. Þar er rót og upphaf hins illa. Sú freisting getur fylgt því að njóta velgengi í trúnni. Hrokinn. Að hafa allt á hreinu, og alls kosta, og þykjast Guði jafn. Treysta á eigin trú og góðan ásetning, bakhjarla heimsins, vinsældir lýðsins. Á það er ekki að treysta. Andbyr, andstaða, árásir á kirkju og kristni má líka sjá sem vísbending um að kirkjan sé að gera rétt, að sækja fram, opna nýja farvegi, smíða nýjar brýr fyrir fagnaðarerindið. Mikilvægasta erindi, merkasta boðskap í heimi, og sem er kraftur Guðs til hjálpræðis. Og trú vor, hún er siguraflið og hefur sigrað heiminn.

Vald hins illa er sigrað, vald óttans og lyginnar, er sigrað, þrátt fyrir alla sýndarsigra þess og kraftbirting. Kristur hefur slegið öll vopn úr hendi þess með hógværð sinni, auðmýkt, kærleiksfórn á krossi, upprisu á páskadagsmorgni. En treystum við því, sem einstaklingar, og sem kirkja á Íslandi í dag? Það er kemur í ljós á reynslustundunum, þegar syrtir að og sundin lokast.

Saga er sögð af presti einum sem fékk far með gömlum bónda í sókninni. Skyggnið var slæmt og presturinn spurði bóndann hvernig hann gæti ratað í þessu slæma skyggni,„Ég treysti á mína góðu sjón,“ sagði bóndinn. Þegar þeir höfðu ekið lengi enn, og alltaf varð myrkrið meira og vegurinn verri og presturinn stressaðri.„Geturðu virkilega séð nokkurn skapaðan hlut?“ spurði hann bóndann. Þetta sinn viðurkenndi bóndinn að skyggnið væri ekki upp á marga fiska, „en,“ sagði hann, „Nú treysti ég á klárinn.“ Enn dimmdi og vegurinn versnaði til muna, og presturinn varð alvarlega áhyggjufullur: „heldurðu virkilega að það sé óhætt að treysta þessum jálki fyrir lífi okkar og limum?“ „Nei,“ svaraði bóndinn hugsi, „nú treysti ég bara á Drottinn.“ - Og þá bað presturinn hann um að setja sig af.

„Gleðjist yfir því að nöfn yðar eru skráð í himnunum!“ Segir Jesús. Nafn þitt er skráð í himnunum. Það er helgað, signt af sigri krossins og upprisunnar. Gleymdu því ekki. Þú sem senn munt standa hér milli skírnarfontsins og altarisins og þiggja heilaga vígslu. Nafn þitt var skráð í himninum hjá Guði. Um það vitnar skírnin þín. „Ég þekki þig með nafni, þú ert minn!“ Segir hann nú við þig, „æðrastu ekki!“ Og með það sendir hann þig, sem þjón sinn og erindreka. Stormarnir geysa, élin dynja, og oft geta þeir sem um tauminn halda á farkosti kirkjunnar virst sjóndaprir og farkosturinn og fararefnin ekki sem traustust. En Kristur Drottinn sleppir ekki hendi sinni af kirkju sinni, og bregst ekki þeim sem á hann vona.

Ágjafir og sigrar hins illa valds og vilja í samtíðinni, í lífi mínu og þínu, í atburðum dagsins, eru fjörbrot hins sigraða. En trúin og auðmýktin og kærleikurinn sem krossinn birtir er framtíðin, lífið sem eilíft er. Vald og vera Guðs. Himinninn. Að eiga nafn sitt letrað þar, það er eini grundvöllur gleði manns og vonar í heimi hér, í lífi og dauða og í eilífðinni. Í þeirri vissu, í undrun, auðmýkt og kærleika skulum við vaka og vinna og vitna, og biðja í frelsarans Jesú nafni. Honum sé dýrð, föður, syni og heilögum anda um aldir alda. Amen.