Þann 1. og 2. nóvember heldur heimskirkjan upp á tvær af sínum stærstu hátíðum, allra heilagra og allra sálna messu.
Allra heilagra messa á sér fornar rætur í kirkjunni og ber upp á 1. nóvember ár hvert. Í fornkirkjunni var snemma tekið upp á þeim sið að koma saman við gröf þeirra sem liðið höfðu píslarvætti fyrir trú sína á dánardægri þeirra. Þar héldu menn vöku og neyttu saman kvöldmáltíðarsakramentisins. Þessar minningarstundir þróuðust síðan yfir í messur helgaðar píslarvottunum sem urðu margir hverjir dýrlingar með tíð og tíma.
Á messudegi dýrlingsins er hans sérstaklega minnst og beðið til hans um fyrirbæn. Píslarvottur er sá sem gefið hefur líf sitt fyrir trú sína. En nú er það sem svo að allir dýrlingar eiga sér ekki opinberlega messudag. Og ekki eru allir píslarvottar einu sinni þekktir. Margir hafa gefið lífið fyrir trú sína nafnlausir og óþekktir. Fjöldi dýrlinga og píslarvotta er líka slíkur að dagatalið rúmar ekki sérstakar messur þeim hverjum og einum til heiðurs.
Allra heilagra messa er þannig sameiginlegur messudagur allra þeirra fjölmörgu píslarvotta og dýrlinga sem ekki eiga sér sinn eigin messudag. Slíkan messudag allra heilagra var byrjað að halda snemma og er hans getið í heimildum þegar árið 270 eftir Krist. Þá er hann reyndar ekki tengdur neinum sérstökum degi ársins en þróunin varð sú að á fyrstu öldum kristninnar var farið að halda þessa hátíð fyrsta sunnudag eftir hvítasunnu, en sá sunnudagur varð seinna nefndur þrenningarhátíð og er svo enn. Þrenningarhátíð er hátíð heilagrar þrenningar Guðs, föður, sonar og heilags anda eins og nafnið ber með sér. Í grísk kaþólsku kirkjunni hefur aftur á móti verið haldið fast í hinn forna sið að helga fyrsta sunnudag eftir hvítasunnu öllum heilögum.
Saga allra heilagra messu tengist reyndar sögu hins fræga Panþeons í Rómaborg. Panþeon var heiðið hof tileinkað öllum guðum og var reist árið 172 fyrir Krist og þykir enn í dag jafn stórkostlegt verkfræðiafrek og það var þá. Panþeon þýðir einmitt “allra guða”. Eftir að kristnin sigraði Rómaveldi breytti Bonifacius 4 páfi hofinu í kirkjuna Kirkja heilagrar Maríu og allra dýrlinga -. Panþeon var vígt sem kirkja þann 13. maí árið 609 og var vígsludagur kirkjunnar tileinkaður öllum píslarvottum. Það var svo Gregorius 3. páfi sem helgaði daginn sem messudag allra helga karla og kvenna og kallaði hann Festum omnium sanctorum eða allra heilagra messu. Gregorius 4. páfi færði síðan hátíðina yfir á 1. nóvember. Þar er hún staðsett enn í dag.
Hátíðin naut snemma mikilli vinsælda og barst hratt norður Evrópu og alla leið til Íslands köldu stranda. Hér á landi varð hún snemma að stórhátíð og er hennar getið með íslensku nafni í handriti frá því um 1200. Þorlákur helgi, verndardýrlingur Íslands, sagði svo fyrir um að halda ætti sérstaka 6 daga föstu fyrir allra heilagra messu alveg eins og fyrir jólin. Í hans huga voru því þessar hátíðir jafnar.
Þegar bylgja siðbreytingarinnar gekk yfir Evrópu á 14, 15 og 16. öld var helgi dýrlinga kirkjunnar afnumin í mörgum þeim löndum þar sem hún var lögtekin. Það gerðist einnig hér á landi. Allra heilagra messa var þó ekki afnumin sem helgidagur 1. nóvember fyrr en árið 1770.
Þá færðist allra heilagra messa yfir á fyrsta sunnudag í nóvember. Samtímis var hætt að helga hann öllum dýrlingum. Þess í stað varð dagurinn minningardagur um allar látnar sálir.
Á Allra heilagra messu er vel við hæfi að fara með hina fornu Maríubæn:
„Bið ég María bjargi mér burt úr öllum nauðum, annars heims og einnin hér ástmær Guðs, ég treysti þér, bið þú fyrir mér bæði lífs og dauðum.“