Í tímans rás

Í tímans rás

Við getum átt innra líf þótt líkami okkar sé hrumur eða máttvana. Við höfum dæmi um það úr íslensku samfélagi að fólk getur verið í slíkri stöðu, en veitt til okkar endalausu flæði visku og gjafa.

Ritningartextar:  5.Mós. 8.7, 10-11, 17-18 1.Kor. 3. 10-15 Matt. 25. 14-30

Náð og friður frá Guði sé með okkur öllum.

Listaverkið yfir altarinu er eftir myndlistarmanninn Magnús Kjartansson og ber heitið “Í tímans rás”, en þar gefur að líta gamla konu sem er mörkuð af tímanum og ellinni.  Hún hvílir í hljóðri og angistarfullri bæn.  Myndin minnir okkur á hverfulleikann, en listamaðurinn leggur áherslu á innra líf þessarar konu, hið andlega líf. 

Ég hef orðið þess mjög áskynja að þetta myndverk, sem hér hefur prýtt helgidóminn okkar síðan um ármót, hefur mjög djúp áhrif á fólk.  Fyrst og fremst hreyfir hún við tilfinningalífi okkar.  Hún minnir okkur á þjáninguna og þá staðreynd að öll eigum við eftir að eldast og hrörna, ef allt fer á besta veg.  Já, ef allt fer á besta veg. 

Í nýársávarpi umhverfisráðherra, Þórunnar Sveinbjarnardóttur, hér í Vídalínskirkju ræddi hún um mikilvægi þess að kirkjan hreyfði við fólki og vekti það til umhugsunar.  Hennar sýn á kirkjuna var alls ekki sú að hún sigldi áfram í stillilogni, heldur væri það hlutverk hennar að vekja athygli  á aðstæðum fólks, berjast fyrir réttlæti og vekja með okkur umhyggju með samferðarmönnum okkar.

Margir ólíkir hópar koma til kirkjunnar, og margar skoðanir eru uppi á þessu myndverki. Aldraður prestur sem sat hér í kirkjuskipinu fyrir nokkrum dögum sagði við mig að myndin minnti á að við ættum að vera í stöðugri bæn.  Þegar hópur ungs fólks sem syngur hér í gospelkór kirkjunnar kom á sína fyrstu æfingu á nýju ári þá urðu miklar umræður um þetta verk.  

Það er táknrænt í dag þegar þetta verk er helgað í kirkjuskipinu að þá skuli níuvikna fastan hefjast samkvæmt kirkjuárinu.  Á föstunni erum við hvött til að ganga í okkur sjálf, kannast við okkur sjálf, og textar dagsins hjálpa okkur til þess.   

Ég nefndi það áðan að viðbrögð okkar og líðan eru margvísleg gagnvart þessu áhrifaríka listaverki.  Þau eru það vegna þess að þetta verk Magnúsar Kjartanssonar eins og margt fleira í hans list, knýr okkur til að sjá það sem við e.t.v. viljum ekki sjá, kannast við sjálf okkur í ljósi sem okkur þykir ekki þægilegt, en vitum samt að er trúverðugt.  Við horfum hér upp í kórinn yfir altarinu og virðum fyrir okkur ásjónu, líkamsstöðu, svipbrigði og líðan þessarar konu.  Sjáum þessar þreyttu vinnulúnu hendur.  Og hvort sem okkur líkar eða mislíkar, þá vitum við að þetta er allt satt.  Listaverk Magnúsar er sannverðugt.  Raunsætt.  Og ef allt fer á besta veg í lífi þínu og mínu, munum við dag einn eiga svona líkama, svona hendur.  Og jafnvel þótt allt fari á besta veg þá munum við lifa hliðstæðar stundir.  Hver er angist þessarar konu?  Er það sorg?  Er það sekt?  Eru það svik?  Eða greinir þú, líkt og sumir, bros í andliti hennar.  Er þjáning hennar tóm eða skyldi hún vera full af þakklæti. 

- Hvernig sem við svörum þessum spurningum þá hljótum við að horfast í augu við að svör okkar eru viðbrögð við lífinu sjálfu, byggð á tilfinningalegri þekkingu okkar.   

Við getum átt innra líf þótt líkami okkar sé hrumur eða máttvana.  Við höfum dæmi um það úr íslensku samfélagi að fólk getur verið í slíkri stöðu, en veitt til okkar endalausu flæði visku og gjafa.  Skýrasta dæmið í okkar byggðarlagi er hún Freyja Haraldsdóttir.  Við getum ímyndað okkur að fötlun hennar sé henni til trafala en andinn er sterkari.  Hið innra líf Freyju er sterkara, meira en fötlun hennar.  Andi hennar getur verið okkur sem ekki erum fötluð viska og hvatning.  Eins geta aldraðir sem markaðir eru ellinni verið okkur sönn prédikun og lífsreynsla. Það er það sem listamaðurinn er að benda á í sinni eigin túlkun á verkinu þegar hann skrifar á þá leið að það sé hið innra líf þessarar öldnu konu sem myndin birti.  Við vitum að það eru mörg svona andlit til  í okkar samfélagi, margt fólk sem lifir elli og hrörnun og er gleymt.  Við vitum að fólk getur legið dögum saman látið á heimili sínu áður en í ljós kemur að það hefur kvatt þennan heim.  Þetta gerist jafnvel í svona litlu samfélagi eins og okkar.  Og við komum inn á stofnanir og inn á hjúkrunarheimili og við okkur blasa einmitt svona andlit.  Þessi andlit.  Angistarfullar ásjónur hinna gleymdu og týndu.  Það er hlutverk kirkjunnar að minna á það að kristin þjóð getur ekki sætt sig við félagslega einangrun fólks.  Við erum send til að leita uppi fólk. 

Jesús Guðs sonur er málaður upp fyrir augum okkar í Guðspjöllunum sem þjáð og yfirbuguð manneskja.  Í honum tekur Guð sér stöðu við hlið hinna yfirgefnu.  En við mótum með okkur menningu sem ekki hefur pláss fyrir hinn sigraða og yfirbugaða.  Menning okkar upphefur hetjuna, afreksmanninn, sigurvegarann.  Við höfum mótað með okkur sigurvegaramenningu þar sem hraði og afköst eru dýrkuð og tilbeðin.  Þar sem hver er sjálfum sér næstur og má þakka sjálfum sér allt gott.  Alveg slapp ungur maður naumlega út úr bílflaki sem lent hafði utan vega í stórgrýtisurð.  Þegar hann var spurður hverju hann þakkaði björgun sína, þá var hann þakklátastur bifreiðinni.  Bíllinn var svo vandaður og stálið svo gott, það var honum efst í huga þar sem hann hafði sloppið lifandi úr dauðans háska.  Hann þakkaði bílnum sem hann hafði keypt.   

Við heyrðum flutta frá altarinu aldagamla aðvörun og áminningu:  “Drottinn, Guð þinn, mun leiða þig inn í gott land, inn í land með lækjum, lindum og uppsprettum sem streyma fram í dölum og á fjöllum…..  Inn í land þar sem þú þarft ekki að neyta matar í fátækt og þar sem þig mun ekkert skorta og þar sem steinarnir eru járn og þú getur brotið eir úr fjöllunum…

Og þegar þú hefur etið og ert orðinn mettur og hefur reist glæsileg hús og hefur komið þér fyrir..og þér græðist gull og silfur og allar eigur þínar margfaldast, gæt þess þá að fyllast ekki ofmetnaði og gleyma Drottni Guði þínum…

…Þú skalt ekki hugsa með þér: “Ég hef aflað þessara auðæfa með eigin afli og styrk handar minnar.”  Minnstu heldur Drottins, Guðs þíns, því að það var hann sem gaf þér styrk til að afla auðs.”  (5. Mós. 8) 

Í stað þess að hrósa sjálfum sér í velgengninni, má sá sem á innra líf þakka gjafara allra hluta. Því hann sér og veit að allt er að láni, allt er gjöf.  Við sjáum ekki fortíð þessarar konu.  Vitum ekki hvort þessar hendur hömpuð bikurum eða skúringafötum.  En við sjáum að hún á auðlegð sem ekki er hægt að ræna frá henni.  Fjársjóð sem elli og sjúkdómar, angist og auðmýking megna ekki að skemma.  

“Annan grundvöll getur enginn lagt en þann sem lagður er.” Fullyrðir Páll postuli í pistil dagsins.  Og hann talar um þann eld sem prófa mun hvernig við höfum byggt ofan á grundvöll lífs okkar.   

“Ef einhver byggir ofan á grundvöllinn gull, silfur, dýra steina, tré, hey eða hálm,” skrifar Páll,  “þá mun koma í ljós hvernig verk hvers og eins er.  Dagurinn mun leiða það í ljós af því að hann opinberast með eldi og eldurinn mun prófa hvílíkt verk hvers og eins er.”  

Hver er þessi dagur?  Það er dagur örlaganna.  Dagurinn þegar þú stendur frammi fyrir skapara þínum og getur ekki lengur breytt neinu um líf þitt af því að það er liðið. 

Líf þessarar konu er liðið.  Hún er að mæta deginum, dómnum og eldinum.  Og við sjáum að hún stenst.  Við sjáum í þessari konu, sem lífið hefur rænt öllu sem áður prýddi hana og reytt af henni allar fjaðrir, að hún lifir í trú.  Hún á innri augu að sjá með.  Hún lokar augum í bæn.  Ekki til að loka veruleikann úti, heldur til þess að sjá betur.  Hún lygnir aftur augum og horfir með okkur inn í hin eilífu heimkynni.   Í fátækt sinni, umkomuleysi og auðmýkingu blasir við að hún hefur það sem öllu varðar.   Um það talar Jesús í Guðspjalli dagsins þegar hann útskýrir dæmisöguna um talenturnar:  “Því að hverjum sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða, jafnvel það sem hann hefur.” 

Þess vegna helgum við í dag þessa sársaukafullu mynd.  Við helgum hana til þjónustu við sannleikann og lífið, því hún kallar okkur til að biðja og æðrast ekki og ögrar okkur til að sleppa taki á öllu því sem ekki stenst eldinn og daginn.