„Diego Jota er dáinn.“ Sonur minn kom til mín að morgni fimmtudags með þessi tíðindi.
Að finna til með ókunnugum
Já, þetta var víst geðþekkur ungur maður, 28 ára gamall, nýkvæntur æskuástinni sinni og þriggja barna faðir. Hann lést ásamt bróður sínum í bílslysi á Spáni. Ástæðan fyrir því að feðgar uppi á Íslandi ræddu þennan atburð er vitaskuld sú að Jota þessi var leikmaður með Liverpool og landsliðsmaður Portúgals. Með þeim liðum hafði hann unnið til margra verðlauna og öðlast heimsfrægð.
Við vissum ekki alveg hvernig við áttum að taka þessum fréttum sem bárust nú á leifturhraða út um alla heimsbyggðina. Jota þessi og félagar hans höfðu jú oft vakið með okkur sterk viðbrögð. Íbúi á hæðinni fyrir neðan okkur í fjölbýlinu sagði mig eitt sinn við mig, glettinn á svip, „já þið feðgar haldið greinilega með Liverpool.“ Við höfðum þá greinilega látið hraustlega í okkur heyra þegar við horfðum á einhvern kappleikinn!
Fyrst við gátum hrifist svo með fjarlægum atburðum, áttum við þá ekki núna að fyllast sorg? var þetta eins og vinur eða ættingi? nei víst var ekki svo en vissulega fundum við fyrir leiða og hluttekningu með hans nánustu.
Ekki vorum við einir um það. Fjölmiðar heimsins ræddu þennan atburð. Á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu sem nú fer fram í Sviss, fór fram mínútuþögn áður en leikar hófust, þar sem liðsmenn minntust hins látna fótboltamanns.
Í stuttu máli, þá vorum við hálf skömmustulegir yfir því að láta þennan tiltekna atburð snerta okkur svo djúpt, mitt í öllum harmi heimsins. Tilfinningar eru jú þess eðlis, að þær gera okkur berskjölduð og varnarlaus. Fyrir vikið er stutt í skömmina sem getur gripið okkur þegar við sýnum þær, hvað þá þegar við erum á valdi tilfinninganna.
Í guðspjalli dagsins er komið inn á þessi mál. Textinn lýsir æðisgenginni leit sem endar svo í fögnuði. Í báðum tilvikum virðast sögupersónurnar ganga lengra en skynsamlegt gæti talist enda eru þær ríkar að tilfinningum.
Fyrst er sagt frá því sem margir álitu hneyksli – að Jesús snæddi með fólki sem var kallað bersyndugt. Í framhaldi segir hann þeim dæmisögur.
Önnur fjallar um hirði sem týnir einum sauði og skilur alla hina 99 eftir meðan hann leitar hans. Hin er um konu sem finnur ekki pening og snýr öllu við á heimilinu þar til aurinn er kominn í leitirnar. Í niðurlagi beggja frásagna lýsir Jesús því hversu gleðilegt það er þegar fólk snýr af villu síns vegar.
Já, tilfinningin sem myndast þegar tapað er fundið er alveg frábær. Við þekkjum hana örugglega öll. Einu sinni fann ég ekki vegabréfið og átti flug eldsnemma næsta morgun. Í örvæntingu, sneri ég öllu við, tæmdi skúffur og skápa. Loks settist ég niður, náði stjórn á huganum og hugsaði hvar ég hefði líklega látið þetta dýrmæta bláa hefti sem gefur mér meiri réttindi en mörg systkini mín á þessari plánetu fá notið. Og nokkrum andartökum síðar rölti ég á stað sem ég hafði ekki leitað á, tók út möppu og þar var vegabréfið.
Spennan sem hafði myndast vék fyrir sælukennd!
Slík tilfinning getur myndast af öðru tilefni. Þegar við sættumst við kæran vin sem okkur hefur orðið sundurorða við, finnum við jafnvel enn frekar hvernig gleðin færist yfir líkamann. Að sögn sérfróðra senda kyrtlar boðefni um æða- og taugakerfi, sem miðla okkur þeim skilaboðum að við höfum sannarlega gert eitthvað rétt í þetta skiptið.
Guð leitar
En í þessari sögu eru það ekki gleymnar manneskjur sem ýmist róta öllu til og frá eða arka af stað út í óbyggðir í leit að hinu týnda. Nei, hér er það sjálft almættið sem er í þessum vandræðalegum sporum. Jesús er auðvitað að tala um Guð í samlíkingum og hann dregur ekki upp neina glansmynd. Þarna er hann hirðir – og slíkt störf voru ekki hátt skrifuð þá frekar en nú.
Svo þetta er einn af þeim stöðum í Biblíunni sem við lesum að Guð sé kona og við fáum við eins og í leifursýn mynd af daglegu lífi húsmóður í hinum forna heimi. Hún gæti svo sem átt við í dag og þá vitaskuld um bæði kyn og öll.
Jesús, sem hafði setið undir ákúrum fyrir að eiga samskipti við syndugt fólk seildist ekki upp í háloftin þegar hann lýsti hinum almáttuga. Sjónarhornið er engu að síður á manneskjunni. Ef Guð getur verið svona gleyminn og gloppóttur hvað verður þá sagt um okkur mennina?
Ef Guð er svo ríkur að tilfinningum að hann bæði fyllist örvæntingu og verður himinkátur – hvaða skilaboð eru það þá til okkar sem verðum stundum skömmustuleg yfir því að láta kenndir okkar í ljós?
Hér leynist þráður sem átti eftir að ganga í gegnum allan kristindóminn, nefnilega að hjálpræðið er ekki eitthvað sem við ávinnum okkur. Við erum ekki í hlutverki þess sem leitar, manneskjan æðir ekki um gólfin eða hleypur hrópandi um hagana, það Guð sem sinnir því hlutverki. Hann eða hún finnur okkur þar sem við erum villt og býður okkur til samfélags við sig. Þetta kallar kristnir menn náð, sem er óverðskulduð og ókeypis.
Við tökum á móti henni sem hverri annarri gjöf, vitandi af breyskleika okkar og takmörkunum. Um leið ættum við að forðast það sem einkenndi svo marga viðmælendur Jesú í guðspjöllunum, nefnilega að setja okkur í dómarasæti gagnvart náunganum. Nei, frammi fyrir Guði erum við öll jöfn. Í veikleika okkar leynist mikill styrkur.
Við getum staldrað við hið órökrétta, en þessi texti er hluti þeirra sem stundum minna á ýkjusögur. Þar birtir Jesús okkur mynd sem er yfirdrifin, 99 sauðir skildir eftir til að finna þennan eina, öllu snúið við til að hafa upp á týndri drökmu og veisluhöldin sennilega dýrari þeirri sem fannst!
Kjánalegar tilfinningar?
Skömmin er skammt undan þegar við leyfum okkur að sýna tilfinningar okkar. Hún getur verið eins og haft á lífi okkar. Og hér lesum við um örvæntingarfullan Guð og er ekkert dregið undan þegar kemur að því að lýsa þeim kenndum sem sækja að almættinu.
Hluttekningin er slík kennd sem býr í brjóstum okkar. Þekktur íþróttamaður fellur frá í blóma lífsins. Uppi á Íslandi ræða feðgar örlög hans og finna til með fólkinu hans. Þó hafa þeir aldrei átt við hann önnur samskipti en að fylgjast með honum leika listir sínar á vellinum. Er það kjánalegt? Nei tilfinningar eru það sjaldan. Textar dagsins hampa samlíðuninni og skora jafnframt á hólm hið rökrétta, viðbúna og skilvirka. Þeir minna okkur á að sýna tilfinningar okkar, jafnt sorg sem gleði. Þar blundar jú neistinn í hjörtum okkar og upp úr þeim jarðvegi vex svo trúin.