Þar gildir gæskan ein

Þar gildir gæskan ein

Það sem snertir við mér í ritningarlestrum dagsins er áskorunin um að vanda sig í hvívetna. Köllun mín til andlegs lífs, til lífs í Guði, felur í sér áminningu um að hegða mér í samræmi við veruleika Guðs, mótast persónulega í lítillæti og hógværð Krists en líka - sem hluti af samfélagi trúaðra - að leggja mig fram við að birta einingu þessa andlega veruleika í allri friðsemd. Vandaðu þig! kalla þessir textar til mín en létta líka af mér byrðinni með því að minna mig á að það er Guð sem kallar, Guð sem kemur því til leiðar – ef ég hleypi andanum að í lífi mínu.

Viska, skynsemi, hreinskilni, aðgætni, hógværð, lítillæti. Þetta eru þeir mannkostir sem lesturinn úr Orðskviðunum (Okv 16.16-19) bendir okkur á. Í Efesusbréfinu (4.1-6) heyrum við svipaðan boðskap: Verið lítillát og hógvær, þolinmóð, langlynd, umburðarlynd og elskuleg. Fordæmi Jesú er á sömu leið eins og við heyrum um í guðspjalli dagsins (Lúk 14.1-11): Hann er hreinn og beinn í orðaskiptum sínum við þá sem allt þóttust vita og sýnir á sama tíma elsku Guðs í verki með því fara út fyrir ramma siðvenjunnar til að lækna veikan mann. Þar sem Guð er nærri gildir gæskan ein, ekki boð og bönn – og virðing veitist þeim sem sýnir sanna hógværð.

Þess vegna áminnir Páll postuli áheyrendur sína – okkur þar á meðal – um að við hegðum okkur „svo sem samboðið er þeirri köllun“ sem við höfum hlotið. Gæska Guðs og mildi birtist okkur í Jesú Krist sem er „hógvær og af hjarta lítillátur“ (Matt 11.29) og kallar okkur til að líkjast sér. Í því er fólginn innri styrkur – og mikill heiður, að fá að líkjast sjálfum skapara okkar sem elskar okkur hvert og eitt. En sjálfsupphafning, oft á kostnað annarra, ber vott um minnimáttarkennd og falskt sjálfsöryggi sem oftar en ekki leiðir í persónulegar ógöngur. Mín reynsla og margra annarra er að sjálfsmynd, bjöguð af ýmsum skakkaföllum á lífsleiðinni, fær leiðréttingu í trúnni á Jesú Krist sem hvetur okkur sannarlega ekki til að setja ljós okkar undir mæliker, svo vitnað sé í Fjallræðuna (Matt 5.15). Í Kristi eignumst við heilbrigða sjálfsmynd sem frelsar okkur frá þörfinni fyrir að sýnast og trana okkur fram og frelsar okkur til góðra verka, okkar himneska föður til vegsemdar (Matt 5.16). Að þetta er langtímaverkefni og verður aldrei að fullu lokið hér á jörð þarf sennilega ekki að hafa mörg orð um.

Köllun til lífs í Kristi Lifið í samræmi við köllun ykkar, segir postulinn. Hann segir ekki: Hegðið ykkur í samræmi við siðvenjur eða væntingar annarra. Nei, hann hvetur okkur til að vera það sem við erum kölluð til, elskuð Guðs börn og sýna það í orði og verki. Nú geta siðvenjur verið prýðileg viðmið fyrir mannlega hegðun. Þær eru oftar en ekki slípaðar til af reynslu aldanna, endurspegla sammannlega visku sem gott getur verið að gefa gaum að. En Jesús prédikar ekki siðvenjur. Biblían inniheldur ekki tæmandi lista yfir hvað má og ekki má. Boðorðin 10 hafa vissulega staðist tímans tönn. Það er vegna þess að þau endurspegla boðorðið eina, grundvöll mannlegra tengsla – og tengsla okkar við Guð. Boðorðið eina er að svara ást Guðs með því að elska Guð af öllu hjarta, sálu, huga og mætti og náungan eins og okkur sjálf – svo ég taki nú forskot á efni næsta sunnudags (Mark 12.28-34).

Tökum eftir því að það er ástæða fyrir áminningu postulans: „Ég... áminni ykkur þess vegna...“ Ástæðuna finnum við í lok kaflans á undan (Ef 3.14-21) sem var reyndar pistill síðastliðins sunnudags. Þar er að finna bæn um styrk og skilning á kærleika Krists og staðfestingu á því að það er Guð sem verkar í okkur í krafti sínum „og megnar að gera langt fram yfir allt það sem vér biðjum eða skynjum.“ Við þurfum ekki að þvinga fram hógværð og lítillæti „á hnefanum“ eins og stundum er sagt. Áminningunni um að líkjast Jesú Kristi fylgir fullvissan um að Guð muni koma því til leiðar, ef við felum okkur góðum Guði hvert andartak.

Einingarband Og svo fer postulinn að tala um „einingu andans“ og „band friðarins“ sem hluta af köllun okkar sem kristins fólks. Það er eitthvað sem nær út fyrir okkur sjálf. Að sýna hógværð og lítillæti, umbera og elska hvert annað eru persónulegir kostir sem nálægðin við Jesú Krist í heilögum anda, með bæn og lestri Biblíunnar og í samfélagi trúaðra, getur komið til leiðar í okkur. En köllunin til einingar í anda og friði talar inn í kirkjuna sem heild. Andinn er einn, friðurinn einn andlegur veruleiki. Eins og líkami manneskjunnar er ein heild, þannig er líka kirkjan ein. Og þá á ég ekki við Þjóðkirkju Íslands! Við hér – og lútherskar kirkjur á heimsvísu - erum aðeins brotabrotabrot af líkama Krists, eins og nögl á litlutá eða varla það, kannski bara eins og ein fruma.

Við eigum hins vegar sameiginlegt DNA með öllum hinum kirkjudeildunum og kristnu hreyfingunum, sama erfðaefni, eins og fyrirlesari sem ég hlustaði á í gær í Vídalínskirkju komst að orði. Sem hluti af líkama Krists er fruman okkar nákvæmlega eins samsett og allar aðrar frumur – eða söfnuðir – líkamans. Hlutverkin og birtingarformið eru vissulega ólík en sami þráður tengir okkur, ást Guðs til okkar í Jesú Kristi - og ást okkar til Guðs í andanum. Og vonin er ein, vonin um lífið í Guði hér og nú og um alla tíð. Ólíkar skoðanir, einn veruleiki Það er Guð sem kemur því til leiðar að við líkjumst Kristi, ef við hleypum anda hans að til að móta okkur. Eining kirkjunnar er einnig gjöf heilags anda en við sem kirkjufólk, hluti kristins safnaðar, berum samt ríka ábyrgð þegar kemur að því að varðveita eininguna í líkama Krists. Við eigum að kappkosta það, leggja okkur fram við það, segir postulinn. Þar reynir á mótun einstaklingsins til Guðs myndar, þar reynir á eiginleika okkar sem kristins fólks, að við séum fær um að sýna lítillæti og elskusemi í samskiptunum við systkini okkar í trúnni – og auðvitað annað fólk líka.

Við höfum öll okkar skoðanir á kristinni trú - en trúin er samt einn andlegur veruleiki. Sem fjölbreyttir söfnuðir með margvíslegar siðvenjur höfum við ýmsar kenningar og útfærslur á skírninni – en skírnin er samt einn andlegur veruleiki. Guð er einn – en Guð er ekki bara faðir minn eða faðir okkar lútherana eða siðbótarkirknanna eða sögulegu kirknanna eða kristins fólks almennt. Guð er einn andlegur veruleiki sem er yfir ÖLLUM, með ÖLLUM og í ÖLLUM, hvort sem við erum meðvituð um það eða ekki.

Að vera hafin yfir sjálfa sig Fegurðin við að átta sig á því að Guð lætur sér annt um okkur sem einstaklinga og samfélög og söfnuði og íbúa jarðar felst í því að geta sleppt tökunum, geta hætt að trana sér fram, þurfa ekki að sanna sig í sífellu. Þetta á við um mig og þig sem persónur en líka söfnuðinn okkar og kirkjuna sem við tilheyrum. Við getum hafið okkur upp yfir deilur og orðastælur, látið meting og sundurlyndi lönd og leið, verið hógvær með lítillátum, umborið og elskað hvert annað af því að Guð gerir okkur það kleift. „Því að svo segir Drottinn Guð, Hinn heilagi Ísraels: „Fyrir afturhvarf og rósemi munuð þér frelsast, í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera“ (Jes 30.15).

Kæru vinir. Það sem snertir við mér í ritningarlestrum dagsins er áskorunin um að vanda sig í hvívetna. Köllun mín til andlegs lífs, til lífs í Guði, felur í sér áminningu um að hegða mér í samræmi við veruleika Guðs, mótast persónulega í lítillæti og hógværð Krists en líka - sem hluti af samfélagi trúaðra - að leggja mig fram um að birta einingu þesss andlega veruleika í allri friðsemd. Vandaðu þig! kalla þessir textar til mín en létta líka af mér byrðinni með því að minna mig á að það er Guð sem kallar, Guð sem kemur því til leiðar – ef ég hleypi andanum að í lífi mínu.

Það er mannlegt að vilja sanna sig af verkum sínum, trana sér fram, benda á sjálfa sig í von um verðlaun. En það er svo lýjandi til lengdar. Við þurfum að heyra og meðtaka að lífið í Guði er gjöf, að trúin er gjöf, vonin sömuleiðis, kærleikurinn og einingin. Guð er það band friðarins sem tengir okkur saman í kirkjunni. Sækjum til Guðs styrk og eflingu, takmörkum okkur ekki við okkar eigin styrk og afl, því þegar við sýnum hógværð erum við hafin yfir okkur sjálf; eitt í styrkleika Guðs.