Frelsarinn kemur aftur

Frelsarinn kemur aftur

Í OP Jóh er sagt frá sýn varðandi endurkomu Jesú Krists… og það er ljóst að hún verður ekki eins látlaus og þegar hann fæddist. Nei, þar segir að hann muni koma með lúðrablæstri… og að himinninn muni uppljómast í hvílíkri dýrð að það muni ekki fara fram hjá nokkrum lifandi manni á jörðinni…

Lúk 21.25-33,  Jes 11.1-9   Róm 15.4-7, 13

Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi.  

Aðventan er tíminn þar sem við bíðum eftir að fagna fæðingardegi frelsarans. Stærsta hátíð kristinna manna fer í hönd. Þetta er tími ljóss og friðar, tími tilhlökkunar, tími minninga, t.d. um æskujólin en einnig tími söknuðar vegna þeirra sem hafa kvatt og farið á undan okkur. 
Sú æskuminning sem stendur upp úr hjá mér… er ekki um pakka, mat eða föt… heldur… þegar jólaserían var dregin fram og pabbi fór yfir hana og gerði við með lóðboltanum. Það þurfti að gera við hana fyrir hver einustu jól… svo það kviknaði á perunum. En um leið og kviknaði á seríunni og hún var komin á tréð… þá fylltist húsið af hátíðleik. Þá fyrst gátu jólin komið. Við vorum tilbúin.

Það var ekki skreytt eins mikið þá og nú… og seríurnar voru vandmeðfarnar, viðkvæmar fyrir öllu hnaski… Ef það slokknaði á henni varð að taka hana af trénu og finna hvar lóðningin hafði gefið sig… Okkur systkinum fannst jólaserían okkar vera tækniundur, allir þessir litir… því amma mín var með heimasmíðað spýtu-jólatré með lifandi kertum á.… Það fannst okkur gamaldags…

Og nú bíðum við jólanna… við höfum skapað okkar eigin hefðir til að hátíðleikinn birtist. Við eigum öll eitthvað sem er ómissandi í jólahaldinu og við keppumst um að hafa það allt tilbúið áður en jólin koma. Allar hefðir eru góðar því þær eru okkar eigin og láta okkur líða vel. 

Aðventan er upphaf nýs kirkjuárs. Textar dagsins fjalla ekki aðeins um spádóminn um fæðingu frelsarans… heldur einnig um endurkomu hans, í lok tímanna… En hvers vegna er þessum textum blandað saman… jú… GT spáði fæðingu hans og NT segir að hann muni koma aftur… ekki sem barn… heldur sem konungur alheims í allri sinni dýrð… Báðir textarnir tilkynna komu Jesú til þessarar jarðar.

Fyrsti textinn segir:…  eins og lesið var áðan… kvistur mun spretta fram af stofni Ísaí, sproti mun vaxa af rótum hans… Andi Drottins mun hvíla yfir honum… Spádómurinn er látlaus, engri dýrð lýst eða móttökuathöfn eins og myndi sæma komu konungs… heldur látlaus innkoma í heiminn - aðeins fátæklegur rótarkvistur sem vex upp úr jörðinni.
Ég gat tímasett komu mína til Patreksfjarðar en spádómurinn um fæðingu Jesú var ekki tímasettur svo örfáir vissu af komu hans… og þess vegna voru það örfáir sem fögnuðu honum… aðeins nokkrir fjárhirðar og vitringar frá austurlöndum.

Það má segja að það séu einmitt vandræðin við spádóma að þeir eru ekki dagsettir og þess vegna vilja þeir gleymast ef ár og aldir líða…  og þeir geta þá líka ræst án þess að nokkur átti sig á því, fyrr en löngu seinna. En Guð sá til þess að við misstum ekki af þessari sögu.. og árlega fáum við að upplifa eftirvæntinguna eftir jólunum. Við fögnum hátíð ljóssins þegar myrkrið er mest…

í texta dagsins er Jesú líkt við viðarteinung. Samlíkingin um vínviðinn kemur oftar fyrir í GT en í NT… þar sem Jesús segir: Ég er hinn sanni vínviður… Hann er rótin og stofninn á trénu og við sem fylgjum honum, erum greinarnar… limir á líkama hans… greinar sem þurfa nauðsynlega að fá alla sína næringu gegnum rótarkerfi trésins til að halda lífi…og greinunum, okkur er ætlað að bera ávöxt…  við eigum að bera góðu fréttirnar áfram. Við eigum að láta aðra vita að allir sem játi trúna, séu velkomnir í ríki Guðs.

Boðskapur NTsnýst allur um Ríki Guðs… allar sögur og dæmisögur Jesú segja okkur að við verðum að þekkja hann og vera viðbúin komu hans… eins og td sagan um meyjarnar með lampana… þær þurftu að hafa næga olíu á þeim… eins verðum við að halda við trúar-eldinum í hjörtum okkur… og Orð Guðs er olía á trúareldinn… 

þegar Jesús læknaði blinda, lamaða eða holdsveika þá sagði hann: Trú þín hefur bjargað þér… það er enn í fullu gildi… það er trúin sem bjargar okkur... við þurfum að fræðast um og nærast á, orði Guðs… elska Guð og elska náungann… og á aðventunni kemur þessi kærleikur oft betur í ljós…

Við fengum að heyra tvo spádóma. Það er sjaldnar talað um þann seinni, endurkomuna, samt sagði Jesús þegar hann steig upp til himins… að hann kæmi aftur.  Bæn dagsins endurspeglar þennan spádóm: Drottinn Jesús Kristur, í heiminum er ótti og þjáning. Við þráum réttlæti og frið. Kom þú skjótt, endurnýja sköpun þína, svo að að óp örvæntingarinnar og stunur hræðslunnar megi breytast í lofsöng. Um það biðjum við, og á þig vonum við, um tíma og eilífð. Amen

Spádómurinn um endurkomuna í Op Jóh er ekki tímasettur frekar en aðrir spádómar en í texta dagsins segir:  Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu…  tákn um að tíminn sé í nánd… og margir telja að einmitt þessi tákn séu þegar komin fram… Ég fann margar frásagnir af þessum fyrirbærum á google… þegar ég skrifaði ritgerð í guðfræðideildinni um þessa spádóma…

Í OP Jóh er sagt frá sýn varðandi endurkomu Jesú Krists…  og það er ljóst að hún verður ekki eins látlaus og þegar hann fæddist. Nei, þar segir að hann muni koma með lúðrablæstri… og að himinninn muni uppljómast í hvílíkri dýrð að það muni ekki fara fram hjá nokkrum lifandi manni á jörðinni…

Enginn annar tími í kirkjuárinu en aðventan passar betur til að minna okkur á að Jesús kemur aftur.  Spádómurinn um fæðingu hans er þegar uppfylltur en sá seinni bíður hins fullkomna tíma… Á meðan við bíðum gengur lífið sinn vanagang… Við höldum áfram okkar daglegu störfum. Eins og alltaf er tíminn er ótrúlega lengi að líða hjá börnunum og unga fólkinu en eftir því sem við eldumst virðast árin þjóta hraðar framhjá… en á hvaða aldri sem við erum þá á aðventan alltaf sérstakan sess, hún minnir okkur á að staldra við, senda vinum kveðjur… hjörtun fyllast af hátíðleik þegar jólaljósin lýsa upp skammdegið, heimilin eru skreytt og undirbúningurinn fer á fullt.

Við gefum okkur tíma til að vera með okkar nánustu fjölskyldu, njótum samveru með vinum og eignumst fleiri minningar. Kærleikurinn streymir milli manna þegar þeir mætast úti á götu eða koma saman af einhverju tilefni… og við óskum þess heitast að allir geti átt gleðilega jólahátíð.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen


2 sunnudagur í aðventu, 8.des 2019 í Tálknafjarðarkirkju