“Eitt ljós, eitt ljós við kveikjum og lýsum þessa jörð
til styrktar því sem lifir og stöndum um það vörð.
Ef myrkrinu við höfnum vor framtíð festir rót.
Þeim degi sem nú rennur, með reisn við göngum mót.”
Svona hefst
aðventusálmurinn, “Eitt ljós, eitt ljós við kveikjum”, norskur sálmur,
alveg einstaklega fallegur og með bjartan boðskap.
Það er
merkilegt að á þessum tíma, aðventunni, að þá kveikjum við held ég aldrei eins
mörg ljós eða tendrum á eins mörgum kertum. Það er þessi eðlislæga þörf okkar að
hafa birtuna í kringum okkur. Enda erum við í svartasta skammdeginu og dagsbirtan
skammvinn og mögulega þörfin okkar fyrir birtuna enn meiri en ella.
Textar
þessa dags eru framtíðartextar, þeir vísa til þess sem á eftir að gerast þegar
mannsonurinn snýr aftur í allri sinni dýrð.
Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu
angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. Menn munu falla í öngvit af
ótta og kvíða fyrir því er koma mun yfir heimsbyggðina því að kraftar himnanna
munu riðlast
Þó að þetta
sé framtíðarsýn er samt margt þarna sem heimfæra má inn í nútimasamhengi. Við
erum mörg nú þegar óttaslegin og kvíðin yfir mörgu og margt af því sem
tilheyrir þessum kvíða geymum við í eigin sálarlífi. Kvíðinn okkar getur snúið
að svo mörgu, afkomu, afkomendum, veikindum, atvinnuaðstæðum, útliti,
líkamsmynd, félagslegum samskiptum eða jafnvel einmanaleika.
Einnig
berum við mörg í brjósti kvíða yfir aðstæðum í heiminum í dag, loftslagsvánni,
vaxandi kynþáttahatri, útlendingaandúð, vaxandi kynbundnu ofbeldi, hinsegin fordómar,
stríð og svo mætti lengi telja.
Stöldrum samt aðeins við og höfum hér í huga upp á framhaldið að gera, að Guðspjallstextinn stoppar ekki þar sem ég endaði áðan. Hann heldur áfram og segir:
En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og
berið höfuðið hátt því að lausn yðar er í nánd.
Lausn yðar
er í nánd! Og hver skyldi sú lausn vera spyrja eflaust margir sig, þegar hún
virðist oft og tíðum vera svo fjarri og jafnvel bara alls ekki sýnileg og okkur
gjörsamlega hulin.
Það er vont
að vera fullur kvíða og ótta yfir hverjum degi og eða framtíðinni. Það er staða
sem gerir okkur vanvirk og hrædd og við þráum lausn á þeim aðstæðum, það er svo
mannlegt og eðlilegt.
“Tvö ljós, tvö ljós við kveikjum í kærleika og trú
til þeirra' er brjóta múra og byggja nýja brú.
Er fanginn öðlast frelsi og flóttamaður ból
skín ljós á þrútna hvarma og þá sem veita skjól.”
Svona
hljómar erindi númer tvö í aðventusálminum sem ég vísaði í í upphafi.
Ég las tvær
afar áhugaverðar bækur í fyrra sumar. Þær eru eftir sálfræðing, Guðbrand Árna Ísberg
og heita annars vegar “Skömmin” og hins vegar “Nándin”
Skömm getur
verið tvenns konar, annars vegar sú skömm sem er í raun bara eðlileg, eins og
þegar við gerum eitthvað af okkur og vitum vel af því og það kemst upp um okkur
og við hugsanlega erum skömmuð smá og í kjölfarið kennt hvernig við getum gert
betur.
Svo er það hin skömmin, sem lamar og eyðir, sem gerir það að verkum að þú getur ekki gengið upprétt, ekki horft í augun á fólki, þorir ekki að nota röddina þína eða taka pláss, því að öll vera þín ber reynslu sem er lituð af skömm og hugsanlega var aldrei neitt af því sem kom fyrir þig þér að kenna en þú berð þetta í sálinni, í líkamanum, í hjartanu og það hefur sett sitt mark á allt þitt líf.
Guðbrandur
segir að það eina sem er nógu máttugt að taka skömmina í burtu er kærleikurinn,
ástin, nándin. Það að eiga þannig grímulaus samskipti við manneskju sem sér og
skilur og kennir þér með skilyrðislausum kærleika sínum að þú ert elskuverð.
Þannig hefur kærleikurinn mátt til að brjóta niður múra og byggja brú á ný
fyrir þig inn í líf í fullri gnægð. Og dýrmæta manneskjan sem þú ert sem hefur verið
fangi í eigin skömm, öðlast frelsi, þannig þerrast tárin og þú ert komin í
skjól.
Hugsanlega
er lausnina að finna í nándinni sem þú þráir að finna, öryggi um stundakorn til
að hvíla lúinn hugann sem gefur aldrei þér aldrei frið.
“Þrjú
ljós, þrjú ljós við tendrum og lýsum öllum þeim
sem réttlætinu vinna hér vítt og breitt um heim.
Ó, missið ekki kjarkinn, við erum sama sveit
og ljósin okkar björtu þau lýsa' upp öll vor heit”.
Og við
höldum áfram í þessum fallega sálmi að tendra ljós. Það eru sannarlega mörg sem
vinna ötullega að því að tendra ljós í hjörtum okkar hinna sem á vegi þeirra
verða. Eins og englar í mannsmynd sem ganga um jörðina og gera hana að betri
stað. Englar eru sendiboðar Guðs og mögulega er það einfaldlega þannig að þeir
taka á sig mannsmynd til að kenna okkur hinum.
Ekki kenna
okkur með boðum og bönnum, heldur kenna okkur einfaldlega um hvað lífið snýst í
sinni tærustu mynd. Kenna okkur um kærleikann, réttlætið, ástina, vináttuna, að
náungi okkar er ekki framandi eða ógn við okkar tilveru. Kenna okkur um mátt
nándarinnar og kunnugleikans. Kenna okkur að sjá töfrana í því sem gerist þegar
við könnumst við hvert annað, þegar við áttum okkur á þvi að við erum öll eitt,
heimurinn er einn og óskiptur og við öll sem hér erum erum svo óendanlega
dýrmæt og elskuverð og eigum skilið að lifa með reisn og bera höfuðið hátt.
En við
getum þetta ekki nema í samfélagi sem ber ekki hatur í brjósti eða fordóma
heldur elsku, samkennd og umburðarlyndi
Mögulega
þegar við sjáum það, gæti lausn okkar verið í nánd?
“Nú ljósin okkar tindra og lýsa nær og fjær
og ljóminn upp til himins, sig fetar undurskær.
Þar brosir Jesús Kristur sem blessar hverja rós,
við biðjum og við þökkum, hans kærleika og ljós.”
Ein er
hrein og tær uppspretta kærleikans, ástarinnar og elskunnar. Þar sem þú í hans
skjóli þarft aldrei að fela þig, aldrei að setja upp grímu. Hann þekkir þig nú
þegar, hann hefur gert það síðan þú komst í heiminn og nafnið þitt var nefnt
við heilaga skírnarlaug. Hann elskar þig þrátt fyrir allt. Hann brosir og
gleðst þegar þegar gengur vel og hann grætur með þér þegar þú er sorgmædd eða
sorgmæddur, kvíðin eða þegar þér líður illa eða ert einmana.
Jesús
gengur þér við hlið, í heiminum.
Við munum
brátt hafa tendrað fjögur ljós, ljós sem vísa okkur heim til Betlehem þar sem
ungbarn er nýfætt í fangi foreldra sinna.
Þrátt fyrir
allar heimsins ógnir er það öruggt því það á skjól og yfir því er vakað.
Hvernig
væri á þessari aðventu að feta veginn til Betlehem, í skjólið og birtuna,
kveikja á kertunum fjórum, sem saman minna okkur á það undur sem átti sér stað
á jólanótt og gaf okkur öllum von og umfram allt þetta: Að gefast aldrei upp,
heldur halda í trúna, sýna kærleika í verki, vera hugrökk, rétta úr okkur og
bera höfuðið hátt, við höfum engu að kvíða því lausnin okkar er nú þegar komin
í heiminn og liggur hjalandi í jötu og
við munum öll fagna henni saman á komandi helgri jólanótt!
Amen.