Þeir komu til Jeríkó. Og þegar Jesús fór út úr borginni ásamt lærisveinum sínum og miklum mannfjölda sat þar við veginn Bartímeus, sonur Tímeusar, blindur beiningamaður. Þegar hann heyrði að þar færi Jesús frá Nasaret tók hann að hrópa: „Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!“ Margir höstuðu á hann að hann þegði en hann hrópaði því meir: „Sonur Davíðs, miskunna þú mér!“Jesús nam staðar og sagði: „Kallið á hann.“
Þeir kalla á blinda manninn og segja við hann: „Vertu hughraustur, statt upp, hann kallar á þig.“ Blindi maðurinn kastaði frá sér yfirhöfn sinni, spratt á fætur og kom til Jesú.
Jesús spurði hann: „Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?“
Blindi maðurinn svaraði honum: „Rabbúní, að ég fái aftur sjón.“
Jesús sagði við hann: „Far þú, trú þín hefur bjargað þér.“
Jafnskjótt fékk hann sjónina og fylgdi honum á ferðinni.Mrk 10.46-52
Vissuð þið það, kæru kirkjugestir, að líftími ykkar sem sækið messur að staðaldri er lengri en almennt getur talist? Tjah, tölfræðin segir það. Og þeir sem leggja fyrir sig ýmsa aðra trúarlega iðju bæta ekki aðeins árum við lífið heldur líka lífi í árin. Heilsa þeirra mun vera betri, hamingjan meiri og þeir ná sér fyrr upp úr áföllum þeim sem þeir kunna að verða fyrir á lífsleiðinni.
Margt leggst á eitt
Vísindamenn sem fást við ýmis svið mannslíkamans hafa komist að þessari niðurstöðu. Og það sem meira er, þeir hafa fundið svæði í heilanum sem örvast við bænir og íhugun. Þau eru á svipuðum slóðum og stöðvar þær sem við notum er við beinum öllum kröftum okkar að mikilvægu verkefni – einbeitum okkur eins og það er kallað. Bænin, segja þessir jarðbundnu fræðimenn, er nokkurs konar líkamsrækt fyrir heilann og taugakerfið!
Fleira er nefnt í þessu sambandi og tengist raunar þeim lestrum sem lesnir voru í guðsþjónustunni. Pistillinn fjallar um leiðsögn og forystu. Þar er rætt um, hversu mikilvægt það er að menn hafi vitund um stöðu sína, hvaðan þeir eru komnir: „Minnstu þess að þetta fólk er þjóð þín“ segir Drottinn við Móse. Og þessi orð hafa menn lesið síðan. Þau hafa verið hópum og þjóðum ómetanlegur grunnur til þess að standa á.
Hann fjallar líka um það hvert menn stefna. Móse fær köllun um að leiða fólkið áfram. Þetta tvennt: vitneskjan um upprunann og markið sem menn hafa fyrir augunum er dýrmæt heilsulind. Já, slík sýn getur drifið okkur áfram upp úr erfiðustu raunum eins og dæmið sýnir með forystu Móse þar sem hann leiddi lýðinn til fyrirheitna landsins.
Fyrirmyndin sem við fáum í lífi Jesú Krists gefur svo mikilvægustu leiðsögnina í þessa veru. Í pistlinum er fjallað um þá staðfestu sem hann sýndi í þjónustu sinni. Hann hvikaði ekki þrátt fyrir þrautir og mótlæti. Allt kemur þetta heim og saman við ofangreindar niðurstöður sem og margar aðrar. Sá er betur staddur sem á sér sannfæringu að byggja á – nokkuð sem ekki breytist eða hverfur með tísku og tiktúrum hvers tíma.
Augun mín og augun þín
Trúin færir okkur þetta sjónarhorn á lífið sem fellur svo vel að þörfum líkamans og velferð hans. Hún beinir augum okkar að því sem er jákvætt og uppbyggilegt. Augu hins trúaða manns sjá vissulega það sama og aðrir sjá – en þau greina annað. Þau greina umhverfið sem dýrmæta sköpun Guðs. Þau sjá í náunganum vettvang þjónustu sinnar. Og þegar þau horfa í spegil blasir við þeim einstaklingur sem á sér skýran uppruna og skýr markmið. Það er eins og allur líkaminn bregðist við og svari með svo skýrum hætti.
Séra Hallgrímur vissi þetta náttúrulega:
Gleðistund holds þá gefur mér Guð minn að vilja sínum, upp á þig, Jesú, horfi eg hér hjartans augunum mínum. Auðlegðar gæðin líkamlig láttu þó aldrei villa mig frá krossins faðmi þínum.
Hér kemur allt fram: gleðistundirnar sem líkaminn nýtur í krafti trúarinnar, fegurðin sem blasir við augum hins trúaða og staðfestan að við látum þó lífsgæðin aldrei villa okkur sýn frá hinu sanna marki.
Trú og vísindi
Hið virta tímarit Time gerir þessum málum skil í forsíðugrein í síðasta tölublaði. Þar er vísað til fjölmargra vísindamanna, sem komist hafa að samhljóða niðurstöðum í þessum efnum, eða eigum við að segja, viðurkenna græðandi mátt trúarinnar. Jafnvel vágesturinn eyðni er sagður hafa hörfað undan er á hann var pundað úr tvíhleypu trúarinnar eins og blaðamaðurinn kemst að orði og styðst þar við tiltekið dæmi. Þó ekki megi blanda saman trú og vísindum óhikað saman, geta hin síðarnefndu bent á ýmislegt sem tengist hinu fyrra og jafnvel styður það.
Nú lesum við um atburð sem vísindin myndu seint samsinna og reynir þar á sannfæringu trúarinnar. Hér virðist í fyrstu ekki vísað til langlífis, starfsorku eða jákvæðrar sýnar á lífið sem leiðir svo til aukinna lífsgæða. Hér segir frá því þegar Kristur læknar blindan mann og gefur honum sjónina að nýju. Þetta er ein af þessum kraftaverkafrásögnum í guðspjöllunum þar sem sjálft kraftaverkið er ekki eitt til umfjöllunar heldur er það rammað inn með margvíslegum hætti. Sé t.d. horft í kringum hana má sjá að hún er sett í samhengi merkilegra tíðinda sem Kristur hefur fært lærisveinum sínum. Sá boðskapur kemur e.t.v. jafn mikið á óvart og tíðindin sem hér voru reifuð um hin mögnuðu áhrif trúar á heilsu.
Ný sýn?
Þar bregst Jesús við metingi lærisveinanna um það hver þeirra verði fremstur í Guðs ríki með þessum orðum: „Þið vitið að þeir sem teljast ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. Og sá er vill fremstur vera meðal ykkar sé allra þræll. Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“
Hvað gerist nú? Hafa augu þeirra opnast fyrir einhverju nýju? Horfa þeir með öðrum hætti en áður? Er forystan í öðru fólgin en þeir höfðu ætlað? Er leiðtoginn þjónn? Þetta er engin smá frásögn og ekki lítil tíðindi. Til viðbótar er svo vísað fram til síðustu kvöldmáltíðarinnar og krossdauðans og það sett í samhengi við hugrenningar lærisveinanna skömmu áður.
Skynjum við söguna með nýjum hætti núna? Voru augu Bartímeusar e.t.v. okkar augu einnig? Fræðimenn innan guðfræðinnar hafa staðnæmst við föðurnafn hans í þessu samhengi. Hann var Tímeusarson. Samtímamenn Markúsar guðspjallamanns þekktu til rita Platons. Eitt þeirra bar heitið Tímeus. Það fjallar merkilegt nokk um skynjunina. Þar er því haldið fram að fæstir greini hin eilífu sannindi sem búa að baki hins forgengilega. Svo leitast heimspekingurinn við að opna augu okkar fyrir sjálfum veruleikanum sem hann segir vera óbreytanlegan og óháðan sjónarhorni og aðstæðum. Bendir frásögnin til hins sama í tilviki hins trúaða?
Þessi túlkun þarf ekki að rýra sögulegt gildi frásagnarinnar en hún sýnir okkur nýjar víddir á henni. Boðskapurinn sem talar til okkar er margræðari fyrir vikið. Maðurinn hrópar á Krist í gegnum þvöguna en fólkið í kringum hann segir honum hvað eftir annað að þegja. Hann er hins vegar staðfastur í sinni trú og heldur áfram óháð öllum þrýstingi. Bartímeus kastar frá sér yfirhöfninni og hraðar sér í átt til Jesú. Það er eins og vísbending þess að hann varpi frá sér hinu gamla og gangist nýrri tilveru á hönd. Eftir að hann fær sjónina slæst hann í hóp lærisveina Krists. Hann fylgir honum eftir, eins og segir í guðspjallinu.
Þar með verður sagan af blinda manninum sem fékk skyndilega sjónina viðameiri og dýpri. Hún fjallar um mann sem eignast nýtt líf og nýjan tilgang. Þetta er sannarlega eitt af því sem trúin færir okkur.
Líkami og sál
Já, ég ætla auðvitað ekki lofað ykkur langlífi sem hér eruð! Tölfræðin segir ekkert um hvern einstakling heldur aðeins um hópinn. En fróðlegt er að lesa niðurstöður þessar sem þó hefðu þó mátt vera löngu ljósar. Líkaminn og sálin eru ekki tvær aðskildar víddir heldur tengt órofa böndum. Og því hefur jákvætt og uppbyggjandi trúarlíf ekki bara áhrif á hið andlega heldur gefur það líkamanum að sama skapi aukinn kraft og færni.
Hér fyrir fáeinum árum þótti það viðkvæmt mál að prestar og djáknar væru þjónandi á sjúkrahúsum. Í greininni í Time er á það bent að á síðustu árum hefur þetta breyst. Þessar stéttir hafa styrkt stöðu sína frekar en hitt og víða erlendis, einkum vestanhafs, hafa læknar og yfirvöld á sjúkrahúsum aukið samstarf í þessa veru. Aðeins ein ástæða er fyrir því. Það skilar árangri. Manneskjan þarfnast trúar og þau úrræði sem boðið er upp á hafa mikil áhrif. Hugmyndin um það sem skiptir fólk mestu máli, gildismatið sem það hefur ræktað með sér, þau verðmæti sem standa næst hjarta þess eru oftar en ekki viðfangsefni trúarinnar.
Við skulum hafa þennan boðskap í huga kæru vinir þegar við höldum héðan út á eftir. Hugleiðum það hversu dýrmætt það er að leggja réttan skilning í það sem fyrir skynfæri okkar ber. Horfum á lífið í réttu ljósi.