Í kyrrð

Í kyrrð

Í Biblíunni er sagt frá að Jesús hafi oft leitað einveru og kyrrðar. Hann hvarf frá mannfjöldanum þegar kvölda tók og dagsverkinu var lokið, til þess að biðjast fyrir. Bænalíf hans veitti honum endurnýjandi kraft í daglegum störfum.

Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar. Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: „Miskunna þú mér, Drottinn, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.“

En Jesús svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: „Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum.“

Jesús mælti: „Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.“

Konan kom, laut honum og sagði: „Drottinn, hjálpa þú mér!“

Hann svaraði: „Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.“

Hún sagði: „Satt er það, Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.“ Þá mælti Jesús við hana: „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“ Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu. Matt. 15: 21-28

Margir lifa við mikla og stöðuga streitu. Það er svo margt sem þarf að sinna og úr öllum áttum eru kröfur, Ekki er fyrr búið að ljúka einu af en annað er farið að bíða. “Ég hef svo mikið að gera að ég má ekki vera að því að lifa” heyrist stundum sagt.

Við lifum á hávaðaöld. Það veldur þreytu. Það er engin leið að loka eyrunum. Ekki er heldur auðvelt að komast undan öllu því sem veldur hávaða. Samt sem áður eru flestir sem þrá að njóta kyrrðar og þagnar.

Í Biblíunni er sagt frá að Jesús hafi oft leitað einveru og kyrrðar.

Hann hvarf frá mannfjöldanum þegar kvölda tók og dagsverkinu var lokið, til þess að biðjast fyrir. Bænalíf hans veitti honum endurnýjandi kraft í daglegum störfum.

Ferðalag

Við heyrðum frásögn úr ritningunni sem hófst á ferðasögu. Þegar við skipuleggjum ferðalag. þá undirbúum við okkur. Við finnum út hvað við eigum að taka með okkur og hvað ekki. Jesús var mikið á ferðinni á þeim stutta tíma sem hann starfaði meðal fólksins. Í þetta sinn hélt hann út fyrir hið gyðinglega umráðasvæði og inn í það sem nú er hið stríðshrjáða og margklofna Líbanon. Þegar við ferðumst um framandi slóðir mætum við oft fólki sem reynir að ná athygli okkar með misgóðum árangri, sölumenn eða aðrir trufla fríið okkar. Jesús var einmitt í slíkum sporum. Hann hélt að hann væri að fara á svæði þar sem fáir þekktu hann. En þar sem hann gekk eftir götunni heyrðist skyndilega :”Herra, sonur Davíðs miskunna þú dóttur minni” Jesús hélt áfram göngu sinni eins og ekkert væri. Lærisveinarnir litu á Meistarann. Hann hlaut að hafa heyri til konunnar. Aftur hrópaði konan :”Sonur Davíðs hlustaðu á mig! Dóttir mín er veik! Þessu verður að linna hafa lærisveinarnir líklega hugsað. Hversu lengi ætlar hann að láta þetta yfir okkur ganga. Konan lætur ekkert stoppa sig.

Erfiðleikar

Orðspor Jesú barst víða. Hún hefur verið búin að heyra að Jesús gæti læknað barnið hennar. Við sem þekkjum þá tilfinningu að vera með sjúkt barn eigum auðvelt með að setja okkur í spor konunnar. Ég tala ekki um þá sem eru með langveik börn. Þá sem hafa leitað allra leiða. Hvar er hjálp að fá? Það hlýtur einhverssaðar að vera lausn að fá fyrir barnið mitt. Mitt í allsnægtunum. Stundum mæta þeir sem eiga langveik börn ekki mikilli þolmæði frá þeim sem í kring eru. Ég tala ekki um glímuna þeirra við stjórnkerfið sem er mjög tregt á upplýsingar og er sífellt að breytast. Nú nýlega var örlítil hugarfarsbreyting hjá stjórnvöldum í garð foreldra langveikra barna. Þeim var betur tryggður fjárhagur. En betur má ef duga skal. Það þarf að tryggja þeim fleiri heimili þannig að foreldrarnir geta hvílt sig, geti öðlast kraft á ný til að takast á við aðstæðurnar sem eru á heimilinu. Það þarf fleiri úrræði.

Trú og von

Víkjum aftur að sögunni. Við heyrum að tilgangur móðurinnar er óeigingjarn, hún biður ekki um neitt fyrir sig. Heldur ekki á lofti neinum verðleikum eða rétti. Í auðmýkt sinni og trú verður hún firna sterk. Og þrátt fyrir svar Jesú um brauðið og hvolpana gefst hún ekki upp. Líkt og foreldrar langveikra barna þá gefast þeir ekki upp þrátt fyrir andstreymi og skilningsleysi stjórnvalda oft á tíðum .

Kona mikil er trú þín. Ég hef bænheyrt þig. Þessi málalok voru áreiðanlega þau sem Jesús vænti og vildi fá fram. Hann kenndi samtíðarmönnum sínum þá lexíu m.a að þjóðernislegur uppruni ræður ekki úrslitum þegar spurt er um afstöðu Guðs til einhvers. Guð mætir sérhverjum sem leitar hans í auðmýkt og þörf. Sagan um Kanversku konuna er boskapur til allra þeirra sem finnast þeir öðruvísi eða lítilsvirtir á einhvern hátt. Guð dæmir fólk ekki eftir mannlegum virðingarstiga.

Harður heimur

Samfélag okkar er gjarnt á að dæma fólk sem verður eitthvað á í lífinu úr leik. Menn verða undir á svo margvíslegan hátt. Mörg börn og unglingar verða t.d. að þola ýmiss konar stríðni eða jafnvel útskúfun úr hópi félaganna. Það eru ekki bara börn og unglingar sem verða fyrir þessu heldur getur þetta einnig átt við fullorðið fólk. Enn aðrir misstíga sig í lífinu, ná að fóta sig á ný en fá oft á tíðum ekki annað tækifæri.

Öldruðum og sjúkum hefur einnig á ýmsan hátt verið vikið til hliðar. Þeir eiga undir högg að sækja bæði varðandi kjör sín og þjónustu. Það hefur ekki verið gert ráð fyrir þeim. Samfélagið okkar virðist þó örlítið vera að vakna til vitundar um að reynsla þeirra og þekking skiptir okkur miklu máli og er dýrmætt innlegg.

Kærleikur Guðs

Guð víkur engum til hliðar á nokkur hátt. Víst erum við ólík. En öll erum við sköpuð af Guði í mynd hans.

Sæll er sá maður sem frá æsku til elliára felur Guði vegu sína og horfir til framtíðarinnar í trausti til hans Orðin hljóma: Verði þér sem þú vilt, Guði séu þakkir sem gefur okkur sigurinn fyrir Drottinn vorn Jesú Krist.

Við þökkum þér Drottinn fyrir lífið, sem þú hefur gefið okkur og fyrir alla gæfu og blessun . Hjálpa okkur til þess að helga þér hvert starf og hverja stund lífs okkar. Lát anda þinn fylla hjörtu okkar. lát kærleikskraft þinn stjórna vilja okkar í lífi og starfi.