Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og drottni Jesú Kristi.
Í sagnaarfi norrænum er að finna ævintýri, sennilega frá 14. öld af kóngssyni og tveimur félögum hans, matsveini og hermanni, sem fara útí heim og freista gæfunnar. Koma þeir í einn stað þar sem þeim er vel tekið en þeir ákveða að hafa uppi hlutverka-usla og láta engan vita hvað þeir starfa við; látum nú liggja á milli hluta hvort það, að vera kóngssonur, sé starf, en gott og vel.
Kemur svo þar, að heimafólk, þ.e. kóngsdóttirin, vill granska frekar fyrir um hverjir þeir séu, og gerir hún það í hálfgerðu gátuformi;
Spyr sem sé hinn fyrsta hver fugl hann vildi helst vera ef hann yrði svo að gera. „Akurhæna" svarar hann.
Hvers vegna það?
Hún er hinn ágæstasti höfðingjaréttur.
Þú mut vera steikari, sagði hún og sneri sér að næsta með sömu spurningu:
„Valur" svarar hann, því hann er fræknari en aðrir fuglar og verða þeir að vægja fyrir honum.
„Hér talar hermaður" segir kóngsdóttir.
Hún spurði þá reyndar líka um fiska og trjátegundir og voru svörin með sama mótinu.
Þá snýr hún sér að þeim þriðja sem fær samskonar spurningu; og hann svarar: „Spörr", Hún verður hvumsa og segir vera vesallegan fugl; en spyr hvers vegna;
„Því að; „sagði hann" honum fylgja margir." Af fiskum vildi hann helst vera síld því hún er jafnan mörg saman;
Sagði kóngsson að honum þætti því betur sem honum fylgdi fleiri.
Og kóngsdóttirin kvað upp úrskurðinn:
Þú munt konungborinn vera.
Þið áttið ykkur á hvert ég er að fara með þessu. Vissulega eru dæmisögur, ævintýr og myndlíkingar alltaf ákveðnum annmörkum háðar og ganga aldrei fyllilega upp; biskup er ekki kóngur; menn eru ekki fuglar eða fiskar; en samt sem áður langar mig að sjá hér ákveðna hliðstæðu með biskupi og kirkjunni og þessum svörum kóngssonar, því kirkjan á það sameiginlegt með spörvahópunum að vera fjöldahreyfing.
Fjöldahreyfing - sem sækir einmitt styrkinn í það að þar fara margir saman; en sá styrkur hefði aldrei orðið til ef kirkjan hefði ekki fengið það erindi sem hún er send með. Að boða Krist, krossfestan og upprisinn.
Já hún er fjöldahreyfing, alveg burtséð frá því hve margir mæta til kirkju hvern sunnudag; hún hefur þann meðlimafjölda sem raun ber vitni - ætli það sé ekki eitthvað sunnan við kvartmiljón - og er til staðar þegar hverjum og einum hentar.
Biskupinn er hluti af þeirri fjöldahreyfingu; leiðir hann að sínu leyti en verður um leið að kunna að hlusta og þiggja góð ráð þegar þau bjóðast. Er það öllum í hag að hver fái notið sín; að biskup lyfti upp þeim sem í kringum hann eru vegna þess að styrkur okkar felst meðal annars í fjölbreytninni sem þó skal varðveitt í einingunni um Hann sem hefur sent okkur.
Kirkja; sem má heldur aldrei gleyma hvaðan hún kemur og hvert hún sækir. Vissulega er hún í stöðugri þörf fyrir endurbót og endurnýjun en ef hún tapar sér í nýjungagirninni gæti hún verið að saga greinina sem hún situr á.
Allt að einu er kirkjan stofnun sem við getum verið stolt af að tilheyra:
Við sáum í upphafi jarðeldanna síðari í október hvernig Grindvíkingar og velunnarar þeirra fylltu Hallgímskirkju; ekki aðeins af fólki, heldur samhug, bæn - og- kærleika.
Þar var staður til að finna hinu ósagða og illsegjanlega rúm og farveg.
Það er ekki síst á stundum eins og þeirri sem maður skilur mikilvægi kirkjunnar og veltir fyrir sér hvort nokkur annar vettvangur hefði getað komið í staðinn fyrir þann sem kirkjan er.
Rétt eins og gerðist við snjóflóðin fyrir vestan fyrir tæpum 30 árum og raunar við fjölmarga voveiflega atburði og skelfileg slys; gjarnan fyllast kirkjurnar þá, þegar kirkjan opnar faðminn og tekur utan um syrgjendur; fólk, sem örvæntingin vill hrifsa til sín.
En við vitum að hinar stundirnar eru miklu fleiri þegar fólk leitar á vit kirkjunnnar á gleðistundum lífsins; eða í það gríðarlega fjölbreytta og blómlega starf sem kirkjurnar standa fyrir og við þekkjum.
---
Hvar leitar þú skjóls?
Á hvern hlustar þú?
Hvað leiðir þig áfram; hverjir eru áhrifavaldarnir í þínu lífi?
Já hver ertu?
Guðspjallið í dag fjallar um allt þetta.
Þetta hlýtur allt að vekja spurningar um að hve miklu leyti er ég sjálfs mín herra; skapa ég eða móta líf mitt að öllu leyti sjálfur?
Stutta svarið er nei.
Það geri ég ekki; hópurinn og samfélagið sér til þess og raunar líka sá brestur í sjálfum mér sem ég vil þó ekki kannast við, þótt ég haldi að ég hafi þetta allt á valdi mínu;
Páll kallar þetta að gera hið illa sem ég vil ekki, en ekki hið góða sem ég þó vil.
Melanchthon - sem mér hefur alltaf fundist vera svo sem einn excelnörd við hliðina á ofurbloggaranum Marteini Lúther - ræðir um þetta í tengslum við hinn frjálsa vilja; en hinn frjálsi vilji – hann er alltaf bundinn erfðasyndinni; ég get ekki í eigin krafti losað mig undan henni; þessum þverbresti djúpt í mér og þrátt fyrir minn góða vilja og oftast nær góðu breytni, þá get ég ekki alltaf sagst valið hið rétta; ekki einu sinni þótt val mitt hafi verið fullkomlega meðvitað og byggt á bestu gögnum.
--
En ég spurði áðan hvar manni væri borgið:
Guðspjallið okkar fjallar meðal annars um það; þ.e. að maðurinn leiti þangað þar sem honum er borgið; í sauðabyrgið sem góði hirðirinn hefur útbúið okkur. Hann sem jafnframt er dyrnar að byrginu; kallast þetta að sínu leyti á við það hvernig Kristur er bæði vegurinn og takmarkið með vegferð okkar.
Er þá verið að biðja okkur að sameinast einhverri hópsál og temja okkur hjarðhegðun, gæti einhver spurt.
Það þarf ekki að vera samasem merki milli þess að hafa tileinkað sér ákveðna lífssýn eða trú annars vegar og hins vegar að fylgja hjörðinni hugsunarlaust. En það merkir heldur ekki að ég geti látið eins og það, að vera í hjörðinni sé alfarið á mínum forsendum og „fyrst ég er ekki eyra þá heyri ég ekki líkamanum til."
Samfélagið um Jesúm Krist snýst einmitt um það – samfélag – og skárri væri það nú einstaklingshyggjan ef allt það samfélag ætti bara að elta það sem ég vil og mér hugnast. Samfélag snýst um það að fólk deili svipaðri sýn og stefnu í lífinu – trú – og þrái að deila því sama með öðrum.
En í þessu tilfelli; tilfelli Guðspjallsins okkar, þá skiptir mestu máli hver það er sem kallar.
Það er ekki flókið.
Þetta snýst um samfélag við hann og á því byggist samfélag okkar við aðra menn.
Vissulega er fínt að vita hver maður er, en ekki síður hvers maður er.
---
Kristur kallar ennþá.
Prestastefnan í ár er sérstaklega tileinkuð helgisiðunum, þeim farvegi, sem tilbeiðsla okkar og andsvar við kærleika Guðs, er ætlað að vera í helgihaldinu, litúrgíunni, og er að sínu leyti til að styrkja einingu kirkjunnar með sameginlegum siðum.
Hvernig við mótum svar okkar við þeim leyndardómi sem elska Guðs er.
Leo páfi sem var uppi á 5. öldinni sagði í einni predikun sinni að allt það sem Kristur gerði í jarðvist sinni hafi orðið okkur sacramentum.
Það er bundið ákveðnum erfileikum að geirnegla merkinguna í orðinu sacramentum því hann virðist nota þetta orð nokkuð jöfnum höndum og orðið mysterium sem þýðir þá leyndardómur; en hugmynd hans virðist vera sú að allt líf Krists hafi verið okkur hjálpræði; allt hans starf, krossdauði og upprisa; með því að Guð gerist maður þá kemst maðurinn í snertingu við hið heilaga og eignast hlutdeild í lífi hans;
Helgisiðirnir eigi að gefa þessum sannleika form.
Þetta sé það sem á sér stað í kirkjum kristninnar.
Séra Markús Magnússon, stifprófastur í Görðum á Álftanesi, vígði Dómkirkjuna í Reykavík fyrir hartnær 230 árum og var upphaf máls í predikun hans að óska friðar og vitna þar í 122. Davíðssálm:
„Friður sé hið innra, innan þinna múrveggja og lukka í þínum höllum."
Síðar segir hann: „Friðarins Evangelium búi þá sífellt óbrjálað innan þessara veggja, þangað til þessir múrar hrynja niður við hrun veraldar."
Friðarins Evangelium - það er einmmitt það sem við erum kölluð til að predika og vitna um, já ástunda allt til enda veraldar.
Við leitum funda við Hann er sem frá eilífð til eilífðar; Og sá tími sem mætir okkur í helgihaldinu er annars konar en hinn ytri: Hið sama endurtekur sig aftur og aftur “daglangt og árlangt um eilífar tíðir.”
Hin heilaga endurtekning hjálpræðissögunnar á sér stað í helgihaldinu; Þegar við fáum að taka þátt í leyndardómnum um Krist.
Það sem gerist innan kirkju á að benda okkur í amk tvær áttir; við horfum við til þess eilífa lífs sem er handan tímans; Hugskot Guðs er vissulega leyndardómur en sá tími mun koma þegar við hættum að sjá eins og í skuggsjá og munum gjörþekkja.
En meðan við erum enn í þessu holdi þá ber okkur að flytja áfram útí heiminn boð Guðs um náungakærleika; miskunnsemi og réttlæti.
Kirkjan - þ.e. húsið, vettvangurinn eða „trúarlegt úrræði" eins og nútíminn gæti freistast til að kalla hana - er því sá staður sem tengir saman himin og jörð. En það kemur líka að því að þessir veggir verða ekki til, eins og sr. Markús sagði í vígsluræðunni:
„Kirkjur farast með heimi en andir manna fyrfarast aldregi. Ef vér viljum vera musteri heilags anda þá skulum vér þvílíka miskunn veita þurföndum náungum sem kirkjan veitir oss."
---
Prestastefnan í ár er mörkuð þeirri staðreynd að biskupskosningar standa nú yfir.
Við höfum búið við það lúxusvandamál að hafa haft úr þremur frábærlega hæfum kandítötum að velja,- núna tveimur; - vel gerðu fólki sem vill vera brjóstvörn fyrir kirkjuna og taka á sig mestan part þeirra ágjafar sem hugsanlega kann að koma fram og veita athygli og umhyggju kirkju Krists hér á landi. Þau vilja leiða og sinna.
Í hlutarins eðli er að einn kandiat verður til þessa embættis valinn og það finnst mér miklu skipta að við öll fylkjum okkur bak við nýjan biskup þegar úr þessu verður skorið, jafnvel þótt sá sem maður kaus, hafi ekki hlotið embættið; Við þurfum síst á því að halda að vera sjálfum okkur sundurþykk og ala á sundrungu.
Er því gott að minna sig á spörvanna, sem fara margir saman og hafa styrk sinn þar af.
---
Guðspjallið fjallar um hirðinn sem kallar - og leiðir sauði sína en leggur einnig líf sitt í sölurnar fyrir þá; sauði sem safnast á landi lifenda við upppsrettu alls ljóss; þegar allt hið skapaða hefur gengið veg allrar veraldar.
Þegar maður hefur svo heyrt rödd hirðisins þá skiptir hún mestu máli í lífnu.
Þess vegna erum við hér.
Við þessa rödd er trúnaður okkar bundinn.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda; svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.