Einn úr mannfjöldanum sagði við hann: Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.Hann svaraði honum: Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur? Og hann sagði við þá: Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé.
Þá sagði hann þeim dæmisögu þessa: Maður nokkur ríkur átti land, er hafði borið mikinn ávöxt. Hann hugsaði með sér: Hvað á ég að gjöra? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum. Og hann sagði: Þetta gjöri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri, og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.
En Guð sagði við hann: Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð, og hver fær þá það, sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði. Lúk. 12. 13-21
Saga af stúlkukind
Hún kvaddi 18 ára og hélt utan. Orðin þreytt á armæðu einstæðrar móður sinnar og argi systkina, enn þreyttari á asnalegum kröfum menntaskólans, enda hætt. Ástamálin höfðu heldur ekki gengið upp, svik og vonbrigði. Það var ekki auðvelt með vinnu, enginn skyldi hana. Nú var tækifæri til að setja í pokann sinn og nýta sér það sem amma hennar hafði eftirlátið henni, þegar hún lést. 2 milljónir. Henni voru allir vegir færir. London var æsilegur staður, nokkuð dýr. Hún færi á listaskóla og lærði hönnun. Tæki þátt í samkeppninni, yrði enn ríkari og eftirsótt. Fræg. Hún var snotur, af heppilegri stærð fyrir tískusýningar, komst furðufljótt að heimi í fatasölunnar, sigldi víða, um alla jörð, átti í sambandi við sölumennina og kaupendurna og fleiri, allt eftir því, hvað hentaði. Þegar eitthvað þarf að ganga fljótt og vel fyrir sig er um að gera að vera ekki of vandlátur á félagsskap. Lífið gat varla orðið skemmtilegra. Alla vega betra en þetta heima í afkima æskunnar.
En svo undarlegt sem það hljómaði tók vanlíðan, ótti og kvíði að setjast að, - en það var þá hægt að fá sér eitthvað við því. Allt gekk vel, sagði hún í bréfi til mömmu sinnar en óttinn óx og töflurnar urðu fleiri. Lífið varð flóknara, kröfurnar meiri, innkoman stopul, harðindin ágengari og fólkið miskunnarlausara, en hún hafði reynt fyrr. Baklandið var fjarri, vinirnir hvergi og hún seldi sig í Amsterdam, blönk og illa til reika. Og hún hugsaði heim. Hvar er mamma? Var það ekki alltaf best hjá henni, þrátt fyrir allt. Draf svínanna finnst víða á götum stórborganna, líka í Reykjavík. Það er vont viðurværi, þegar myndbirting þess er af þessum mannlega toga, í sorpi mannlífsins, þá er jafnvel kornmeti hinnar raunverulegu svínastíu langt um betra. Ef niðurlægingin er algjör og niðurbrotið fullnað hugsar maður til þess sem einhvern tíman var og virðist nú eftir á að hyggja vera svo mikilvægt. En er það ekki of seint?
Þessi stúlka er til. Ég kynntist henni fyrir margt löngu og hún starfar í dag við það að taka á móti fólki, í útlöndum, enda af erlendum toga sjálf, - og hún tekur á móti fólki, sem fetar sig slóðina heim, útbreiddum armi. Sá kærleikur, sem hún mætti hjá móður sinni, og þeim öðrum sem komu til hjálpar, var svo raunverulegur, svo sterkur og markviss, að hún öðlaðist bæði styrk og vilja til þess að vera það sem hún er. Engill á vegi hins villta og þjáða. Mér finnst eiginlega erfiðast til þess að hugsa að þessi saga skuli þurfa að gerast aftur og aftur bæði hér á landi og annars staðar, í einhverri mynd, sem er ömurleg og endar því miður stundum illa. Það er of oft.
Vendipunktar í lífinu.
Sagan um týnda soninn er reyndar fyrst og fremst sagan um hinn elskandi föður, eða hina elskandi móður, ef við viljum hafa það svo. Það er auðvitað elska Guðs, sem hér um ræðir og er útgangspúnktur þessarar þekktustu sögu allra tíma.
Vendipúnktur í lífi hins týnda sonar, er hins vegar það augnablik, þegar, hann kemur til sjálfs sín og er á mörkum lífs og dauða. Svo tæpt stendur það. En ég sakna hins vegar gömlu þýðingarinnar, þar sem segir, þegar hann hugsar heim, úr eymd sinni, “Þá gekk hann í sig”.
Fyrir þann, sem sér lífið í hyllingum, úti í hinum stóra heimi, eins og sagt er, þá sýnist það ef til vill skrýtið að komast að því einn góðan veðurdag, að hnotskurn heimsins, finnst eiginlega alltaf á Lækjartorgi eigin heimkynna. Ef maður lærir það ekki strax í uppeldinu, verður maður að komast að því einhvern tíman seinna, hvort sem það er þá orðið of seint eða ekki. Ég minnist þess að Indriði Gíslason, heitinn, sá ágæti rithöfundur, sagði við okkur menntskælingja í MA á sínum tíma, að lærðum við ekki þá strax, ungt fólk og ferskt, þá yrði það að gerast einhvern tíman seinna og með miklu meiri fyrirhöfn og meiri fórnum.
Þegar týndi sonurinn fann sig í drafinu, gekk hann í sig. Þetta gerðist á því stigi, þegar allt var hrunið til grunna, eignirnar uppurnar, vinirnir farnir, sjálfsvirðingin niðurbrotin og vonin engin. Varla leið honum vel. - Er það ekki einmitt þá, sem við hugsum heim. Heim er þá sá staður, þar sem eitthvað er gott, satt og traust, og það góða sanna og trausta er þá ævinlega bundið þeirri persónu, sem á sér í raun stærsta hlutdeild í hjarta okkar og sál. Hugsunin um hana gefur von. Hún er ljós vonarinnar. Hún er sól Jónsmessunnar, sem skín allan sólarhringinn. Jesús notar þessa óendanlega mikilvægu staðreynd.
Sporin heim
Saga stúlkunnar sem nefnd var, er skráð í ævisögu margra Íslendinga. Hún gekk í sig og það opnaði leið. Fyrir ábendingu vina fann hún stað þar sem hún fékk styrk og tíma til þess að ganga í sig. Það heitir 12 spora kerfið. AA samtökin hafa þróað það framar öllum öðrum. Það er klæðskerasaumað fyrir þá sem orðið hafa áfengissýki að bráð, en margir aðrir hafa getað nýtt sér það til hjálpar. Það er svo áhrifamikið að það skilur oftlega á milli þess, hvort viðkomandi lifir eða deyr.
Þar er ekki sérstaklega hamrað á því í þessum sporum, að viðkomandi hafi mistekist. Enginn verður heldur ásakaður fyrir það að verða veikur. En það fer margt úrskeiðis í slíkum veikindum og því er fremur skoðað, í hverju möguleikarnir felast. Eitt grundvallaratriðið er að ganga í sig. “Við gerðum rækilega og óttalaust siðferðileg reikningsskil í lífi okkar.” (4. spor). Hér horfast í augu við sjálfan sig og gera úttekt á því, hver maður er og fyrir hvað maður stendur. Hvers konar manneskja er ég eiginlega. Hver er saga mín, hvað hef ég gert, hvað hef ég ekki gert, hverja hef ég sært, hverjum hef ég gert eitthvað til miska. Og hverjum hef ég gert eitthvað gott. Er ég einhvers virði? Hvers vegna er ég eins og ég er? Slíkar spurningar ræður enginn við hjálparlaust. Þess vegna þurfum við að hjálpast að, talast við og þess vegna er líka gjarnan talað um meðferð í þessu samhengi.
Fyrir mörgum kann þetta að hljóma nokkuð sjálfhverft. Það kann vel að vera að svo sé. Við erum sjálfhverf flest líklegast. En svo lærist að einsemd sjálfsins, sjálfhverfan er þröngur heimur, - og grimmur. Það lærist smátt og smátt, hvað heilbrigð og uppbyggileg samskipti við aðra er nauðsynleg til að sálin geti nærst og blómgast. Heilbrigð uppbyggileg samskipti byggja á því að gefa af sjálfum sér og þiggja fyrirgefningu.
Hjálp til að fyrirgefa?
Fyrirgefningin er svo erfið og stórt fyrirbæri í mannlífinu, að það verður ekki höndlað, nema í samfélagi við þann sem er æðri og meiri en manneskjan. Þess vegna er faðirinn aðalpersónan í sögu dagsins. Drottinn Guð. Fyrirgefning er ekki þannig að hennar verði krafist. Hún er eitthvað sem er gefið af stórmennsku og yfirfljótandi kærleika
Enginn kennir meir um fyrirgefningu en Kristur. Allt hans líf, orð og atferli gengur fyrst og fremst út á það, að hjálpa okkur til að skilja hvað fyrirgefning er. Enginn fyrirgefur meir en hann. Krossinn er staðfesting þess.
Það er hægt að gleðjast yfir því að faðirinn tekur svo vel á móti iðrandi og þurfandi syni sínum. Maður skilur líka vel viðbrögð bróðurins og finnur kannski helst í hjarta sér á því augnabliki hversu erfitt er að standa frammi fyrir spurningum fyrirgefningarinnar.
Stúlkan sem nefnd hefur verið til sögunnar í dag hlaut fyrirgefningu og hún eignaðist nýtt líf. En hún varð líka að læra að fyrirgefa. Það verðum við öll. Við skulum hjálpast að við það, - í nafni Jesú, fyrir hann og í honum.
Dýrð sé Guði föður syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen