Tónlistin og þakklætið

Tónlistin og þakklætið

Upphaf kirkjutónlistar má líka rekja til mannsraddarinnar, því upphafið af tónlistinni í kirkjunni var það að prestarnir, sem voru oft að messa í stórum kirkjum gátu ekki látið orð sín berast nógu langt og fóru því að syngja orðin til að þau gætu borist til allra.

„Við viljum auka fjölbreytni í kirkjutónlist og listiðkun í helgihaldi“ segir í Tónlistarstefnu Þjóðkirkjunnar.  Þessi setning hefur orðið lifandi undanfarna daga á norræna kirkjutónlistarmótinu, sem haldið er hér á landi þessa helgi.   Þátttakendur eru um 500 talsins og koma frá öllum norðurlöndunum.  Yfirskriftin er „guðsþjónustan á nýrri öld“  og við höfum svo sannarlega orðið vör við nýjungar í guðsþjónustuhaldi á þessu móti þar sem möguleikar orgelsins hafa verið nýttir til hins ýtrasta og kirkjurýmið hér í Hallgrímskirkju nýtt að fullu með syngjandi röddum í hverjum krók og kima.  Mótið hefur verið öllum þeim er að hafa komið mikil upplifun og hvatning til áframhaldandi góðra verka og uppspretta hugmynda.  Hér á landi er til tónlistarstefna Kirkjunnar,  sem minnir okkur á mikilvægi tónlistar í kirkjunni.   „Markmið helgihalds Þjóðkirkjunnar er að næra samfélag Guðs og manns og samfélag þeirra er tilbiðja Guð. Við viljum að helgihaldið sé fjölbreytt og höfði til allra.“   Við erum nær þessu markmiði eftir þá mikilu kirkjutónlistarveislu sem haldin hefur verið hér undanfarna daga. Í þessari messu bera þátttökulöndin hvert og eitt ábyrgð á einum messulið.  Messan er því borin uppi af fólki sem kemur frá Íslandi, Danmörku, Noregi, Finnlandi og Svíþjóð. 

Tónlistin er bylgjur í loftinu sem ferðast með jöfnum hraða.  Svo öflugar eru þessar bylgjur að jafnvel heyrnarlaust fólk skynjar þær.  Fyrsta hljóðfærið hlýtur því að hafa verið mannsröddin.  Og svo hafa hljóðfærin komið, búin til úr því er náttúran gaf, steinum og tré sem notuð voru til að slá rytma og takt.  Tónlistin hefur því alla tíð fylgt manninum og er kölluð forspil eilífðarinnar. 

Kirkjan hefur alla tíð gengt mikilvægu hlutverki í þróun tónlistarinnar en upphaf kirkjutónlistar má líka rekja til mannsraddarinnar, því upphafið af tónlistinni í kirkjunni var það að prestarnir, sem voru oft að messa í stórum kirkjum gátu ekki látið orð sín berast nógu langt og fóru því að syngja orðin til að þau gætu borist til allra.  Það er því vel skiljanlegt þegar talað er um að söngurinn sé framhald af talmálinu.  Tal og tónar hafa því fylgst að í Kirkjunni nánast alla tíð.  Svo er einnig hér í dag.  Hér hefur verið lesið úr heilagri Ritningu, Biblíunni, úr Davíðssálmi, en Davíðssálmar hafa líka fengið nafnið Saltari á íslensku.  Það nafn á upphaf sitt í grísku og merkti strengjahljóðfæri. 

„Lofa þú Drottin, sála mín. Ég vil lofa Drottin á meðan ég lifi, lofsyngja Guði mínum meðan ég er til“.
Þannig hefst Davíðssálmurinn sem lesinn var hér í dag.  Skáldið lofsyngur Guði sínum ekki aðeins hér og nú, heldur alltaf, í öllu lífi sínu og með öllu lífi sínu.  Skáldið hvetur okkur einnig til að treysta ekki þeim sem enga hjálp geta veitt, heldur eigum við að setja von okkar á Drottinn, sem ávallt er trúfastur.  Það er merkilegt að lesa aftur og aftur sama textann og finna alltaf eitthvað nýtt við hvern lestur.  Þegar tónar eru komnir við textann talar hann einnig til okkar á annan hátt og við finnum betur fyrir nærveru Guðs.   Enn í dag syngjum við Guði lof í kirkjunni og margir textar hinnar helgu bókar hafa orðið tónskáldunum innblástur í verkum sínum. 

Helgihald er mikilvægt hverju trúarsamfélagi.  Orgelið hefur verið það hljóðfæri sem notað er í kristnum kirkjum, þó fleiri hljóðfæri rati þar einnig inn.  Fyrir um 20 árum fóru organistar frá Íslandi í ferð til Parísar og Rómar að kynna sér hljóðfæri og fá að spila á þau.  Einnig var myndaður kór sem söng meðal annars í Péturskirkjunni í Róm.  Það var upplifun að taka þátt í þeirri messu en það sem er minnisstæðast er, þegar organisti tók við spilamennskunni af kirkjuorganistanum.  Þeir skiptu nefnilega á milli takta.  Þannig var eitt augnablik fjórar hendur og 20 fingur á hljómborðinu og engum sem ekki sá aðfarirnar datt í hug annað en að sami organisti hefði spilað allt verkið.  Þvílíkir snillingar þar á ferð.

En í kirkjunum eru ekki bara orgel heldur einnig kórar.  Aðallega fjögurra radda kórar, sem flytja allt frá einföldum sálmum upp í helstu verk tónbókmenntanna.  Margir organistar hafa einnig verið tónskáld, t.d. Bach sem samdi fjöldan allan af verkum fyrir orgel og kóra.  Kirkjukórar urðu því til af því nauðsyn krafði.  Tónskáldin vildu að tónlist þeirra væri flutt í tali og tónum og fólk sem vildi  flytja Guði sínum lof á þann hátt myndaði kór.   Kirkjukórar eru starfandi víða.  Hér á Íslandi eru þeir nánast við hverja kirkju.  Það er merkilegt að vita til þess að mörg þau sem eru elst í kórunum hafa verið þar í áratugi.  Eru alltaf  boðin og búin til að syngja, við allar athafnir, ár eftir ár.  Hvað veldur því að fólk syngur í kirkjukór árum saman og verður ekki þreytt á því?  Það eru eflaust margar ástæður að baki en ein þeirra tel ég vera að sálmarnir sem sungnir eru, eru svo gefandi.  Þeir segja svo margt um Guð, um lífið, um lífsbaráttuna og hvar er hjálp að fá. 

Sæll er sá sem á Jakobs Guð sér til hjálpar og setur von sína á Drottin, Guð sinn, hann sem skapaði himin og jörð, hafið og allt sem í því er, hann sem er ævinlega trúfastur
segir í 146. Davíðssálmi, sem lesinn var áðan.

Og það var líka lesið úr Galatabréfi Páls postula þar sem við erum minnt á að lifa í andanum.  Horfa inn á við.  Nota það sem okkur hefur gefið verið.  Finna köllun okkar og nota hana Guði til lofs og dýrðar og náunga okkar til blessunar.

Það er talað um andagift við listsköpun.  Gjöf andans.  Listaverkin, svo sem verk tónbókmenntanna eru vissulega samin af mönnum.  En hvaðan kemur hæfileikinn til þess að semja?  Sum tónskáld lýsa því að þau heyri verkin í höfði sínu áður en þau eru sett á nótnablað.  Það er eitthvað meira á bak við tónverk en bara frjór hugur og sístarfandi heili.  Á bak við er sá máttur er okkur skóp.  Sá kraftur sem gefinn er.  Tónskáld kirkjunnar eru verkfæri þess Guðs er okkur lífið gaf.  Þess Guðs er gekk hér um á foldu fyrrum, stóð með minni máttar, talaði kjark í fólk og læknaði sjúka.  Jesú, sem sendi anda sinn svo við yrðum ekki ein og yfirgefin. Jesú,  sem læknaði líkþráu mennina er stóðu álengdar og kölluðu á hann og báðu hann miskunna sér, eins og guðspjallið greinir frá.  „Miskunna þú oss“ kölluðu þeir og enn í dag kallar fólk og biður um miskunn og í hverri messu er hafin upp raust og Guð beðin miskunnar.

Mörg tónskáld hafa sett þessi orð í tóna, meðal annarra þið þátttakendur á kirkjutónlistarmótinu, sem spunnuð eftirminnilega miskunnarbænina í messunni í fyrrakvöld hér í Hallgrímskirkju.

Jesús var beðinn miskunnar.  Hann svaraði með því að senda þá er báðu, til prestanna.  Til þeirra er úrskurðuðu um heilbrigði eða veikindi.  Og þeir hlýddu og treystu því að ekki færu þeir erindisleysu.  Þeir sögðu ekkert um trú sína en samt sagði Jesús við þann er snéri aftur til að þakka Guði fyrir lækninguna að trúin hafi bjargað honum.  Þeir tíu er um ræðir treystu Jesú.  Þeir fóru ólæknaðir til prestanna og það er vitnisburður um trúarhlýðni, trúartraust og trúarstyrk.  Og þeim var veitt trúarumbun.  Þeir urðu heilbrigðir.

Á sama hátt megum við leita til Jesú í lífi okkar öllu, með sorgir okkar og gleði.  Með áhyggjur okkar og þakklæti.  Treysta því að hann muni vel fyrir sjá.  Þakka fyrir það sem við höfum og eigum. 

Lækning Jesú á mönnunum í sögunni segir okkur ekki aðeins að líkami þeirra varð heilbriður, heldur bendir sagan einnig á það sem miklu skiptir, að þakka, treysta og lofa Guð.  Líkaminn læknaðist en lækningin tók til mannsins alls.  Viðhorf hans kom fram í þakklæti.  Trúaður maður veit hverjum þakka ber.  Þeim Guði er Jesús birti og boðaði. Þeim Guði er skáldið segir um í sálmi sínum:

Hann rekur réttar kúgaðra, gefur hungruðum brauð. Drottinn leysir bandingja, 8Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta, 9Drottinn verndar útlendinga, hann annast ekkjur og munaðarlausa en óguðlega lætur hann fara villa vegar. 10Drottinn er konungur að eilífu, Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns.
Við þökkum honum líka fyrir þá miklu kirkjutónlistarveislu er hér hefur verið á borð borin um helgina.  Megi norræna kirkjutónlistarmótið efla Kirkjuna og ykkur öll er henni þjónið.  Guð blessi starf ykkar og líf og gefi kraftinn til áframhaldandi starfa í þágu Kirkju og kristni í löndum ykkar.