Ráðsmaður og þjónn

Ráðsmaður og þjónn

Það er sjálfsagt út frá þessum grunni sem Jesús notar orðið „ráðsmaður“ og ,,þjónn“ um þann sem getur haft örlög fólks í hendi sér. Orðið kallar fram mynd í huga mínum af þekktri persónu af hvíta tjaldinu sem sjálfur Anthony Hopkins lék af stakri snilld hér forðum í Dreggjum dagsins. Aðalsmerki ráðsmanns er ekki fyrirgangur og duttlungar, heldur þvert á móti ábyrgðin sem hann gegnir og henni fylgir sannarlega ríkuleg auðmýkt gagnvart því verkefni sem honum er falið að sinna.

Ég viðurkenni að ég áttaði mig ekki lengst af, hvaðan þessi þjóðhátíð er runnin sem Eyjamenn fagna með tilþrifum á hverju ári.


Þjóðhátíð, hvað?

 

Nú í sumar sat ég með vestur-íslendingum sem voru í heimsókn hjá móður minni og varð orða vant þegar þeir nefndu einhvern viðburð í íslandssögunni sem átti að hafa gerst í byrjun ágúst. Ég umlaði eitthvað um 17. júní og 1. des – en hvaða merkisatburður gerðist um þetta leyti? Já, og þá rifjaðist upp þetta hátíðlega nafn sem tengist gleðinni í Herjólfsdal – þjóðhátíð.

 

Ég fletti upp í snjalltækinu og las að þjóðhátíð hafi fyrst verið haldin hér á landi 2. ágúst 1874 í tilefni þess að þá var þúsund ára afmæli byggðar hér á Íslandi. Þá var Lofsöngur Matthíasar frumfluttur – sjálfur þjóðsöngur Íslendinga. Á næsta ári eru því 150 ár frá þeim tímamótum. Í framhaldinu kom nokkurra ára hlé en frá og með árinu 1916 hófst þessi árvissa hátíð að nýju og síðan (reyndar með undantekningum) hafa Eyjamenn fagnað þessum tímamótum fyrstu helgina í ágúst.

 

En svo ég afsaki nú fáfræði mína þá er í sjálfu sér ekkert sérstakt við þennan dag annað en að hann var valinn til að fagna hinu meinta þúsaldarafmæli Íslandsbyggðar.


Þjóð og þjóðir

 

Hvað sem því líður þá er tilefni til þess nú þegar við rolumst hér í bænum þessa helgi, að velta því upp sem tengist þessu stóra orði: þjóðhátíð. Þá um leið rifjast upp fögnuður í fjarægum landshluta – vestur á fjörðum.

 

Á tíunda áratugnum efndi fólk þar til þjóðahátíðar í þakklætisskyni fyrir þá mörgu íslendinga sem þar höfðu sest að, íslendinga sem áttu rætur í öðrum, og oft fjarlægum, löndum. Þjóðahátíð var litrík, fjörug og rík af framandi lykt og bragði. Hún var líka nokkuð af því sem við getum sagt að einkenni góða þjóð og góðar þjóðir – nefnilega það að opna faðminn fyrir skapandi fólki sem leggur mikið af mörkum til heildarinnar.

 

Jafn margbreytilegar og þjóðir kunna að vera þá eiga þær í það minnsta eitt sameiginlegt. Það er sístætt verkefni hverrar hugsandi manneskju að vernda þjóðir fyrir þeim sem fara með völdin. Já, hálfu ári fyrir hina fyrstu þjóðhátíð, höfðu Íslendingar þegið stjórnarskrá úr höndum Kristjáns konungs níunda. Danir fengu sína árið 1849 og átti hún að taka gildi hér, tveimur árum síðar á þjóðfundinum fræga 1851. Það leysti þó upp í meðförum Trampe greifa og mótmælum Jóns Sigurðssonar og annarra fundarmanna.

 

Stjórnarskrár samfélags eru í raun viðleitni til að svara sígildri spurningu sem hefur brunnið á vörum allra þjóða á öllum tímum. Rómverjar orðuðu hana svo: „quis custodiet ipsos custodes?“ eða upp á íslensku: „hver gætir varðmannanna?“ Þetta er lykilspurning sem varðar frelsi og velferð hverrar þjóðar. Að baki býr sú hugsun að völd geti verið stórhættuleg, bæði þeim sem hefur þau en þó enn frekar þeim sem þarf að lúta þeim.


Valdsmenn gagnrýndir 

 

Guðspjallstexti á þessum degi þegar þjóðhátíðargestir í Eyjum eru sjálfsagt að vakna eftir næturbrölt, fjallar um vald og valdsmenn. Það er afar algengt stef í Biblíunni þar sem höfundar og persónur hugleiða stöðu sína andspænis þeim sem hafa ráð þeirra í hendi sér. Atburðir eru tímasettir með hliðsjón af því hverjir voru konungur á þeim tíma í landinu og í grennd þess.

 

Og slíkum mönnum eru raðað í flokka eftir því hvernig þeir spjara sig í þessu mikilvæga hlutverki. Sál konungur sá fyrsti í Ísrael fær til að mynda hraklega meðferð skrásetjara. Hann þótti sjálfhverfur, hégómagjarn og engan veginn fallinn til þeirrar forystu sem honum var falin.


Davíð sá sem kom í kjölfarið réði á miklu blómaskeiði en var engu að síður uppvís að níðingsverki sem rækilega er greint frá í ritum. Það er auðvitað þegar hann sængaði hjá Batsebu, eiginkonu hershöfðingja síns, Úría sem hann svo kom fyrir kattarnef og gekk svo sjálfur að eiga hana Batsebu. Sá atburður situr djúpt í langtímaminni gyðingkristinnar hefðar og þykir vera erkidæmi um það hvernig völdin geta tekið völdin af fólki. 

 

Eftirmenn Davíðs voru af ýmsum toga og þeim eru sannarlega ekki alltaf vandaðar kveðjurnar í hinum biblíulegu ritum. Ólíkt starfsbræðrum sínum og systrum í nágrannalöndum hafði enginn þeirra guðlega stöðu. Þeim voru ekki búin grafhýsi eða píramídar, ekki slegin mynt með andlitum þeirra eða þeim reistar styttur sem fólki var svo gert að tilbiðja.

 

Hér er nefnilega kveðið við nýjan tón í stjórnmálasögunni. Konungurinn var ekki æðstur. Almættið hafði eftirlit með varðmanninum og mælikvarðarnir gátu ekki verið skýrari: Það var þessi sáttmáli sem allt samfélagið stóð og féll með.


Ráðsmaður og þjónn

 

Það er sjálfsagt út frá þessum grunni sem Jesús notar orðið „ráðsmaður“ og ,,þjónn“ um þann sem getur haft örlög fólks í hendi sér. Orðið kallar fram mynd í huga mínum af þekktri persónu af hvíta tjaldinu sem sjálfur Anthony Hopkins lék af stakri snilld hér forðum í Dreggjum dagsins. Aðalsmerki ráðsmanns er ekki fyrirgangur og duttlungar, heldur þvert á móti ábyrgðin sem hann gegnir og henni fylgir sannarlega ríkuleg auðmýkt gagnvart því verkefni sem honum er falið að sinna.


Já, honum er ætlað að hlúa að fólkinu, sjá til þess að engan skorti neinar nauðsynjar. En eins og segir í textanum misnotar hann aðstöðu sína og beitir fólki ofbeldi, misnotar vald sitt. Þetta er harðlega gagnrýnt og sífellt er bent á mótvægið við slíka háttsemi.


Jesús orðar kristna forystusýn svona á öðrum stað:

 

Þið vitið að þeir sem teljast ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar (Mk. 10.35–45).

 

Jesús tekur hér klassískt dæmi af því þegar konungar drottna yfir fólki og beita það valdi. Vald-hafar eru jafnvel kallaðir velgjörðarmenn þótt þeir séu drifnir áfram af eigingjörnum og jafnvel stjórnlausum hvötum eins og sagan af Davíð og Batsebu endurspeglar. Jesús varar við slíku. Völd eru ekki takmörkuð gæði sem við keppumst um og troðum aðra undir fótum okkar til að öðlast. Þau eru eingöngu möguleiki til að hrinda hugsjónum í framkvæmd. Mælikvarðinn á gæði leiðtoga er líðan þeirra sem standa neðst í valdastiganum. Fyrir vikið talar Jesús um ráðsmenn og jafnvel þjóna þegar kemur að þeim sem stýra gangi mála í samfélögum. Þeir hafa áhrif til að skapa þjóðinni farsæld og blessun.


Hugsjónir leiðtogans

 

Þetta eru hugsjónir sem eru hærri en svo að leiðtoginn láti eigingirnd sína og aðrar girndir þvælast fyrir sér á þeirri leið sem hann hefur lagt upp í. Til þess að geta unnið að því marki þarf hann einmitt að taka sér allt það til fyrirmyndar sem að sönnu skilar einhverjum tilgangi.

 

Þessi bakgrunnur skýrir orð Jesú sem standa í guðspjalli dagsins:

 

„En ef sá þjónn segir í hjarta sínu: Það dregst að húsbóndi minn komi, og tekur að berja þjóna og þernur, eta og drekka og verða ölvaður, þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi er hann væntir ekki, á þeirri stundu er hann veit ekki, höggva hann og láta hann fá hlut með ótrúum.“

 

Já, hver gætir varðmannsins? Hérna er það sjálfur guðdómurinn sem gegnir því hlutverki. Kristnir hugsuðir hafa öldum saman hugleitt þessa stöðu og bent á að um leið og þjóðir þurfa reglu og festu, þá er hlutverk þess sem fer með völdin það háskalegasta af þeim öllum. Yfir þeim vofir þessi mikli dómur. Jesús orðar það svo að húsbóndinn mæti og höggvi hinn óréttláta ráðsmann. Með öðrum orðum þá dregur hann ekkert undan þeirri ábyrgð sem hvílir á herðum þess sem mestu ræður.

 

Mannkyn þekkir þær hörmungar sem því fylgja að hafa ónýta valdsmenn sem maka eigin krók og beita fólk órétti. Sagan sýnir hvernig slíkir ofríkismenn höfða til lægstu hvata fólks til að geta viðhaldið völdum og sankað að sér takmörkuðum gæðum. Í þeirra höndum verður óttinn að stjórntæki – óttinn við að þola ofbeldi en ekki síður óttinn við hið framandlega. Þegar guði var ýtt út úr heimi stjórnmála, einkum í byrjun 20. aldar, þá risu upp leiðtogar sem voru óbundnir öllu æðra valdi. Engin leið er að kasta tölu á þær milljónir sem létu lífið af þeirra völdum, fyrir vopnavaldi eða manngerðri hungursneið. Upp úr þeim hörmungum komu fram sjónarmið sem voru grundvölluð á lýðræði og manngildi til mótvægis við hið gamla.

 

En þetta eru sömu hugsjónir og lesum við um í helgum textum Biblíunnar. Þar er talað um skyldur yfirvalda við ekkjur og munaðarleysingja, umhyggju fyrir gestum og útlendingum. Mælikvarðinn á gott líf er ekki þjónkun við drottnara heldur umhyggja fyrir bágstöddum. Og já, þjóðin tilbiður ekki valdhafana – heldur þvert á móti. Þeir eru aðeins ráðsmenn og þjónar sem bera ábyrgð gagnvart þjóðinni.