Allt þarf sinn tíma

Allt þarf sinn tíma

Bænin er öflugt hjálpartæki. Dýrmæt gjöf frá Guði þar sem við getum nálgast kærleika Guðs. Í bæninni getum við gefið Guði það sem við skiljum ekki eða stýrum ekki og náð sátt. Þangað getum við sótt hugrekki og styrk. Kraft til þess að gera það sem við getum ekki sjálf.

Elsku fólk mikið er gott að vera hér með ykkur. Takk fyrir að gefa ykkur tíma til þess að koma. Ég samgleðst ykkur á þessum degi og þessari stundu. Bæði vegna þess að þið hafið tekið frá tíma til þess að næra ykkur, efla og styrkja samband ykkar við Guð og vegna þess að við fengum að vera vitni að fallegri sameiningu. Brúðkaupi. Þar sem tveir einstaklingar fylgdu eftir sameiginlegri ákvörðun um að ganga veginn saman. Sáttmáli hefur verið gerður. Það er sko tími til að fagna. Ekki eingöngu þess vegna heldur einnig vegna sáttmála Guðs við okkur.

Brúðhjónin játast frammi fyrir Guði og mönnum, þau velja að verða eitt. Allt hans verður hennar og öfugt eins og Jesús segir í Jóhannesarguðspjallinu: „allt mitt er þitt og þitt er mitt.“ Þegar brúðhjón eru gefin saman eru þau að gefa sína stærstu gjöf, þau eru að gefa sig sjálf. Það er gjöf sem ber að virða og þakka fyrir á hverjum degi.

Það sama gerði Jesús fyrir okkur þegar hann gaf líf sitt á krossinum svo við mættum lifa, lifa í lausn og frelsi. Þannig leysti hann okkur. Með því að taka á móti gjöfinni erum við ný sköpun. Við erum í honum og hann í okkur. Tólf spora fólk gerir þetta í þriðja sporinu með því að stíga út úr eigin vilja inn í vilja Guðs. Það er þetta sem Jesús á við þegar hann segir: „Nú kem ég til þín. Þetta tala ég í heiminum til þess að þeir eigi í sjálfum sér fögnuð minn fullkominn.“ Þetta er fagnaðarerindi.

Í guðspjallinu sem var lesið er Jesús að biðja fyrir okkur, hann er í bæn til Guðs og biður Guð um að varðveita okkur frá illu og hann biður um það að við verðum eitt. Að við verðum einhuga. Líkt og brúðhjónin sem stefna að því að varðveita og hlúa að tryggð og elsku til hvors annars. Þau ætla í sameiningu og sameiginlegri ábyrgð að iðka vinnuna sem þarf til þess að næra hjónabandið, sambandið. Við vitum að slík vinna krefst tíma, framkvæmdar, þolinmæði og þolgæðis. Eins og allt annað sem er okkur dýrmætt að næra. Hvort sem það er að vökva blómin, hlúa að samskiptunum við börnin okkar og vini eða viðhalda vitundarsambandi okkar við Guð.

Til þess að þetta gangi upp þurfum við að vera tilbúin til þess að gefa okkur tíma til að dvelja með viðkomandi, þakka fyrir það sem gott er, vera örlát á hrós og uppörvun, iðka heiðarleika og keppa eftir því að ná saman ef eitthvað veldur sundrung eða ósætti. Við þurfum að tala saman og sýna hvert öðru umburðarlyndi.

Við erum öll ólík jafnvel þó við teljum okkur eiga margt sameiginlegt. Þegar við mætum einhverju sem er okkur ólíkt eða einhverju sem við þekkjum ekki þá reynir á okkur. Þá skortir okkur gjarnan skilning og við upplifum okkur vanmáttug. Við óttumst stundum það sem okkur finnst sérkennilegt. En sérkenni hvers og eins skipta máli, það eru til dæmis þau sem draga maka okkar að okkur. Draga Jón að Gunnu og kveikja ástina.

Guð hefur skapað okkur hvert með sínu nefi og það er mikilvægt að við heiðrum þá sköpun. Guð gerir ekki mistök því er ljóst að sérkenni okkar hafa tilgang. Tilgang sem við kannski sjáum ekki núna eða skiljum ekki en við getum treyst því að tilgangur Guðs er okkur til góðs. Þess vegna þurfum því að standa með okkur, hlúa að sjálfræði okkar og sérstæði á sama tíma og við lærum að bera umhyggju fyrir öðrum og virða þeirra sérkenni. Þeirra sérstöku þætti sem eru jafnvel gjörólíkir okkar. Þannig er mikilvægt að við setjum okkur fram með heiðarlegum hætti, á hverjum degi og pössum upp á mörkin, bæði til að vernda okkur og til að varðveita aðra.

Bænin er öflugt hjálpartæki. Dýrmæt gjöf frá Guði þar sem við getum nálgast kærleika Guðs. Í bæninni getum við gefið Guði það sem við skiljum ekki eða stýrum ekki og náð sátt. Þangað getum við sótt hugrekki og styrk. Kraft til þess að gera það sem við getum ekki sjálf. Svo getum við beðið fyrir fólkinu okkar. Jesús er fyrirmynd hvað þetta varðar þar sem hann biður fyrir okkur í guðspjalli dagsins. Þar biður hann um að við megum helgast í sannleikanum. Sannleikanum sem er undirstaða batans. Sannleikurinn sem er grunnur þess að við getum sett okkur fram og meðtekið elsku. Við erum aldrei of oft minnt á mikilvægi heiðarleikans, hornstein hjónabandsins og traustsins sem við viljum dvelja í. Það er sannleikurinn sem gerir okkur frjáls. Frjáls til að vera.

Nú förum við út í sumarið full af von og fögnuði og látum okkur hlakka til þess að endurnærast í sólinni. Við gefum okkur það að sólin muni skína á Íslandi í sumar og við gefum okkur það að við munum gefa okkur tíma til þess að njóta hennar. Á sama tíma viljum við vera minnug þess til þess að byggja upp, hlúa að og eiga í góðu sambandi þá við þurfum að gefa okkur tíma til að dvelja með Guði og með fólkinu sem við viljum eiga í samskiptum við. Guð blessi okkur öll ríkulega og umvefji okkur sínum kærleika.