Ávaxtakarfan og Elítgryfjan

Ávaxtakarfan og Elítgryfjan

Í ávaxtakörfunni er í lagi að vera pera. Það má líka vera gulrót þótt allir viti að gulrætur séu ekki ávextir. Og þar sameinast allir um að koma Imma anans í skilning um að hann einn þurfi ekki að ráða öllu og hræða þá sem ekki hlýða honum. Þar eru kynnt hugtök eins og jafnrétti og vinátta. Í Elítgryfjunni er ekki í lagi að vera eins og maður er, heldur er markmiðið að verða eitthvað allt annað og meira...

Mig langar að segja ykkur frá merkilegri reynslu sem ég átti í sumar. Árum saman hef ég ætlað mér að komast vestur í Jökulfirði og núna í ágúsbyrjun lét ég loksins verða af því. Ég græjaði mig upp og skellti mér með bátnum frá Ísafirði til Hesteyrar þaðan sem ég gekk um Kjaransvíkurskarð og gisti í Hlöðuvík áður en ég hélt til Hornvíkur um Atlaskarð og Rekavík. Tvær dagleiðir í röð mætti ég fyrst einum manni en síðar tveimur og ég verð að viðurkenna að ég var bara feginn að sjá loksins fólk þegar ég kom í Hornvík. Ég veit raunar að ég á eftir að gleyma flestum persónum sem ég hitti á þessari ferð en ein persóna stendur þannig upp úr að enda þótt hún sé vísast búin að gleyma mér þá mun ég aldrei gleyma henni. Fundum okkar bar þannig saman að ég var bara að bjástra við að koma upp tjaldinu þegar ég tek eftir henni þar sem hún stendur með sína grönnu fætur og horfir á mig dökkum augum. Þetta var Tófan. Landvörðurinn hafði sagt mér að ef hún kæmi mætti ég svo sem gauka að henni harðfiski ef það væri bara í hófi og þannig upphófust samskipti okkar að ég opnaði plastpokann með þessu lostæti. Máltíðir okkar áttu eftir að verða nokkrar því hvenær sem ég opnaði pokann var hún fljótlega runnin á lyktina og af atferli hennar mátti ráða að litlu dökku augun sem sitja svo nærri hvort öðru sjá ekki sérlega vel en nefið vísar veginn. Það fór vel á með okkur fannst mér og hún kom sífellt nær mér þar sem ég lá í grasinu og vildi vera vinur hennar. Þó át hún aldrei úr lófa mínum. Feginn hrifsaði rebbi það sem hann fékk og var svo óðar rokinn upp í hlíðna fyrir ofan.

Ef maður leggur til hliðar skaðan sem refurinn veldur á búfé þá er hann í sjálfum sér falleg skepna. Og gaman var að fylgjsat með yrðlingunum hans leika sér. En hann er rándýr og hann tengist þér ekki. Hann getur verið feginn því sem hann fær en þakklátur verður refurinn aldrei.

Guðspjallið í dag, (Lúk 17.11-19) sagan af holdsveiku mönnum tíu sem Jesús læknaði, fjallar um feginleika og þakklæti. Allir urðu mennirnir fegnir að fá lækningu, en bara Samverjinn sýndi þakklæti. “Urðu ekki allir tíu hreinir. Hvar eru hinir níu?” spurði Jesús. Ég held að sagan sé í raun skilaboð eða staðfesting á því að sá sem bara er feginn en ekki þakklátur er að missa af lífinu. Í dag kveðjum við Gunnar Gunnarsson organista. Ástæða þess að söfnuður Laugarneskirkju kveður hann með þakklæti er ekki síst vegna þess að öll þessi ár, alla þessa sautján ára sambúð, hefur safnaðarfólk aftur og aftur notið listar hans og fundið þakklætið gagntaka sig í tónaflóðinu. Góð tónlist vekur þakklætið af dvala sínum, minnir okkur á ríkidæmi lífsins og segir okkur að það er allt í lagi.

Á göngu minni kom ég á brún Hornbjargs þar sem eru meira en tvöhundruð metrar í frjálsu falli niður í sjó. Ég þurfti að taka á honum stóra mínum að leggjast á magann, teygja álkuna fram af brúninni og bíða þess að ég róaðist og gæti notið útsýnisins þar sem Ritan og Fýllin og fleiri bjargfuglar eiga fótfestu í tilverunni, síbjástrandi og dritandi svo að megnan þefinn leggur fyrir vit ferðalangsins í uppstreyminu. Og þar sem ég lá líkt og leiðslu og horfði ofan í þverhnípt bjargið kom ég auga á sel sem synti við fætur þess og bar hratt yfir. Eitthvað greip hann í kjaftinn og var fljótur að gera því skil og ég veit svo fátt um háttu sela að ég þori ekki að fullyrða hvort það var fiskur eða fugl. Skyldu selir hremma fugla á sundi? Ég bara veit það ekki. En það sem vakti undrun mína og dró athygli mína að selnum var sú staðreynd að frá mínum sjónarhóli mátti sjá að selur þessi synti í sífellu sama hringinn með viðkomu á sama skerinu þar sem hann staldraði nokkra stund áður en hann hélt áfram sömu för, hring eftir hring eftir hring. Og það rann upp fyrir mér að þessi forvitna skepna sem iðulega rekur upp höfuðið til að fylgjast með mannaferðum á ekki í sér undrunina sem er forsenda þess að hugsa nýjar hugsanir og gera eittvað alveg nýtt. Skapa.

Ítrekað hefur Gunnar leitt okkur fram á gnípu og geigvæna brún með sálmaspuna sínum á orgelið. „Hvert ætlar maðurinn, hvað er hann að gera þarna uppi? Og nú bætast við bjöllur!” Og þegar allur söfnuðurinn var kominn í frjálst fall voru vængirnir þandir og við svifum lágt yfir öldum hafsins... ...Ó,þánáðaðeigaJesú... Sjá,himinsopnasthlið... uppuppmínsál og við þekktum okkur aftur og vissum að það væri allt í stakasta lagi... forvitnin varð að undrun sem blandaðist þakklætinu og varð að lofgjörð. Já, þakklæti í bland við undrun. Undrun og þakklæti saman, það er lofgjörð. Sjálfur kjarni mennskunnar, lofgjörðin, er spunninn þessum tveimur megin þáttum sem refurinn og selurinn eiga ekki. Undrunin. Þakklætið.

Við eigum það sameiginlegt með refnum að vera fegin því að borða þegar við erum svöng en það er ólíklegt að hann liggi við dyr greins síns og horfi þakklátur á afkvæmi sín leika sér á grasbala og hugsi til framtíðar fyrir þeirra hönd. Við verðum líka hissa alveg eins og selurinn þegar við sjáum persónu sem við síst áttum von á standa einhversstaðar og sjaldséð fyrirbæri vekja forvitni en undrunin yfir vídd himinsins eða fegurð örsmás skorkvikindis er honum líkast til fjarri.

Í gær var ég svo að koma með sonardóttur minni af bíói, við höfðum farið með ömmunni að sjá Ávaxtakörfuna í Smárabíói og vorum heldur sæl með okkur eftir góðan boðskap um jafnrétti og bræðralag með tilheyrandi poppkorni. Þá varð okkur skyndilega gengið fram á bjargbrún. Fyrst heyrðum við mikinn dyn og sáum fólk troðast að til að sjá eitthvað. Forvitni okkar var vakin og við gerðum eins og hinir og þegar okkur tókst að olnboga okkur að handriði sem þarna var horfðum við úr svimadi hæð niður á grunflöt þessa stórhýsis hvar mannfjöldi var saman kominn í miklum og taktföstum dyn. Við eftirgrenslan kom í ljós að hér var Elit fyrirtækið að bjóða barnungum stúlkum sem náð hefðu 172 cm hæð tækifæri til að verða frægar. Hver gjörvilega stúlkan af annari gekk fram, fékk hæðarmælingu og var svo vísað eitthvert afsíðis þar sem hún klæddist bol merktum fyrirtækinu áður en hún tók sér stöðu í röð þeirra sem átti eftir að snyrta til og farða.

Ég bara tek fram að það var enginn vondur við neinn þarna á jarðhæð Smáralindar svo ég sæi. Samt varð ég hryggur og eitthvað sem gerði það að verkum að ég herti takið á hönd hennar Bergþóru Hildar sem er bara þriggja ára og alls ekki 172 á hæð. Ég held að það hafi verið skorturinn á aðalatriðum sem truflaði mig. Forvitnina vantaði ekki hjá okkur sem tróðumst að og fegnar voru þær, stúlkurnar sem sluppu í gegnum sína fyrstu mælingu. Í rauninni var þetta mjög mögnuð stemmning. Það voru ekki bara bassaboxin sem ollu því að loftið titraði. Það titraði af forvitni almennings og feginleika barnanna í Elít bolunum. En samt skorti á aðalatriðin. Það var ekki vottur af þakklæti í fasi eða framgöngu nokkurs manns þaðan af síður var undrunin liður í samkomunni. Í uppstreymi þessa bjargs sló megnum þef fyrir vit ferðalangsins. Það var þefur af skorti. Uppúr púðurdósunum duftaði skilaboðum um að það væri ekki allt í lagi. Að það væri lágmark að vera af ákveðinni hæð og þyngd og þá fyrst vær hægt að fara að tala saman.

Það var merkilegt að koma beint úr barnamenningu Ávaxakörfunnar og góna ofan í barnamenningu Elítgryfjunnar. Í ávaxtakörfunni er í lagi að vera pera. Það má líka vera gulrót þótt allir viti að gulrætur séu ekki ávextir. Og þar sameinast allir um að koma Imma anans í skilning um að hann einn þurfi ekki að ráða öllu og hræða þá sem ekki hlýða honum. Þar eru kynnt hugtök eins og jafnrétti og vinátta.  Í Elítgryfjunni er ekki í lagi að vera eins og maður er, heldur er markmiðið að verða eitthvað allt annað og meira... meira en annað fólk.

Ekkert er nýtt undir sólinni og það hittist svo skemmtilega á að pistill dagsins er einmitt um ávexti. Horfum eitt augnablik ofan í ávaxakörfu Páls postula og tökum sem uppalendur afstöðu fyrir hönd barnanna okkar: „...ávöxtur andans er: kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi.” (Gal.5.24)

Amen Textar dagsins: Sálm. 146 Gal. 5.16-24 Lúk. 17.11-19