Vonin brýtur sér alltaf leið út úr myrkrinu

Vonin brýtur sér alltaf leið út úr myrkrinu

Vonin brýtur sér alltaf leið úr myrkrinu. Úr öskunni, brjótast græn grasstráin, laufin sem þrá frelsi laufgast á greinum tjránna. Já, auðvitað verður allt frjálst á ný, gráminn hverfur og kveður og já, auðvitað ertu alltaf falleg Mörkin mín.
fullname - andlitsmynd Guðbjörg Arnardóttir
24. apríl 2011
Flokkar

Gleðilega páska kæri söfnuður, gleðilega páska!

Ég er sannfærð um að Þórsmörk er einn fallegasti staður veraldarinnar, já í alvöru, veraldarinar. Líklega eigum við okkur öll stað í hjartanu sem við efumst ekki um að sé einn af fallegustu stöðum veraldarinnar. Það voru meðal annars eldsumbrot úr iðrum jarðar er skópu dali og fjöll Þórsmerkurinnar. Fegurðin er að miklu leyti bundin andstæðunum, ógnvekjandi eldfjöllunum, jöklum, óstýrlátu Markarfljótinu andspænis kyrrð skógarins, tærum lækjunum og grasi grónum hlíðum. Að auki hefur Þórsmörk þetta sérstaka eitthvað, sem ég get ekki útskýrt, það er bara alltaf eitthvað við Þórsmörk sem kallar og heillar. Fyrir tæpu ári síðan þegar gosið í Eyjafjallajökli stóð enn féll einn dag mikil aska yfir Þórsmörk og nágreni. Hún varð öll grá, ég sá það ekki sjálf nema á myndum og heyrði lýsingar. Daginn eftir öskufallið var hún öll þakin grárri ösku, trén voru slútandi, þakin ösku, jörðin var í einum og sama litnum, þakin ösku. Skógurinn var hljóðlátur, þögn öskunnar lagðist yfir allt og í skóginum heyrðist spurt: ,,Er ég enn falleg, Mörkin þín?” Mér varð hugsað til sístæðrar sköpunar Guðs, er þetta hún? Má hin sístæða sköpun Guðs vera svona eyðandi? Er sístæð sköpun Guðs grá, svört, þögul? Sístæð sköpun Guðs er eins leyndardómsfull og fegurðin sem við getum ekki útskýrt, trúin sem við finnum en getum ekki skilgreint. Vonin brýtur sér alltaf leið úr myrkrinu. Úr öskunni, brjótast græn grasstráin, laufin sem þrá frelsi laufgast á greinum tjránna. Já, auðvitað verður allt frjálst á ný, gráminn hverfur og kveður og já, auðvitað ertu alltaf falleg Mörkin mín. Þó fegurðin sé ekki eins áþreifanleg í umbrotum náttúrunnar þá geymum við birkiilminn í hjartanu, þar til við finnum hann aftur á milli trjánna, í ferskri og hlýrri sumarrigningunni. Sístæð sköpun Guðs er alltaf falleg. Með börnunum í leikskólanum, kirkjuskólanum, fermingarbörnunum og hjá okkur sjálfum sjáum við örugglega Jesú alltaf sem þennan fallega hreina frelsara, með blíðu og fögru augun sín sem segja svo mikið, hann er besti vinur barnanna, hann er leiðtogi, hann er einver sem við höllum okkur að þegar við þurfum á því að halda, hann er táknmynd hins hreina og fagra. Hann var okkur svo falleg og góð manneskja, sem fann til eins og við, grét, efaðist, hló en hann var einnig Guð sem allt gat, læknað, talað af mætti, brotið múra og breytt heiminum. En hann var drepin, hann var krossfestur. Hvernig er það hægt að eitthvað svo fallegt og göfugt og gott fær slíka meðferð, hvernig getur Kristur sem var eins fallegur, eins ferskur og ilmandi björk í íslensku sumri. Hvernig gat hann fallið í svartasta myrkur dauðans, skilið fólkið sitt eftir í grárri og sárri ösku sorgarinnar, umkomuleysisins, þagnarinnar, auðnarinnar. Hvernig getur Guð dáið og spurt okkur manneskjurnar, já, er ég ekki góður Guð? Er ég ekki fallegur Guð? Guð er leyndardómur, Guð er örðuvísi en allt annað, Guð er ekki hægt að setja niður í orð þannig að við skiljum allt eða skynjum fyllilega. Hvernig eigum við að skilja eða trúa frásögn Matteusar í guðspjallinu? María Magdalena og María hin komu bugaðar af sorg til grafarinnar að vitja þess sem þær elskuðu og hvað? Það verður mikill landskjálfti, engill stígur niður af himni, kemur, veltir steinum, sest á hann og hann var eins og elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Þetta eru engir smá atburðir, hvernig má þetta vera? Jú, trúin, vonin brýtur sér leið úr öskunni, myrkrinu og sigrar. Lífið blómgast á ómögulegum stöðum á ótrúverðugan hátt. Náttúran sjálf sýndi okkur í Þórsmörk að hún hefur tilhneiginu til að lifa, hún hefur knýjandi þörf til að komast áfram, viðhalda lífinu og brjóstast undan þungri og sum staðar harðri öskunni og laufgast, blómstra og verða aftur söm og ný. ,,Sjá, ég geri alla hluti nýja!” segir Guð og það segir hann við okkur á páskadagsmorgni.

Sem upp rís sól um árdagsstund og upp rís blóm á þíðri grund úr köldum klakahjúpi, svo upp rís síðar eilíft ljós og óvisnanleg himinrós úr dauðans myrkradjúpi. Jesús, Jesús, þótt é deyi´, eg óttast eigi, æðri kraftur leiðir mig til lífsins aftur.

Svo kveðjur Valdirmar Briem í páskasálmi. Um sigur lífsins, sigur sumarsins og gróandans á klakaböndum og um sigur lífsins yfir dauðanum. Sigur lífsins er Guð reisti son sinn upp frá dauðum og um sigur sem eigum vísan á eigin dauðastundu. Vissu um æðri kraft sem leiðir okkur til lífsins á ný, lífs sem er eilíft. Við skynjum þessa vegferð einnig í sorginni. Við gleðjumst á góðri stund og leikum okkur í sumrinu og gleði lífsins. Er við missum einhvern sem okkur var kær, leggst gráminn yfir og hylur jarðarsvörðin, skilur okkur eftir í öskurgrárri þögn sorgarinnar. En hægt og rólega náum við að hrista af okkur öskuna og upplifa fegurðina á ný, hleypa inn minningunum og hefja byggingu nýrra minninga. Lífið og gleðin laufgast á ný þó ekkert verði aftur eins. Við eigum trúna á æðri kraft, Guð sem varðveitir og geymir lífið í myrkri sorgar og ösku og brýtur því leið til ljóssin, gróandans og glæðir að nýju lífi. Já, þú ert alltaf falleg sístæð sköpun Guðs. Guð skapaði enn á ný í dag, er lýsti af páskadegi, nýja upprisu, nýtt líf, eilíft líf. Myrkrið er ekki hér, dauðinn er ekki hér, Kristur er upp risinn, Kristur er sannarlega upprisinn.