Höggormurinn var slóttugri en öll dýr merkurinnar sem Drottinn Guð hafði gert. Hann sagði við konuna: „Er það satt að Guð hafi sagt: Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum?“ Konan svaraði höggorminum: „Við megum eta af ávöxtum trjánna í aldingarðinum en um ávöxt trésins, sem stendur í miðjum aldingarðinum, sagði Guð: Af honum megið þið ekki eta og ekki snerta hann, ella munuð þið deyja.“ Þá sagði höggormurinn við konuna: „Sannið til, þið munuð ekki deyja. En Guð veit að um leið og þið etið af honum ljúkast augu ykkar upp og þið verðið eins og Guð og skynjið gott og illt.“ Þá sá konan að tréð var gott af að eta, fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks. Hún tók af ávexti þess og át og gaf einnig manni sínum, sem með henni var, og hann át. Þá lukust upp augu þeirra beggja og þeim varð ljóst að þau voru nakin. Þau saumuðu því saman fíkjuviðarblöð og gerðu sér mittisskýlur. Þá heyrðu þau til Drottins Guðs sem gekk um í aldingarðinum í kvöldsvalanum og maðurinn og kona hans földu sig fyrir augliti Drottins milli trjánna í aldingarðinum. Drottinn Guð kallaði á manninn og sagði við hann: „Hvar ertu?“ Og hann svaraði: „Ég heyrði til þín í aldingarðinum og varð hræddur því að ég er nakinn, og ég faldi mig.“ Hann sagði: „Hver sagði þér að þú værir nakinn? Hefur þú etið af trénu sem ég bannaði þér að eta af?“ Maðurinn mælti: „Konan sem þú hefur sett mér við hlið, hún gaf mér af trénu og ég át.“ Þá sagði Drottinn Guð við konuna: „Hvað hefurðu gert?“ Konan svaraði: „Höggormurinn tældi mig og ég át.“ Þá sagði Drottinn Guð við höggorminn: Af því að þú gerðir þetta skaltu vera bölvaður meðal alls fénaðarins og meðal allra dýra merkurinnar. Á kviði þínum skaltu skríða og mold eta alla þína ævidaga. Ég set fjandskap milli þín og konunnar og milli þinna niðja og hennar niðja. Þeir skulu merja höfuð þitt og þú skalt höggva þá í hælinn. Við konuna sagði hann: Mikla mun ég gera þjáningu þína er þú verður barnshafandi. Með þraut skaltu börn fæða, samt skaltu hafa löngun til manns þíns en hann skal drottna yfir þér. Við Adam sagði hann: Vegna þess að þú hlýddir röddu konu þinnar og ást af trénu sem ég bannaði þér að eta af, þá sé akurlendið bölvað þín vegna. Með erfiði skaltu hafa viðurværi af því alla þína ævidaga. Þyrna og þistla skal landið gefa af sér og þú skalt lifa á grösum merkurinnar. Í sveita þíns andlitis skaltu brauðs þíns neyta þar til þú hverfur aftur til jarðarinnar því af henni ertu tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skaltu aftur hverfa.1Mós 3.1-19
Það hefur verið mjög spennandi að vakna og líta út um gluggann síðustu daga og vikur – og velta fyrir sér hvernig færðin verður og hvort maður nái á áfangastað milli þess sem lægðamiðjurnar í háloftunum setja allt úr skorðum niðri á jörðinni. Og umhugsunarvert að þrátt fyrir alla tæknina og góðu græjurnar sem við eigum, til þess að aka eða fljúga á milli staða, verðum við þegar allt kemur til alls að láta í minni pokann fyrir náttúruöflunum og höldum áfram að verða fyrir mótföllum af þeirra völdum. Þetta er samhengi þar sem manneskjan finnur sig máttvana og hjálparlaus. Og við spyrjum okkur, getur verið að það komi oftar vond veður og eru þau verri en áður? Víða um heim þykjast menn sjá einmitt meiri ofsa og tíðari náttúruhamfarir tengdar ýktu veðurfari og spurt er hvort maðurinn með ágengni sinni á auðlindir náttúrunnar og neyslu hafi haft áhrif þar á.
Sagnabálkurinn um manninn, konuna og höggorminn sem við íhugum á þessum sunnudegi, sem er fyrsti sunnudagur í föstu, er framlag í hugsanapottinn um mannlegar aðstæður, stöðu okkar gagnvart sjálfum okkur, náunga okkar og sköpunarverkinu. Þríeykið maðurinn, konan og höggormurinn stíga fram og sýna okkur eins og í leikriti ákveðna skýringu á mannlegu eðli og mannlegum aðstæðum. Þessi stutti en magnaði kafli úr Biblíunni er oft kallaður sagan af syndafallinu, enda er það í þessum texta sem maðurinn og konan óhlýðnast Guði í fyrsta sinn og súpa seyðið af því. Þetta er sagan um Paradísarmissi manneskjunnar, þegar sakleysið og öryggið víkur fyrir tortryggni, óvissu og kaldri staðreynd þess að við þurfum að deyja.
Í þessum texta er líka hið magnaða andartak þegar maðurinn og konan horfast í augu við nekt hvors annars og þurfa upp frá því að hylja líkama sinn og fela það sem áður var frammi í dagsljósinu. Þannig er fleygur rekinn milli þeirra og annar fleygur milli manneskjunnar og sköpunarverksins og manneskjunnar og Guðs.
Þessi saga kemur sem sagt til okkar sem ákveðin skýring á mannlegum aðstæðum, sem mótast svo gjarnan af mótlæti, togstreitu og harðri lífsbaráttu. Hún býður upp á túlkun á lífshlaupi manneskjunnar og setur fram skýringar á því af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru. Hún hefst auðvitað aðeins fyrr heldur en þar sem okkur ber niður á þessum sunnudegi, með sjálfu upphafinu, þegar Guð skapaði manninn. Það er athyglisvert að Biblían hefst ekki með einni sköpunarsögu heldur tveimur, hver á eftir annarri og í þeim koma fram ólík atriði. Í fyrri sköpunarsögunni, sem hefst eins og kunnugt er á orðunum “Í upphafi skapaði Guð heimin og jörð” skapar Guð manninn í sinni mynd, karl og konu, á eftir landi, vatni, gróðri og dýrum. Þar er maðurinn eins konar kóróna sköpunarverksins. Í seinni sköpunarsögunni, sem er upptakturinn að leikritinu um manninn, konuna og höggorminn, er þessu ólíkt farið. Þar skapar Guð manninn eiginlega fyrst af öllu úr moldu jarðarinnar og eigin lífsanda– og bara karlmanninn, sem er nefndur Adam en það er orðaleikur við hebreska orðið yfir jörð eða mold(Adamah).
Svo er Adam settur til starfa til að yrkja jörðina og hann fær heilan aldingarð til að lifa í. Til að halda manninum félagsskap, skapar Guð síðan öll dýr merkurinnar og fugla himinsins, nota bene úr sama efni og maðurinn varð til úr, moldinni. Maðurinn hefur sömuleiðis hlutverk í þessari sköpunarhrinu því hann fær að gefa öllum dýrunum nafn. En af öllum dýraskaranum finnur Adam enga meðhjálp við sitt eigið hæfi og heldur áfram að vera einn og þar af leiðandi ófullkominn. Og þá grípur Guð til þessa góða ráðs að láta djúpan svefn falla á hann og móta meðhjálpina hans, úr hans eigin holdi. Þar er komin konan.
Sköpunarverkið var semsagt fullkomnað með konunni! Og aldingarðurinn Paradís verður um sinn vettvangur mannkynssögunnar í fullkomnu jafnvægi, fullkomnu ástandi og nánu samfélagi lífgjafarans Drottins og sköpunarverksins manneskjunnar. En Adam var ekki lengi í Paradís – og í þetta sinn bókstaflega. Við heyrum hvernig samtal konunnar og höggormsins, og síðan samtal konunnar við manninn, leiðir þau til að gera það sem Guð hafði lagt bann við, að eta af skilningstrénu. Það er skondið í þessu dramatíska samhengi að þrátt fyrir að við flest sjáum fyrir okkur epli í hendi konunnar sem hún býður karlinum, eins og ótal listamenn sem hafa túlkað þessa sögu í málverkum, stendur hvergi að hér hafi verið um epli að ræða. Það er bara talað um ávöxt! Eplið kom inn í myndina sem þýðingarmisskilningur og lifir góðu lífi sem slíkt.
En hér eru fjölmörg atriði sem við getum numið staðar við. Hver er höggormurinn? Hvaðan kom hann og hvaða hlutverki gegnir hann í atburðarrásinni? Hvers vegna er hann í Paradís, þar sem Guð hefði átt að vera allráðandi og hafa fullkomna stjórn á hlutunum?
Þessar spurningar gætu allt eins snúið að okkar eigin lífi þegar við spyrjum hvers vegna eitthvað hefur gerst, eitthvað sem rænir okkur gleði, trausti, ást og ánægju og skilur okkur eftir umkringd sorg og söknuði yfir því góða sem við áttum einu sinni. Hvað skýrir allt það vonda og erfiða í tilverunni? Hver er höggormurinn í lífi okkar – og hvers vegna hlustuðum við á hann?
Höggormurinn hefur margslungna og margræða merkingu í söguheiminum. Hann er á margan hátt tákn upprisu og endurnýjunar, þar sem hann gengur sífellt í endurnýjun lífdaganna með hamskiptum sínum. Í Paradísarsögunni gegnir hann hins vegar því vafasama hlutverki að kynna til sögunnar efann um Guð og boð hans. Með sínum einföldu spurningum og uppástungum hrindir hann af stað þeirri atburðarrás sem leiðir til Paradísarmissis manneskjunnar og kemur henni í þann táradal sem jarðneska lífið er. Þannig leikur hann óneitanlega hlutverk andstæðingsins og óvinarins sem rænir manninum það sem honum var ætlað.
Þetta tiltekna hlutverk, mætir okkur í öðrum texta sunnudagsins, í guðspjallinu um freistingu Jesú. Jesús er í óbyggðunum, einn og fjarri skyldum og áreiti, og hann fastar til undirbúnings þess sem hann er kallaður til að gera. Og hver mætir þá til sögunnar nema djöfullinn sjálfur, sá sem hefur það hlutverk að reka fleyg á milli fólks, sundra og skemma. Við vitum ekkert um það hvernig djöfullinn birtist Jesú, í hvaða mynd hann kom, kannski sem höggormur kannski sem eithvað allt annað. Kannski bara sem rödd í huga Jesú sem hvíslar, laðar og býður honum það sem hann gæti vantað eða langað í. Þegar hann er svangur þá býður djöfullinn honum brauð og svo býður hann honum að nota hæfileikana sína eða gjafirnar til að öðlast vald og virðingu – og líklegast hamingju.
Aftur gætu þessar vangaveltur komið upp í okkar eigin aðstæðum. Núna held ég t.d. að fjármála- og söluheimurinn komist næst því að beita svipuðum aðferðum gagnvart okkur neytendum. Það eru lítil takmörk fyrir gæðunum sem fylgja því að kaupa þetta og hitt, taka lán og skuldbinda sig um ókomna framtíð. Bara ef við sláum til. En ábyrgðin er ekki þeirra, ekki þegar afborganir og skuldir sliga einstaklinga og fjölskyldur eða þegar allur tími, orka og athygli fara í að þjónusta þessum keyptu hlutum. Kannski er allt í lagi að fara að umgangast hugmyndina um freistingar með ögn meiri virðingu en þegar við takmörkum vald þeirra við auka-súkkulaði bita eða eitthvað sem látum eftir okkur – af því að við eigum það svo skilið?
Sögunum tveimur, um syndafallið úr Paradís og freistingu Jesú, er stillt upp hlið við hlið á þessum sunnudegi sem markar upphaf föstunnar. Það er auðvitað engin tilviljun að kirkjan vill lesa þær saman. Fastan er sá tími sem leiðir til krossfestingar og síðan upprisu Jesú sem eru þeir atburðir í lífi Jesú sem tákna mikilvægi hans í hjálpræði og frelsun manneskjunnar. Frelsun undan hinni dauðlegu tilveru sem óhlýðni mannsins og konunnar í Paradís leiddi yfir mannkyn. Það sem fór úrskeiðis fyrir óhlýðni mannsins, leiðréttir Jesú – ekki bara með því að standast freistingarnar sem fyrir hann eru lagðar, heldur með því að ganga í dauðann, svo Guðs börn mættu lifa.
Konan, maðurinn og höggormurinn sýna okkur leikrit sem skýrir hina þungbæru mótsögn sem manneskjan hefur alltaf verið meðvituð um, og sem við hvert og eitt stöndum fyrr eða seinna frammi fyrir. Það er útskýringin á því hvers vegna allt sem lifir verður að deyja og hvers vegna enginn kemst hjá erfiðleikum og þjáningu í lífinu. Hlutverk Jesú ber að skilja í þessu ljósi. Hann stendur fyrir vilja Guðs til lífsins og því sem viðheldur því, á móti því sem ógnar, skelfir og brýtur niður. Hann stendur fyrir það að dauðinn mun ekki eiga síðasta orðið.
Dýrð sé Guði föður syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen. Takið postullegri blessun. Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með oss öllum. Amen.