Daglaun guðlegs réttlætis

Daglaun guðlegs réttlætis

En sagan segir okkur einnig að hugmyndir mannlegs samfélags um réttlæti eru víðs fjarri guðlegu réttlæti og þar með þeirri kröfu, sem Guð gerir og kemur svo víða fram í Ritningunni, um að elska náungann eins og sjálfan sig, sem merkir að koma fram við annað fólk af virðingu og láta sér umhugað um hag þess, að grundvallarþörfum þess sé fullnægt. Þess vegna greiðir víngarðseigandinn líka þeim sem unnu einn tíma full daglaun, vegna þess að honum er umhugað um að þeir fái það sem þeir þarfnast til þess að sjá sér farborða, því að grundvallarþarfirnar eru þær sömu hjá öllum manneskjum, hvort sem þær eru forstjórar eða ræstingafólk.
Mynd

(Lexía: Jer 9.22-23; Pistill: 1Kor 9.24-27; Guðspjall: Matt 20.1-16)

Kæri söfnuður,

tíminn staldrar víst aldrei við og nú líður óðfluga að páskum en áður en sú mikilvægasta hátíð kristinnar kirkju gengur í garð minnumst við á föstunni aðdragandans að handtöku Jesú og aftöku – hinna skelfilegu erkimyndar mannlegrar grimmdar og ranglætis. En þar með er – sem betur fer – ekki öll sagan sögð; ef svo væri, þá værum við ekki hér. Andstætt öllum náttúrulögmálum og mannlegum væntingum reisti Guð Jesú upp frá dauðum; Guð lífsins, sem er uppspretta lífsneistans sem glæðir hverja lifandi veru á þessum hnetti, glæddi lífvana líkama Jesú lífi að nýju og reisti hann til eilífs lífs, til þess að hann yrði okkur ævarandi tákn um kærleika Guðs og þann vilja hans að lífið vari og beri sigurorð af dauðanum. En lífið er ekki einvörðungu varðað sólardögum og það er ekki gagnlegt að snúa blindu auga að skuggahliðum lífsins; því að hið góða sigrar ekki af sjálfu sér og illskuna skortir ekki fylgi í þessum heimi eins og hver einasti fréttatími ber vitni um. Þess vegna er það að áður en gleðihátíð upprisunnar gengur í garð ríkir föstutíminn í kirkjunni 40 daga fyrir páskadag að frátöldum sunnudögum og á þeim tíma miðar allt helgihald kirkjunnar að íhugun um það sem betur má fara í mannlegu samfélagi – með útgangspunkt í innra uppgjöri hverrar og einnar kristinnar manneskju. Því að ef við getum ekki horfst í augu við og tekið á eigin brestum, hvernig getum við þá gert kröfu um það að samfélagið verði betra?

En af hverju er ég að tala um föstuna? Fastan byrjar jú ekki fyrr en á öskudag. Ástæðan er sú að í dag er 1. sunnudagur í níuviknaföstu eins og tímabilið frá þessum sunnudegi til páskadags er kallað í kirkjuárinu og sjá má á heimasíðu Þjóðkirkjunnar. Og þetta heiti er líklegt til þess að rugla fólk í ríminu og það spyrji sig hvort fastan sé byrjuð og hvort þess sjái stað í helgihaldinu. En því er til að svara að þrátt fyrir að þessi tími kallist níuviknafasta, þá er ennþá grænn litur ríkjandi í messuskrúða og altarisklæðum og dýrðarsöngurinn er sunginn eins og venjulega en það breytist hins vegar frá og með öskudegi þegar fjólublár litur tekur við og dýrðarsöngur er ekki sunginn fyrr en á páskadag. Í ljósi þessa var sú ákvörðun kaþólsku kirkjunnar að leggja niður níuviknaföstu sem tímabil í kirkjuárinu því mjög skiljanleg enda var hún líklega tilkomin sem tilraun til að samræma föstutíma vesturkirkjunnar við föstutíma austurkirkjunnar sem hófst fyrr vegna þess að í henni var aðeins fastað fjóra daga í viku og því teygðist úr föstunni.

Að því sögðu er þessi tími á milli fæðingarhátíðar Krists og föstunnar vel til þess fallinn að íhuga hvort og þá hvaða áhrif það ætti að hafa á líf kristinna manna og kristins samfélags að með fæðingu Jesú og upprisu hans hefur Guð í raun sett fram ástarjátningu sem beint er að sköpuninni – ekki aðeins að mannkyninu heldur öllu lífi hér á jörð. Og ritningarlestrar dagsins beina okkur einmitt í þá átt.

Dæmisagan sem Jesús segir í guðspjalli dagsins er væntanlega ykkur flestum vel kunn. Enda er hún eftirminnileg fyrir margra hluta sakir, þótt ekki væri nema vegna þess að hún hefur haft talsverð áhrif á íslenska tungu. Orðin „Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir“ eru í raun orðin að reglulegum málshætti og orðatiltækið að einhver sé á elleftu stundu og að bera hita og þunga dagsins eru líklegast einnig komið úr þessari frásögn.

Eins og þið vitið hefur samningsbundinn dagvinnutími á Íslandi verið 8 stundir til skamms tíma og nú hefur hann styst enn með nýjum kjarasamningum. Í gamla daga var vinnuharkan hins vegar meiri af illri nauðsyn og dagvinnutíminn á tíma Jesú var 12 tímar, frá sólarupprás kl. 6 að morgni til sólarlags kl. 6 að kveldi. Það var m.ö.o. unnið á meðan fólk sá til þess að vinna. Ég efast ekki um að mörgum þykir það stinga í stúf að verkamennirnir sem koma síðastir til vinnu, á elleftu stundu, fá sömu laun og þeir sem þá þegar hafa unnið í 11 tíma. Á elleftu stundu merkir að klukkan er 5 síðdegis sem þýðir að þeir sem unnu eina klukkustund fengu sömu laun og þeir sem unnu 12 tíma. Ég er hræddur um að hvorki Samtök atvinnulífsins né ASÍ  myndu skrifa upp á slíka samninga.

En Jesús er heldur ekki að gera þá kröfu til atvinnurekenda síns samtíma að þeir greiði öllum sömu laun óháð vinnuframlagi. Víngarðseigandinn í dæmisögunni er vitanlega táknmynd fyrir Guð og sú óvenjulega afstaða sem hann hefur til launanna er gjörólík því sem vænta mætti af venjulegum víngarðseiganda, enda gerðu verkamennirnir, sem unnið höfðu allan daginn, alvarlegar athugasemdir við það sem þeir upplifðu sem ranglæti. En víngarðseigandinn bendir þeim hins vegar réttilega á að hann hefur staðið við þann samning sem hann gerði við þá um einn denar í daglaun og sé frjáls að því að launa hinum seint komnu hið sama og sýna þeim þar með fádæma örlæti og gæsku. Og fyrst að víngarðseigandinn er tákn fyrir Guð þá er ljóst að daglaunin eru einnig tákn fyrir eitthvað annað en skotsilfur; þau standa fyrir fyrirheit trúarinnar um fyrirgefningu og eilíft líf sem Guð býður öllum mönnum óháð því hvenær þeir kjósa að taka því boði.  En sagan segir okkur einnig að hugmyndir mannlegs samfélags um réttlæti eru víðs fjarri guðlegu réttlæti og þar með þeirri kröfu, sem Guð gerir og kemur svo víða fram í Ritningunni, um að elska náungann eins og sjálfan sig, sem merkir að koma fram við annað fólk af virðingu og láta sér umhugað um hag þess, að grundvallarþörfum þess sé fullnægt. Þess vegna greiðir víngarðseigandinn líka þeim sem unnu einn tíma full daglaun, vegna þess að honum er umhugað um að þeir fái það sem þeir þarfnast til þess að sjá sér farborða, því að grundvallarþarfirnar eru þær sömu hjá öllum manneskjum, hvort sem þær eru forstjórar eða ræstingafólk.

Þannig að þó svo að dæmisagan segi okkur fyrst og fremst eitthvað um Guð og guðlegan veruleika þá sendir hún einnig skýr skilaboð til okkar um kröfu Guðs um náungakærleika, miskunnsemi og félagslegt réttlæti í mannlegu samfélagi. En sú krafa uppfyllist ekki af sjálfu sér og því megum við aldrei gleyma.  Og jafnvel þótt það sé stefna samfélagsins í orði að réttlæti ríki þá er ekki sjálfgefið að svo sé á borði; um það vitna því miður fjölmörg dæmi, sem koma reglulega upp í fjölmiðlum um jaðarhópa og þá sem minna mega sín sem falla á milli skips og bryggju í velferðarkerfinu sem svo er kallað. Þess vegna verður aldrei nógsamlega þakkað fyrir baráttu ýmissa aðila sem láta sér hag bágstaddra varða; því hinir bágstöddu eiga sér sjaldan málsvara meðal þeirra sem völdin hafa. Þannig er það einfaldlega og þannig hefur það alltaf verið. Um það vitnar t.d. lexía dagsins, úr spádómsbók Jeremía. Þar flytur Jeremía þann boðskap frá Guði að hinir ríku, voldugu og vitru hafi ekkert efni á því að hreykja sér ef þeir hafi ekki til að bera þá þekkingu sem er mikilvægust allra, þ.e. þekkinguna á vilja Guðs sem er sá að á jörðinni ríki miskunnsemi, réttlæti og stjórnkerfi sem laust er við spillingu. Og ástæðan fyrir því að hann nefnir hina vitru í þessu sambandi er sú að í samhengi textans kemur fram sú gagnrýni á spámennina og prestana við musterið í Jerúsalem að jafnvel þeir sæktust eftir gróða af okri og hefðu svik í frammi og bæru ekki hag fátæklinga og munaðarleysingja fyrir brjósti frekar en hinir ríku og voldugu. Þannig hefur freisting valdsins á öllum tímum alið nöðru eigingirninnar og græðginnar í brjóstum manna, sama hvert samhengi þess valds er.

Ögun líkamans, sem Páll postuli talar um í pistli dagsins, má líta á sem mynd fyrir það að hemja „veraldlegar“ og líkamlegar langanir í þeim tilgangi að ná æðra markmiði og þá um leið að hafna sérhagsmunahyggju og sjálfhverfu sem fer hönd í hönd við græðgi og ranglæti. Að þessu leyti tala því lexían og pistillinn saman, því að samhengi lexíunnar sýnir að andstæða hinnar sönnu visku, sem er þekking á vilja Drottins, er einmitt græðgi, ofbeldi og ranglæti.

Það er vissulega erfitt að trúa boðskap kristinnar trúar um kærleik Guðs í ljósi þess hvernig mannlegt samfélag virkar. Og það er skiljanlega nánast ómögulegt að taka vitnisburð ritningarinnar um uppristu Krists og eilíft líf trúanlegan í ljósi náttúrulögmálanna og hversdagslegrar reynslu mannsins. En málið er að Guð er ekki bundinn af mannlegum eða náttúrulegum lögmálum og það er það sem guðspjallið vill segja með orðunum: „Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“ Í guðsríkinu gilda allt önnur lögmál en í þeim veruleika sem við þekkjum – en sköpunin er engu að síður víngarður Drottins og verkefni okkar sem verkamanna í þeim víngarði er að rækta hann með þeim hætti að hann samræmist vilja Guðs eins og kostur er. Og það er alls ekki ómögulegt því að eins og Jesús bendir sjálfur á þá er Guðs ríki innra með okkur (Lk 17) og það er því undir okkur sjálfum komið að gera það að veruleika í okkar mannlega samfélagi.

Dýrð sé Guði: Föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.