Gleði er ekkert gamanmál

Gleði er ekkert gamanmál

Gleðin kemur ekki eftir pöntun. Við vitum, að til þess að geta brosað þarf ákveðið hugarþel ef brosið á að vera ekta og það sem að baki því býr. Þórarinn Eldjárn, sem þykir flestum öðrum skáldum fyndari, sagði eitt sinn: „grín er ekkert gamanmál“. Við getum sagt það sama um gleðina. Ef hún er einlæg þá er hún þarf hún að byggja á einhverju traustu og öruggu rétt eins og allt það annað sem einhvers virði er í okkar lífi. Yfirborðslegt bros er ekki gleði og jól sem hvíla á slíku eru ekki gleðileg.

Jólin heilsa okkur enn eitt árið og víst er að hátíðin spyr ekki um það hvernig aðstæður eru í mannlegu samfélagi á hverjum tíma. Ýmsar sagnir eigum við frá liðnum tímum þar sem lífið hefur verið erfitt en jólahátíðin hefur á einhvern hátt varpað ljósi á mótlætið. Hún hefur dregið fram andstæður á milli hugsjóna og veruleika en sú gjá sem stundum myndast þar á milli hefur ekki alltaf dregið úr fólki máttinn og vonina. Það er síður en svo.


Ólíkar kveðjur

 

Birtan af jólunum hefur stundum skinið svo bjart að hún hefur náð að lýsa upp gráan og napran veruleikann. Vonbrigði hafa vikið fyrir voninni og hátíðin hefur sært í burtu drauga fortíðar. Við þekkjum frásagnir af því þegar þegar hamingjan einhvern veginn yfirsté hindranir, smáar sem stórar. Sagan segir að sálmurinn frægi, Heims um ból hafi verið ortur eftir að mýs höfðu nagað gat á belginn á orgelið í litlu kirkjunni. Og við höfum flest heyrt af atburðunum þegar stríðandi fylkingar lögðu niður vopn í fyrra heimsstríði, féndur féllust í faðma og skiptust á gjöfum einmitt þegar hringt var inn heilög jól.

 

Og nú erum við hér í fámenninu, enn eitt skiptið á liðnum misserum skynjum við vanmátt okkar gagnvart hinum ytri atburðum sem eru þó mildir ef við berum þá saman við aðstæður fólks á fyrri öldum.

 

Þá ómar kveðjan sem aldrei fyrr: Gleðileg jól segjum við hvert við annað.

 

Þessi tilheyrir hátíðinni sem er einmitt núna. Við eigum auðvitað margar aðrar kveðjur sem nýtast vel þegar við hittum fólk á förnum vegi eða viljum hita okkur upp fyrir ánægjulegt spjall: „Góðan daginn“, „blessaður/blessuð“, „hæ“, „hvað segirðu?“, „Er ekki allt gott?“ Auðvitað þessi séríslenska: „Alltaf nóg að gera?“

 

Þær eru víst fleiri kveðjurnar og þær eiga sér ýmsa skírskotun í verkefni okkar og viðfangsefni. Þær tengjast velfarnaði í lífinu almennt eða þá á tilteknum degi sem fæðist og deyr. Sumar eru leiðandi spurningar, jafnvel algjörlega út í bláinn. Hvernig er annars hægt að vænta þess af breyskum og dauðlegum mönnum – að allt sé gott! Hvílíkt og annað eins!

 

En kveðjan sem við berum hvert til annars á hinni helgu hátíð er alveg sérstök og engri lík: Gleðileg jól! Hún segir svo mikið um þennan tíma sem nú er genginn í garð. Jólin eru tími gleðinnar, ekki bara gleði þeirra sem komast nálægt því að „allt sé gott“ í þeirra lífi heldur líka gleði allra hinna. „Gleð þig særða sál“ og „Í dag er glatt í döprum hjörtum“ segir í sálmunum og það er jú í þessum sama anda.


Gleði er ekkert gamanmál

 

Gleðin kemur ekki eftir pöntun. Við vitum, að til þess að geta brosað þarf ákveðið hugarþel ef brosið á að vera ekta og það sem að baki því býr. Þórarinn Eldjárn, sem þykir flestum öðrum skáldum fyndari, sagði eitt sinn: „grín er ekkert gamanmál“. Við getum sagt það sama um gleðina. Ef hún er einlæg þá er hún þarf hún að byggja á einhverju traustu og öruggu rétt eins og allt það annað sem einhvers virði er í okkar lífi. Yfirborðslegt bros er ekki gleði og jól sem hvíla á slíku eru ekki gleðileg.

 

Við hlýddum á guðspjallið hér áðan. Sagan af kraftaverkinu í Bethehem lýsir stórum atburðum og miklum tilfinningum. Til stóð að setja atburðina á svið hér í helgidómnum en við urðum að fella þann atburð niður. En það er eins og Lúkas guðspjallamaður hafi séð fyrir sér sýningu eins og grísku leikskáldin gerðu.

 

Englar vitja fátækra hjarðmenn sem híma úti í nóttinni. Kveðjan bendir jú til þess hirðunum ekki orðið um sel við þessa óvæntu heimsókn: „Verið óhræddir“ segir engillinn.

 

Hvernig hefði það annars verið ef myrkrið hefði skyndilega ljómað upp, himneskar hersveitir komið að ofan – og englarnir hefðu sagt eitthvað á þessa leið – „Jæja, er ekki bara allt gott?“ Ég held að blessaðir smalarnir hefðu ekki lifað fleiri nætur. Enda væri kveðjan sú, svo órafjarri öllum veruleika. Það var ekkert allt gott í þeirra lífi – ekki frekar en okkar ef því er að skipta.

 

Nei, þessir menn höfðu það ekki „allt gott“ frekar en aðrir, en þeir fengu engu að síður fyrstu jólakveðjuna: „Sjá ég boða yður mikinn fögnuð“ eða með orðunum sem við flytjum hvert öðru á þessu töfrakvöldi: „Gleðileg jól.“


Innihaldið

 

Gleðin og fögnuðurinn sem hér er boðuð er ekki innantóm hrifning eða þvingað bros. Hún á ekkert skylt við síbyljuna sem yfir okkur dynur og er stundum jafn merkingarlaus og kveðjurnar sem við köstum hvert á annað í dagsins önn. Hún er óháð því hvort menn búa að auði og fjársjóðum sem ryðgar og fúnar, eða eiga enga slíka. Jafnvel hinar særðu sálir gleðjast og þeir sem búa afskekkt og búa við lík skilyrði hirðunum sem sátu úti í nóttinni á Bethlehemsvöllum.

 

Mér finnst hún eiga erindi til okkar nú er við söfnumst saman hér í fámenningu í kirkjunni og hugleiðum boðskap jólanna.

 

Hirðarnir eru fulltrúar þeirra sem standa utangarðs í mannlegum samfélögum. Tign þeirra og verðmæti fara ekki á milli mála þegar þeir fá fyrstir að líta hvítvoðunginn augum.

 

Og við erum líka hálfgerðir útlagar í samfélagi okkar. Við megum ekki sækja þá staði sem okkur fýsir að vitja. Við fáum ekki að sinna erindum sem í eðlilegu ástandi myndu teljast sjálfsögð og meinlaus. Öll reynum við að fylgja reglum, Sum okkar hafa kynni af því að dvelja í sóttkví. Enn önnur hafa legið þróttlaus í pestinni og jafnvel fylgist máttvana með því þegar veiran hefur höggvið skörð í fjölskyldur og vinahópa.

 

En gleðileg jól gleðja særðar sálir og lýsa upp myrkrið. Þau fá okkur til að horfa á fólk sem stendur afskekkt og umkomulaust. Þessi sama gleði hefur ótrúleg áhrif, gefur framkallað gleði og sátt þar sem síst skyldi, jafnvel frið á vígvöllum.

 

Jólagleðin á að lifa í hjörtum okkar lengi. Hún fjallar um það sem er raunverulegt og ekta og getur verið svo sterkt að það bætir líf fólks sem býr jafnvel við hin erfiðust kjör. Það er gleðin og bjartsýnin sem birtist okkur í hinu nýfædda barni á jólunum fyrstu.

 

Það verður eins og táknmynd hinnar sönnu hamingju sem byggir á innihaldi. Það vill gera vel við aðra og það vill gjarnan skilja eitthvað eftir sig. Það að gleðja aðra manneskju er vísasta leiðin að hamingjunni. Þá finnum við það að við höfum með ómaki okkar bætt eitthvað, kallað fram bros og ánægju er svo dýrmætt. Hið hjálparlausa barn er svo auðvitað skýrasta mynd þeirrar sælu.

 

Jólagleðin birtist í svo margvíslegri mynd en heitust er hún og sönnust þar sem hún býr í hjarta okkar. Og það er einmitt þangað sem kveðjunni fallegu er beint. Megi hún lýsa upp hjörtu okkar á helgum jólum og um alla framtíð.