"Drottinn hjálpa þú mér!"

"Drottinn hjálpa þú mér!"

Þegar hann lítur upp úr hugsunum sínum sér hann konuna sína koma brosandi til sín með dóttur þeirra í fanginu og augun fyllast af tárum og um leið þakklæti fyrir að eiga þær enn til staðar. Þau takast í hendur og ganga af stað og í hjörtum þeirra hljómar samhuga bæn: "Drottinn hjálpa þú mér!"

“Drottinn hjálpa þú mér!”

Einmana kona situr á götuhorni í stórborg í Evrópu. Hún er komin langt að með fjölskylduna sína frá stríðshrjáðu landi í leit að betra lífi. Hún horfir á börnin sín tvö sem sitja við hlið hennar og leika sér með nokkrar steinvölur á gangstéttinni og finnur til þegar hún sér lífsreynsluna í ungum andlitum þeirra. Allt sem hún hefur gert og lagt á sig er fyrir þau, svo að þau eignist þá framtíð sem henni hefur aldrei staðið til boða. Fram hjá henni gengur fólk á hraðferð í lífinu án þess að gefa henni gaum. Hún hylur höfuð sitt, lútir höfði og réttir fram lófann í von um ölmusu og augu sem sjá neyð hennar og hún hugsar:

“Drottinn hjálpa þú mér!”

Hitabylgjan í ár hefur verið nær óbærileg. Ekki hefur komið regndropi úr lofti í nokkra mánuði og þorpsbúar orðnir úrkula vonar um að eitthvað breytist. Veðrið er óstöðugt og fellibyljir tíðir. Bóndinn í þorpinu horfir dapur á skrælnaða kornakrana og hann veit að uppskerubrestur er orðinn og vatnsskortur er viðvarandi. Allir brunnar eru löngu þurrir og það litla vatn sem finnst þarf að sjóða vel til að hreinsa burt alla óværu og sýkla. Hann hugsar til fjölskyldu sinnar. Konan hans hefur nú legið lasin í viku vegna vannæringar og börnin hans þrjú eru svöng og hann sér ekki fram á að geta brauðfætt þau vegna þessa ástands. Hann hugsar um það sem hann hefur heyrt á ferðum sínum til stórborgarinnar þegar fólk talar sín á milli um hlýnun jarðar og áhrif hennar á veðurfar í heiminum í dag. Hann hugsar með sjálfum sér hvort þetta geti raunverulega verið staðreynd og orsök þeirra aðstæðna sem hann stendur frammi fyrir á meðan hann horfir til himins og hugsar:

“Drottinn hjálpa þú mér!”

Litla stúlkan situr ein á skólalóðinni. Hún horfir á lífið í kringum sig og skólafélagana að leik. Hana langar að vera með en þorir ekki inn í hópinn. Hún er nýbyrjuð í skólanum og hefur ekki gengið vel að kynnast krökkunum þar. Stúlkan hefur alla tíð verið örlítið feimin en í sveitinni sem hún bjó í áður átti hún góðar vinkonur sem tóku henni alltaf eins og hún var. Núna fær hún ljótar athugasemdir um hvernig hún er klædd og hvernig hún talar og segir frá og þess vegna finnst henni best að draga sig í hlé og fela sig og passa að hinir krakkarnir fái ekki tækifæri til að stríða henni þegar enginn sér til. Bjallan hringir og hún hrekkur upp úr hugsunum sínum þar sem hún situr ein. Hún stendur upp og labbar af stað og minnist þá þess sem presturinn gamli í kirkjunni heima í sveitinni kenndi henni í sunnudagaskólanum þegar hann sagði sögu af konu sem vildi að Jesú hjálpaði barninu hennar:

“Drottinn hjálpa þú mér!”

Hún hafði misst eiginmann sinn fyrir þremur árum síðan. Hann hafði lengi tekist á við lífsógnandi sjúkdóm. Þau höfðu verið gift í 55 ár þegar hann dó, alltaf átt farsæla samleið og gengið saman í gegnum sorgir og gleði. Börnin þeirra urðu fjögur og svo komu barnabörnin og loks barnabarnabörnin. Henni hafði fundist erfiðast eftir að maðurinn hennar dó að takast á við breytt umhverfi. Allt sem þau höfðu gert saman tvö, göngutúrarnir, spjallið við kvöldmatinn og ljúfur kossinn fyrir nóttina. Þar sem hún sat á bekk í kirkjugarðinum líkt og hún gerði daglega velti hún því fyrir sér að í raun eru þetta aðstæður sem hún myndi aldrei venjast, til þess væri sorgin og söknuðurinn of mikill. En hún væri samt lánsöm að hafa börnin sín og þeirra fjölskyldur í kringum sig, þau ættu góð samskipti og um hana væri vel hugsað. Þannig tækist tímanum og nærveru þeirra sem hún elskaði að milda sorgina. Tár lak niður kinnina þar sem hún horfði á legsteininn með logandi kertið við hlið hans og hún hugsaði:

“Drottinn hjálpa þú mér!”

Hann hafði ekki talað við foreldra sína og systkin í fjölda ára. Hann mundi eiginlega ekki alveg hvenær þau höfði rætt síðast við og hvers vegna það var að þau höfðu öll hætt að tala saman. Í minningunni var þetta samt eitthvað mjög smávægilegt, ágreiningur hér, stjórnsemi og afskiptasemi þar. Einhver reiddist, sagði of mikið. Orð látin falla og loks var ekki aftur snúið. Særindin orðin of mikil og of djúpstæð til þess að eitthvert þeirra hefði frumkvæði að því að reyna að byggja brú til baka. Honum varð oft hugsað til allra tilefnanna sem hann hafði misst af vegna þessa samskiptavanda. Skírnir, fermingar, brúðkaup. Og núna lá móðir þeirra fyrir dauðanum á líknardeildinni og hann vanmáttugur að takast á við þessar aðstæður um leið og sorgin nýsti hann inn að beini. Hann strauk höndina á móður sinni þar sem hún lá sofandi í sjúkrarúminu, læddist fram á gang til að koma sér heim áður en einhver annar úr fjölskyldunni kæmi á staðinn og um leið og hann gekk út kom þessi hugsun í kollinn á honum:

 “Drottinn hjálpa þú mér!”

Hún sat á bekk í grasagarðinum í Laugardalnum. Hún var með tárin í augunum. Það var síðasti dagur mánaðarins og í kjöltunni var hún með bréf í hvítu umslagi þar sem henni var þakkað fyrir vel unnin störf en vegna hagræðingar væri ekki lengur hægt að hafa hana í starfi og því væri henni sagt upp störfum frá og með morgundeginum. Hún var búin að starfa við þetta fyrirtæki síðastliðin 10 ár. Alltaf mætt á réttum tíma, aldrei veik eða frá vinnu vegna veikinda barna enda var hún barnlaus og bjó ein.

Hún var þessi starfsmaður sem vann verk sín í hljóði, tók yfirleitt að sér meira en hún átti að gera. Vann jafnvel verk samstarfsfólks sem var í erfiðleikum vegna veikinda eða anna vegna barna eða fjölskylduaðstæðna. Hún bað aldrei um þakkir en hún bar alltaf þessa von í brjósti að einhver sæi hana eða tæki eftir því sem hún lagði á sig fyrir vinnuna en tæki ekki allt sem gefið sem hún gerði eða gaf af sér. Þar sem hún sat í þessum þungu þönkum fannst henni hún svikin, notuð og ósýnileg. Og um leið og hún sleit upp fífil sem óx upp úr moldinni við hlið bekkjarins sem hún sat á fylltist hún yfirþyrmandi vonleysi og stundi í hljóðum:

“Drottinn hjálpa þú mér!”

Hvernig lenti ég hér hugsaði hún þegar hún leit í kringum sig í herberginu sem henni hafði verið úthlutað. Góð eldri kona hafði tekið á móti henni og syni hennar nóttina áður eftir að hún flúði að heiman með ekkert nema töskuna sína, fötin sem hún var í og litla drenginn sinn sofandi í fanginu. Maðurinn hennar hafði enn eina ferðina enn komið heim fullur og byjað að öskra á hana og brjóta allt og bramla og hótað henni öllu illu. Síðast þegar þetta gerðist hafði hann lofað að hætta og að þetta myndi aldrei gerast aftur eftir að hún kom heim af bráðamóttkunni rifbeinsbrotin og marin í framan. Í þetta sinn hafði hún orðið hrædd en ákvað að gefa honum einn séns enn. Allt hafði gengið vel þar til í kvöld en þá hafði hann farið á barinn með félögunum að horfa á leikinn og komið heim í þessu ástandi. Hún hafði lokað sig inn í svefnherbergi og beðið eftir að hann lognaðist út af í sófanum inn í stofu. Hún hafði þá tekið son sinn, vafið hann í teppi, hringt í kvennaathvarfið og sat nú inn í þessu herbergi, hrædd en samt á einhvern undarlegan hátt róleg og örlítið von bærðist í brjósti hennar þegar hún hugsaði:

“Drottinn hjálpa þú mér!”

 Hann situr í grunni þess sem áður var heimili hans. Um nóttina var gerð loftárás á borgina sem hann býr í með fjölskyldu sinni en nágrannaríki hafði nýhafið árás inn í heimaland hans og ógnað þannig öryggi allra og ekki bara þeirra heldur alþjóðasamfélagsins alls.

Þar sem hann situr og horfir á eyðilegginguna allt í kringum sig veltir hann fyrir sér hver sé tilgangurinn með öllu þessu ofbeldi og hvers vegna manneskjan hafi ekki lært neitt af styrjöldum fyrri tíma. Í stríði sem þessu er enginn sem vinnur heldur eru það allir sem tapa og þá mest almennir borgarar eins og hann.

Nú er heimilið hans farið, allar eigurnar og framtíðin óráðin og óvissa um hvar nýtt heimili kemur til með að vera og hvort það komi til með að vera í landinu hans, sem hann elskar og sem hefur alið hann eða hvort hann verði að finna sér nýtt heimili í nýju landi. Svo veit hann ekki hvort hann lifir þetta af og það ferðalag sem framundan er. Þegar hann lítur upp úr hugsunum sínum sér hann konuna sína koma brosandi til sín með dóttur þeirra í fanginu og augun fyllast af tárum og um leið þakklæti fyrir að eiga þær enn til staðar. Þau takast í hendur og ganga af stað og í hjörtum þeirra hljómar samhuga bæn:

“Drottinn hjálpa þú mér!”

Konan kom, laut honum og sagði: „Drottinn, hjálpa þú mér!“
Hann svaraði: „Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.“
Hún sagði: „Satt er það, Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.“
Þá mælti Jesús við hana: „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“ Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu

Já, Drottinn hjálpa þú okkur öllum að sjá hvert annað, skilja hvert annað og heyra neyð hvers annars.  Hjálpaðu okkur að verða heil og treysta og trúa af öllu hjarta og huga og gef að við missum aldrei vonina á það að saman getum við gert svo margt gott og fætt fram betri heim fyrir okkur öll og friðarins Guð sem er æðri öllum skilningi  verndi okkur og leiði á þeirri vegferð.

 Megi það vera og verða bæn okkar allra. Amen.