Ertu róbot?

Ertu róbot?

Gervigreindin, sem hefur nú þegar skákað okkur á flestum sviðum færni og þekkingar, kemur einmitt upp um sig í þeim samanburði. Það er þessi litli skjálfti sem næm mælitækin greina þegar við strjúkum fingri eftir fletinum. Hann er agnarlítið dæmi um takmörk okkar og breyskleika.

„Ertu róbot?“

 

Svona spurningar koma upp af og til þar sem ég ferðast um alnetið. Stundum nægir að svara því neitandi, sannleikanum samkvæmt, en æ oftar gerist það að netrápari þarf að sanna í verki að hann er af holdi og blóði.


Skjálfandi bendill

 

Ég hef átt í vandræðum með þessi próf sem sýna kannske mynd af gatnakerfi og ég er beðinn um að merkja alla reitina sem sýna gangbraut eða reiðhjól. Af einhverjum ástæðum, þarf ég að endurtaka prófið og stundum gefst ég upp og fer annað. Nóg er víst úrvalið.

 

Nú í vikunni sat ég námskeið í gervigreind en róbotta-prófið snýst jú um það hvort spunagreindin kunni að vera að hrella síðueigendurna. Þar barst þetta í tal. Nú getur þessi tækni auðveldlega þekkt andlit og alls kyns hluti. Hvað er það við reiðhjól og gangbrautir sem er henni um megn að greina?

 

Svarið kom á óvart: „Þetta snýst ekki um sjálfa myndina“, sagði kennarinn og útskýrði í framhaldinu að hugbúnaðurinn leiti eftir því hvort leið bendilsins eftir myndinni sé þráðbein og hnörkalaus, eða hvort þar megi greina einhvern skjálfta. Mælingin snýst um það hvort örlítið flökt sé á þessari nokkurra millimetra ferð okkar með fingurna á fletinum sem stýrir bendlinum.

 

Jahérna, ekki vissi ég þetta! Vissuð þið af þessu?


Turing-prófið

 

Þessu skylt er prófið sem kennt er við Alan Turing, stærðfræðinginn sem tókst ásamt stórum hópi samstarfsfólks að ráða dulkóða þjóðverja í Seinni heimstyrjöld, enygma eins og þeir kölluðu hann. Upp úr þeirri vinnu var tvíkóðinn hannaður sem liggur til grundvallar tölvum nútímans.

 

Árið 1950 kom Turing þessi kom með hugmynd að viðlíka prófi þar sem fólk ætti textasamtal við einhvern eða eitthvað sem það sæi ekki. Og svo þarf viðkomandi að svara því til hvort viðmælandinn hafi verið af holdi og blóði eða ekki. Tölvan stenst prófið er spyrjandinn heldur að hún sé manneskja. Það þarf ekki að taka það fram að sífellt verður erfiðara að greina þar á milli.

 

Já, þarna liggur þá munurinn. Annars vegar er það bein lína og fullkomlega rökrétt viðbrögð, eða þá að eitthvað er í ólagi, hreyfingin flöktir, svörin eru óviss eða ófyrirsjáanleg. Það er nú ekki oft sem við próf gefa stig fyrir eitthvað sem er ekki fullkomið. Við erum vön því gagnstæða.

 

Og nú þegar við mennirnir erum að færast niður í annað sætið yfir vitrustu fyrirbærin á þessari plánetu liggja skilin á milli greindar og gervigreindar, einmitt þarna. Við erum ófullkomin á þann hátt sem hugbúnaðurinn nær mögulega ekki að herma eftir.


Borinn til Jesú

 

Hér hlýddum við á eina af mörgum lækningasögum í guðspjöllunum sem fléttast saman við samskipti Jesú við fólkið. Þau samtöl bera með sér ákveðna þætti í fari Jesú. Hann var forvitinn. Hann hafði lifandi áhuga á fólki. Hann hlustaði og nam, ræddi málin og skynjaði eins og sannir leiðtogar gera. Hann mætti þeim sem voru stödd í erfiðleikum og þurfti að glíma við vanda sem enginn mannlegur máttur hafði getað unnið bug á. Allt bar það einmitt með sér að Jesús hafði einlægan áhuga á fólki.

 

Þessar sögur eru nátengdar því erindi sem hann á við hverja manneskju og Biblían sem slík ef því er að skipta. Textar dagsins fjalla jú allir um mennskuna og það sem er með öðrum hætti en það ætti að vera: „Snúið við hverfið aftur frá afbrotum yðar. Fáið ykkur nýtt hjarta og nýjan anda.“ Svo segir spámaðurinn Esekíel. Og postulinn segir: „hætta illri breytni og afklæðast hinum gamla manni.“

 

Já, þessir textar fjalla um þessa þætti í fari okkar sem hugbúnaðurinn greinir og skilur okkur frá skynlausum vélunum. Það er þverstæðan sem opnast okkur að einmitt skjálftinn og villurnar skapa sérstöðu okkar andspænis þessu afli sem við vitum ekkert hvert stefnir.

 

Þannig verður sagan af manninum sem var borinn inn til Jesú sagan af okkur. Við stöndum frammi fyrir takmörkum okkar, höfum ekki stjórn á aðstæðum, förum ekki beinu leiðina heldur flöktum við á ferð okkar að markinu.

 

Maðurinn sem Jesús mætti þarna á ferðum sínum hafði ekki mátt til þess að gera það sem hugur hans kallaði á. Vöðvarnir létu ekki að stjórn. Og hann var borinn fram fyrir Jesú. Eins og svo oft í þessu lækningarsögum er hér fjallað um þau takmörk sem við mennirnir búum við. Þau birtast hvað skýrast í samskiptum okkar við það sem er okkur æðra.

 

Í kristinni trú er það hugsjónin um almáttugan Guð sem birtist okkur sem maðurinn Jesús Kristur. Og rétt eins og í þessari frásögn þá hvíla þau samskipti á því að við göngum ekki fram í krafti eigin máttar, heldur erum við borin til Guðs. Við þiggjum náð Guðs sem gjöf, ekki laun fyrir framlag okkar og afrek, nei það er þvert á móti.

 

Í þessu samhengi vísar lömunin til þess að megna ekki að gera það sem manneskjan veit og vill. Og lækningin er kraftur sem breytir því ástandi. Þetta sjáum við meðal annars í því að Jesús talar fyrst um trú þeirra sem hann á þarna samskipti við og svo kemur þessi huggun sem birtist svo oft í samskiptum hans við samferðafólkið: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“


Fyrirgefning

 

Á þessu grundvallast síðan ein mikilvægasta boðun kristninnar, sem er ákallið um fyrirgefningu sem mætir síðan okkur öllum í þeim brotna heimi sem við lifum í og erum hluti af. Hér sést líka trúin í verki og það hvernig fyrirgefningin verður lífsbreytandi kraftur.

 

Guð fyrirgefur okkur breyskleikann og Biblían hvetur okkur til hins sama gagnvart náunga okkar. Þetta orðum við í bæninni: „Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.“

 

Við þekkjum þetta vonandi öll hvernig fyrirgefning getur skapað heild þar sem áður var sundrung og samskiptin löskuð. Vald Jesú birtist í þessu. Hann gefur manninum þrótt til þess að halda áfram lífi sínu.


Hold og blóð

 

Já, þetta hafa klókir forritarar fundið út. Þegar kemur að því að greina hvort mennsk vera horfi á skjáinn eða hvort þar er þessi afurð okkar, vilja þeir kanna hvort við erum af holdi og blóði eða róbottar.

 

Gervigreindin, sem hefur nú þegar skákað okkur á flestum sviðum færni og þekkingar, kemur einmitt upp um sig í þeim samanburði. Það er þessi litli skjálfti sem næm mælitækin greina þegar við strjúkum fingri eftir fletinum. Hann er agnarlítið dæmi um takmörk okkar og breyskleika.

 

Stærðfræðingurinn Alan Turing vann sams konar próf á sínum tíma. Já, getur tækjabúnaður líkt svo vel eftir manneskjum að ógerningur er að greina þar á milli?

 

Að baki þeirri hugarsmíð bjó þó napur veruleikinn. Þessi hugsuður sem hafði lagt svo mikið af mörkum í baráttu hins frjálsa heims geng ofbeldisöflunum, féll ekki sjálfur inn í þann þrönga ramma sem samtími hans lagði fyrir fólk. Turing þessi var samkynhneigður á tímum þar sem slíkt eðli var fordæmt. Kallast það á við samtal Jesú við fræðimennina sem vændu hann um guðlast. 

 

Turing þekkti það því vel að fela eðli sitt í dómhörðu samfélagi sem steypti einstaklinga í sama mót. Já, sennilega var þetta tjáning vísindamannsins á sinni eigin tilvist, að þurfa að leyna því sem hann raunverulega var.


Nýtt hjarta og nýr andi

 

Á þetta vorum við líka minnt nú á föstudaginn í baráttu kvenna fyrir auknu jafnrétti. Þar hafa kraftaverk átt sér stað í atvinnulífinu en við eigum enn langt í land með að uppræta kynbundið ofbeldi í samfélaginu okkar. Þar er sannarlega verk að vinna og fjöldinn minnti okkur á þá nöpru staðreynd.

 

„Fáið ykkur nýtt hjarta og nýjan anda“ segir spámaðurinn Esekíel. Það er einmitt sístæð hvatning til allra einstaklinga sem bera trú í hjarta sínu. Breyskar manneskjur þurfa að endurmeta ákvarðanir sínar og stöðu. Þær vita að þar er jafnan svigrúm til framfara eða jafnvel umbyltinga. Þar liggja einmitt töfrar hins ófullkomna og greinir það frá því sem er hnökralaust. Breytingar geta orðið til batnaðar.

 

 Á okkar takmörkuðu ævidögum þurfum við sem einstaklingar og samfélag stöðugt að hafa vakandi auga fyrir því sem betur má fara. Það liggur einmitt endurgjöf okkar fyrir kærleika Guðs og fyrirgefningu í okkar garð.