Hreyfiafl trúarinnar

Hreyfiafl trúarinnar

Kristið fólk – og líklega trúað fólk almennt – býr við þau forréttindi að geta túlkað lífshlaup sitt með tungumáli trúar sinnar. Við eigum auðugan menningar- og málheim sem við getum gengið inn í og tileinkað okkur, já samsamað okkur. Þar ber Biblíuna hæst samkvæmt skilningi siðbótakirknanna en líka hefðina sem systurkirkjur okkar sem kenndar eru við austur og vestur nýta sér ríkulega og birtist skýrast í helgihaldinu.

Gleðilegt ár, kæri söfnuður hér í Hallgrímskirkju, gleðilegt ár og bestu þakkir fyrir samfélag í bráðum einn og hálfan áratug. Það er dýrmætt að geta horft um öxl og þakkað það góða og falið Guði hitt; byrjað nýtt ár í sátt við Guð og menn.

Kristið fólk – og líklega trúað fólk almennt – býr við þau forréttindi að geta túlkað lífshlaup sitt með tungumáli trúar sinnar. Við eigum auðugan menningar- og málheim sem við getum gengið inn í og tileinkað okkur, já samsamað okkur. Þar ber Biblíuna hæst samkvæmt skilningi siðbótakirknanna en líka hefðina sem systurkirkjur okkar sem kenndar eru við austur og vestur nýta sér ríkulega og birtist skýrast í helgihaldinu.

Samfélagið í kirkjunni Bandaríski guðfræðingurinn George A. Lindbeck skrifaði merka bók fyrir rúmum þrjátíu árum (1984), The Nature of Doctrine. Religion and Theology in a Postliberal Age. Í bókinni gagnrýnir hann tvær túlkunarhefðir sem hæst bar um aldir; annars vegar rétttrúnað sem byggir á algildum yrðingum (propositional orthodoxy/cognitive-propositional), hins vegar túlkun sem setur reynslu og tjáningu hennar í öndvegi (experiential-expressive) í anda Schleiermacher sem byggir á þeirri hugmynd að öll trúarbrögð grundi í raun á sömu reynslu en séu tjáð á ólíkan hátt. Svonefnd frjálslynd guðfræði (liberal theology) er sprottin úr þessum síðarnefnda jarðvegi.

Svipaða hugsun má finna í tveimur greinum hjá Páli Skúlasyni sem birtust fyrst í Kirkjuritinu 1978 og 1981 en síðan í bókinni Pælingum sem kom út árið 1987. Þar talar heimspekingurinn um tæknihyggju eða kunnáttudýrkun sem hann tengir við rétttrúnaðarstefnu (bls. 122-123) og trúarlega hluthyggju (bls. 236-237). Hins vegar lýsir Páll geðþótta- eða sjálfdæmishyggju sem einnig má kalla túlkunarstefnu (bls. 122-123) eða trúarlega hughyggju (bls. 233-235). Hvorug leiðin gefur fræðilega gild rök, að mati Páls (bls. 237).

Lindbeck bendir á þriðju leiðina, án þess þó að gera lítið úr hefðbundinni guðfræði. Hann lítur á trú sem málfars- og menningarlegt kerfi (cultural-linguistic) með eigin tungutak og málfræði. Tjáningarmáti trúarinnar í hefðum og helgihaldi er kjarni málsins, ekki bara tákn sem vísa í einhvern svífandi veruleika. Frásagan er lykill trúarhugsunarinnar, veruleiki trúarinnar er fólginn í sögunni sem sögð er og söfnuðurinn sækir sjálfsvitund sína til og skilning á tilverunni. Það er samfélagið í kirkjunni sem er hreyfiaflið þegar kemur að túlkun Biblíunnar. Lífsþróttur trúarinnar verður til í samspili Orðs Guðs og safnaðarins sem lifandi og mótandi veruleika.

Þriðja leið Lindbecks minnir á orð Páls Skúlasonar í greininni „Hugleiðing um listina, trúna og lífsháskann“ þar sem hann segir (bls. 124 í Pælingum 1987):

Veltum því fyrir okkur andartak hvað á sér stað þegar maður tekur trú eða telur sig hafa meðtekið fagnaðarerindi (ég hef hér kristna trú í huga). Slíkur maður skilur samband sitt við heiminn og allt í heiminum á algerlega nýjan veg, hann skilur sjálfan sig sem þátttakanda í helgisögu sem er veruleiki mannlífsins í hnotskurn, sögu sem er sífellt að gerast, sögunni um sköpunina, firringuna eða syndina og frelsunina, tilkomu guðsríkis.

Kristin trú í samtímanum Lindbeck og Páll Skúlason velta báðir fyrir sér stöðu kristinnar trúar í samtímanum. Þó liðin séu þrír áratugir frá því að bækur þeirra komu út - og samfélagið sem Lindbeck skrifar inn í amerískt en ekki íslenskt - er margt sem á vel við aðstæður okkar í dag. Lindbeck spyr sig hvort kristinni trú fari hnignandi í samtímanum með því að færri og færri kunna það tungumál trúarinnar sem nauðsynlegt er að viðhalda og kenna. Kristið fólk þarf að ,,rækta móðurmál sitt“ segir Lindbeck og ,,læra að haga sér í samræmi við það“ (bls. 132). Boðun fagnaðarerindisins er „fyrst og fremst að segja söguna en fær kraft og merkingu aðeins innan heildarsamhengis safnaðarlífsins og í verki“ (bls. 36). Þannig er nokkuð til í því sem einhver kennarinn sagði okkur nemendum sínum í guðfræðideildinni fyrir um aldarfjórðungi að við myndum ekki læra að meta messuna fyrr en við hefðum sótt samfélagið í kirkjunni í að minnsta kosti þrjátíu skipti!

Við þurfum að tileinka okkur tungumál trúarinnar, segir Lindbeck, og þar er ekki bara átt við bænamálið sem mörgum finnst vera grundvöllur trúariðkunar. Tungumál kristinnar trúar er að finna í Biblíunni og í guðrækilegum bókmenntum og iðkun af ýmsum toga, ekki síst helgisiðunum. Þetta tungumál er ekki lokað inni í sjálfu sér, þjónar ekki eigin tilgangi heldur vísar út, út til lífsins í góðu verki sem sprettur fram af mótuninni í samfélagi trúaðra, eða eins og Páll Skúlason segir (bls. 124):

Það er trúin ein, hugarafstaðan, sem máli skiptir, en um leið á hún að koma fram í verki, hún á að endurspeglast í allri breytni, öllum störfum, í öllum samskiptum manns við aðra menn og allri umgengni við náttúruna; hún á að hjálpa manninum að verða hinn eiginlegi herra jarðarinnar, sá sem hlúir að öllu og skapar sífellt ný verðmæti.

Því þarf söfnuðurinn að vera virk heild sem kennir málfar trúarinnar á dýptina, ekki bara svona rétt til að geta bjargað sér í einföldustu aðstæðum, samanber hvernig við lærum ný tungumál, heldur til að við séum fær um að vera send út með blessun til heimsins. Lindbeck bendir einnig á að í stað þess að lesa heiminn stöðugt inn í Biblíuna – eins og honum finnst frjálslynda guðfræðin gera – ættum við að lesa Biblíuna inn í heiminn, það er að túlka veröldina með því kraftmikla og lifandi málkerfi sem kristin trú býður upp á.

Ljós heimsins Eitt sterkasta hugtak hins kristna málkerfis er LJÓSIÐ. Við skírn í þjóðkirkjunni er gjarna kveikt á kerti til merkis um hið nýja líf sem tendrað hefur verið í skírninni. Ljósið er til tákns um tvennt, um Jesú sem sagði um sjálfan sig að Hann væri ljós heimsins (Jóh 8.12) en líka okkur, að við séum ljós heimsins: ,,Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum“ (Matt 5.14a,16). Hvatning Jesú ætti heldur ekki að fara fram hjá okkur: „Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu“ (Matt 5.14b-15).

Ljós er sett á ljósastiku til að lýsa öllum í húsinu. Ljós leitar út. Geisli stjörnunnar leiddi vitringana forðum að jötunni. Oft stafar geislum af jötunni á myndum sem trúað fólk hefur dregið upp í gegn um aldirnar. Ljós er veruleiki nærveru Guðs, umbreytandi afl sem nær til lífsins alls. Þegar við höfum verið í nálægð þessa ljóss verðum við ekki söm. Þess vegna erum við líka ljós og ekki bara eitthvert óskilgreint ljós heldur ljós heimsins. Inn í það mikla hlutverk vöxum við með Jesú sem er ljósið í heiminn borinn (Jóh 1.4, 9) og við þiggjum ljós okkar af. Söfnuðurinn, kirkjusamfélagið, á að bera birtu Guðs inn í samtíma sinn. Til þess þarf hann að læra tungumál trúarinnar, eflast við borðið sem ber merkingu jötunnar, nærveru Guðs í Jesú Kristi, altarið og þiggja gjafirnar þaðan, Jesú Krist sjálfan.

Börn Guðs Við þurfum líka að setja okkur sjálf inn í það tungumál trúarinnar sem segir okkur að við séum Guðs börn, kölluð af kærleika Guðs, kölluð til að vera Kristi lík, helguð og hreinsuð í Honum (1Jóh 3.1-3). Það gerist í raunveruleika trúarinnar, þegar við samsömum okkur Kristi og hvert öðru sem líkami Hans, búin klæðum hjálpræðisins, sveipuð skikkju réttlætisins „eins og þegar brúðgumi lætur á sig höfuðdjásn og brúður býr sig skarti sínu“ (Jes 61.10, 1981 þýðingin). Hvað við munum verða (1Jóh 3.2) er ekki ljóst en gefið í skyn í sýn Jesaja spámanns: „Þér verður gefið nýtt nafn sem munnur Drottins ákveður. Þú verður vegleg kóróna í hendi Drottins og konunglegt höfuðdjásn í hendi Guðs þíns“ (Jes 62.2-3).

Þetta fyrirheiti er að sönnu gefið lýð Guðs sem þá var en kristin kirkja hefur frá upphafi samsamað sig hinum fornu fyrirheitum og við hvert og eitt erum hluti af þeirri heild. Til dæmis segir Páll postuli í þriðja kafla Galatabréfsins: „Vitið því að sannir niðjar Abrahams eru þeir sem treysta Guði“ (sbr. Gal 3.7-9) og: „Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn... Ef þið eruð í samfélagið við Krist þá eruð þið niðjar Abrahams og erfið það sem honum var heitið“ (sbr. Gal 3.26-29). Því megum við túlka okkar eigið líf í þessu ljósi, ganga inn í þá köllun okkar að vera Guðs börn, lifa fyrirheitið í sæmd og með reisn, svo sem borginni á fjallinu tilheyrir.