Ég trúi ekki ...

Ég trúi ekki ...

Okkur er svo tamt að segja eins og kunningja mínum að við lifum á upplýstum tímum en hugsum ekkert endilega hvað það þýðir í raun. Við erum hugmyndalega mötuð og látum okkur það vel líka vegna þess að það er þægilegt í tímaleysinu.

Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra sagði hann við lama manninn: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“

Nokkrir fræðimenn hugsuðu þá með sjálfum sér: „Hann guðlastar!“

En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: „Hví hugsið þið illt í hjörtum ykkar? Hvort er auðveldara að segja: Syndir þínar eru fyrirgefnar, eða: Statt upp og gakk? En til þess að þið vitið að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir þá segi ég þér,“ -; og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína og far heim til þín!“

Og hann stóð upp og fór heim til sín. 8En fólkið, sem horfði á þetta, varð óttaslegið og lofaði Guð sem gefið hafði mönnum slíkt vald. Matt. 9.1-8

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

“Skynsemin segir mér að trúa ekki. Það er ekki sæmandi upplýstum vel menntuðum nútímamanni að trúa. Trú er eitthvað sem var en er ekki lengur gildandi og mark á takandi í þróuðu samfélagi 21 aldar þarafleiðandi er trú mér einskis virði.” Einhvern vegin svona komst kunningi minn að orði um daginn, þar sem við áttum spjall saman á götuhorni í miðbænum síðsumars og sólin lék við hvurn sinn geisla og mannfólkið kunni sér ekki kæti og fannst það trúlega mikils virði. Þegar við kvöddumst hnaut ég ekki um það að kunningi minn vildi meina að hann væri trúlaus ég hafði heyrt það áður. Ég hnaut um orðin – “einskis virði” ég stóð í fæturna og hélt för minni áfram. Ég var varla komin yfir götuna þegar skall aftan á höfuð mitt þessi hugsun – “einskis virði.” “Trúin er mér einskis virði.” Það er þannig í dag að mælikvarði alls er hvers virði eitthvað er fyrir mig. Hvers virði er að leggja eitthvað á sig hver er ábatinn fyrir mig ef hann er engin þá geri ég minna en ekki neitt.

Það má til sannsvegar færa að við lifum í upplýstu samfélagi þar sem við erum upplýst um margt það sem gerist í nær og fjærsamfélagi okkar og þjóða það slæma og það góða hvort heldur sem okkur líkar það betur eða verr. Við gerum upp við okkur sjálf hvort það sé okkur einhvers virði að vita allt og um leið ekkert. Reyndin er sú að upplýsingamagnið er svo mikið og kemur úr öllu áttum víða að, að við nemum aðeins brotabrot af því sem að okkur er rétt og við síðan erum krafin um að hafa skoðanir á öllu. Þó svo að við vitum að aðrir vita að við höfum fátt eða ekkert nýtt um það að segja. Við höfum einfaldlega ekki forsendur til þess. Við getum gefið okkur að við öll höfum skoðanir á því hvað það er sem er okkur einhvers virði, þegar þessi spurning er fram borin. Svara flestir því að góð heilsa sé grundvöllur góðs lífs, fjölskyldan og vinir.

* * *

Þetta þrennt kemur fyrir í guðspjalli dagsins og tvennt annað ekki síður mikilvægara, heilsufarið, fjölskyldan, vinirnir – trúin og traustið. Þetta er grunnur mennsku okkar. Skyldi eitthvað hafa breyst? Í guðspjallinu segir af manni sem var lamaður og lá í rekkju. Hann var undir náð og miskunn annarra eða náunga síns komin. Hann átti góða vini sem hann treysti sem báru hann í trausti langa leið til þess að verða mætti að þeir yrðu á vegi Jesú, sem þeir gerðu. Jesús sér lama manninn og segir að syndir hans séu fyrirgefnar. Fyrirgefning er hugtak sem er okkur einhvers virði bæði þeim sem fyrirgefur og þeim sem er fyrirgefið. Áður en lengra er haldið skal upplýst að á dögum Jesú trúði fólk því eða var sannfært um að bein tengsl væru á milli sjúkdóma og syndar - syndin gat gengið í erfðir frá foreldri. Svo vitnað sé í kunningja minn aftur hafði hann á orði að við lifðum í upplýstu þjóðfélagi. Okkur er tamt að segja þetta en leggjum ekki huga að merkingu þess. Við lifum í upplýstu samfélagi þar sem hindurvitni hverskonar hafa verið upplýst og útförin hefur farið fram. Kominn tími til að snúa sér að öðru. Við vitum í dag í upplýstu samfélagi nútímans að veikindi stafa ekki af synd vegna þess að við höfum misst marks eða vegna synda foreldra okkar. Við gefum okkur að við vitum það. Óhjákvæmilega spyrjum við okkur að því. Hversu upplýst erum við og þá um hvað? Hvernig meðtökum við upplýsingar og hvernig meðhöndlum við þær. Mín tilfinning er sú í dag og ég leyfi mér mögulega að hafa aðra skoðun á því á morgun að upplýst nútímamanneskja sé eftir allt saman ekkert upplýstari en manneskja sem var uppi fyrir tugum eða hundruðum árum síðan. Eins og ég talaði um hér áðan að það er svo mikið magn af upplýsingum og staðreyndum sem haldið er að okkur að okkur hættir til að einangra okkur og okkur hættir til að horfa á menn og málefni frá svolitið þröngu sjónarhorni sem við höldum að við höfum sjálf komið okkur upp en er svo alls ekki í reynd. Það er margt sem veldur. Sterkasti þátturinn er auðvitað umhverfið sem við lifum í og upplýsingaflæðið. Við erum einungis upplýst um það sem yfirvöld eða hagsmunarhópar vilja koma á framfæri. Allt fram yfir það þurfum við að hafa fyrir að sækja eftir. Þá er komið að tímaþættinum sem virðist verða af skornum skammti í nútímasamfélagi eins undarlegt og það hljómar. Það heyrist stundum sagt að umhverfisþættir hafi engin áhrif á ákvarðanartöku einstaklinga og eða hópa. Ekkert getur verið fjarri lagi. Við lifum ekki í tómarúmi án áreitis umhverfis og skoðanamyndana. Það eru starfstéttir sem er sérhæfðar í því að fá okkur til að versla þessa vöru frekar en eitthvað annað og hlýða á þessa frétt frekar en einhverja aðra. Það er sífellt verið að halda að okkur hinu og þessu og við erum fljót til að skipa okkur í sveitir með og á móti. “Gerir þú þetta eða hitt þá eru þér allir vegir færir.” Það er meira segja boðið upp á námskeið hvernig eigi að spara. Kannski ekki þörf á í upplýstum nútímanum að það fari betur á því að spara og eiga fyrir hlutunum heldur en að eyða því sem mun hugsanlega koma. Það er raunar hlálegt og illa komið fyrir hjá okkur að við látum okkur hafa það að greiða fyrir að láta segja okkur að við eigum í raun “nægt fé milli handa.” Við eigum að vera upplýst um það – er það ekki? Það ætti að vera einhvers virði! Þess vegna er ekki fjarri lagi að ætla að allt það sem við höfum skoðun á og teljum jafnvel að við sjálf höfum ein og óstudd komist að niðurstöðu um er eitthvað sem fær ekki staðist nánari skoðun.

* * *

Tökum fyrir meðalmann eins og mig. Ég hef talið sjálfan mig á, að fátt er betra er en að leggja traust mitt á þá sem taldir eru vera málsmetandi í þessu þjóðfélagi. Treysta því að þeir munu vel fyrir sjá. Hvaða kosti hef ég aðra? Ég hef hreinlega ekki tíma til að setja mig það vel inn í málin að vel fari. Það er þetta með að vel fari. Þegar allt gengur í hagin er þeir sömu tilbúnir að skreyta sig fjöðrum velgengninnar en þegar málin horfa í aðra átt og verri vill engin eigandinn vera af þessum sömu fjörðum. Þegar síðasta svokallaða góðæri ríkti göptum við eins og gapuxar upp í vel tilsniðna spræka “fjármálasnillingana” mörgu sem komu fram í fjölmiðlum í allt um faðmandi musteri mammons og við féllum á kné á marmargólfið í því trausti að eitthvað að visku þeirra félli á okkur og við mögulega gætum innbyrgt okkur til framdráttar. Ekki var dagblaði flett eða upplýstur skjárinn heima í stofu sendi ekki fagnaðarboðskapinn um enn betri veröld viðskipta og hagnaðar. Í dag eru þessir sömu sem við horfðum á upplýsta með svörin á hreinu með hitasótt í rekkju sem lama væri og geta vart af munni mælt nema það að það væri einhverjum pörupiltum úti í heimi að kenna að í dag er svona komið fyrir okkur. Við stöndum hjá sem héldum að þeir vissu betur. Erum við tilbúin til þess að taka höndum saman og færa framfyrir þann sem mögulega gæti fyrirgefið-okkur sjálfum. Við bara bíðum og sjáum til hvað verður? Eða erum við svo upplýst að við sjáum ekki að það er okkar en ekki einhvers annarra að gera slíkt.?

Þannig var það með Jesú. Hann var vel upplýstur um hugsunargang sinna samtíðar manna. Þessvegna sagði hann við lama manninn syndir þínar eru fyrirgefnar með þeim orðum og gjörðum gekk hann lengra. Hann var ekkert að bíða. Hann gekk gegn viðteknum hugmyndum syndar og sjúkdóma og afleiðingum þeirra. Hann sá manneskju sem þjáðist og átti sér ekki undankomuleið vegna upplýsts hugmyndarkerfis sins samtíma. Þeir sem töldu sig vera upplýstrari en aðrir - fræðimennirnir brugðust við með reiði og heift. Það var eitthvað sem gerðist – það sem gerðist var að það gamla var að baki. Á sama hátt er hægt að segja að ávarp Jesú til lama mannsins hafi í raun verið það að það gamla væri að baki og það nýja tekið við. Lami maðurinn reis upp til nýs veruleika nýrrar hugsunar án þess þó að það gamla lægi óbætt hjá garði. Til þess að ný hugsun geti fest rætur og teygað í sig næringu þarf hún að tengingu við það gamla. Það nýja verður ekki til af sjálfu sér eitt og óstutt. Það sem meira er að það þarf að eiga sér letur sem hægt er að nema af. Það er ekki nóg að eiga sér heimilisfang eða pósthólf til að visa til ef innihaldið er ekkert.

Okkur er svo tamt að segja eins og kunningja mínum að við lifum á upplýstum tímum en hugsum ekkert endilega hvað það þýðir í raun. Við erum hugmyndalega mötuð og látum okkur það vel líka vegna þess að það er þægilegt í tímaleysinu. Samt viljum við meina að við erum upplýstar manneskjur. Upplýst um hvað? Þýðir það að það gamla hafi verið villuráfandi í sótsvörtu myrkri fordóma og fávisku trúar, sem upplýstur nútíminn hafi sett á hold og eða við það að delíta því svo gripið sé til vel upplýsts tölvumáls? Trúin á Guð almáttugan í nútíma samfélagi sé aðeins eftirhretur villuráfandi illa menntaðs trúgjarns alþýðufólks fyrri alda sem sökum hugarmyrkus eigði smá vonarglætu í hrjáum heimi í trúnni á eitthvað æðra og meira? Eitthvað sem við vitum að þurfum ekki á að halda í dag? Vissulega er það margt í fortíð og nútíð sem við erum ekki tilbúin að samþykkja og leggja hugan við, annað væri barnaskapur.

* * *

Það sem snýr að nútímanum er að við eigum ekki að taka neinu sem gefnu. Við eigum að efast um hugmyndir, verk og gjörðir. Einhver skyldi halda að það sé uppgvötun nútímans en svo er alls ekki. Á öllum tímum hefur einhver eða einhverjir haft kjark til að standa gegn rykföllnum viðteknum hugmyndum og venjum. Við eigum í raun í sífellu að blása á viðteknar venjur og ef því er að skipta siðum ef okkur finnst að að mennsku okkar sé vegið, ekki til að kollvarpa heldur til að bæta og fegra mannlifið. Þannig og aðeins þannig getum við risið upp af rekkju vanans að ætla ekki að eitthvað sé óumbreytanlegt vegna þess að svona hefur það verið. Kann að vera að skynsemin segir einhverjum að trúa ekki og á sama hátt öðrum að trúa.

Trú og efi hefur fylgt manneskjunni um aldir og tekist á innra með hverri manneskju sem er komin til vits og ára. Það er ekki spurningin um hvort sé mark á takandi og alls ekki það hvort um sig sé einhvers virði eins og kunningi minn komst að orði. Ef hægt er að notast við þá hugsun “einhvers virði.” Ef við gefum okkur að hægt sé að notast við þá hugsun að “eitthvað sé einhvers virði” er það að við mætum sjálfum okkur hvar á vegi sem við erum stödd. Kann að vera að við þurfum að beygja af leið. Kann að vera að við hikum við eitt augnablik og horfum um öxl og lítum fram á vel upplýstan vegin sem framundan er. Kann að vera að það erum við sem liggjum í rekkju vanans og þráum ekkert heitar en að ganga burtu og bregða birtu á það sem okkur er hulið. Til þess að svo megi verða þurfum við á hvoru öðru að halda án þess að dæma. Það hefur ekkert með skynsemi að gera hvaða ábata það hefur fyrir mig eða þig miklu frekar að við tökum boðinu að fella saman rekkju vanans og ganga gegn því sem við ætlum að upplýstur nútíminn hafi brugðið ljósi á og um leið fellt skugga á ýmislegt annað það sem vert er að gæta að.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen Takið postullegri blessun:

Náð Drottins vors Jesú Krists, kærleiki guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.