Það var þá heldur betur tímasetningin fyrir texta dagsins að birta þá núna að loknum sleitulausum hátíðarhöldum genginna daga. Hefði ekki verið nær að minna okkur kirkjugesti á hætturnar sem því fylgir að missa sig í ofáti og hömluleysi – áður en við settumst að veisluborðinu? Er ekki fullseint að syngja: „Við freistingum gæt þín“ – þegar borð hafa verið rudd og landinn búinn að sporðenna ótæpilegu magni af hvers kyns krásum? Hljómkviða daganna
Erum við ekki flest hver nokkuð mett af rjóma, smjöri, sykri og súkkulaði þegar hér er komið við sögu? Að ekki sé nú talað um saltið og hnausþykka fituna á saltketinu? Sælgætissnapið á öskudaginn er svo kapítuli út af fyrir sig. Það er ekki laust við það að í hugann komi frasinn sem enskir nota gjarnan – að predika yfir kórnum. Meinlætatal það sem hæfir textum dagsins verður vart annað en staðfesting á því sem flestir viðstaddra hafa þegar áttað sig á og geta svo auðveldlega samþykkt.
En allt er þetta hluti af hljómkviðu daganna. Og sú hrynjandi öll, taktföst og regluleg á sér stað í kirkjunni þar sem hefðirnar ríkja og mennskan er skoðuð frá öllum hliðum. Það er jú vitaskuld ástæða fyrir þessum tyllidögum öllum og nær hún langt aftur í tíma, aftur fyrir daga okkar allra sem hér erum saman komin. Þetta eru leifar úr kaþólskum sið þegar fólk neitaði sér um kjöt, sætindi og feitmeti á föstunni. Sumir segja að slíkt sé enn eldri hefð – úr landbúnaðarsamfélögum þegar veturinn var senn á enda voru aðeins þau dýr eftir sem ætluð voru til undaneldis. Það hefði því verið skammgóður vermir að slátra þeim við upphaf vorsins. Þessir matardagar eru því kjötkveðjuhátíðir áður en tilveran fór öll í þrengri skorður hvað varðar mat og drykk.
Kjötið kvatt … eða?
Einmitt það, kjötkveðjuhátíðir – þarna sögðu menn bless við sumar af lystisemdum lífsins áður en föstutíminn gekk í garð. En við? Erum við ekki svolítið búin að taka það þægilegasta úr hvorri hefð? – tökum veisluhöldin sem voru undanfari föstunnar en sleppum öllum meinlætunum í anda tíðarandans. Borðum á okkur gat og höldum svo áfram að lifa því lífi sem hæfir þeim sem staddir eru á réttum enda fæðukeðjunnar!
Og þá heyrum við þessar mögnuðu frásagnir í lestrum dagsins. Nægir ein predikun til þess að ræða þau mál öll? Syndafallið sjálft og svo freistingar Krists á fjallinu eru efni í heilu bækurnar enda eru á þeim svo margar hliðar og víddir. Hvað þá sú táknmynd af falli mannsins: frásögnin í Eden. Þar kynntust Adam og Eva þessari ertandi tilfinningu sem fær okkur til þess að einblína á það eitt sem okkur er bannað en missa sjónar á öllu því sem stendur okkur innan seilingar. Textarnir sýna hvernig mannlegt eðli getur brugðist við freistingum, já og brugðist á raunarstundu. Þeir leiða í ljós hvað afleiðingar það getur haft að virða ekki þau mörk sem okkur eru sett. Einmitt það, freistingin og syndin sem Biblían er stundum mjög upptekin af – snýst um það að fara út fyrir mörkin sem okkur eru sett.
Á floti í Kyrrahafinu
Það er fyrsti sunnudagur í föstu. Fyrir nútímamanninn skiptir sú staðreynd vísast sáralitlu máli. En það er jú svo margt sem virðist skipta nútímamanninn litlu máli. Við höldum kjötkveðjuhátíðir en höldum svo uppteknum hætti. Breska tímaritið The Independent greindi í síðustu viku frá ótrúlegu fyrirbæri sem mun vera á floti í Kyrrahafinu. Það teygir sig frá Japan allt til Havaíeyja, tvöfalt stærra Bandaríkjunum að flatarmáli. Og það nær tugi metra niður í hafdjúpið – engin leið er að áætla magnið – menn giska á að massinn sé hundrað milljón tonn. Hvað skyldi þetta nú vera? Þetta er sama efnið og er allt í kringum okkur og kemur við sögu á svo mörgum sviðum lífs okkar. Sannarlega þarfaþing og hefur gert okkur kleift að lifa auðveldara og fjölbreyttara lífi en ella.
En þetta flykki austur í Kyrrahafi kemur þó engum að notum. Það er einmitt vísbendingin um óhófið, það hvernig við setjum okkur engin mörk heldur göngum jafnan lengra en aðstæðurnar leyfa. Og þá missir allt tilgang sinn. Já, þessi óskaplegi flekkur sem snýst í hægagangi um sjálfan sig undir staðbundnum hæðum í loftmassanum – samanstendur af plastúrgangi: Leikföngum, pokum, netakúlum, dunkum og hverju því öðru sem nöfnum tjáir að nefna og smíðað er úr þessu handhæga og notadrjúga efni, plastinu.
Paradísarmissir
Þarna mætast andstæðurnar: hafsvæðið sem í huga okkar er táknmynd hins óspillta – og vettvangur ótal frásagna af sakleysi og náttúrulegri paradís. Og svo plastið, sem getur verið samnefnari fyrir lestina í fari okkar. Í daglegu tali vísar það til einhvers sem er annars flokks, óekta. Og sannarlega er það yfirborðslegt þar sem það flýtur um ofan á haffletinum og berst með hafstraumum hundruð sjómílna fram og aftur. Þar sem það kemur upp að strönd einhverrar kyrrahafseyjunnar fyllist þar allt af rusli og veldur dauða sjófugla og sjóspendýra. Ýmis efni sem frá þessu stafa leysast upp í sjónum og enda í fæðukeðjunni þar sem þau á endanum berast til okkar.
Það er einmitt þetta sem er einn helsti vágestur mannkyns: ekki tækifærin sem okkur bjóðast, ekki sú viðleitni að glæða líf okkar meiri lit og auka lífsgæðin – heldur hitt þegar við förum á mis við markmiðin: gerumst þrælar lífsþægindanna í stað þess að láta þau þjóna okkur. Í þessu tilviki neytum við svo miklum meira en við þurfum og einhvers staðar endar allt þetta dót okkar. Þetta er aðeins einn þeirra áfangastaða – eins og sagt er frá í umræddri grein.
Að stjórna eða láta stjórnast
„Við freistingum gæt þín og falli þig ver, því freisting hver unnin til sigurs þig ber“ segir í textanum sem við sungum hér áðan. Það er einmitt sigurinn sem við vinnum – að skaparinn sé okkar herra, frekar en að láta eitthvað annað. Freistingarnar sem mæta Kristi í frásögninni eru allar af þeim toga. Þar stendur hann frammi fyrir því að nota þann mátt sem hann hafði eða að misnota hann. Valið stóð á milli þess hvort hann myndi stjórna aðstæðunum í sínu lífi eða láta stjórnast af blindri græðgi í auð og völd.
Freistingin er ekki nauðsynlega það að láta eitthvað eftir sér. Kjötkveðjuhátíðir liðinna daga eru til dæmis ekki dæmi um syndugt líferni samkvæmt Biblíunni því við fögnum því góða sem glæðir líf okkar gleði og eykur á samfélagið. Nei, lífsþrótturinn, sköpunargleðin og allt annað sem skapar hamingju og farsæld í kringum okkur er frekar andstæða syndarinnar en hitt, enda opnar það augu okkar fyrir Guði og hjarta okkar fyrir boðskap hans. Freistingin eins og hún birtist okkur í sögunni snýst um það að missa stjórnina. Það góða sem í okkur býr lætur undan fyrir andstæðunni – græðginni og því sem ekki lætur sig hag náungans varða.
Að lifa lífinu til fulls
Fastan er gengin í garð. Þetta er tímabilið þegar kirkjan vill minna okkur á þær fórnir sem nauðsynlegt er að færa til þess að við getum uppfyllt tilgang lífsins. Grundvöllurinn sjálfur er Guð, eins og Kristur svaraði freistaranum og við það hélt hann á braut. Þetta er leiðarljós trúarinnar í heimi þar sem við verðum stöðugt fyrir freistingum og stöðugt reynir á þrautseigju okkar og stöðuglyndi. Það hvernig Kristur svaraði þegar honum stóð til boða að víkja frá köllun sinni og hlutverki ætti að vera okkar fyrirmynd í ólgusjó daganna.
Lexía: 1Mós 3.1-19 (20-24); Pistill: 2Kor 6.1-10 og Guðspjall: Matt 4.1-11