Brautryðjendur

Brautryðjendur

Elvis Aron Prestley var holdlegur, hann vakti tilfinningar og ögraði með tónlist sinni og sviðsframkomu. Hann fékk fólk til að sleppa sér lausu og njóta, ungt fólk sem var alið upp við strangar siðferðislegar reglur, var farið að leyfa sér að hugsa hlutina upp á nýtt og vera til á nýjan hátt.

Það er ekki auðvelt verkefni að taka sér það hlutverk á herðar að fjalla um persónur í mannkynssögunni sem eru álitnar brautryðjendur, heimsfrægar jafnvel risar, ef svo má að orði komast. Af þeim sökum gæti mörgum þótt preststarfið vera eintóm fífldirfska þar sem við prestar höfum jú atvinnu af því að túlka og fjalla um persónu og líf Jesú Krists, en ég leyfi mér að fullyrða að fáar persónur hafa haft jafn mikil áhrif á mannkynssöguna og Jesú og án efa er engin persóna sem jafn umrædd, máluð í myndum og túlkuð í tónum eins og hann. Ég leyfi mér þó að vísa fífldirfskunni á brott, því að ef allt er eðlilegt, hefur presturinn heila starfsævi til að gera frelsaranum og boðskap hans skil, en sú persóna sem hér um ræðir, fær aðeins rými í einni predikun að þessu sinni, en það er sjálfur Elvis Aaron Prestley.

Það er merkilegt þegar sest er niður og farið að skoða lífshlaup fólks að það er margt sem rekur á fjörurnar sem er áhugavert og vekur athygli sérstaklega þegar samhengið er skoðað, umhverfið og tíðarandinn. Það er staðreynd að við getum rakið okkur í gegnum mannkynssöguna og fundið manneskjur sem einhverra hluta vegna hafa haft þau áhrif að þau hreyfa söguna áfram úr ástandi sem er orðið staðnað, vana- og reglufast, þar sem félagsleg mörk eru skýrt skilgreind og hlutverk fólks vel niður njörvað. Þar sem samfélagsreglurnar eru þannig að þær aðgreina fólk, vinna gegn mennskunni og jaðarsetja þau sem passa ekki í normið.

Jesús Kristur kom fram í slíku umhverfi á fyrstu öldinni á tímum rómverska heimsveldisins. En sá tími var að mörgu leyti byltingarkenndur fyrir heimsmyndina í víðum skilningi, þó að samfélag gyðinga hafi áfram haldið áfram fast í sínar reglur og venjur. Þetta var tímabil rómverska friðarsins, Pax Romana, þar sem samfélagsreglur byrjuðu að gliðna og að ákveðnu leyti ríkti trúarlegt frelsi ríkti, pólitískt frelsi og einnig má finna heimildir fyrir því að konur höfðu aukin réttindi. Til eru heimildir fyrir því að konur hafi t.d verið prestar, leiðtogar og nánir vinir frelsarans á fyrstu öldum kristninnar. Heimildir sem markvisst voru þurrkaðar þegar kirkjan fór að stofnanvæðast og safna valdinu saman. Heimildir sem kirkjan ákvað að gleyma öld fram af öld en hafa nú fundið sér leið upp á yfirborðið á nýjan leik.

Við þekkjum fleiri svona umróta tíma í sögunni og einn slíkur er 6. áratugur síðustu aldar. Þegar þetta tímabil er skoðað í Bandaríkjunum má finna staðlaðar myndir af brosandi úthverfa eiginkonu með skúringaskrúbbinn í vinstri hendi og þrjú börn á hægri handlegg. Hún er með tagl í hárinu, beinan topp, í hnésíðu, víðu pilsi og hælaskóm. Hún hefur ekki hlotið æðri menntun en nýtur þess að stjana við eiginmanninn sem er í gráum flannel jakkafötum og les morgunblaðið íbygginn á svip. Á bernskuárum sínum var hann í hlutverki Roy Rogers og Davy Crocket en hún lék sér með Barbie og Dale Evans. Á unglingsárum fóru þau í bílabíó og á hefðbundna bandaríska „Diner“ veitingastaði, þau settu krónu í djúkboxið og hækkuðu vel í, dönsuðu við Frank Sinatra, Tony Bennett, Dean Martin og Judy Garland, allt framkvæmt á siðsaman og smekklegan hátt. Komúnisminn var hataður og íhaldsemi var lofuð. Hjón skemmtu sér síðan við að horfa á „I love Lucy“ en þeir þættir festu það enn frekar í sessi að hlutverk konunnar sem úthverfa eiginkonu var það besta sem fyrir þær gat komið. Þetta er samfélag þar sem ritskoðun þótti eðlileg þegar tilgangurinn var að varðveita hreinleika bandarísks samfélags.

Aðgreining ríkti á milli svartra og hvítra, kenningin: „Aðskilin en jöfn“ sem staðfest var með hæstaréttardómi fyrst í Usa árið 1896‘, lýsir því ástandi vel. Árið 1955 síðar kom blökkukonan Rosa Parks fram og settist í sæti hvítra í strætisvagni í Montgomery í Alabama. Rosa Parks varhandtekin og ákærð fyrir tiltækið og dæmd til að greiða sekt, en þessi borgaralega óhlýðni hratt af stað mótmælaöldu þar sem blökkumenn sniðgengu strætisvagna í Montgomery. Mótmælin báru árangur og í þeim reis Martin Luther King, einn af skipuleggjendum þeirra til forystu í mannréttindabaráttu blökkumanna. Árið 1999 hlaut Rosa Parks heiðursorðu Bandaríkjaþings, en það er mesti heiður, sem fallið getur almennum Bandaríkjamanni í skaut.

Inn í þetta umhverfi kemur söngvarinn og tónlistarmaðurinn Elvis Aron Prestley fram á sjónarsviðið, þegar hann slær í gegn árið 1956 með laginu „Heartbreak Hotel“ en það var fyrsta lag hans sem seldist í miljónum eintaka. Ég ætla ekki að fara djúpt í æviágrip Elvis Prestley, það væri of langt í hugleiðingu sem þessari og eflaust margir sem þekkja lífshlaup popgoðsins vel og ítarlega. En áhrifin af innkomu hans á tónlistarsviðið voru gríðarleg, er talað um hann sem sérstakt menningarlegt afl eða kraft sem hrinti af stað breytingum á hugsunarhætti til framtíðar.

Um áhrif Elvis Aron Prestley á tíðarandann er sagt m.a:

Að hann hafi stolið tónlist svartra, að hann hafi haft áhrif á blöndun kynþátta þar sem bæði hvítir og svartir löðuðust að tónlist hans, eitthvað sem var þyrnir í augum kynþáttahatara og aðskilnaðarsinna, hann var álitinn náttúruundur og ógn við siðferðislega velferð kvenna, þar sem hann var talinn standa fyrir kynferðislegt frelsi en slíkt frelsi var álitin skömm á þessum tíma og hin mesta synd. Hann var álitinn fyrsta rokkgoðið og var talinn vekja uppreisnaranda hjá ungu fólki, hann var jafnframt talinn vera ógn við öryggi Bandraríkjanna sjálfra og hreyfingar hans voru bornar saman við hreyfingar nektardansara, eini munurinn var sá að hann var í fötum. Hann var ógn við teprulegt, íhaldsamt samfélag, sem hvíldi í öruggum faðmi samfélagsreglna, ákveðinna kynhlutverka og aðskilnaðarhyggju.

Jesús Kristur var talinn ógn við álíka samfélagsreglur og valdhafa í nærsamfélagi sínu á 1. öldinni (sbr. t.d deilurnar við fariseana), þar sem ákveðnar manneskjur voru taldar óhreinar, konur óæðri og þrælahald var eðlilegur hluti mannlífsins.

Í báðum tilfellum er um að ræða samfélag þar sem tvíhyggjan er alls ráðandi, karlveldissamfélag, þar sem holdið er illt en andinn góður. Þar sem allt sem minnir á holdið er barið niður með markvissum samfélagslegum aðgerðum, vegna þess að hið holdlega er ógn við mannlega tilvist. Að missa sig í mat, drykk, kynlífi og öllu öðru sem holdið krefst er vont og minnir okkur á erfðasyndirnar sjö sem eiga sér þó ekki beina tilvísun í Biblíuna heldur eru tilbúningur kaþólskrar miðalda guðfræði.

Elvis Aron Prestley var holdlegur, hann vakti tilfinningar og ögraði með tónlist sinni og sviðsframkomu. Hann fékk fólk til að sleppa sér lausu og njóta, ungt fólk sem var alið upp við strangar siðferðislegar reglur, var farið að leyfa sér að hugsa hlutina upp á nýtt og vera til á nýjan hátt.

Jesús Kristur var holdlegur, hann var maður. Hann kom fram í holdi:

„Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir hefur eilíft líf. Ég er brauð lífsins...Ég er hið lifandi brauð sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði mun lifa að eilífu. Og brauðið er líkami minn sem ég gef heiminum til lífs.“

Hann bíður þér að eta af sínu holdi, nú gæti mörgum þótt þetta frekar óaðlaðandi tilhugsun, en þegar dýpra er að gáð, þá eru þetta einhver merkustu skilaboð kristinnar trúar:

Skilaboðin eru þessi: Guð elskar þig í holdi og blóði. Guð ákvað að gerast maður til að skynja betur hvað þú sem manneskja gengur í gegnum á hverjum degi, sorgir þínar, gleði þín eru hluti af honum. Holdið og andinn eru ekki aðskilin, þau eru eitt og í sjálfu sér gott og Guði þóknanlegt. Brauð lífsins er hlutdeild Jesú í þér og skapar einingu á milli manna og afmáir öll mörk. Þannig verður til ný sköpun, nýtt upphaf þegar þú þiggur brauðið, þiggur hold Jesú. Þannig kemstu nær honum og hann þér. Altarisgangan okkar geymir þau stórkostlegu skilaboð að í hvert sinn sem þú gengur til altaris, staðfestir Jesús nálægð sína gagnvart þér, þú ert í þínu holdi góð manneskja. Í karlveldinu er líkaminn staður þjáningarinnar, en í hjá Jesú er hann uppspretta guðsríkisins, ásamt andanum. Lokatakmark hverrar manneskju á ekki að vera það að losna undan líkamanum og heimurinn er ekki illur í sjálfu sér, hann getur verið uppspretta endalausra gæða, fegurðar og verðmæta og Guð veit það og sér það, enda um hans góðu sköpun að ræða. Eins og segir í hinni drottinlegu blessun: Hann blessar þig og varðveitir þig, hann lætur sína ásjónu lýsa yfir þig og er þér náðugur. Það er sú sýn og hugsun sem þú skalt hafa í huga alltaf, hverja stund, Guð er ekki tyftari, hann kom ekki í heiminn til að refsa mannfólkinu heldur til að endurleysa það. Frjálsum vilja fylgir ábyrgð gleymum því ekki, þess vegna ber okkur að hafa í huga að fara vel með líkamann okkar, sína honum virðingu og hlúa að honum. Textinn boðar alls ekki taumleysi í því sem að holdinu kemur, heldur boðar Jesús þetta: Þú ert dýrmæt sköpun og ég vil að þú farir vel með þig þar sem ég er hluti af þér. Ég varð það þegar þú varst helguð/aður við heilaga skírnarlaug og ég er held áfram að vera hluti af þér í hverri altarisgöngu og ég verð hluti af þér alla daga allt til enda veraldar, ef þú vilt þiggja það loforð.

Það er flókið og stórt hlutverk að vera brautryðjandi. Með þessari ræðu er ég ekki að segja að æviganga Elvis Aron Prestley og Jesú Krists sé eins. Þessir menn eru uppi á ólíkum tíma og ólík öfl að verki þegar kom að ævilokum þessara manna. Annar var sonur Guðs, hinn Guðs góða sköpun. Báðir höfðu þó það hlutverk að vera menningarlegir kraftar og höfðu þau áhrif að samfélagið og hugsunarhátturinn breyttist að ákveðnu leyti með þeirra aðgerðum.

Samfélagið var hrætt við Jesú Krist, hann var ógn við ríkjandi ástand og þess vegna var það samfélagið sem tók hann af lífi. Boðskapurinn hans lifir, hann heldur áfram að kalla fólk saman, endurleysa það og næra út um allan heim.

Samfélagið dýrkaði Elvis Prestley, sú dýrkun varð honum að falli og endanum var það lifnaður hans sem gerði það að verkum að hann féll frá.

Heimurinn mun ávallt muna Elvis Aron Prestley, hans lög munu hljóma og arfleifð hans geymir stórbrotna sögu um óttaleysi og kjark, en um leið sorgir og þjáningar. En þannig er lífið, við getum ekki lifað í bómul, vafin inn í værðarvoð öryggis og óttaleysis. Lífið setur mark sitt á okkur öll, en það er betra að hafa lifað og fundið fyrir lífinu á eigin skinni, heldur en að lifa ekki. Við lifum aldrei í tómarúmi, án tengsla. Lífið snýst um tengsl við annað fólk, við Guð og við heiminn. Tengsl geta verið það dýrmætasta í lífinu en um leið það sársaukafyllsta. Við berum ábyrgð á því að efla og styrkja þessi tengsl, svo þau verði okkur ekki að falli. Elvis stóð ekki undir þeirri miklu ábyrgð og varð fórnarlamb eigin frægðar og samfélagsdýrkunnar. Það er sorglegur endir á annars mikilfenglegri sögu. En við sem samfélag erum sannarlega bættari af að hafa þekkt og fengið að verða vitni að hans vegferð heldur en að hún hefði aldrei verið farin.

Bæn mín er sú við fáum öll fundið þann kjark í hjartanu og í okkar lífi, að þegja ekki þegar við verðum vitni að óréttlæti, að stoppa þegar við göngum fram hjá þeim sem líða og þurfa okkar hjálp, að við vinnum gegn stöðnum og aðstæðum sem eyða mennsku fólks. Sem betur fer koma fram á hverjum tíma einstaklingar sem eru tilbúnir að ryðja brautina og þá gildir einu hvort það er meðvitað eða ekki. Þeirra líf er okkar lán. Okkar er að halda vöku okkar, halda boðskapnum lifandi, gleyma aldrei og sofna aldrei á verðinum. Góður Guð gefi að svo verði. Amen.

Predikun þessi var flutt við Elvisgospelguðsþjónustu í Þorgeirskirkju.